Morgunblaðið - 17.02.1983, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 17.02.1983, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 17. FEBRÚAR 1983 Áfengisvandamálið er heilbrigðisvandamál — eftir Guðstein Þengilsson Um þessar mundir eiga Samtök áhugafólks um áfengisvandamálið 5 ára afmæli. ( tilefni af því er eðlilegt, að menn líti yfir farinn veg og reyni að gera sér grein fyrir því hvernig ástatt er i áfengismál- um nú og hvernig það var. Við get- um litið á málin frá tveimur sjón- armiðum, sem þó eru nátengd, og varða Samtökin bæði. Annað er meðferð áfengissjúkra, en hitt að koma í veg fyrir áfengissýkina. Þegar ég kom hingað suður fyrir 15 árum og gerðist heimilislæknir í Reykjavík, kynntist ég því fyrst að ráði, hvílíkt böl áfengisneyslan er. Ekki var það vegna þess að hér væri neytt meira áfengis en þar sem ég áður þekkti til, heidur varð starf mitt miklu víðtækara og ég kynntist kjörum langtum fleira fólks en áður. Varð ég því fljótlega var við neikvæðu hliðina á áfeng- isneyslunni og það svo um munaði. Ég hafði haft fremur „frjáls- lega“ afstöðu í þessum efnum og taldi sjálfsagt að menn lyftu vel glasi ef svo byði við að horfa og tækifæri gæfist til. Mér var fyrst og fremst kunnur glanslegri flöt- urinn á áfengisnautninni eða gerði mér a.m.k. miklu minna far um að vita af því sem miður fór í þessum efnum. Eigin reynsla og blákaldar staðreyndir um áfengisneyslu breyttu viðhorfum mínum algjör- lega. Ég kom inn á heimili þar sem fjölskyldulíf var í rústum vegna áfengisneyslu húsbóndans, stund- um húsfreyjunnar og stöku sinn- um þeirra beggja. Mörg voru þau skiptin, sem maður var kallaður til hjálpar á heimilum, þar sem allt var komið á hvolf vegna þess að húsráðandi var ofurölvi, jafn- vel gripinn æði, börnin flúin út í buskann og stundum eiginkonan líka. Oft hafa aðrir vímugjafar verið notaðir jafnframt áfenginu og viðbrögð neytandans því orðið enn hastarlegri en ella. Það er ekki hægt að lýsa með orðum þeim ömurleika, sem mætir manni allajafna undir þessum kringumstæðum. Verst er þó að geta ekkert gert til hjálpar, hvergi finnst neitt athvarf, þangað sem hægt er að senda hinn ölóða. Eina ráðið er þá að stinga hann með nál í rassinn, mjög oft undir áköfum mótmælum fórnarlambsins, og gefa honum eitthvað sem róar eða kemur honum í svefn. Ef heppnin er með, kann hann að sofa til næsta dags og sleppur þannig hugsanlega við að neyta meira áfengis í þetta skiptið. En líkurn- ar fyrir því eru sára litlar. Hér er einnig tekin nokkur áhætta, því aldrei er að vita nema sjúklingur- inn hafi notað einhver lyf með áfenginu, og ekki að vita hvaða lyf það eru. Það eina, sem kæmi drykkjumanni af þessu tagi að haldi væri að koma honum á stofnun sem væri sérhæfð í því að meðhöndla bráða áfengiseitrun og mjög oft er hægt að komast að samkomulagi við áfengissjúkling- inn um að veita honum þessa hjálp, ef hún er fyrir hendi, og sumir krefjast þess beinlínis að eitthvað slíkt sé gert fyrir þá. Fyrir svo sem einum áratug var skyndimeðferð vegna áfengiseitr- unar svo til útilokuð og aðeins þeir, sem höfðu delerium tremens eða einkenni þess að slikt ástand væri yfirvofandi, gátu vænst bráðrar hjálpar. Ég tel, að a.m.k. í eitt skipti hafi ég misst sjúkling um aldur fram af þeim ástæðum að hann komst ekki nægilega fljótt í meðferð. Þegar plássið loks fékkst, var runnið af manninum og hann kominn aftur í vinnu, og þá var engin leið að fá hann til að leggjast inn. Þetta sama endurtók sig hvað eftir annað uns að því kom, að hann var í dvala lagður inn á lyfjadeild. Lifrin var hætt að starfa. Þegar kom fram á síðasta ára- tuginn fóru menn að rumska og sjá fram á að við svo búið mætti ekki standa. Fólk var farið að leita utan til meðferðar og nú var farið að taka áfengissjúklinga til skyndimeðferðar á eina deild Kleppsspítalans og nokkru síðar var komið á fót stofnun til fram- haldsmeðferðar að Vífilsstöðum. Einnig var móttökudeild fyrir áfengissjúklinga gerð opnari og virkari. Um þetta leyti var efnt til Guðsteinn Þengilsson „Ég kom inn á heimili þar sem fjölskyldulíf var í rústum vegna áfengis- neyslu húsbóndans, stund- um húsfreyjunnar og stöku sinnum þeirra beggja. Mörg voru þau skiptin, sem maður var kallaður til hjálpar á heimilum, þar sem allt var komið á hvolf vegna þess að húsráðandi var ofur- ölvi, jafnvel gripinn æði, börnin flúin út í buskann og stundum eiginkonan líka. Oft hafa aðrir vímu- gjafar verið notaðir jafn- framt áfenginu og við- brögð neytandans því orð- ið enn hastarlegri en ella.“ mikils fjöldafundar í Háskólabíói og stofnuð Samtök áhugafólks um áfengisvandamálið (skammst. SÁÁ). Samtökin efldust fljótt, og hafa nú bráðaþjónustu að Silungapolli og framhaldsmeð- ferðarstofnanir að Sogni og Stað- arfelli í Dölum. Á þessum stöðum hafa verið um 5 þúsund innlagnir á þessum árum og sýnir það mjög vel, hvílík þörf og brýn var orðin fyrir stofnanir af þessu tagi. Og ekki má gleyma hlut Hlaðgerðar- kots í þessu máli og starfi hvíta- sunnumanna þar. Má segja að þar hafi verið einna fyrst hafist handa um vistun og meðferð áfengis- sjúkra, þegar Flókadeildin er und- anskilin. Þrátt fyrir það, að enn geti komið fyrir að erfitt sé að koma áfengissjúkum á stundinni til meðferðar, hefur ástandið í þessum efnum tekið gjörbreyt- ingu, og nú á mannslif ekki lengur að geta glatast af þeim ástæðum að tímabær meðferð fáist ekki. Mikilvæg afleiðing af stöfum SÁÁ, sem er að verða mjög víðtæk fjöldahreyfing, Landssambands- ins gegn áfengisbölinu, sem nær til fjölda félaga og félagasamtaka, samtakanna Átak gegn áfengi og fleiri slíkra, er að menn leita nú miklu fremur hjálpar vegna drykkjusýki. Meðan myrkur van- þekkingarinnar grúfði algerlega yfir þessum málum, voru menn feimnir og fyrirurðu sig, gengu með veggjum og viðurkenndu ekki veikleika sinn, þaðan af síður að þeir væru hjálpar þurfi. Aðstand- endur hylmdu yfir með þeim og hindruðu þar með alveg, að hægt væri að hjálpa þessum mönnum. Með opnari umræðum og vaxandi þekkingu kemur í ljós, hve almenn drykkjusýkin er. Einnig að hún fer ekki i manngreinarálit og getur alveg eins gripið mig og þig, en við vitum það ekki fyrr en það er um seinan. Eins og fram hefur komið hér á undan, hafa heilbrigðisyfirvöld lengi verið þess meðvitandi, að meðferð drykkjusjúkra heyrði undir heilbrigðismál. Flókadeildin og síðar aðrar meðferðarstofnanir á vegum ríkisspítalanna bera því vitni. Það hefur gengið verr með skilninginn á því, að það eru líka heilbrigðismál að koma í veg fyrir drykkjusýki. Góðtemplarareglan og ýmis bindindisfélög hafa í heila öld unnið gott starf af mikiili ósérplægni, en árangur sára léleg- ur. Skilningur meiri hluta fólks á þessu starfi er vægast sagt mjög lítill og þar til nú á allra síðustu árum fundust fáir utan bindind- ishreyfingarinnar sem létu sér detta í hug að neitt gott hlytist af því að takmarka sölu og dreifingu áfengis. Yfirvöld og ráðamenn virðast lengstum hafa stuðlað að sem mestri sölu í stað þess að finna ráð til að draga úr vínflóð- inu. Og fram undir þann áratug, sem nú er að byrja, hafa heilbrigð- isstéttir haft lítinn skilning á því, hvílíkur ógnarsjúkdómavaldur áf- engi, tóbak og aðrir vímugjafir eru. E.t.v. hafa áhrif góðtemplar- areglunnar orðið minni en málefn- ið átti skilið af því að skipulag hennar minnti um of á einhvers konar frímúrarahreyfingu, sem flestir töldu að ekkert erindi ætti til almennings og stúkumenn kæmu saman í eiginhagsmuna- skyni og til að skemmta sjálfum sér. Nú er ljóst að það er orðið eitthvert albrýnasta málið í allri heilsugæslu að neyta allra til- tækra ráða til að koma í veg fyrir drykkjusýki og jafnvel áfeng- isneyslu almennt, því að auk fjöl- margra sjúkdóma sem af henni leiða beint vitum við, að hún er stökkpallur á leið til enn sterkari vímugjafa. Það er deginum ljósara hve brýnt það er, að allir aðilar, sem fást við meðferð drykkjusúkra, samræmi krafta sína, en efni ekki til togstreitu sín á milli, þótt við- horf geti verið lítið eitt mismun- andi. Slík heimska bitnar fyrst og fremst á þeim sem á að bjarga, sjúklingunum sjálfum. Einnig finnst mér að enn þyrfti að aukast skilningur milli þeirra, sem vinna fyrst og fremst að meðferð og mannúðarstörfum meðal drykkju- sjúkra og hinna, sem fyrst og fremst vinna við að koma í veg fyrir drykkjusýki. Á þetta finnst mér enn verulega skorta, því hér er aðeins um að ræða tvær hliðar á sama máli. Það gildir um alla sjúkdóma, að lækning og meðferð þeirra, sem hafa fengið hann, skiptir ákaflega miklu máli, en engu að síuðr er um það vert að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir sjúkdóminn og út- breiðslu hans í samfélaginu. Slíkt er enn betri lækningaaðferð þar sem henni verður við komið. Ef unnt væri að samræma og sam- eina krafta allra þeirra, sem gera sér ljósa hættuna sem stafar af áfengisneyslu og þeim vímugjöf- um öðrum, sem í kjölfar hennar sigla, og ef hægt væri að komast hjá því að toga sitt i hvora áttina, er áreiðanlegt að stórsigur á „mestu meinsemd aldarinnar" er skammt undan. Keflavíkurflugvöllur — eftir Albert K. Sanders bœjarstjóra Keflavíkurflugvöllur Nú eru rétt liðin 30 ár frá því að varnarlið kom til Keflavíkurflug- vallar. Með inngöngu íslands í NATO, lögðum við til land undir varnir landsins og hjálpuðum þannig til við að efla varnir Vest- urlanda gegn yfirgangi og ásækni heimskommúnismans. í varnar- samningnum frá 1951 er gerð grein fyrir ýmsum þáttum þessara mála. Varnarsamningurinn hefur lagagildi, en þó að hann hafi verið vel gerður í upphafi, má öllum ljóst vera að ýmis ákvæði hans hljóta að þurfa nánari skoðunar við og framkvæmd og túlkun hans er oft með þeim hætti að ekki er vansalaust að ekki skuli eftir allan þennan ’tíma hafa verið settar nánari reglur, sérstaklega hvað varðar samskipti við sveitarfélög- in í kringum Keflavíkurflugvöll og ekki síður varðandi starfsmenn varnarliðsins o.fl. Hin gleymda stétt Á Keflavíkurflugvelli hafa starfað þúsundir íslendinga í sam- bandi við veru varnarliðsins hér, ýmist hjá Islenzkum aðalverktök- um, öðrum verktökum, olíufélög- um og síðast en ekki síst hjá varn- arliðinu sjálfu. Þegar ég starfaði á Keflavíkur- flugvelli hjá varnarliðinu á árun- um 1964—1974 varð mér ljóst að ýmsir fslendingar sem ekki þekktu til, gerðu sér ekki ljóst mikilvægi þeirra starfa sem þessir íslensku starfsmenn varnarliðsins inntu af hendi. Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að rekstur varnar- stöðvarinnar er að langmestu leyti í höndum íslendinga, nær öll starfsemin nema sú sem snertir bein hernaðarleg afskipti, er byggð á reynslu og kunnáttu ís- lendinganna. ótrúlegur fjöldi íslendinganna hefur unnið þarna frá því stöðin tók til starfa. f flestum tilfellum er um mjög sérhæfð störf að ræða sem þeir hafa öðlast gífurlega reynslu í að sinna. Nær öll störf á vegum varnarliðsins eru með öðr- um hætti en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði, þó ekki sé nema bara það að hafa vald á öðru tungumáli en sínu eig- in og starfa við sérstakar aðstæð- ur. Bandarískir yfirmenn í ýmsum deildum starfa almennt í eitt til tvö ár hér á landi og er þá skipt um menn og nýir taka við. Það er því öllum ljóst sem til þekkja að allur rekstur og velgengni stöðv- arinnar byggist á því fólki sem þarna starfar ár eftir ár og býr yfir nauðsynlegri þekkingu og kunnáttu. Hvað á að verða um íslensku starfsmennina? Á þessu þrjátíu ára tímabili sem varnarliðið hefur verið hér á landi, hefur í tvígang staðið til af hálfu okkar íslendinga, að varn- arliðið færi úr landi. Við vonum flestir íslendingar að sá dagur komi að svo friðvænlegt verði í heiminum að varnarliðið hverfi héðan. En hefur nokkur nokkurn tímann hugsað út í það hvað á að verða um allt það fólk sem starfar á Keflavíkurflugvelli? Þegar ég starfaði á Keflavíkur- flugvelli, var þar stofnað starfs- mannafélag (ekki verkalýðsfélag). Eftir stofnun þess, fór ég ásamt formanni félagsins á fund Bjarna heitins Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra og gerðum við honum grein fyrir viðhorfum starfsmanna um ýmislegt sem betur mætti fara. Tók .Bjarni okkur vel og seinna kallaði hann mig á sinn fund til að ræða nánar Albert K. Sanders „Þegar málið er skoðaö nánar kemur í Ijós að rekstur varnarstöðvarinn- ar er að langmestu leyti í höndum íslendinga, nær öll starfsemin nema sú, sem snertir beint hernað- arleg afskipti, er byggð á reynslu og kunnáttu Is- lendinganna.“ þær hugmyndir sem við höfðum reifað. Hugmyndirnar voru þær, að ef varnarliðið færi af landinu, hvort sem væri vegna ákvörðunar okkar eða Bandaríkiamanna sjálfra, þyrfti að tryggja að hags- muni þess fólks sem starfaði fyrir varnarliðið, og einnig að vandi þessara manna væri ekki fjötur um fót slíkrar ákvörðunartöku. Til að tryggja þetta, kæmi tvennt til, annars vegar að allir starfsmenn varnarliðsins væru ráðnir til íslenska ríkisins sem síðan endurréði þá til starfa hjá varnarliðinu og væru þá að vissu marki ríkisstarfsmenn, hins vegar að varnarliðið greiddi hluta af gengismun, svipað og íslenskur sjávarútvegur gerði og gerir þegar gengisfelling verður á krónunni. Gengismunur þessi væri lagður í sérstakan sjóð sem síðan yrði notaður til endurmenntunar og endurhæfingar svo og til að skapa ný atvinnutækifæri, þegar og ef varnarliðið færi úr landi. Bjarni heitinn tók þessum hugmyndum ljúflega og vildi skoða þær og kanna nánar, en áður en nokkuð frekar væri um málið fjallað, höfðum við misst Bjarna, okkar mikilhæfa foringja. Lokaorð Því vek ég máls á þessu nú, að ég tel nauðsynlegt að settar verði fastari reglur um framkvæmd varnarsamningsins, reglur sem taki mið af fenginni reynslu í 30 ár, reglur sem skapi grundvöll til þess að stjórn þessara mála verði öll með meiri festu og aðgengilegri öllum aðilum til hagsbóta.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.