Morgunblaðið - 26.04.1980, Blaðsíða 24
24
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 26. APRÍL 1980
Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
Ritstjórnarfulltrúi Þorbjörn Guömundsson.
Fréttastjóri Björn Jóhannsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar:
Aöalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033.
Áskriftargjald 4.800.00 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 240
kr. eintakið.___________________________________
Misheppnuð tilraun
Bandaríkjamanna
Ymis teikn hafa verið á lofti, sem bentu til þess, að
Bandaríkjastjórn hefði uppi áform um að beita hervaldi
til að frelsa gíslana úr höndum „námsmannanna" í
sendiráðinu í Teheran. í fyrrinótt var látið til skarar skríða
og tilraunin misheppnaðist. Jimmy Carter Bandaríkjafor-
seti hefur að undanförnu gefið til kynna, að hann teldi
öryggi gíslanna i jafn mikilli hættu við þær aðstæður, sem
þeir byggju við í Teheran að óbreyttum aðstæðum, og ef
hervaldi yrði beitt til að bjarga þeim. Talsmenn „náms-
mannanna" hafa hótað því að hefna hernaðaraðgerða með
því að svipta gíslana lífi. Öryggi þeirra hefur þannig síður
en svo aukist við hina misheppnuðu björgunartilraun.
Auðvelt er að réttlæta slíka hernaðaraðgerð með hliðsjón
af framferði írana gagnvart Bandaríkjamönnum, þar sem
þeir hafa með algjörlega ólögmætum hætti ögrað þeim og
lítillækkað. I þessu efni þurfa Islendingar ekki að leita langt
yfir skammt til að minnast þess, hvernig ættjarðarástin
svellur í brjósti manna, þegar þeir eru beittir misrétti af
öðrum. Hitt er einnig auðvelt að segja sem svo, að úr því að
til slíkra hernaðarlegra aðgerða er gripið, megi þær ekki
mistakast. Og síðan má spyrja, hvort Bandaríkjamenn láti
hér staðar numið og gefist upp við að frelsa gíslana.
Sadegh Ghotbzadeh utanríkisráðherra írans skýrði
Bandaríkjastjórn frá því í gær, að hann vonaðist til þess, að
íranir hemdu sig og hann hefði farið þess á leit við þá, sem
halda gíslunum, að þeir gripu ekki til neinna óþurftarverka.
Menn hljóta að draga í efa gildi slíkrar yfirlýsingar frá
formlegum stjórnvöldum írans, því að oftar en einu sinni
hefur komið í ljós, að þau mega sín lítils. Erkiklerkurinn
Khomeini hefur síðasta orðið og til þessa hefur hann fremur
farið að óskum „námsmannanna" en ríkisstjórnarinnar.
Iranski utanríkisráðherrann hafði einnig í hótunum og
sagði, að Iranir myndu hleypa öllu í bál og brand í sínum
heimshluta, ef Bandaríkjamenn gerðu aðrar slíkar björgun-
artilraunir. Astandið í Iran er með þeim hætti, að þar er allt
á öðrum endanum fyrir, svo að orð utanríkisráðherrans
verða ekki skilin á annan veg en þann, að stjórn hans vilji
stofna friðnum við Persaflóann í heild í hættu. Síðustu daga
hefur Iransstjórn beitt herþotum til árása á uppreisnar-
sveitir Kúrda. Milli nágrannaríkjanna íraks og írans hefur
sambúðin hríðversnað og hafa stjórnvöld haft í hótunum um
beitingu valds. Nýlegar fréttir herma, að Sovétmenn hafi
safnað liði í Kákasus við norðurlandamæri írans og við
austurlandamæri er sovéski herinn grár fyrir járnum eftir
hernám Afganistans. Tilraun Bandaríkjamanna var ekki
hernaðaraðgerð gegn stjórnvöldum í Iran, heldur lágu
mannúðarástæður að baki henni. En úr því að hún mistókst,
kann hún að verða átylla til aðgerða, sem leitt gætu til
styrjaldar.
Of snemmt er aö segja um það á þessu stigi, hvaða áhrif
þessir síðustu atburðir muni hafa á pólitíska framtíð Jimmy
Carters Bandaríkjaforseta. Hann hefur að fullu axlað
ábyrgðina. Athyglisvert er, að hann tekur ekki ákvörðun um
beitingu herafls, fyrr en að loknum forkosningum í
Pennsylvaníu. Eftir þær var fullyrt, að hann væri öruggur
með útnefningu í framboð fyrir Demókrataflokkinn. Póli-
tísk örlög Carters ráðast af fylgi hans meðal bandarísku
þjóðarinnar. En traust manna á Bandaríkjunúm utan þeirra
fer eftir því, hvernig þeir meta utanríkisstefnu bandarísku
ríkisstjórnarinnar og framkvæmd hennar.
Þeir atburðir, sem hafa gerst eru með ólíkindum. Fyrst
ákvörðun var tekin af Bandaríkjaforseta um að beita
hervaldi í íran, er það álitshnekkir fyrir hann og bandaríska
herinn, að aðgerðin heppnaðist ekki. Utanríkisstefna
Carters hefur þótt reikul og bandamenn hans hafa efast um
réttmæti margra ákvarðana hans. Það, sem nú hefur gerst,
verður ekki til að auka traust manna á forsetanum út á við,
þótt ástæðurnar fyrir ákvörðunum hans séu skiljanlegar.
Eins og oft vill verða, þegar tveir deila, má sá sín meira, sem
virðir ekki leikreglur og fer fram með ofbeldi og offorsi.
Þannig virðast öfgaöflin í íran espast við hverja raun og
hafa sérstaka nautn af því, þegar Bandaríkjamenn reyna að
fá þau til að fara að lögum eða lúta í lægra haldi.
Menn mega ekki gleyma því, að það eru trúarofstækis-
mennirnir í Iran, sem hafa leitt veröldina út í þá óvissu, sem
hún stendur frammi fyrir. Þeir þrífast best á niðurlægingu
Bandaríkjanna. Og í húfi er friðurinn á viðkvæmasta bletti
veraldar, sem Sovétríkin hafa verið að mjaka sér nær, grá
fyrir járnum.
AÐGERÐIR BANDARIKJAMANNA I IRAN
Fögnuður í íran -
talið að innrás hafi
verið hrundið
25. april. AP.
Ghotbzadeh utanríkisráðherra
Irans segir að íransstjórn geti
ekki litið á þessa aðgerð sem
annað en ögrun af hálfu Banda-
ríkjanna, um leið og hann hótar
því að íranir muni „setja allt í bál
og brand í þessum heimshluta,
verði áframhald á slíkum styrj-
aldaraðgerðum“. Þó var hljóðið í
Ghotbzadeh friðvænlegra en búast
mátti við undir þessum kringum-
stæðum, en hann kvaðst hafa
beint því til húsráðenda í banda-
ríska sendiráðinu að þeir gættu
stillingar, um leið og hann ráð-
lagði Bandaríkjastjórn að gera
slíkt hið sama.
Ghotbzadeh tjáði fréttamanni
ABC-sjónvarpsstöðvarinnar, að
hann vonaðist til að íransstjórn
tæki á þessu máli af varfærni og
GÍFURLEG fagnaðarlæti
urðu i Teheran er tíðindin um
hina misheppnuðu tilraun
Bandaríkjamanna til að frelsa
bandaísku gislana spurðist úr,
en almenningur i landinu
virðist ekki rengja staðhæf-
ingar yfirvalda í landinu um að
íranski flugherinn hafi rekið
bandarískt innrásarlið á
flótta. Talið er að allt að tíu
þúsund manns hafi safnazt sam-
an fyrir utan sendiráðið til að
láta í Ijós gleði sína, og fór
múgurinn þar með sigurópum
og hnefasteytingum.
ekki sýna af sér sömu „taugaveikl-
un og Bandaríkjastjórn". Utan-
ríkisráðherrann kvaðst ekki hafa
hitt Khomeini trúarleiðtoga að
máli síðan hernaðaraðgerðin átti
sér stað, en hann taldi að trúar-
leiðtoginn, svo og byltingarstjórn-
in í heild, hefðu sömu skoðun á
málinu og hann sjálfur.
Öfgamennirnir í sendiráðinu
hafa hvað eftir annað hótað að
myrða gíslana ef Bandaríkin færu
með her á hendur írönum til að
frelsa þá, en talsmaður öfgamann-
anna sagði í dag, að ákvörðun um
framtíð gíslanna yrði ekki tekin
fyrr en áreiðanlegar upplýsingar
lægju fyrir um það hvað raun-
verulega hefði gerzt. Ghotbzadeh
fullyrti að enn væru gíslarnir
heilir á húfi og vonir stæðu til að
svo yrði áfram, en hins vegar gæti
Iransstjórn ekki borið neina
ábyrgð á öryggi þeirra er Banda-
ríkjastjórn færi svo heimskulega
að ráði sínu sem raun bæri vitni.
Bandamenn undr-
andi og ráðvilltir
— óvinir fordæma
Lundúnum. 25. april. AP.
HIN MISHEPPNAÐA tilraun
Carters forseta til að frelsa
bandarísku gíslana í Teheran
hefur komið bandamönnum hans
í Evrópu algjörlega í opna
skjöldu, en Sovétríkin og
áhangendur þeirra, svo og þau
Arabaríki, sem andvíg eru Banda-
ríkjunum, hafa fordæmt þessa
aðgerð harðlega. í aðalstöðvum
NATO hefur verið skýrt frá því
að Bandaríkjastjórn hafi alls ekki
haft samráð við bandamenn sína
áður en tilraunin til að frelsa
gíslana var gerð. Af hálfu stjórna
Bretlands, V-Þýzkalands, Frakk-
lands, Hollands og Ítalíu hefur
verið staðfest að ekkert hafi verið
um málið vitað fyrr en fréttist um
hina misheppnuðu björgunartil-
raun, og danska utanríkisráðu-
neytið segir ný viðhorf hafa skap-
azt og muni þau verða rædd á
ráðherrafundi hjá EBE í næstu
viku. Nokkurrar óánægju gætir í
sumum vinaríkjum Bandaríkj-
anna með þá óvæntu stefnu sem
málið hefur tekið.
Odvar Nordli, forsætisráðherra
Noregs, sagðist hafa fullan skiln-
ing á þeirri ákvörðun Carters að
gera gangskör að því að frelsa
gíslana, en ekki kvaðst hann
reiðubúinn að fjalla um aðgerðina
sem slíka. „Við skulum ekki
gleyma forsögu þessa máls, sem er
vitanlega sú, að íranir hafa haldið
gíslunum svo lengi, að þeir eru
búnir að þverbrjóta öll alþjóðalög,
auk þess sem þeir hafa gengið í
berhögg við allt, sem mannúð má
teljast," sagði Nordli.
Af hálfu brezku stjórnarinnar
var sagt, að „nú væri ekki tími til
að gagnrýna vinaþjóð, heldur
þyrfti að snúa saman bökum", en
brezki Verkamannaflokkurinn,
sem er í stjórnarandstöðu, hefur
harðlega fordæmt þessa hernaðar-
aðgerð Bandaríkjanna. MacGuig-
an, utanríkisráðherra Kanada,
sagði að tilraunin hefði „komið á
óvart", en vildi ekki tjá sig frekar.
í París sagði Gromyko, utanríkis-
ráðherra Sovétríkjanna, að í
fyrstu hefði hann ekki trúað
sínum eigin eyrum, en þegar í ljós
hefði komið að ekki væri um að
villast, vildi hann árétta að Sov-
étríkin væru eindregið mótfallin
hernaðaraðgerðum á hendur íran,
hvort sem Bandaríkin eða aðrir
væru að verki. Tass, hin opinbera
sovézka fréttastofa, segir að við
þessa ákvörðun hafi Carter forseti
látð stjórnast af „eigingirni og
þröngsýni". Forsetinn hagaði sér
einungis samkvæmt því sem hann
teldi vænlegt í kosningabarátt-
unni fyrir endurkjöri sem forseti,
og skirrðist í því sambandi ekki
einu sinni við að brjóta alþjóðalög.
Hann hefði ekki vílað fyrir sér að
stofna lífi þúsunda í hættu með
þessari ráðstöfun, sem yki til
mikilla muna hættu á styrjöld við
Persaflóa. Hér væri um að ræða
hernaðarlega ögrun við íran, og
svo væri að skilja sem ætlun
Bandaríkjaforseta með tiltækinu
væri ekki sízt að auka spennu á
alþjóðavettvangi.
„Grímulaust ofbeldi" og „am-
erísk sjóræningjastefna", segir út-
varpið í Sýrlandi, sem um þessar
mundir er talið eindregnasta
stuðningsríki Sovét í Miðaustur-
löndum, um leið og fullyrt er að
Egyptar og ísraelsmenn hafi tekið
þátt í tilrauninni.
Begin forsætisráðherra ísraels
hefur harmað þá Bandaríkjamenn
sem létu lífið í björgunartilraun-
inni, og fullyrðir hann að ísraels-
stjórn hafi enga hugmynd haft um
hvað til stóð fyrr en fregnin um
hina misheppnuðu för barst, og
hafi Israelsmenn ekki átt nokkurn
hlut að máli.
Sadat, Egyptalandsforseti,
sagði í dag, að óheppni hefði ráðið
úrslitum um að Bandaríkjamenn
höfðu ekki erindi sem erfiði, um
leið og hann gaf í skyn að Egyptar
mundu fúslega aðstoða við frekari
tilraunir til að bjarga gíslunum.