Morgunblaðið - 05.08.1982, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 05.08.1982, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 5. ÁGÚST 1982 Eftir Hannes H. Gissurarson Nokkrir samhyggjumenn hafa á síð- ustu árum reynt að hrekja rök Milton Friedmans, eins áhrifamesta hagfræð- ings okkar daga og nóbelsverðlaunahafa, fyrir því, að samband sé á milli lýðræðis og markaðsskipulags. Ég veit, að Fried- man kærir sig ekki um lofgreinar um sjálfan sig á sjötugsafmælinu, sem var 31. júlí 1982, heldur hefur hann áhuga á rökræðum um þennan vanda og annan. Hann brýndi það fyrir mér, þegar við hittumst í Kaliforníu haustið 1980, að reyna ekki að verja sig, heldur að reyna að rökstyðja það, sem við værum sam- mála um. Ég ætla því í þessari grein að ræða um kenningu Friedmans um sam- bandið á milli lýðræðis og markaðsskipu- lags, en að henni er komið orðum í þeirri bók hans, sem gefin var út á íslensku á afmælisdaginn, Frelsi og framtaki (Capitalism and Freedom). Ég hyggst síðan bæta við nokkrum dæmum um þetta samband frá Islandi og svara ýms- um þeim samhyggjumönnum, sem hafa reynt að hrekja rök Friedmans. Samband markaðsskipu- lags og lýðræðis F'riedman segir í Frelsi og framtaki, að lýðræðissamhyggjan sé mótsögn í sjálfri sér, því að „lýðræði fái ekki þrifist í sam- hyggjuskipuiagi“. En markaðsskipulagið sé ekki nægilegt skilyrði fyrir lýðræði, þótt það sé nauðsynlegt skilyrði fyrir því. Friedman minnir á, að ýmsar þjóðir hafa búið við markaðsskipulag án þess að hafa notið lýðræðis. En sú þjóð sé ekki til og hafi ekki verið til, sem hafi búið við miðstjórnarskipulag og notið lýðræðis á sama tíma. Þetta sýnir reynslan. En hvaða rök hníga að því, að svo hljóti að vera, með öðrum orðum að það samband, sem er sögulegt, á milli lýðræðis og markaðsskipulags, sé nauðsynlegt sam- band? Friedman svarar þessari spurn- ingu með annarri: Hvernig er unnt að tryggja frelsi manna til að boða frjáls- hyggju í samhyggjuskipulagi? í sam- hyggjuskipulagi er stjórnin eini vinnu- veitandinn. Stjórnarandstæðingurinn er með öðrum orðum starfsmaður stjórnar- innar og verður að treysta því, að hún leyfi honum að halda starfi sínu. Fried- man gerir ráð fyrir því rökræðunnar vegna, að stjórnin freistist ekki til að nota þetta vald sitt, sýni sjálfsaga. En stjórnarandstæðingurinn neyðist eftir sem áður til að afla fjár til áróðurs síns. Hann getur ekki efnt til almennra sam- skota, því að til þess verða menn að vita af honum, en sá er tilgangur áróðursins að láta menn vita af honum. Hann getur ekki treyst á auðuga styrktarmenn eins og Marx gat treyst á Engels, því að þeir eru engir til í samhyggjuskipulaginu — nema háembættismenn ríkisins og flokksbroddar, en enginn fær Friedman til að trúa því, að stjórnarherrarnir styrki af eigin fé stjórnarandstæðinga. Sá kostur kann að vera til, að ríkið styrki stjórnarandstæðinga. En hvernig á það að gera það? Hverjir eiga að út- hluta styrkjunum, og eftir hverju eiga þeir að fara? Friedman bendir síðan á, ef stjórnarandstæðingurinn getur þrátt fyrir allt aflað fjárins, að hann á enn eftir að útvega vörur og þjónustu, og það selja aðeins ríkisfyrirtæki. Þessi ríkisfyrirtæki eru ekki rekin í hagnað- arskyni, svo að þau verða ekki að selja hverjum sem er vöru sína eða þjónustu. Stjórnarandstæðingurinn á eftir að telja stjórnendur pappírsverksmiðju ríkisins á að selja sér pappír, prentsmiðju ríkis- ins á að prenta fyrir sig áróðursritin, fasteignaskrifstofu ríkisins að leigja sér fundarsali, og svo framvegis. Dæmi Friedmans um að markaðurinn sé skjöldur frelsisins Friedman nefnir nokkur dæmi, sem hann sækir í reynslu vestrænna þjóða, en ekki þarf að fara mörgum orðum um reynslu hinna austrænu. Eitt er af Wins- ton Churchill, sem var utangarðsmaður í breskum stjórnmálum fyrir síðari heimsstyrjöld og fékk því ekki að tala í breska ríkisútvarpið — af því að það var ríkisútvarp og hann „umdeildur". Annað dæmið er af „svörtum lista", sem saminn var um sameignarsinna eða meðreið- arsveina þeirra í bandaríska kvikmynda- iðnaðinum í byrjun „Kalda stríðsins". Nokkur kvikmyndafélög brutu það bann, Milton Friedraan sjötugsaftnælí Miltons Fríedmans sem menn á þessum lista voru settir í, af því að þau þurftu þjónustu þeirra, og listinn hætti smám saman að skipta máli. Þetta dæmi notar Friedman til þess að sýna eitt aðalstef sitt í stjórn- málum — að markaðurinn er blindur á einstaklinga, hann spyr ekki, hvort mað- urinn sé hvítur eða svartur, kristinn maður eða Gyðingur, sameignarsinni eða frjálshyggjumaður, heldur hvað hann geti lagt fram í vörum eða þjónustu: „Viðskiptasjónarmiðið — það, að mann, sem reka fyrirtæki, eru hvattir til þess að hagnast eins og þeir geta — verndaði frelsi einstaklinganna á svarta listanum, því að þess vegna áttu þeir kost á að selja öðrum þjónustu sína og þess vegna keyptu aðrir þessa þjónustu." Þriðja dæmið um, að markaðurinn sé skjöldur frelsisins, sækir Friedman í McCarthy-æðið. Þeir, sem misstu störf sín í ríkisstofnunum, vegna þess að þeir voru grunaðir um að vera vinsamlegir Ráðstjórnarríkjunum, gátu farið út á markaðinn. Þrjú dæmi frá íslandi Dæmi Friedmans eru mjög fróðleg. Reyndar má bæta við þremur dæmum frá Islandi, sem sýna, hvernig ríkisrekst- ur ógnar einstaklingsfrelsinu, en mark- aðurinn verndar það. Árið 1851 var að- eins til ein prentsmiðja í Reykjavík, sem „stiftsyfirvöldin" svonefndu stjórnuðu. Þar var blaðið Þjóðólfur prentað. En rit- stjóri þess skrifaði grein, sem stifts- yfirvöldunum líkaði ekki, svo að þau neituðu honum um að prenta blaðið. Hvað gat ritstjórinn gert? Hann fór til Kaupmannahafnar og fékk þar prentað blaðið Hljóðólf, en eftir nokkrar vær- ingar samþykktu stiftsyfirvöldin síðan að halda áfram að prenta blaðið. Þetta dæmi sýnir tvennt: að það er hættulegt, ef ríkið á allar prentsmiðjurnar (eða einu prentsmiðjuna), og að ritstjórinn hafði annan kost, af því að til var mark- aður í öðru landi, þ.e. Danmörku. Annað dæmið er af Héðni Valdimars- syni hagfræðingi. Hann var einn af stjórnendum Landsverslunarinnar, sem ríkið hafði stofnað í fyrri heimsstyrjöld til þess að sjá um aðflutninga, en hann var einnig einn að háværustu róttækl- ingum landsins. Stjórn íhaldsflokksins 1924—1927 hætti rekstri Landsverlsun- arinnar í áföngum og kom því svo fyrir, að hann missti starf sitt (og er ekki að efa, að stjórnmálaskoðun hans hefur spillt fyrir honum). En hvað gerði Héð- inn, er hann hafði misst starf sitt? Hann fór út á markaðinn, stofnaði eigið inn- flutningsfyrirtæki og efnaðist, svo að hann varð engum háður. Þriðja dæmið er af Kristni E. Andrés- syni norrænufræðingi. Hann var ákafur sameignarsinni og hafði mikinn áhuga á að gefa út áróðursrit fyrir Ráðstjórnar- ríkjunum og sameignarstefnunni. Hann vissi, að hann gæti ekki gefið þessar bækur út fyrir ríkisfyrirtæki og stofnaði því bókafélagið Mál og menningu 1937 ( og reyndar var stofnað ríkisfyrirtæki gegn því nokkrum árum síðar að undir- lagi Jónasar Jónssonar frá Hriflu). Mál og menning varð síðan blómlegt og öfl- ugt einkafyrirtæki undir stjórn hans næstu áratugina, þótt því hnignaði eftir 1956. Kristinn fór út á markaðinn, af því að hann hefði ekki getið komið sínu fram í ríkisstofnum. Frelsi og eignarréttur Rök Friedmans, dæmi hans og þau, sem við höfum rakið af íslandi sýna hversu ólíklegt það er, að lýðræði fái þrif- ist í samhyggjuskipulagi. En þau sýna ekki, að það sé óhugsandi, eins og Fried- man bendir reyndar sjáldur á, og hann brýnir samhyggjumenn í Frelsi og fram- taki: „Ég veit ekki um neinn þann, sem hefur aðhyllst samhyggju og einstakl- ingsfrelsi og tekist á við þennan vanda. Ég veit ekki einu sinni um neinn þann, sem hefur lagt einhver drög að því að leysa hann og lýsa stofnunum til að tryKRja frelsi manna í samhyggjuskipu- lagi“. Það er að vísu rétt, að samhyggju- menn hafa ekki gefið þessu mikinn gaum. Þeir hafa flestir verið sannfærðir um, að engir stjórnarandstæðingar yrðu til í samhyggjuskipulaginu, því að mað- urinn breytti þar um eðli, eindirnar hættu að þræta hver við aðra og yrðu að einni heild, þegar séreignarrétturinn hyrfi. En þó hafa nokkrir samhyggju- menn tekið áskorun Friedmans á síðustu árum. Hvernig svara þeir Friedman? í fyrsta lagi gagnrýna þeir það frels- ishugtak, sem Friedman notar, valfrelsið á markaðnum eða nauðungarleysið. Þeir taka undir það með Friedman, að þetta sé frelsi, en kjarni málsins sé sá, að það feli í sér ófrelsi. Menn hafi frelsið á markaðnum, en þeir hafi ekki frelsi til að vera ekki á markaðnum, þeir hafi t.d. ekki frelsi til þess að selja ekki vinnuafl sitt nema þeir séu í hinum fámenna minnihluta stóreignamanna. Og séreignarrétturinn takmarki frelsi þeirra. Ég hef ekki frelsl til þess að sigla lystisnekkju auðkýfingsins, því að hann á hana, og eignarréttur hans felur í sér, að hann getur bannað mér að sigla henni. I frjálshyggjuskipulagi hafi menn markaðsfrelsi, en ekki annað frelsi, en í samhyggjuskipulagi missi menn mark- aðsfrelsi, en fái annað frelsi. Þessi rök samhyggjumanna eru þó hæpin. Menn hafa frelsi til að vera ekki á markaðnum, en í því felst, að þeir verða að vera einsetumenn og framleiða allt fyrir sig sjálfa. Þetta er frelsi frá samlífi, og að sjálfsögðu er slíkt frelsi tekið af þeim í samlífi, það leiðir af sjálfu sér. Allir verða að hafa eitthvað fyrir lífinu, selja vinnuafl sitt með einhverjum hætti (erfingjar auðmanna hafa til dæmis „selt“ þeim þjónustu sína eða með öðrum orðum vinnuafl sitt, auðmennirnir hafa valið þá, gefið þeim gjafir, börn veita foreldrum sínum þjónustu, þau full- nægja þörfum þeirra fyrir börn, sem þeim geti þótt vænt um). Menn komast ekki hjá þessu í neinu skipulagi. Hið sama er að segja um eignarréttinn. Vegna skorts lífsgæðanna verða ein- hverjar reglur að vera til um, hver megi nota hvaða hluti, en í þeim felst, að öðr- um er bannað að nota þessa hluti. í sam- eignarskipulagi kunna aðrir að hafa eign- arréttinn en í séreignarskipulagi, ekki auðkýfingurinn, heldur stjórnandi verk- smiðjunnar, en það breytir engu um, að eignarrétturinn er til og að öðrum en þeim, sem hafa hann, er bannað að nota eignina. Samhyggjumenn geta hvorki frelsað okkur frá fyrirhöfn né reglum um notkun eigna. Hvort tveggja liggur í eðli mannlegrar tilveru. Ófrelsið í sameignarríkjunum I öðru lagi segja samhyggjumenn, að ófrelsið í sameignarríkjunum eigi sér sögulegar rætur, en ekki röklegar. Sam- eignarríkin hafi verið stofnuð við furmstætt atvinnulíf, ólæsi, litla verk- þjálfun eða hernám óvinaþjóðar. Þau hafi verið umsetin óvinum, sem hafi háð „heit“ eða „köld“ stríð gegn þeim, og þau hafi mörg verið stofnuð eftir harða bar- áttu, en lýðræði þrífist illa í byltingum, borgarastríðum og styrjöldum. Skilyrði hafi því ekki verið góð fyrir lýðræði, en þau séu miklu betri í samhyggjuskipu- lagi, sem verði til við þróun úr vestrænu „velferðarríki". Þessi rök samhyggjumanna eru einnig hæpin. Um það má deila til eilífðarnóns, hvort góð eða slæm skilyrði hafi verið fyrir lýðræði í sameignarríkjunum. En minna verður á það, að sameignarsinnar í Rússaveldi risu ekki upp gegn keisara- stjórninni, heldur gegn lýðræðisstjórn. Of lítið hefur einnig verið gert úr þeirri iðnþróun, sem orðið hafði í Rússaveldi á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Og mörg dæmi eru um það, að þjóðum, sem hafa búið við einræði og markaðsskipu- lag, hafi tekist að koma á lýðræði, svo sem Grikkjum, Spánverjum og Portúgöl- um, en engin dæmi eru um það, að þjóðir, sem hafa búið við einræði og miðstjórn- arskipulag, hafi tekist það. Læðir það ekki að okkur grun um, að frelsi spretti betur upp af markaðnum en ríkinu? Stofnanir til mótvægis við ríkið í þriðja lagi telja samhyggjumenh, að hugsa megi sér stofnanir, sem verndi einstaklingsfrelsið í samhyggjuskipu- lagi. Skólar, fjölmiðlar, prentsmiðjur og fundarsalir þurfi ekki að vera undir beinni stjórn ríkisins, veita megi mönnum verkfallsrétt og tryggja sjálf- stæði dómstóla. Og það dragi úr hinu mikla valdi, sem ríkið hafi á afkomu manna, sé það eini vinnuveitandinn, að öllum séu tryggðar lágmarkstekjur. Menn neyðist ekki til að gegna störfum í ríkisstofnunum, sé svo. Þetta sé spurning um hugarfar valdsmannanna, en ekki um hagskipulagið sjálft. Hverju getur Friedman svarað þeim? Hann getur minnt á, að þetta sé ekki óhugsandi, en það sé ólíklegt og þvert á þá reynslu, sem við höfum af venjulegum, ófullkomnum mönnum. Hann getur einn- ig efast um, að samhyggjuskipulag fái staðist, sé verkfallsréttur veittur og séu öllum mönnum tryggðar lágmarkstekjur. Hvaða hvatningu hafa menn til að leggja eitthvað á sig í slíku skipulagi? Og hvernig getur miðstjórnin framkvæmt áætlanir sínar? Og hann getur vakið at- hygli á því, að samhyggjumenn hafa í rauninni tekið undir með honum um hættuna af víðtæku valdi örfárra manna eða miðstjórnar. En er valdsmönnum treystandi til þess að stjórna öðrum fyrirtækjum „í þágu almennings", ef þeim er ekki treystandi til þess að stjórna skólum, fjölmiðlum, prentsmiðj- um og fundarsölum? Er ekki eitthvað bogið við sjálfa hugmyndina?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.