Morgunblaðið - 30.04.1997, Page 14
14 MIÐVIKUDAGUR 30. APRÍL 1997
MORGUNBLAÐIÐ
FRETTIR
íslensk lög um lífeyrissjóði koma hugsanlega til kasta Mannréttindadómstólsins
Skylduaðild
kærð til
Strassborg-ar
Skylduaðild íslenskra launþega að stéttbundnum lífeyris-
sjóðum hefur verið kærð til Mannréttindanefndar Evr-
ópu og kemur hugsanlega til kasta Mannréttindadóm-
stólsins í Strassborg. Ragnhildur Sverrisdóttir kynnti
sér dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar í
þessu máli. Meirihluti Hæstaréttar taldi ekki hafa verið
sýnt fram á að takmörkun á valfrelsi um lífeyrissjóð
samrýmdist ekki ákvæði stjómarskrár um félagafrelsi.
SKYLDUAÐILD að stéttbundnum lífeyrissjóðum gæti komið til kasta Mannréttinda-
dómstólsins, sem hefur aðsetur í þessari byggingu í Strassborg.
ETTA mál, sem nú hefur verið
kært til Mannréttindanefndarinn-
ar, snýst um þrjá starfsmenn tré-
smiðju, sem jafnframt voru hlut-
hafar og stjórnarmenn í fyrirtækinu. Tré-
smiðjan K-14 hf. greiddi lífeyrissjóðsiðgjöld
til Lífeyrissjóðs byggingamanna, en í árslok
1988 tóku eigendurnir þá ákvörðun að segja
sig úr lífeyrissjóðnum og greiða iðgjöld í
séreignarsjóð, Frjálsa lífeyrissjóðinn. Líf-
eyrissjóður byggingamanna sætti sig ekki
við þá ákvörðun og vísaði til ákvæðis laga
55/1980 um skylduaðild manna að lífeyris-
sjóði viðkomandi starfsstéttar. Síðar tók
Sameinaði lífeyrissjóðurinn við réttindum
og skyldum Lífeyrissjóðs byggingamanna
og hélt innheimtuaðgerðum áfram. Með
vísan til reglugerðar sjóðsins var trésmiðj-
unni gefinn kostur á að sýna fram á að
greitt væri til annars sambærilegs sam-
tryggingarlífeyrissjóðs. Hins vegar var tek-
ið fram að ekki nægði að greiða til svo-
nefndra „ftjálsra" lífeyrissjóða.
Reglan ekki
án undantekninga
Svo fór að Sameinaði lífeyrissjóðurinn
stefndi trésmiðjunni, til að fá iðgjöldin
greidd. Fyrir dómi var því haldið fram af
hálfu trésmiðjunnar, að tilgangur laga
55/1980 hafi fyrst og fremst verið sá, að
tryggja að öllum starfandi mönnum væri
skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði og spara
þannig til elliáranna, en áherslan hafi ekki
verið á því að greitt væri í tiltekinn sjóð.
Þá ættu ekki allir sjálfsagða aðild að líf-
eyrissjóðum. Það ætti til dæmis við um
atvinnurekendur og ýmsa sem stunduðu
sjálfstæða atvinnustarfsemi og gerðu lögin
ráð fyrir að unnt væri að velja um til hvaða
sjóðs skuli greitt, eftir því sem reglur ein-
stakra sjóða um aðild leyfi.
Trésmiðjan hélt því fram, að ekkert í
reglugerðum Lífeyrissjóðs byggingamanna
og síðar Sameinaða lífeyrissjóðsins leiddi
til þess að sjóðimir teldust lífeyrissjóðir
starfsstéttar eða starfshóps mannanna
þriggja. Mennirnir væru allir hluthafar í
trésmiðjunni, sætu í stjórn fyrirtækisins og
tækju ekki laun samkvæmt kjarasamning-
um neinna stéttarfélaga, heldur í samræmi
við afkomu fyrirtækisins.
Trésmiðjan hélt því einnig fram, að teld-
ist aðild mannanna að lífeyrissjóðnum
skylda samkvæmt lögum 55/1980, þá brytu
lögin gegn ákvæði stjómarskrár um félaga-
frelsi. í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu
og nýlegum dómum íslenskum væri litið svo
á, að grein stjómarskrárinnar og samsvar-
andi grein mannréttindasáttmála Evrópu
tryggði ekki eingöngu frelsi til að stofna
félög, heldur einnig til að standa utan
þeirra. Þar að auki brytu ákvæði laga
55/1980 gegn eignarréttarákvæðum stjórn-
arskrár. Sá hluti launa, sem starfandi
mönnum væri gert að greiða til lífeyris-
sjóðs, væri eign sem ekki væri heimilt að
svipta þá nema fullt verð kæmi fyrir.
Skerðing lífeyris
var óumflýjanleg
Máli sínu til stuðnings lagði trésmiðjan
fram upplýsingar um stöðu lífeyrissjóða.
Þar kom m.a. fram, að við árslok 1990
hafi vantað 260% upp á eignir Lífeyris-
sjóðs byggingamanna svo hann gæti stað-
ið undir heildarskuldbindingum sínum, að
teknu tilliti til framtíðariðgjalda. Sambæri-
leg tala fyrir Lífeyrissjóð málm- og skipa-
smiða hafi verið 185%. Með tilliti til stöð-
unnar í árslok 1990 virtist óumflýjanlegt
að skerða lífeyrisgreiðslur Sam-
einaða lífeyrissjóðsins og „menn-
irnir þrír geti ekki vænst þess að
iðgjaldaframlög þeirra til [Sam-
einaða lífeyrissjóðsins] muni færa
þeim lífeyrisréttindi, sem svara
til andvirðis framlaganna". Þetta sagði
trésmiðjan ólögmæta skerðingu á eignum.
Þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykja-
víkur 3. mars 1995 var niðurstaða dómar-
ans, Eggerts Óskarssonar, að trésmiðjan
skyldi greiða iðgjöldin til Sameinaða lífeyr-
issjóðsins. Rökin voru þau, að lög 55/1980
kvæðu á um skyldu til greiðslu í lífeyris-
sjóði og mennirnir þrír væru launamenn í
skilningi ákvæðisins, þeir hefðu áður átt
aðild að Lífeyrissjóði byggingamanna í
samræmi við iðn sína og aðild þeirra hefði
ekki breyst þegar Sameinaði lífeyrissjóður-
inn tók við réttindum og skyldum Lífeyris-
sjóðs byggingamanna.
Takmörkun umráða
en ekki eignarnám
Um vísan trésmiðjunnar til ákvæða
stjórnarskrár og mannréttindasáttmála
sagði, að sú skylda, sem lögð væri á laun-
þega og þá sem hefðu með höndum sjálf-
stæða starfsemi til að afla sér lífeyrisrétt-
inda með hluta launa sinna, fæli
í sér almenna takmörkun á
eignarumráðum, en ekki eign-
arnám. Takmörkunin væri lög-
bundin og legðist jafnt á þá sem
hún tæki til og eins væri ástatt
um og menn áynnu sér jafnfrámt sérstök
réttindi. Lagaákvæðin samrýmdust því
grundvallarreglum um friðhelgi eignarrétt-
arins og brytu ekki í bága við stjórnar-
skrá, þótt hún væri skýrð í samræmi við
mannréttindasáttmálann. Þá yrði ekki á
það fallist að óvissa um getu lífeyrissjóðs
til að greiða lífeyri í samræmi við framlög
sjóðsfélaga leiddi tii þess að um ólögmæta
skerðingu á eignum væri að ræða, sem
bryti í bága við stjórnarskrá.
Um þá röksemd, að brotið væri gegn
félagafrelsi með skylduaðild að lífeyrissjóð-
um sagði héraðsdómur, að í greinargerð
með frumvarpi til laga 55/1980 hafi kom-
ið fram að við setningu laga um eftirlaun
aldraðra hafi verið gert ráð fyrir að nauð-
synlegt væri að setja í lög ákvæði um
skylduaðild að lífeyrissjóðum. Tilgangur
lagasetningarinnar hefði verið að tryggja
að allir starfandi menn bæru á sama hátt
kostnað af lífeyristryggingum.
Héraðsdómur sagði að þegar þessi til-
gangur laganna væri virtur og þeir al-
mannahagsmunir, sem að baki
væru, þá yrði ekki talið að lög-
bundin skylduaðild að lífeyris-
sjóðum væri andstæð ákvæði
stjórnarskrár um félagafrelsi og
það þrátt fyrir að greinin væri
skýrð til samræmis við mannréttindasátt-
málann.
Dómarar Hæstaréttar
ekki á eitt sáttir
Trésmiðjan áfrýjaði til Hæstaréttar, þar
sem dómur féll í september í fyrra, en
dómararnir voru ekki á eitt sáttir. Harald-
ur Henrysson, Guðrún Erlendsdóttir og
Hrafn Bragason mynduðu meirihluta
dómsins, en bæði Pétur Kr. Hafstein og
Hjörtur Torfason skiluðu sératkvæðum.
í dómi Hæstaréttar var vitnað til laga
55/1980 og sagði að tilgangur laganna
hafi verið að tryggja að allir vinnandi
menn bæru á sama hátt kostnað af lífeyris-
tryggingum. Skylduaðild að lífeyrissjóði
væri ótvíræð. Tilgangur löggjafarinnar
væri m.a. sá að réttur til lífeyristrygginga
yrði byggður á sem jöfnustum forsendum
og slíkar almennar takmarkanir að lögum
væru ekki andstæðar mannréttindaákvæð-
um stjórnarskrárinnar.
Af hálfu trésmiðjunnar var bent á, að
starfsmennirnir þrír hafi mátt greiða til
hvaða lífeyrissjóðs sem væri, hefði fjár-
málaráðuneytið staðfest reglugerð hans.
Hæstiréttur sagði, að skylduaðild að líf-
eyrissjóði hamlaði því ekki að keypt væru
viðbótarréttindi hjá öðrum sjóði. „Eins og
hér hagar til þykir áfrýjandi [trésmiðjan]
ekki hafa sýnt fram á að sú takmörkun á
valfrelsi starfsmanna um lífeyrissjóð, sem
fólgin er í skylduaðild launþega hans að
stefnda [Sameinaða lífeyrissjóðnum] sam-
kvæmt lögum nr. 55/1980, verði ekki sam-
ræmd áðurgildandi ákvæði stjórnarskrár
um félagafrelsi, sbr. núgildandi ákvæði 2.
mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.
Niðurstaða máls þessa verður sam-
kvæmt framansögðu sú að áfrýjanda beri
að greiða lífeyristillag launþega sinna til
stefnda svo sem krafist er,“ segir í dómi
Hæstaréttar.
Ekki meiri skerðing
en nauðsyn krefur
Pétur Kr. Hafstein sagði í sératkvæði
sínu að skylduaðild að lífeyrissjóðum fæli
í sér skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti, sem
væri almenn og réttlættist af ríkum al-
mannahagsmunum og bryti ekki í bága
við stjórnarskrá. Það kynni að vera, að
hagsmunum ákveðinna sjóða yrði teflt í
tvísýnu, ef sjóðsfélagar mættu ganga úr
þeim að vild og velja sér aðra. Á hitt væri
að líta, að skerðing á félagafrelsi mætti
ekki vera meiri en brýnasta nauðsyn krefði.
„Þess vegna er ekki unnt að fallast á, að
nauðsyn beri til þess í lýðræðislegu þjóðfé-
lagi að takmarka rétt manna til að velja
milli lífeyrissjóða, sem eru löghæfir til að
ná markmiðum laga nr. 55/1980 um
starfskjör og skyldutryggingu lífeyrisrétt-
inda,“ sagði Pétur og vildi sýkna trésmiðj-
una af kröfum lífeyrissjóðsins.
Atvinnurekendur
fremur en launþegar
Hjörtur Torfason skilaði einnig sérat-
kvæði. Hann sagði nær að líta á starfsmenn
trésmiðjunnar sem atvinnurekendur en eig-
inlega launþega. Hjörtur benti á, að í lögum
55/1980 hafi verið að finna viðurkenningu
þess, að ekki yrði öllum skipað sjálfkrafa
í sjóði af umræddu tagi. Nokkuð hafi losn-
að um starfsgreinatengsl lífeyrissjóða frá
því lögin voru sett, sjóðir verið sameinaðir
og í reglugerðum sumra gert ráð fyrir að
menn gætu hafnað aðild að einum, væru
þeir í öðrum sambærilegum. Samkvæmt
viðhorfi Sameinaða lífeyrissjóðsins hefðu
mennirnir þrír getað nýtt sér slíkt ákvæði,
en innganga þeirra í frjálsan séreignarsjóð
væri ekki lögmætt tilefni viðskilnaðar.
Hjörtur sagði ekki hægt að fallast á þessi
sjónarmið, þegar litið væri til stöðu mann-
anna og hagsmuna lífeyrissjóðsins og félaga
hans. Hann benti á að Frjálsi lífeyrissjóður-
inn nyti einnig viðurkenningar að lögum
og vildi að þessu gefnu, og með vísan til
forsendna í atkvæði Péturs, sýkna trésmiðj-
una af kröfu lífeyrissjóðsins.
Kært til
Strassborgar
Trésmiðjan K-14 var ósátt við niðurstöðu
meirihluta Hæstaréttar og lög-
maður hennar, Erla S. Árnadóttir
hæstaréttarlögmaður, kærði nið-
urstöðuna til Mannréttindanefndar
Evrópu hinn 17. mars sl. Nefndin
ákveður hvort málið verður tekið
til efnislegrar meðferðar hjá Mannréttinda-
dómstólnum í Strassborg. Afgreiðsla nefnd-
arinnar getur tekið allt að tvö ár og fari
málið til dómstólsins getur þurft að bíða í
nokkra mánuði til viðbótar eftir úrskurði
hans.
Ekki er tímabært að velta um of vöngum
yfir hugsanlegri niðurstöðu nefndarinnar
og dómstólsins. Þó er ljóst, að hafni Mann-
réttindadómstóllinn túlkun íslenskra dóm-
ara og telji að skylduaðild að einstökum
lífeyrissjóðum gangi gegn ákvæðum mann-
réttindasáttmála Evrópu hefur það í för
með sér að launþegar hér á landi geta val-
ið til hvaða lífeyrissjóðs þeir greiða lögbund-
in iðgjöld sín.
Félagafrelsi
og friðhelgi
eignarréttar
Takmarkanir
eru ekki gegn
stjórnarskrá