Frjáls verslun - 01.10.1995, Page 5
RITSTJORNARGREIN
AR ARANGURS
Ársins 1995 verður minnst sem árs árangurs í ís-
lensku viðskiptalífi. Það er ekki aðeins að rekstur
margra fyrirtækja hafi batnað heldur er hitt ekki síðra
að hugur sóknar og djörfungar hefur stóreflst. Sífellt
fleiri fyrirtæki blása til dæmis til sóknar á erlendum
vettvangi - og gengur bara vel. Hugur stjórnenda
hvarflar nú út um allar jarðir. Þeir hugsa stórt í við-
skiptum. Það er samdóma álit nokkurra kunnra stjórn-
enda í viðskiptalífinu, sem Frjáls verslun ræðir við á
öðrum stað hér í blaðinu, að árið 1995 hafi einkennst af
aukinni samkeppni og sviptingum. Þess vegna er hin
táknræna mynd ársins af neytendum að njóta góðs af
samkeppninni í formi aukins vöruúrvals og lægra vöru-
verðs. Neytendur eiga fleiri kosti en áður, enda hefur
verðskyn fólks stórlega aukist.
Það er í raun sama hvert litið er á atvinnulífið, grósk-
an blasir alls staðar við. Sérstaklega er áberandi hvað
mörgum smáum íslenskum fyrirtækjum hefur gengið
vel að flytja út þekkingu og hugvit. Það blása sterkir
vindar frelsis og áræðnis, litlir sprotar eru orðnir að
sterkum stofnum sem teygja anga sína víða um heim.
Enn og aftur sannast að einkaframtakið er besti kost-
urinn. Það er krafturinn sem lyftir grettistaki þegar á
reynir.
I ljósi þessa þarf vart að koma á óvart að dómnefnd
Frjálsrar verslunar og Stöðvar 2 útnefnir Össur Krist-
insson, hugvitsmann og aðaleiganda Össurar hf.,
mann ársins 1995 í íslensku viðskiptalífi. Hann hlýtur
þann heiður fyrir að fjytja út íslenskt hugvit ineð fram-
úrskarandi árangri. Össur er feikilega gott dæmi um
lofsvert einkaframtak og hann er góður samnefnari
fyrir útrás íslenskrar þekkingar í viðskiptalífinu.
Fyrirtæki hans hefur opnað dótturfyrirtæki í Banda-
ríkjunum, Englandi og Lúxemborg til að geta stóraukið
viðskipti sín á heimsvísu. Við blasir að opna dótturfyr-
irtæki í Asíu á næstu misserum. Og takið eftir, þetta
eru ekki einhverjir dagdraumar. Vörur Össurar hafa
burði til að sigra heiminn og þess vegna sækir þetta
Iitla fyrirtæki við Hverfisgötuna fram á öllum vígstöðv-
um með stofnun dótturfyrirtækja erlendis. Það ríkir
alþjóðahyggja við Hverfisgötuna.
Það ríkir alþjóðahyggja hjá ótrúlega mörgum fyrir-
tækjum. Stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru herská-
ari en áður og hika ekki við að leggjast í víking, líkt og
fornar hetjur, og herja á markaði. Landamæri eru eng-
in fyrirstaða. Gott dæmi um þetta eru nýleg kaup Sam-
herja á Akureyri á helmingshlut í þýska fyrirtækinu
DFFU í Cuxhaven í Þýskalandi. Einnig gerðu íslenskar
sjávarafurðir mjög athyglisverðan samning við Rússa í
Kamtjaka nýlega.
Áfram er hægt að telja. Fyrirtækið Oz, sem er í eigu
kornungra manna, gerði samning við bandaríska ris-
ann Microsoft. Friðrik Skúlason, sem hannað hefur
forrit til að verjast og vinna á tölvuvírusum, hefur
vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og selur forrit
sín um allan heim. Hið smáa fyrirtæki Silfurtún í
Garðabæ selur vélar, sem framleiða eggjabakka, víða
um heim - og af auknum þunga. Marel hefur í nokkur ár
staðið sig afskaplega vel í sölu hátæknivara á erlendri
grund og á lof skilið.
Það er af nógu að taka um útrás íslenskra fyrirtækja
á árinu 1995, ári árangurs í viðskiptalífinu. Megi árið
1996 ekki aðeins vera gott og farsælt heldur ár enn
meiri árangurs.
rJhllVm
ISSN 1017-3544
Stofnuð 1939
Sérrit um viðskipta-, efnahags- og atvinnumál — 56. árgangur
RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: Jón G. Hauksson — AUGLÝSINGASTJÓRI: Sjöfn Sigurgeirsdóttir —
LJÓSMYNDARI: Bragi Þ. Jósefsson - ÚTGEFANDI: Fróði hf.-SKRIFSTOFA OG AFGREIÐSLA: Seljavegur 2,101 Reykjavík,
sími 515-5500 - RITSTJÓRN: Sími 515-5616. - AUGLÝSINGAR: Sími 515-5618 - STJÓRNARFORMAÐUR: Magnús Hreggviðsson -
AÐALRITSTJÓRI: Steinar J. Lúðvíksson — FRAMKVÆMDASTJÓRI: Halldóra Viktorsdóttir — ÁSKRIFTARVERÐ: 3.315 kr. fyrir
6.-10. tbl. eða 521 kr. á blað nema bókin 100 stærstu er á 999 kr. — 10% lægra áskriftarverð, 2.984 kr. ef greitt er með greiðslukorti.
LAUSASÖLUVERÐ: 699 kr. -
SETNING, GRAFÍK, TÖLVUUMBROT, PRENTUN OG BÓKBAND: G. Ben. - Edda prentstofa hf. - LITGREININGAR:
Prentmyndastofan hf. — ÖU réttindi áskilin varðandi efni og myndir.
5