Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 02.02.1956, Side 20
76
fjarðar og einnig til Fáskrúðsfjarðar. Svo er vegur um Fjarð-
arheiði til Seyðisfjarðar, og loks hefur vegurinn út Héraðið
austanvert verið framlengdur til Njarðvíkur og Borgarfjarð-
ar. Allt þetta veganet er talandi vottur þess, að greiðar sam-
göngur á landi séu lífsnauðsyn nú á tímum þeim byggðar-
lögum, er heyra saman atvinnulega, félagslega og menning-
arlega.
Engan þarf að undra, þótt ennþá séu í þessu mikla og víða
erfiða vegakerfi nokkrar veilur og tilfinnanlegar gloppur, en
þessar eyður eru mun tilfinnanlegri og hættulegri sem ein-
angruð tilfelli, heldur en meðan flestir bjuggu við líkan
kost. Þeir afskekktu og afskiptu una því ekki til lengdar að
sitja við skarðan hlut. Þeir leita þangað, sem samskiptin eru
meiri og samgöngurnar örari. Hér á eftir verður vikið
nokkuð að slíkum samgönguveilum, er varða tvö byggðar-
lög á Austurlandi. Þessi byggðarlög eru þó um flest ólík.
Norðan Fljótsdalshéraðs eru tveir nyrztu hreppar Norður-
Múlasýslu, Vopnafjörður og Skeggjastaðahreppur. Verður
hér eigi rætt sérstaklega um þann síðartalda, sem mun bráð-
lega fá sæmilegt vegarsamband við Vopnafjörð, ef hann
hefur það ekki nú þegar.
Milli Vopnafjarðar og Héraðs skilur fjallgarður allmikill,
er fer þó lækkandi og mjókkandi til norðausturs og gengur
í sjó fram norðan Héraðsflóa. Milli Héraðs og Vopnafjarðar
voru lengi mikil samskipti og viðskipti, og voru tvær leiðir
mest farnar. Smjörvatnsheiði upp frá Fossvöllum, sem er
all-langur og erfiður fjallvegur, og Hellisheiði, sem er út
undir Héraðsflóa, stuttur fjallvegur og ekki ýkja hár. Um
þennan fjallveg hefur póstleið lengi legið, og um þennan
fjallveg fóru bændur af Úthéraði norðanverðu verzlunar-
ferðir á öllum tímum árs til Vopnafjarðar. Þriðja leiðin til
Vopnafjarðar var Tunguheiði, og var hún farin af þeim, er
bjuggu í Jökuldalsheiðinni og á upphluta Jökuldals.