Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Blaðsíða 26
3Ó
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINð
Skikkjan er einnig tekin saman í hálsinn, en hún virðist vera hettu-
laus; undir skikkjunni er skósíður kyrtill. Hægri hönd Jóhannesar
sést ekki, en með hinni vinstri heldur hann klæðunum að sér. Sé
það rétt að skikkjan sé hettulaus, sést undir geislabaugnum hár, sem
postulinn ber þverskorið yfir enni, en það hylur eyrun. Hann er
með styttra skegg en Kristur, en annars er það eins. Það er athyglis-
vert að Jóhannes heldur ekki á bók, svo sem þó er venja.
Eyrún Guðjónsdóttir, kona Emils Ásgeirssonar, eignaðist spjaldið
eftir móður sína, Guðrúnu Erlendsdóttur, en nú veit enginn hvaðan
hún fékk það. Guðrún var fædd á Brjánsstöðum í Grímsnesi árið
1863 og bjó í Miðfelli og Gröf í Hrunamannahreppi. Dætur hennar
muna að hún var vön að geyma spjaldið undir koddanum sínum.
Saga spjaldsins, sú sem hér hefir verið sögð, dugir skammt til að
ákveða aldur þess, því að útlit efnisins í því sem og yfirbragð út-
skurðarins benda til miklu hærra aldurs en frá síðari hluta 19. aldar.
Satt að segja virðist þetta helzt vera paxspjald, en slík spjöld voru
notuð við kaþólska messu (þegar safnaðarfólk kyssti á spjaldið, sagði
presturinn „pax vobiscum“, þ. e. friður sé með yður), en þó er þetta
alls ekki víst. Hafa ber í huga að spjaldið er viðvaningslega skorið
og er því minna að marka stíl þess, en þó skal freistað að bera mynd-
irnar á því saman við myndir í Þjóðminjasafninu. Fótstaða Krists
er svipuð því, sem er á nokkrum krossum í Þjóðminjasafni, flestum
frá kaþólskri tíð, líklega vegna þess að myndskerarnir ráða ekki við
að sýna eðlilega krosslagða fætur. Sama máli gegnir um kórónuna,
sem minnir fremur á snúinn kaðal en þyrna, en þvílíkar kórónur
eru á nokkrum Kristsmyndum í safninu. Ekki er því að neita að mik-
ill svipur er með þessu spjaldi og nokkrum atriðum á paxspjaldi( ?)
nr. 2444 frá Breiðabólstað í Fljótshlíð, en það er talið frá um 1400,
skorið í tönn. Þá ber að nefna nr. 14413, þrjár myndir skornar í tré
með góðu handbragði, liklega frá Klyppsstað í Loðmundarfirði, en
óvíst hve gamlar. Það eru Kristur á krossi, María og Jóhannes, og
hafa verið á spjaldi og þá staðið í mynd líkri þeirri á spjaldinu frá
Gröf. Einkum eru Maríumyndirnar líkar, handastellingar þær sömu,
og klæðnaðurinn svo til alveg eins. Ekki er vitað frá hvaða tíma mynd-
ir þessar eru. Það einkenni, sem eftirtektarverðast er á spjaldinu,
skeggtízku Krists og Jóhannesar, hefi ég ekki komið auga á annars
staðar.
Varla getur spjald þetta verið yngra en frá 18. öld og meiri líkur
til að það sé frá kaþólskri tíð, en eldra en frá 14. öld getur það hreint
ekki verið.