Morgunblaðið - 09.08.1985, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 09.08.1985, Blaðsíða 12
,MPfr6KNELAPIfl. flTOPAWJJB ,9-ÁGÚST. IW> vl2 i. r > Skoskir utangarðsmenn sýna í Norræna húsinu: „Viljum beina kröftum æsk- unnar inn á betri brautir" — segir Jimmy Boyle, forsvarsmaður Gateway-hópsins MorifunblaðiJ/JiSlíus „Þar sem er vilji er einnig vegur“ segir Jimmy Boyle forsvarsmadur Gateway-hópsins. TEXTI: Inger Anna Aikman ALLT frá því hin fleygu orð „Heimur versnandi fer“ voru höggvin í stein í Egyptalandi hinu forna hefur setning þessi verið óspart notuð af eldri kynslóðum allra tíma. Ungdómurinn hefur ávallt mátt ssta því að vera álitinn ábyrgðar- og kærulaus hópur með veika og heldur vafasama siðferð- iskennd. Synd væri að segja að álit hinna fullorðnu á arftökum sínum hefði aukist hin síðari ár, enda af- brot og illvirki ýmiss konar færst mjög í vöxt Grundvöllur umræð- unnar hefur þó breyst töluvert — í stað hinna vægðarlausu dóma er atbyglinni nú í auknum mæli beint að rótum meinsemdarinnar, orsök- um glæpanna og leitast við að byrgja brunninn, áður en barnið dettur ofan í hann. En hvers vegna villast nú æ fleiri unglingar út á hina vafa- somu braut afbrotanna? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör og eflaust eru ástæðurnar bæði margar og misjafnar. „Bölvað dópið“ fussa sumir, með- an aðrir segja skýringuna felast i hinu fornkveðna að „sjaldan launi kálfurinn ofeldið" — búið sé að ofdekra æskulýð veraldar, sem aldrei hafi dýft hendi í kalt vatn. „Vinnusemi er dyggð" segja þessir snillingar og bæta því svo við, stoltir af eigin skarp- skyggni að „ef of ströng vinna drepi tíu manns, sé eins víst að iðjuleysið gangi af einum hundr- að dauðum“. Vel má vera að það sé rétt, en hvað skal þá til bragðs taka þegar engin vinna býðst? Úti um allan heim ríkir nú mikið atvinnuleysi og þá sér i lagi meðal hinna ungu. Framtíð- arsýn þeirra einkennist í mörg- um tilfellum af samfelldu svartnætti, vonleysi og vanmátt- arkennd. Þegar svo er komið er hætt við að mörg ómótuð ung- mennin falli í freistni og kaupi sér aðgöngumiða að hæstu hæð- um hamingjunnar af fulltrúum ferðaskrifstofu fíkniefnanna. Fríið frá bláköldum og viðburða- snauðum raunveruleikanum er langþráð og farseðill flótta- mannsins fæst fyrir tiltölulega lítið fé. Flestir leggja upp í leið- angurinn án frekari vangaveltna um afleiðingar ferðalagsins, enda hefur fræðsla um fíkniefni fram til þessa verið af heldur skornum skammti. í fyrstu er ætlunin venjulega sú að fara bara eina ferð, en þeg- ar til baka er komið — lent hefur verið á kuldalegum flugvelli hversdagsins, þar sem ekkert er við að vera, er kannske ekki að furða þó ferðalangana fýsi að fara á flakk að nýju, þó ekki eigi þeir fyrir fargjaldinu. Innbrot, þjófnaðir og líkamsárásir í fjár- öflunarskyni virðast því oft í. augum þeirra eini kosturinn. Framhaldið er nokkuð ljóst — fangelsisvist í refsingarskyni og von um bót og betrun er eina lausnin sem lögfróðir menn hafa mælt með til þessa. Fyrirbyggj- andi aðgerðir hafa nánast engar verið né heldur endurhæfing glæpamanna eða tilraunir til að breyta viðhorfi þeirra til lífsins. Gateway-hópurinn Sýning á 23 verkum Gateway- hópsins svonefnda stendur nú yfir í Norræna húsinu í Reykja- vík. „The Gateway Exchange" eru samtök fólks, sem lætur sig flest atriði mannlegrar tilveru varða og þá sér i lagi fangelsi, eiturlyf og sálræn vandamál. Starfsemi þeirra fer að mestu leyti fram f Edinborg en fulltrúa eiga þau þó vítt og breitt um Skotland. í bæklingi, sem þau hafa gefið út til kynningar á starfsemi sinni segir að aðal- áhersluna leggi þau á að ná til ungmenna í hverfum þar sem húsakynni eru slæm, atvinnu- leysi mikið og fátæktin allsráð- andi. „Við eigum okkur hugsjón um nýjan heim, hugsjón sem ekki getur orðið að raunveruleika í okkar tíð og notum skapandi afl mannsins við framkvæmdina," segja þau og bæta við: „Við þekkjum afneitun glæpa, vænd- is, eiturlyfjanotkunar og geð- sjúkdóma, en með skapandi starfi höfum við lifað það af. Starf okkar og skapandi vinna í The Gateway byggist á gagn- kvæmri hlýju og virðingu. Þann- ig náum við til hugmynda, við- horfa, persónuleika og tilfinn- inga, alls þess sem áður var fryst.“ Markmiðið er sem sagt að beina orku ungmenna inn á jákvæðari og uppbyggilegri brautir fyrir milligöngu mynd- listarinnar. Frumkvöðullinn, Jimmy Boyle I tengslum við sýningu þessa var nýlega staddur hér á landi forvígismaður Gateway-hópsins, Jimmy Boyle. Boyle ólst upp eft- ir seinni heimsstyrjöldina í mik- illi fátækt í einhverju vanrækt- asta hverfi Glasgow-borgar, þaðan sem 90% skoskra fanga koma. Að eigin sögn voru leik- föng hans lifandi rottur. Æsku- árin fóru i flakk milli sérskóla fyrir afbrotaungiinga og síðar varð fangelsið hans annað heim- ili. Þegar hann var 23 ára gamall var hann ákærður fyrir morð og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Eftir sífelld átök milli hans og fanga- varðanna endaði það með þvi að Boyle var lokaður nakinn inni í búri sem haft var inni í venju- legum einangrunarklefa og matnum ýtt undir rimlana til hans. Árið 1973 var Jimmy Boyle síðan fluttur í „The Special Ún- it“ (Sérdeildina) í Glasgow, sem stofnuð hafði verið með það að leiðarljósi að höfða til lífstíðar- fanga á mannúðlegri hátt en tíðkast hafði í venjulegum fang- elsum. Til að byrja með var al- menningur tortrygginn á tilraun þessa og taldi refsingu vænlegri til árangurs en endurhæfingu. Loks tókst þó samvinna milli fanganna og varða þeirra og fyrir tilstilli Joyce Laing, mynd- listarmanns og eins af braut- ryðjendum „listþerapíu" varð myndlistin brátt mikilvægur þáttur í endurhæfingu margra fanganna. í „The Special Unit“ fékk Jimmy i fyrsta skipti, frá því hann var fangelsaður, tæki- færi til að haga sér og lifa eins og maður. Klefa hans var breytt í vinnustofu til að mæta þörfum hans sem myndhöggvara og fékk hann útrás fyrir biturleika sinn og ofbeldishneigð í skapandi höggmyndalist jafnframt því sem hann notaði tímann til að skrifa tvær bækur og leikrit. Það var líka I „The Special Un- it“ sem leiðir Jimmy og geðlækn- isins Söru Iágu fyrst saman, en þau gengu I hjónaband, er Jimmy var náðaður og stofnuðu saman „The Gateway Exchange" með það að markmiði „að skapa mannsæmandi umhverfi þar sem hið skapandi afl mannsins getur leystst úr læðingi og breytt lífi hans til batnaðar" segir í bæklingi Gateway-hóps- ins. „Árangurinn hefur svo sann- arlega ekki látið á sér standa," sagði Boyle, er hann var inntur eftir þvi hvernig gengið hefði, það ár, sem hópurinn hefði starfað. „Um það bil 600 ung- menni á viku leita til okkar með vandamál sín, sem við leitumst svo við að leysa í sameiningu. Við fordæmum ekki þeirra við- horf eða tísku heldur reynum að skilja þankaganginn sem að baki liggur og það held ég að skipti geysilegu máli eigi að myndast gott samband þarna á milli," bætti hann við. Þar sem er vilji er einnig vegur „Við reynum að forðast öll boð og bönn,“ upplýsti Jimmy. „Þetta á að vera staður krakk- anna, sem þau geta leitað til þegar á bjátar, fengið ráðlegg- ingar og aðstoð eða útrás fyrir tilfinningar sínar. Einu reglurn- ar, sem settar eru, er að eitur- lyfja er ekki neytt innan dyra né heldur er leyfilegt að koma með stolnar vörur inn í húsið — og þetta finnst þeim sjálfsagðar kröfur,“ sagði hann. { miðstöðinni vinna aðeins sjálfboðaliðar og styrki hafa þau enga fengið frá yfirvöldum þar í landi. „Við erum að vinna að málefnum, sem snerta æsku landsins," sagði Jimmy. „Hlut- verk okkar er að sá — framtíðar- innar að uppskera, en þróun mála undanfarin ár — vaxandi fjöldi þeirra unglinga sem ánetj- ast eiturlyfjum, leggur á flótta undan lífinu — krafðist þess að einhver tæki af skarið og hjálp- aði æskufólki til að líta tilveruna bjartari augum, beina kröftum sínum inn á betri brautir. Ég hugsa til þess með hryllingi að enn þann dag i dag skuli ungt fólk þurfa að ganga í gegn um sömu eldraunir og ég gerði á sin- um tíma. Við trúum því að þar sem vilji er, sé einnig vegur og teljum okkur langt komin með að leiða í ljós sannleiksgildi þeirra orða,“ sagði hinn bros- mildi og bjartsýni Jimmy Boyle, fyrrum lífstíðarfangi, að lokum. Sýning Gateway-hópsins er, eins og fyrr segir, haldin í Nor- ræna húsinu í Reykjavfk, í sam- vinnu við sýningarstaðinn og listþerapista á íslandi. Sýning- unni lýkur þann 11. ágúst nk. „Þá flaug hjá mér þröstur“ — eftir Pétur Pétursson Fjármálaráðherra er virtur maður og vinsæll. Hann hófst snemma af sjálfum sér og fer í mörgu eigin leiðir og ótroðnar slóðir. Af því leiðir að ákvarðanir hans, margar hverjar, valda deil- um og sýnist sitt hverjum. Enginn dregur í efa að ráðherrann telji sig jafnan velja þann kostinn er hann hyggur farsælastan landi og lýð. Þó virðist svo, um þessar mundir, að ráðherranum hafi hlaupið kapp í kinn og gæti sér- lyndis við þá ákvörðun að binda sölu hlutabréfa ríkissjóðs við einn kaupanda. Svo virðist sem hér sé farin leið er greiði götu þeirra er vilja af- nema jafnan og almennan at- kvæðisrétt, en efla vald stórbokka. Almennar kosningar til alþingis og sveitarstjórna eru einskonar aðalfundir þjóðfélagsins, alþing- iskjósenda og íbúa sveitarfélaga. Atkvæði hvers kjósanda er að- göngumiði að þeim fundi. Það veitir hverjum borgara ákveðinn rétt til áhrifa. Fyrir þau áhrif situr fjármála- ráðherra á þingi og hefír einnig setið í borgarstjórn. Hver vill segja að þau atkvæði hafí reynst áhrifalaus papp- írsplögg? Þegar Jón Sigurðsson forseti ræddi um fundi lslendinga á dög- um þjóðfrelsisbaráttu og hvatti til starfa að auknu sjálfforræði og eflingu atvinnuvega var oft við- kvæði hans: „Þennan fund ættu allir að geta setið.“ Undanfarið hefir margt verið rætt og ritað um misjafnan at- kvæðisrétt er ræðst af búsetu. Látum slíkt liggja milli hluta að sinni. Hér nægir að nefna að hingað til hefir hver kjósandi þó haft eitt atkvæði og lýst vilja sín- um á aðalfundi, kjörfundi til al- þingis, eða látið hjá liða, allt eftir eigin geðþótta hverju sinni. Til eru þeir sem telja lýðræði og þingræði ekki margra fiska virði en dreymir um „sterkan mann“, er engan þurfi að kveðja ti! ráðu- neytis en vísi veginn og fari fyrir attaníossum. Svo eru aðrir er lýst hafa vináttu við almenna kjósend- ur, talað um „litla manninn", talið sig málsvara hans og einkavin. Sumir vinir litlu mannanna hafa rætt um stofnun almennings- hlutafélaga, talað um atvinnulýð- ræði, eign og umráð starfsfólks og ýmsar ráðstafanir til þess að auka áhuga og þátt almennings í rekstri og umsvifum. Nú nýverið hafa verslunar- og kaupsýslumenn fagnað afnámi einokunar og ýmissa hafta. Jafn- framt er stofnað Kaupþing til verðbréfaviðskipta. Ef marka má orð forgöngumanna Seðlabanka- manna og annarra á það að efla almenn viðskipti, en ekki að ein- skorða starfssvið sitt við stóra bróður. Ef svo fer sem horfir um geð- þóttaákvarðanir og afhendingu eignarhluta almennings, án þess að leitað sé fleiri og almennra leiða, liggur næst við að spyrja: Er ekki tímabært að afnema atkvæð- isréttinn? Er hann nokkuð annað en „aðgöngumiði á aðalfund" þjóð- félagsins, kjörfund sveitarstjórn- ar og alþingis, en marklaust plagg til áhrifa? Má ekki hugsa sér að bjóða upp heila klabbið, atkvæða- seðla og kjörkassa? Og biðja Fjár- festingarfélagið að meta „pakk- ann“, og það í dollurum? Kanselli, Rentukammer og Hörmangarafélagið semja þá um allt og „Frjáls verslun" kemur þar hvergi nærri. Þá getur „litli maðurinn" bara haldið áfram „að gera eitthvað" eins og Gvendur í Sumarhúsum. Já, eða dreymt draum hjarð- sveinsins og sungið: í birkilaut hvíldi ég bakkanum á, þar bunaði smálækjarspræna. „Hér má þvo sokkaplögg," sagði Bjartur. Vonandi eru alþingismenn og ráðherrar ekki sammála um að at- kvæði einstaklinga á aðalfundi þjóð- félagsins, kjörstað, séu marklaus og áhrifalaus plögg, sem engu ráði um stefnu í landsmálum. Höfundur er þulur. Pétur Pétursson „Ef svo fer fram sem horfír um geðþótta- ákvarðanir og afhend- ingu eignarhluta al- mennings, án þess að leitað sé fleiri og al- mennari leiða, liggur næst við að spyrja: Er ekki tímabært að af- nema atkvæðisréttinn?“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.