Frjáls verslun - 01.05.1990, Qupperneq 5
RITSTJÓRNARGREIN
GLEYMUM EKKIGRUNDVELLINUM
Enn lifa íslendingar á sjávarútvegi. Ekkert bendir til að
breyting verði á því á næstu árum. Um 70-80% af gjaldeyr-
istekjum af vöruútflutningi okkar eru vegna sölu sjávar-
afurða. Engin breyting hefur orðið á því hlutfalli og þegar
litið er yfir síðustu tíu ár kemur í ljós að gjaldeyristekj-
urnar sveiflast milli ára innan þessara marka.
Ef reist verða stóriðjufyrirtæki hér á landi á næstu
árum, gæti það leitt til þess að hlutfall sjávarafurða í
heildargjaldeyristekjum landsmanna gæti minnkað eitt-
hvað þegar líða tekur að aldamótum því stóriðjufyrirtæk-
in eru ekki reist á skömmum tíma. Þess ber einnig að
gæta að enn hafa engir samningar náðst við útlendinga
um ný stóriðjufyrirtæki og undirbúningur undir bygging-
arframkvæmdir tekur langan tíma jafnvel þó samningar
náist. Það líða því enn allmörg ár þar til von er á einhverri
starfsemi sem munað gæti um í útflutningi Islendinga.
Svo virðist sem íslendingar átti sig stundum ekki á
mikilvægi sjávarútvegsins í verðmætasköpun og gjald-
eyrisöflun þjóðarinnar. Það stafar að einhverju leyti af því
að einungis 14% vinnumarkaðarins fæst við fiskveiðar og
fiskvinnslu og eins blandast það inn í að íbúar höfuðborg-
arsvæðisins eru almennt ekki i daglegri snertingu við
sjávarútveginn — og það er rúmur helmingur þjóðarinn-
ar. Úti á landsbyggðinni áttar fólk sig víðast hvar vel á
gildi sjávarútvegs, enda stendur hann undir nær öllu at-
hafnalífi á stórum svæðum.
Það er oft vakin athygli á því að á höfuðborgarsvæðinu
hugsi menn um lítið annað en selja hvor öðrum vöru og
þjónustu. A þessu svæði munar líka mest um heilbrigðis-
þjónustuna, menntakerfið, bankana, stjórnsýsluna og
ýmsar útblásnar opinberar stofnanir sem fáir vita ná-
kvæmlega hvað aðhafast.
Það er því brýnt að íslendingar geri sér grein fyrir því að
við lifum á sjávarútvegi. Og það ánægjulega er að tekist
hefur að laga sjávarútveg íslendinga að nútímanum með
þeim árangri að honum tekst að standa undir sífellt aukn-
um kröfum þessa eyðslusama þjóðfélags sem við lifum í.
Þó erum við síður en svo að sækja meiri fisk í sjó en áður.
íslenskur sjávarútvegur á engu að síður við gífurleg
vandamál að stríða. Offjárfesting í fiskiskipum og fisk-
vinnslufyrirtækjum veldur þungum búsifjum sem ekki er
séð fyrir endann á. Efnahagsstefna stjórnvalda hefur
einnig leitt til langvarandi taprekstrar í ýmsum greinum
sjávarútvegs með tilheyrandi rekstrarfjárvanda, gjald-
þrotum og skuldasöfnun hinna sem lifað hafa af. Vonandi
horfir nú til betri vegar. Vonandi fara menn að skilja að
önnur atvinnustarfsemi á íslandi er með einum eða öðr-
um hætti háð sjávarútvegi og því getur afkoma fólks og
fyrirtækja ekki orðið hér viðunandi nema þessi grundvall-
aratvinnugrein hafi viðunandi rekstrarskilyrði.
Frjáls verslun fjallar að þessu sinni um markaðsstarf-
semi í Evrópu hjá þremur stærstu útflytjendum íslenskra
sjávarafurða. f þeirri umfjöllun er að finna ýmsar skýring-
ar á því hvernig sjávarútvegi landsmanna hefur tekist að
laga sig að nútímanum og standa undir sífellt meiri kröf-
um. Þó þeir þrír aðilar sem hér er fjallað um séu langfyrir-
ferðarmestir í útflutningi okkar, stunda fjölmargir aðrir
útflutning á íslenskum sjávarafurðum. Ekki er að efa að
þeir hafi einnig lagað vinnubrögð sín að nýjum tíma. En
um vinnubrögð við sölu íslenskra sjávarafurða er að sjálf-
sögðu deilt — eins og flest annað í þessu dvergvaxna
þjóðfélagi okkar.
Ft ^TTfí
L
Stofnuð 1939
Sérrit um viðskipta-, efnahags- og atvinnumál
RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: Helgi Magnússon — RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Valþór Hlöðversson —
AUGLÝSINGASTJÓRAR: Sjöfn Sigurgeirsdóttir og Kristrín Eggertsdóttir — LJÓSMYNDARAR: Grímur Bjamason, Gunnar
Gunnarsson, og Kristján Einarsson — ÚTGEFANDI: Fróði hf. — Tímaritið er gefið út í samvinnu við samtök í verslun og viðskiptum —
SKRIFSTOFA OG AFGREIÐSLA: Ármúli 18, súni 82300, Auglýsingasúni 31661 - RITSTJÓRN: Bfldshöfði 18, súni 685380 -
STJÓRNARFORMAÐUR: Magnús Hreggviðsson — AÐALRITSTJÓRI: Steinar J. Lúðvíksson — FRAMKVÆMDASTJÓRI: Halldóra
Viktorsdóttir - ÁSKRIFTARVERÐ: 2.280 kr. (380 kr. á eintak) - LAUSASÖLUVERÐ: 469 kr. - SETNING, TÖLVUUMBROT,
PRENTUN OG BÓKBAND: G. Ben. prentstofa hf. - LITGREININGAR: Prentmyndastofan hf.
Öll réttindi áskilin varðandi efni og myndir
5