Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Blaðsíða 112
116
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
og því ákjósanlegur til slíkrar könnunar, en þess finnst einnig getið,
að hún hafi ekki endilega verið bundin við þann dag.
Þegar hætt var að færa frá, varð þessi athöfn ónauðsynleg, og
tiltölulega fáar hafa haldið henni við af eintómum vana. Misjafnt
var eftir heimilum og héröðum, hversu lengi fráfærur héldust við,
og vart hefur sérhver húsfreyja verið svona fyrirhyggjusöm. Því
er næsta eðlilegt, að sumir muni þetta glöggt, aðrir hafi heyrt þess
getið, en flestir e. t. v. alls ekki.
Nú er það svo, að á sumum stöðum átti þessi spurning naumast
við. Á Suður- og Vesturlandi og reyndar mun víðar var það algengt,
að húsbóndinn og allir vinnufærir karlmenn færu á vetrarvertíð
fram til 11. maí, og sá þá kvenfólkið um gegningar, svo að einatt
var lítil nýlunda fyrir húsfreyjuna að koma í fjárhúsin. E. t. v. er
þetta ástæðan til þess, að á Vesturlandi er þess nokkrum sinnum
getið, að allt heimilisfólkið færi í húsin til að líta á bústofninn á
þessum degi. Á stórbýlum, þar sem bændur höfðu sérstakan sauða-
mann, gat eins verið, að bóndi færi með honum að líta á féð eins
og frúin. Þessa er a. m. k. tvisvar getið í Eyjafirði. Þá gat það
stundum borið við, t. d. í þíðviðri Öræfasveitar, að búið væri að
sleppa öllu fé á sumardaginn fyrsta.
Að lokum skal nefnd ein heimild úr Eyjafirði, sem getur þess,
að fyrir alla muni væri reynt að fara í selaróður á þessum degi.
Annaðhvort fengist selur þá eða aldrei.
LEIKIR OG SAMKOMUR
Næstum alls staðar á landinu er það siður, að börn fari öðrum
dögum fremur í leiki á sumardaginn fyrsta. Að sjálfsögðu léku þau
sér aðra daga eða kvöld, en nú var þeim í fyrsta lagi ekki haldið
til vinnu, og í öðru lagi komu börn af nágrannabæjum saman til
útileika, ef veður var þesslegt. Var þá unnt að taka til leika, sem
kröfðust nokkurs mannfjölda, svo að vel væri. í vonzkuveðri var
víða farið í innileiki, jafnvel í hálftómum hlöðum, þótt slíkt væri
sjaldan vinsælt af húsbændum. Ekki þykir ástæða til að nafngreina
eða lýsa öllum þeim leikjum, sem taldir eru upp í svörum, þar sem
slíkt er efni í aðra grein og enginn þessara leikja er sérstaklega
bundinn sumardeginum fyrsta. En flest eru þetta eltingaleikir líkt
og skessuleikur, hafnarleikur, skollaleikur, stórfiskaleikur, útilegu-