Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 02.02.1956, Síða 70
12G
Engum skógræktarmanni, sem fæst við að ala upp plönt-
ur af fræi, kemur annað til hugar en að bera áburð í sáð-
reitina, sem notaðir eru til uppeldis ár eftir ár, og yfirleitt
að búa ungviðinu í uppeldisreitunum sem bezt kjör. En svo
eru plönturnar, ungar að aldri, teknar úr frjómold uppeldis-
reitanna og þeim plantað í óræktaða jörð, oftar en hitt
ófrjóa jörð, samanborið við fyrri vaxtarstað.
Prófessor Björkman við Skógræktarskólann í Svíþjóð
bendir á, hve öfugt þetta sé við hið æskilega og hve mikils-
vert sé að reyna að jafna sem mest lífskjör hinna ungu trjá-
plantna, annars vegar í uppeldisreitunum og hins vegar á
vaxtarstaðnum, þar sem þær eru gróðursettar til frambúðar.
Þetta ætti að vera augljóst mál. Helzta ráðið til úrbóta er að
bera á nýgræðinginn heppilegan áburð, svo að hann hafi
nóg að bíta og brenna fyrstu árin eftir gróðursetninguna.
Tilraunir og fræðsla.
Þrátt fyrir vöntun á glöggri vitneskju um þessa hluti, og
þrátt fyrir alla vöntun á leiðbeiningum um þetta atriði, eru
þó nokkuð margir áhugamenn um trjárækt, sem hafa tekið
það upp hjá sér sjálfum að bera áburð að trjánum sínum, og
með góðum árangri. Þetta þurfa allir, sem við trjárækt fást,
að gera og þetta þurfa allir að læra og gera, á réttan og
heppilegan hátt. Þess vegna er það aðkallandi og þolir enga
bið að Skógrækt ríkisins fari að gera raunhæfar tilraunir
(samanburðartilraunir) með áburðarmagn og áburðarteg-
undir við skóggræðslu. Tilraunir með að bera á ungskógana,
sem verið er að rækta. Þetta er eitt mesta vandamálið og eitt
allra þýðingarmesta atriðið af öllu því, sem gera þarf í skóg-
rækt um þessar mundir. En þetta er ekki meira vandamál en
svo, að lærðu skógræktarmönnunum á að vera vorkunnar-
laust að leysa það, til mikillar hamingju fyrir alla skógrækt
í landinu.
Önnur grein hins sama efnis, og alveg hliðstæð, er að átta