Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Blaðsíða 93
SUMARDAGURlNN FYRSTI
97
Lóan er sá vorfugl, sem skoðanir eru skiptastar um. Ýmist þykir
boða gott vor eða hart, ef snemma heyrist í henni. Það virðist ríkj-
andi skoðun (9:2) á Miðvesturlandi, eða í Borgarfirði, á Snæfells-
nesi og við Breiðafjörð, að uggvænlegt sé og boði vorkulda, ef heið-
lóan kemur snemma. En strax og kemur norður í Arnarfjörð, er hún
orðin góðs viti og virðist vera það á þeim slóðum að svo miklu leyti
sem Vestfirðingar taka mark á farfuglum, en það sýnist í minna
lagi. Þegar svo kemur austur í Húnavatnssýslur, er lóan orðin hinn
mesti aufúsugestur og er hvarvetna hinn bezti vorboði, þar til kemur
suður í Breiðdal. Þar þykir hún aftur orðin heldur lélegur veður-
fræðingur, sem láti glepjast til að koma of snemma. Skoðanir eru
svo nokkuð skiptar um hana suður og vestur þaðan. Hún er heldur
vel séð í Öræfum og Suðursveit, en illa í Vestur-Skaftafellssýslu,
svo og í Árnes- og Rangárvallasýslu. Athyglisverðast er, hversu
einróma menn fagna komu lóunnar á Norður- og Austurlandi. Að-
eins tveir gikkir í Suður-Þingeyjarsýslu segja suma hafa haft ótrú
á því, að farfuglar almennt kæmu snemma. Þá bregður því og fyrir,
að taka beri fremur mark á því, hvernig lóan hagi sér, eftir að hún
er komin; hvort hún sé hnipin og vesaldarleg, þögul eða fjörug og
syngi mikið.
Allmargir (22) hafa tekið mark á atferli skordýra og orma.
Mest hafa menn tekið eftir flugum, einkum fiskiflugu, mykjuflugu
og hunangsflugu, og þykja þær næstum hvarvetna heldur öruggur
vorboði. Á tveim stöðum, Hróarstungu og Suðursveit, er þess þó
getið, að sumum hafi verið illa við, ef fiskiflugur voru snemma á
ferli, en úr báðum héröðum er einnig að finna gagnstæða skoðun.
Hunangsflugunnar er einungis getið í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum
og Borgarfirði eystra. Kóngulær og ánamaðkar eru stöku sinnum
nefnd í svörum frá norðurhluta landsins, og þykir koma hvors-
tveggja fyrir góðu. Rétt aðeins er getið um járnsmið og jötunuxa.
Lítið mark virðist tekið á háttum spendýra, nema þá helzt hrossa.
Sagt var við ísafjarðardjúp, að hestar veltu af sér vetrinum, ef
þeir veltu sér meira að vorlagi en endranær. Þótti það því vita á
gott. I Skagafirði þótti það benda til góðs sumars, ef stóðhi’oss
gengu snemma úr vindhárum og hryssur fóru snemma í hestalæti.
Allnokkuð hafa menn tekið eftir gróðri jarðar, og eru dómar um
það mjög á sömu bókina lærðir: skammt varir góugróður; það
fölnar í maí, sem grær í apríl o. s. frv. Það þótti semsé ekki góðs
viti, ef jörð grænkaði fljótt, t. d. snemma á einmánuði, eða blóm
sprungu út fyrir sumarmál. Var þá talið, að fyrsta gróðurnálin
7