Morgunblaðið - 25.04.1996, Blaðsíða 49
MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
FIMMTUDAGUR 25. APRÍL 1996 49
OLAFUR E.
ÓLAFSSON
+ Ólafur Eggert Ólafsson, fv.
kaupfélagsstjóri frá Króks-
fjarðarnesi, var fæddur á Vals-
hamri í Geiradalshreppi 30.
janúar 1918. Hann lést í Borg-
arspítalanum 11. apríl síðastlið-
inn og fór útför hans fram frá
Dómkirkjunni 19. apríl.
Þegar vistaskipti verða, þá leitar
hugurinn á vit minninganna. Við
Ólafur höfum þekkst í 40 ár og
samskipti alla tíð þó nokkuð mikil.
Ólafur stýrði Kaupfélagi Króks-
íjarðar með reisn og þegar ég flutti
hingað var ekki um aðra verslun
að ræða.
í sjálfu sér fannst mér mikil
breyting að koma hingað í Reyk-
hólasveit en hún varð auðveldari
við samskiptin við Ólaf.
Verslun öll var við Króksfjarðar-
nes og varð ég ekki var við að hann
drægi menn í dilka eftir skoðunum
þeirra eða lífsviðhorfi.
Hann studdi vel við bakið á okk-
ur þegar íbúðarhúsið og útihús voru
byggð. Allt efni útvegaði hann og
lét koma með heim á hlað.
Ég man eftir því að Ólafur kom
í eitt sinn að Miðhúsum og þegar
hann kvaddi, spurði hann hvort það
væri ekki eitthvað sem hann gæti
gert fyrir okkur hjón en ég sagði
að nóg væri hann búinn að gera í
bili. Hann endurtók spurninguna
og þá sneri hann sér að konu minni
og spurði hana hvort það væri ekki
eitthvað sem hana langaði í og hún
sagði að sig langaði í bíl. Auðvitað,
sagði Ólafur, skil ég það vel að það
er ekki hægt að vera bíllaus.
Tveimur dögum seinna hringir
Ólafur og segist vera búinn að
kaupa nýjan Land Rover. Láta skrá
hann á okkar nafn og borga.
Ég fékk lán fyrir bílnum sagði
Ólafur og er sjálfur ábyrgðarmaður
fyrir láninu. Nú er ekkert annað
eftir fyrir ykkur en að sækja bílinn.
Ólafi var mjög í mun að reisn
heimabyggðar hans væri sem mest
og enda menningarbragur yfir
heimili hans og gestagangur mikill,
enda hygg ég að oft hafi þau hjón
gengið þreytt til hvílu.
Lengi mætti upp telja velvild
Ólafs i okkar garð, en hér skal stað-
ar numið og við sendum konu hans
og afkomendum öllum samúðar-
kveðjur.
Sveinn Guðmundsson.
í dag kveð ég föðurbróður minn
og kæran vin, Ölaf E. Ólafsson.
Frá því ég man eftir mér hefur
Ólafur verið einn af föstu punktun-
um í tilveru minni. Við fráfall hans
er mér efst í huga söknuður, en
jafnframt þakklæti fyrir að hafa
átt með honum samleið. Það er
margs að minnast frá liðnum árum
og mikið að þakka og minninga-
brotin verða að myndum sem renna
gegnum hugann.
Ólafur bjó í Króksfjarðarnesi til
ársins 1973 og var hreppstjóri og
kaupfélagsstjóri. Hann átti oft er-
indi í bæinn og bjó þá á heimili
foreldra minna. Þegar Ólafur var í
Reykjavík fór ég iðulega með hon-
um þegar hann var að sinna erind-
um sínum fyrir sveitina. Ólafi tókst
að láta mig halda að ég væri ómiss-
andi leiðsögumaður fyrir hann í
höfuðborginni og eftir að ég fékk
bílpróf gerði hann mig líka að einka-
bílstjóra.
Ég dvaldi nokkur sumur í Króks-
fjarðarnesi hjá Ólafi og Rikku. Þá
kynntist ég því hvernig Ólafur rak
Kaupfélag Króksijarðarness og hve
vakinn og sofinn hann var í starfi
sínu. Ósérhlífni hans átti sér engin
takmörk. Það var sama hvort það
var að nóttu eða degi, alltaf var
Ólafur tilbúinn að greiða götu
þeirra sem að garði komu. I þessu
sem öðru naut Ólafur dyggrar að-
stoðar eiginkonu sinnar sem tók
brosandi á móti gestum og gang-
andi og töfraði fram dýrindis veit-
ingar. Rikka hafði sérstakt lag á
að láta fólk finna að það væri vel-
komið, enda var oft margt um
manninn í Króksfjarðarnesi og
heimilið í raun miðstöð sveitarinn-
ar. Gestrisnin og hlýjan sem þeim
hjónum var í blóð borin hefur og
fylgt þeim alla tíð.
Mér leið vel í sveitinni, enda komu
Ólafur og Rikka þannig fram við
mig að mér fannst alltaf sem ég
væri einn af krökkunum þeirra. Ég
naut samvistanna við frændsystkin-
in mín og það var aldrei tími til að
láta sér leiðast. Fyrir utan daglega
leiki fengum við að taka þátt í ýms-
um störfum sem til féllu. Við tíndum
æðardún í eyjunum, hjálpuðum til
við heyskapinn, afgreiddum bensín,
vorum innanbúðar í kaupfélaginu,
fórum í sendiferðir og það kom
meira segja fyrir að við fengum að
selja gos og sælgæti á böllunum.
Allt þetta víkkaði sjóndeildarhring
stráksins úr borginni.
Já, ég á margar góðar minningar
frá sumrunum í sveitinni, en eitt
ferðalag er mér þó sérstaklega
minnistætt. Þetta er ferð sem við
Ólafur fórum í, bara tveir, á löngum
Land-Rover jeppa. Tilgangur ferð-
arinnar var að safna saman sel-
skinnum af bæjunum allt vestur að
Fossá á Hjarðarnesi. Alla ferðina
var Ólafur óþreytandi við að fræða
mig um landið, fólkið og söguna.
Við heimsóttum marga bæi sem
flestir eru nú komnir í eypi. Það fór
ekki á milli mála að Ólafur var
kærkominn gestur hvar sem við
komum, slíkar voru móttökurnar.
Þegar við lögðum af stað heim var
degi vel tekið að halla og Ólafur
farinn að verða syfjaður. Hann bað
mig þá að syngja með sér svo hann
sofnaði ekki undir stýri. Þessi ferð
rifjast alltaf upp fyrir mér þegar
ég ferðast um þessar sveitir og
minningin um hana er mér kær.
Eftir að Ólafur og fjölskylda hans
fluttu til Reykjavíkur hef ég nokkr-
um sinnum farið með honum vestur
auk þess sem ég og fjölskylda mín
fengum tvisvar sinnum húsið sem
hann átti lánað og ættarmót hafa
verið haldin i Króksfjarðarnesi. í
öll þessi skipti var Ólafur hrókur
alls fagnaðar og það var ekki hægt
annað en að taka eftir því hve
vænt honum þótt um sveitina sína
og fólkið þar og ekki síður hve
mikill aufúsugestur hann var öllum.
Eftir fráfall föður míns má segja
að samband okkar Ólafs hafi tekið
á sig enn eina myndina. Við höfðum
samband reglulega, enda lét Ólafur
sér ávallt mjög annt um hag okkar
allra og var alltaf til staðar bæði í
gleði og sorg. Velvild sú og tryggð
sem Ólafur og Rikka hafa sýnt
móður minni síðustu tólf árin verð-
ur seint fullþökkuð.
Ólafur frændi minn hefur nú lagt
upp í sína hinstu ferð og ég mun
sakna þess að heyra ekki rödd hans
framar. Miklu og gæfuríku ævi-
starfi er lokið en það er bjart yfir
minningunum og ég trúi því að sú
birta muni lýsa Rikku og fjölskyld-
unni allri um ókomin ár.
Blessuð sé minning Ólafs E. Ól-
afssonar.
Óskar G. Jónsson.
Heilsum sumri
hreinsum löbina
Nú er vetur úr bæ og rusliö úr görðunum á aö fara sömu leið.
Tökum höndum saman meö hækkandi sól og fegrum lóðirnar
okkar fyrir sumariö.
Sérstakir hreinsunardagar eru laugardagana 27. apríl og
4. maí. Ruslapokar verða afhentir í hverfabækistöövum
gatnamálastjóra. Næstu daga eftir hreinsunardagana fara
borgarstarfsmenn um hverfin og hiröa fulla poka.
Síöasta yfirferö þeirra hefst mánudaginn 6. maí og lýkur
föstudaginn 10. maí.
Sumartími hefst í gámastöðvum Sorpu mánudaginn
29. apríl. Þá er opiö þar alla daga frá kl. 12:30 til 21:00.
v Gámastöövarnar eru á fjórum stööum:
Viö Ánanaust gegnt Mýrargötu.
y I Viö Sævarhöföa gegnt malbikunarstöðinni.
y I Viö Gylfaflöt austan Gufunesvegar.
'I Við Jafnasel í Breiöholti.
Skoraö er á forráðamenn fyrirtækja að taka til á lóðum sínum.
Fyrir stóra og fyrirferðarmikia hluti er bent á Geymslusvæðið í
Hafnarfiröi, sem hreinsunardeild gatnamálastjóra leigir út.
Við tökum pokann þinn
Borgarstjórinn í Reykjavík
- hreinsunardeild gatnamálastjóra