Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.07.1992, Blaðsíða 35
SR. MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR 1893
35
Allt fólk leit upp og starði á þennan stóra „Grím meðhjálpara", og margir
gripu í vasann og réttu meiri eða minni skerf að Greenwood. Sumir brostu
eða glottu og hreyfðu sig ekki, en fleiri voru hinir, einkum kvenfólk, sem
gáfu sinn pening. Sömu dæluna lét meðhjálparinn ganga á allri lestinni,
meðan vagnarnir entust, og varð okkur misjafnt vel til. í einum sat ung
kona dáfríð; hún hafði verið í sörnu káetu og ég frá Englandi, kom frá
tveimur börnunt sínum ungum og ætlaði til fundar við bónda sinn, sem
beið hennar á eyjunni Hongkong í Kína; var sú leið mörg þúsund mílur, en
þó var hún jafnan glöð og kát sem ekkert væri um að vera. Hún kallaði á
mig og hvíslaði: „Ég skal gefa mest, en þér lofið mér að sjá barnið, þegar við
komum til Winnipeg." Ég lofaði því. Að lokunt vorum við búnir að fá nál.
50 krónur, sem við færðum móðurinni. Peim skozka þökkuðum við með
hæfilegri biblíugrein; kvaðst hann hafa ærin iðgjöld í samvizku sinni, sem
hann líkti við lampa, er ekki ætti saman nema nafnið, hvernig hann lýsti og
logaði í syndarökkri þessarar veraldar. Greenwood gaf ég stafprik mitt til
menja og hét honum því, að áður en lyki skyldi ég ausa barnið vatni og skíra
það Tomas Greenwood í höfuðið á honum, og það enti ég seinna. Það féll
honurn vel í geð, og síðan kvöddumst við, því þá var kvöld, en um
morguninn komum við til Winnipeg. Sáumst við ekki síðan. En skyldi
einhver landa minna í Albertu, sem þennan mann þekkir, lesa þessar línur,
á hinn sami að ber honum kæra kveðju mína, og eins nafna hans, óvitans
nýfædda á eyðimörkinni."
Sr. Matthías hafði skamma viðdvöl í Winnipeg, hitti þar Jón
Ólafsson og nokkra fleiri landa, en hélt síðan með lest suður til
Chicago, kom þangað 12. júlí. Matthías naut þar einkum fyrir-
greiðslu íslenzks vinafólks, barna Þorvalds Stephensens fyrrum
kaupmanns í Reykjavík, er fluttist til Chicago 1872. Dóttir Þor-
valds, Hólmfríður, gift enskum lækni, Sharpe að nafni, fór með
Matthíasi um sýninguna, og kveðst hann eiga „mest að þakka
hennar tilsögn það lítið ég sá og nam af sýningunni, því hún og
systkini hennar voru oftast með mér“. Það var fyrir hennar
atbeina, að Matthías náði fundi aðalforstjóra sýningarinnar, og
lýsir hann því í ferðapistli, er birtur var í Þjóðólfi 8. september
1893. Hann segir þar svo m.a.:
„Ég kom hingað 12. þ.m. og dvel hér hálfan mánuð. Allt er hér miklu
stórfelldara en ég bjóst við, fyrst vegalengd og allar stærðir, og svo sýningin
— þetta risa- og töfraverk, engu líkara en „þúsund og ein nótt". Til
þjóðfræðaþingsins kom ég of seint — náði í síðasta fundinn; menn flýttu
þeim fundarhöldum, ég hygg sakir hitans (um 100°F.), sem gekk þá daga.
Samt náði ég viðkynningu við nokkra góða menn af þeim flokki og fæ
þeirra fundargerðir. Annars eru hér haldnir alls konar málfundir í
sambandi við „World’s Fair“. Það helzta, sem ég hef afrekað — þótt sumum
kunni að þykja „humbug“ — er það, að ég fyrir sköruglega hjálp frú Sharpe
hér í borginni (Fríðu Stephensen) náði fundi general Davis, forstjóra
heimssýningarinnar. Hann tók okkur ágætavel og lét heila þvögu af