Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Blaðsíða 43
KÍRKJA FRÁ SÍÐMIÐÖLDUM AÐ VARMÁ
47
víkur og telur það hafa fallið nálægt árinu 1485.10 Væri freistandi
að álíta, að það sé þetta lag sem fundizt hafi að Varmá ef vitnisburð-
ur fornleifanna mælti því ekki eindregið í gegn. Öskulagið hlýtur
að vera yngra. Séu sagnfræðilegar heimildir um Kötlugos athugaðar
með fornleifarnar að vegvísi kemst maður vart hjá því að álykta,
að hið fundna öskulag muni stafa af Kötlugosi 1721. Fellur þá allt
í ljúfa löð, fornleifar og ritaðar heimildir. Árið 1721 féll aska úr
Kötlu í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, á sjó frá Útskálum í Garði suð-
ur og ekki síður í Nesi á Seltjarnarnesi.17 Má því nærri geta að
Mosfellssveitin hafi ekki orðið útundan. Sé þetta rétt tímasetning,
sem greinarhöfundi virðist vafalaus, hefur smiðja verið reist á hinu
rannsakaða svæði skömmu eftir árið 1721.
Má nú draga saman höfuðárangur þessarar rannsóknar. Af bygg-
ingatæknilegum ástæðum hafa hús verið byggð ofan í tóftir eldri
húsa, sem þannig marka þeim stað. Elzta húsatóft sem fannst er
undan lítilli kirkju úr kaþólsku og hefur verið gröftur að henni.
Þar er líkast til vallgróin tóft 1721, en skömmu eftir það er reist
smiðja á staðnum. Á nítjándu öld virðist hún vera fallinn og er þá
litlum kofa fundinn staður á tóftinni. Af rituðum heimildum má
skýra þessa mynd frekar, nálægt miðri f jórtándu öld er kirkjan komin
á staðinn, hætt hefur verið messuhaldi þar á árunum 1554—84. Af
fundnum hlutaleifum eru leirkersbrot meðal hins merkasta. Þau
eru dönsk og líklegast frá byrjun átjándu aldar. Þau fundust í
smiðjutóftinni og gefa tilefni til tímasetningar eldfjallaöskulags með
hjálp ritaðra heimilda til ársins 1721. Má segja að með rannsókn
þessari komi fram örlítið brot af Islandssögunni, mögnun kirkna
og klaustra á síðmiðöldum og afhroð þeirra um siðaskipti fyrir
konungsvaldinu. 1 smiðjunni ofan á kirkjutóftinni voru brot úr leir-
kerum framleiddum í kóngsins Kaupinhafn.
Ég vil þakka samstarfsmanni mínum við rannsóknina, Helga
Jónssyni fornfræðastúdent. Ennfremur Þór Magnússyni þjóðminja-
verði fyrir hina mikilvægu rannsóknaraðstöðu og aðstoð og uppörv-
un við verkið. Gísla Gestssyni safnverði þakka ég fyrir ýmsa tækni-
lega aðstoð. Síðast en ekki sízt þakka ég hinum mörgu Mosfellssveit-
ungum, sem veittu rannsókninni brautargengi með margháttaðri
fyrirgreiðslu og áhuga.
1(1 Sigurður Þórarinsson (1967) bls. 63.
17 Safn til sögu íslands IV bls. 225—226.