Morgunblaðið - 17.03.2000, Side 32
32 FÖSTUDAGUR17. MARS 2000
MORGUNBLAÐIÐ
LISTIR
Heimsborgari
Danska skáldið Henrik Nordbrandt er
þekktur fyrir að vilja dvelja sem minnst á
heimaslóðum. Hann kann betur við sig á
ferðinni eins og Sigrún Davíðsdóttir heyrði
er hún ræddi við hann nýlega og arabíska er
honum ótæmandi viðfangsefni.
Morgunblaðið/Sigrún Davíðs.
Henrik Nordbrandt
ANDLIT hans er ekki markað
miðsvetrargrámanum, sem situr á
andliti okkar hinna hér í norðrinu,
heldur er hann sólbrenndur og úti-
tekinn, enda aðeins í stuttri ferð á
heimaslóðum. Þær megna aðeins að
draga hann heim á stundum. Kuld-
inn á ekki við hann og hefur aldrei
átt frá því hann var strákur. Obban-
um af árinu ver hann í suðlægri
hlýju en þó ekki svo langt að það
kosti hann langa flugferð því tíma-
munur langferða fer ekki vel í hann,
segir hann.
Danska skáldið Henrik Nord-
brandt hefur verið hálfgerð flökku-
kind allt sitt líf en kannski er heims-
borgaraímyndin nær lagi. Hann er
einstaklega vel klæddur án þess að
berast á og tekur sig vel út á barn-
um á D’Angleterre, þótt það sé ann-
ars ekki þar sem hann heldur til í
stopulum Hafnarheimsóknum.
Henrik Nordbrandt var síðast
fréttaefni fyrir skömmu er hann tók
á móti bókmenntaverðlaunum
Norðurlandaráðs. Heima fyrir er
hann vel þekktur eftir að hafa gefið
út fjöldann allan af ljóðabókum,
ferðalýsingar, barnabækur og mat-
reiðslubók. Hann er sögumaður af
guðs náð en þegar talinu víkur að
eigin verkum verður hann jafn-
orðknappur og ljóðin hans eru.
„Þetta er svo einfalt, það er ekkert
meira um þau að segja,“ segir hann.
Gat ekki gerst
bankaræningi
„Ekki gat ég farið að gerast bank-
aræningi,“ segir Henrik Nord-
brandt með brosglampa í augunum
eins og svo oft þegar hann talar.
Svarið fellur þegar talinu víkur að
því af hverju hann hafí farið að
skrifa ljóð. „Hvað í ósköpunum ætti
ég að gera ef ekki að skrifa? Eg
hafði ekki áhuga á fastri vinnu, þar
sem ég þyrfti að fara á fætur á
ákveðnum tíma og mæta í vinnuna á
ákveðnum tíma, þótt það væri samt
ekki ástæðan fyrir því að ég fór að
skrifa.
Ég byrjaði að skrifa þegar ég var
um sautján ára og þegar ég var nít-
ján eða tuttugu hafði ég náð ein-
hverjum tökum á skriftunum, en
hafði reyndar engar áætlanir um
hvað ég ætlaði að gera. Ég teiknaði
þegar ég var krakki, svo einhverja
þörf hef ég haft til að tjá mig, mót-
aði í leir og hafði áhuga á skúlptúr,
en skriftirnar urðu ofan á.
Fornleifafræði var annað áhuga-
mál. Frá því ég var krakki hef ég
grafið eftir fornminjum og fundið
þær í tonnatali. Eitthvað af því sem
ég hef fundið hefur lent á Nat-
ionalmuseet. Það er enn þá þannig
að ef ég er á ferð, sérstaklega á
haustin, get ég fundið hluti úti á
ökrunum.“
En það voru samt ljóðin, sem
urðu ofan á?
„Já, það æxlaðist þannig, kom
hálfvegis af sjálfu sér og fyrir tilvilj-
un. Ég var svo heppinn að ég hafði
sent inn ljóð til Gyldendals þegar ég
var tvítugur og fékk þau gefin út.
Þegar ég svo fékk þriggja ára lista-
mannastyrk, sem á þeim tíma var
hægt að lifa á, ákvað ég að fara í
burtu og setjast að þar sem væri
ódýrara að lifa, svo ég þyrfti ekki að
stunda alls konar vinnu með skrift-
unum.
Ég hafði reyndar fengið ýmiss
konar tilboð um vinnu, en hafði ekki
áhuga á því, heldur hélt til Grikk-
lands. Síðan hef ég haldið áfram að
ferðast. Ég hef ekki alveg áhuga á
hefðbundinni tilveru með fastri
vinnu. Ekki svo að skilja að ég vilji
ekki hafa það fjárhagslega gott, en
ég met bara frelsið mest.
Ég fékk á sínum tíma tilboð um
að vinna við blaðamennsku, en hafði
þá ekki áhuga. Áhugann hef ég
fengið síðar og þá fengist við slík
skrif. Það sem ég hef mestan áhuga
á að skrifa um er stjórnmálaástand-
ið í löndum, þar sem ég þekki til og
tala málið. Skrifum um bókmenntir
kem ég ekki nálægt."
Og svo hefurðu skrifað mat-
reiðslubók?
„Já, það kom til af því að ég hef
áhuga á mat og hef lagt mig eftir
matargerð þar sem ég hef verið, til
dæmis á Italíu og í Tyrklandi. Það
var handhægt að skrifa matreiðslu-
bók frá Tyrklandi, því þar hafði ég
góða konu sem eldaði handa mér og
af henni lærði ég mikið.“
Ferðalög, komur og brottfarir, er
áberandi efni í ljóðum þínum, rétt
eins og þú hefur lifað. Af hverju
skiptir þetta þigsvona miklu máli?
„Það skiptir mig máli af því það er
þetta, sem ég hef gert. Ég hef
lengst búið sex ár á sama stað og
það var þegar ég var barn. En þetta
er annars tilviljunum háð.“
En þetta eru líka tilviljanir, sem
þú leitar uppi?
„Já, að sjálfsögðu. Ég kann vel
við mig í Tyrklandi, því þar eymir
enn eftir af hirðingjamenningu.
Fólk flytur mikið og þar finnst mér
ég heima. Það er ekki eins og hér í
Danmörku, þar sem fólk er fastgró-
ið. En af hverju það skiptir mig svo
miklu máli að vera á ferðinni veit ég
ekki.
Það hefur kannski eitthvað að
gera með að ég þarf á tilbreytingu
að halda, er hræddur við að verða
samgróinn og samdauna, nánast
sjúkur af tilhugsuninni um að breyt-
ast ekki. Það liggur reyndar ekki
fyrir mér að vera mjög fágaður, en
með fáguðum hætti mætti hugsa sér
að breytingar eru lífið, en allt annað
er dauði.“
Og þér hefur þá tekist að halda
þér gangandi?
„Eg get alla vega ekki ímyndað
mér neitt annað líf en það sem ég
hef. Ekki svo að skilja að ég sjái
ekki eftir neinu. Auðvitað hef ég
gert alls konar axarsköft eins og
aðrir, en almennt er ég ánægður
með hvernig ég hef hagað lífi mínu.
Það væri þá ekki nema rétt í dag
Ég vaknaði í morgun, fannst ég vera
búinn að fá alveg nóg af verunni hér
í Kaupmannahöfn og vildi helst
pakka og fara, en ég veit bara ekki
hvert ég ætti að fara einmitt núna.
Ég hef aðeins hugleitt að fá mér
sumarhús í Danmörku, en get samt
ekki alveg hugsað mér að bindast
einhverjum stað hér. Það er líka alls
staðar þessi flatneskja hér.“
Pað er einkum í Evrópu og við
Miðjarðarhafið, sem þú hefur dval-
ið. Toga fjarlægari lönd ekki íþig?
„Marokkó er einasta landið utan
Evrópu, sem ég hef dvalið í um hríð.
Mig langar til Mexíkó, en vandinn
er að ég er í mánuð að ná mér þegar
ég flýg langt og yfir mörg tímabelti,
svo það dregur úr mér löngunina.
Ég hef velt fyrir mér að koma við á
Islandi til að draga úr tímamunin-
um, en ég er ekki hrifinn af norð-
lægum slóðum. Hef Danmörku ef ég
þarf á þeim að halda.
Undanfarin ár hef ég siglt mikið
og hef jafnvel hugleitt að sigla yfir
Atlantshafið. Það yrði ég þó að gera
sjálfur, því ég er ekki beint sú
manngerð sem nenni að sigla á skipi
og borða með skipstjóranum á
hverju kvöldi...“
I ljóðunum gætir á stundum léttis
þegar farið er frá Danmörku og út.
Er það tilfínningin, sem þú hefur
þegar þú yfírgefur heimalandið?
„Já, en þessi tilfinning er ekki að-
eins tengd því að yfirgefa heima-
landið, heldur almennt þegar ég hef
verið lengi á einhverjum stað. Það
að halda áfram, fara, er í mínum
huga kjarninn í því að eiga gott líf.“
Hvað felst fieira í því að eiga gott
líf?
„Tja, því hef ég eiginlega aldrei
velt fyrir mér. Ætli það sé ekki að
hafa næg efni, eins og það er fyrir
flestum öðrum, geta borðað góðan
mat, hafa það almennilegt. Það er
ekki gott líf að búa í fátækt í fátæku
landi. Hvað síðan kemur þar á eftir
má svo velta fyrir sér. í viðbót við
þetta er ástin, að læra eitthvað nýtt,
öðlast skilning á samhengi hlut-
anna.
Slæmt líf í mínum huga væri að
búa í einbýlishúsi í fínu hverfi og
vinna fyrir húsinu og bílnum, gera
það sama á hverjum degi. Það væri
slæmt líf í mínum huga, alveg án til-
lits til hversu gott það væri annars.
Svo finnst mér ekki gott að vera í
kulda.“
Annað efni, sem oft kemur upp í
ljóðunum er ástin og þar er enginn
fagnaðarsöngur á ferðinni.
„Ég skrifa um efni, sem fanga
huga minn. Og ef maður bara höndl-
ar ástina þá er heldur ekkert að
skrifa um, ekki satt Þannig er það
víst oftast. Það er venjan að skrifa
um það slæma.“
Viðleitnin til að breyta
Hefurðu eitthvert sérstakt vinnu-
lag?
„Nei, það á ég ekki til. Ég bíð
bara eftir að mér detti eitthvað í
hug, en það þýðir ekki að ég sitji og
bíði eftir því. Orðin koma þegar þau
koma. Það koma einhver orð á einn
eða annan hátt. Ég reyni að skrifa
sem minnst niður fyrr en ég hef
þetta nokkurn veginn í huga.
Það er misjafnt hvað vekur orðin
upp í huga mér. Stundum eru það
einhver önnur orð, stundum eitt-
hvað sem ég sé.“
Formið á ljóðum þínum er mjög
misjafnt. Er það liður í viðleitni til
að breyta stöðugt til?
„Já, ég þreifa fyrir mér, prófa
mig áfram. Það er það sem er
spennandi fyrir mig og svo helst að
læra eitthvað nýtt. Ég hef lært allt
mögulegt og hef áhuga á næstum
öllu, þótt ég hafi ekki lagt stund á
neitt skipulagt nám, nema mála-
nám.
Kinversku lærði ég á sínum tíma,
en hef nú hamingjusamlega gleymt
því mesta, nema að táknin á mat-
seðlum kínverskra veitingahúsa eni
mér enn kunnugleg. Svo hef ég lært
tyrknesku, arabísku, ítölsku og
spænsku. Persnesku lærði ég í snar-
hasti á 1 1/2 mánuði, en var líka
fljótur að gleyma henni.“
Þú hefur skrifað um kynni þín af
arabísku. Hvað er svona heillandi
við það mál?
„Arabískan er endalaust við-
fangsefni. Það eru 3000 orð bara
fyrir kameldýr. Það er viðtekinn
brandari meðal arabískufræðinga
að það sé ekki hægt að skilja arab-
ískan texta nema að vita fyrirfram
hvað hann sé um og það er nokkuð
til í því. Þeir skipta sjálfir sögnun-
um í heilbrigðar og sjúkar sagnir,
þar sem þær sjúku eru óendanlega
flóknar.
Það er ekki hægt að slá orðum
upp nema að kunna málfræðina og
það tekui1 svona tvö ár að læra hana.
Arabíska er bæði heillandi og
óskaplega erfitt mál.“
Henrik Nordbrandt er fæddur
1945. Fyrsta bókin hans, Digte, kom
út 1966 og síðan hefur hver bókin
rekið aðra. Ein þekktasta ljóðabók
hans er „Opbrud og ankomster",
sem kom út 1974. Bókmenntaverð-
laun Norðurlandaráðs hlaut Nord-
brandt í ár, í fjórða skiptið sem
hann var tilnefndur, fyrir ljóðabók-
ina „Drommebroer". Alls hefur
hann gefið út um tuttugu ljóðabæk-
ur, auk tveggja ritgerðasafna,
tveggja barnabóka og dagbókar frá
Tyrklandi, auk matreiðslubókar.
Nordbrandt hefur hlotið flestar þær
viðurkenningar og verðlaun sem
dönskum skáldum getur hlotnast.
Sýningum
lýkur
Hafnarborg
Tveimur sýningum lýkur í
Hafnarborg á sunnudag. Horn-
in íþyngja ekki kúnni er sýning
mannfræðingsins Kristínar
Loftsdóttur á ljósmyndum og
hlutum frá WoDaaBee-hirð-
ingjum í Niger. Kristín bjó
meðal þeirra í tvö ár meðan hún
vann að vettvangsrannsókn
sinni.
Pétur Gautur Svavarsson
sýnir málverk og er þetta hans
sjötta einkasýning.
Sýningarnar eru opnar dag-
lega frá kl. 12-18, nema þriðju-
daga.
Gleraugnaverslunin Sjónarhóll
wwiv.sjonarholl. is
Afmælistónleikar Drengjakórs Laugarneskirkju
AFMÆLISTÓNLEIKAR Drengja-
kórs Laugarneskirkju verða í
Langholtskirkju á morgun, laug-
ardag, kl. 15, en í ár eru 10 ár
frá stofnun kórsins. Með kórnum,
og Deild eldri félaga, koma fram
einsöngvarar úr röðutn kórins
svo og Jónas Guðmundsson tenór
og Þóra Einarsdóttir sópran-
söngkona, sem kemur sérstaklega
frá Englandi til að leggja kórnum
lið, auk hljóðfæraleikara.
Fyrst og fremst kirkjukór
Drengjakórinn er fyrst og
fremst kirkjukór, en flytur þó
bæði trúarlega og veraldlega
tónlist. Drengirnir syngja flest
lög í þriggja radda útsetningum,
þ.e. raddskipunina 1. sópran, 2.
sópran og altrödd. En þegar
Deild eldri félaga syngur með
kórnum, syngur hann í fjórum
röddum og verður til blandaður
kór.
Drengjakór Laugameskirkju og deild eldri félaga ásamt stjórnanda sínum, Friðriki S. Kristinssyni. Miðasala er við innganginn.