Lesbók Morgunblaðsins - 18.12.1995, Blaðsíða 43
s
HORFT AF BRÚNNI - úr sýningu Þjóðleikhússins 1957.
Kristbjörg Kjeld og Róbert Arnfinnsson í hlutverkum sínum.
í DEIGLUNNI - úr sýningu Þjóðleik-
hússins 1986. Guðrún Gísladóttir
Hákon Waage í hlutverkum sínum.
verður þeim að falli, vegna þess að þjóðfé-
lagið er rotið eða svo gegnsýrt hræsni að
það gerir útaf við einstaklinginn fremur
en leyfa honum að njóta sín. Harmurinn
í verkum Ibsens er því fólginn í andstöðu
einstaklingsins við þjóðfélagið. Hetjan
berst hetjulegri baráttu en verður að lokum
að lúta í lægra haldi, hún verður fórnar-
lamb óréttláts og ósveigjanlegs skipulags.
Þessi samfélagsskilningur á enn ágæt-
lega við að mörgu leyti a.m.k. virðast leik-
rit Ibsens ennþá eiga nokkurt erindi við
okkur.
Miller tekur við harmleiknum þar sem
Ibsen skildi við hann, með hetjuna sem
fómarlamb aðstæðna, en hann gengur enn
lengra því nú er aðalpersónan ekki hetja
lengur, heldur eingöngu fórnarlamb, sem
líklega stafar af nokkru leyti af sósíal-
demókratískri sannfæringu höfundarins,
þ.e.a.s. pólitísk skynjun hans á samfélagið
endurspeglast í verkum hans - eðlilega
myndi margur segja - en aldrei þó þannig
að það yfirskyggi annað.
Miller á þó enga samleið með fylgis-
mönnum sósíalrealisma 8. áratugarins þó
segja megi að leikrit hans hafi nánast öll
mjög skýra og á stundum ákafa, þjóðfé-
lagslega skírskotun.
Lítum nánar á fómarlömbin - hetjumar
- í fjórum leikrita Millers frá Öllum sonum
mínum (1947) til Horft af brúnni (1955).
Joe Keller í Öllum sonum mínum hefur
framið glæp gegn samfélaginu; þessi glæp-
ur verður persónulegur í leikritinu þar sem
í ljós kemur að með glæp sínum hefur
Keller í rauninni drepið son sinn. Hann á
engu að síður samúð okkar í lokin þegar
hann gengur út og skýtur sig með þessum
orðum; „ég held að í hans augum hafi
þeir allir verið synir mínir“. Okkur er gert
að líta til baka og átta okkur á því að
Keller, ekki síður en allir piltamir sem dóu
af hans völdum, voru fómarlömb grimmúð-
legs þjóðfélags sem gerði ómennskar kröf-
ur til þeirra. Það er hinn vitsmunalegi
harmleikur, ályktunin sem okkur er ætlað
að draga af þeim tilfinningalega, persónu-
lega harmleik sem leikinn hefur verið á
sviðinu fyrir okkur. Miller gengur lengra
í þjóðfélagsgagnrýni sinni í Sölumaður
deyr sem fylgdi í kjölfarið á Öllum sonum
mínum. Þar er þjóðfélagið beinlínis orðið
mannskemmandi og fjandsamlegt, allir
verða fórnarlömb, einfaldlega vegna þess
að þeir eru á lífi, enginn er lengur undan-
skilinn. Willy Loman er hvorki andsnúinn
þjóðfélaginu né mótmælir hann aðstæðum
sínum heldur trúir hann á þjóðfélagið og
möguleikana sem haldið er að honum -
ameríska drauminn - og í því er fall hans
fólgið. Þegar honum mistekst og líf hans
er í rúst, kennir hann sjálfum sér um, eig-
in aumingjaskap, metnaður hans hefur
aldrei staðið til neins meira en að sjá fyr-
ir (jölskyldunni og koma sonum sínum til
manns. Þegar þetta mistekst fyrirfer hann
sér. Okkur rennur til rifja hversu einfaldur
hann er en reisn hans er fólgin í því hversu
ALLIR SYNIR MÍNIR - úr sýningu Þjóðleikhússins 1993.
Hjálmar Hjálmarsson og Róbert Amfinnsson íhlutverkum sínum.
SÖLUMAÐUR deyr - Úrsýningu Þjóðleikhússins 1981.
Margrét Guðmundsdóttir og Gunnar Eyjólfsson íhlutverkum sínum.
heiðarlega hann berst við ofureflið án þess
nokkurn tíma að vita hver óvinurinn er.
Willy er gjörsneyddur skilningi á því að á
sama hátt og hann hefur sjálfur selt for-
gengilegan varning alla ævi, hendir neyslu-
þjóðfélagið honum í ruslið þegar ekki eru
lengur nein not fyrir hann. Okkur er hins
vegar ætlað að tengja þetta saman, sjá
samhengið og krefjast breytinga. Það er
kannski ekki furða að Óameríska nefndin
undir forystu McCarthys hafí talið Arthur
Miller einn af hættulegri andstæðingum
bandarísks þjóðfélags og reynt allt sem
þeir gátu til að stöðva hann og eyðileggja.
í miðju ofsóknarfárinu sem þá geisaði í
Bandaríkjunum gegn öllum þeim sem
grunaðir voru um vinstrimennsku skrifaði
Miller leikritið í deiglunni 1953. Þar er
viðfangsefnið galdraofsóknir í Nýja Eng-
landi á 17. öld en engum blandast hugur
um að raunverulega viðfangsefnið eru of-
sóknir MacCarthys og Óamerísku nefndar-
innar.
Ef við höldum okkur við hina harmrænu
túlkun þá má segja að í í deiglunni dragi
Miller upp mynd af þjóðfélagi sem er svo
gegnsýrt hatri og illsku að allir dragast
með, saklausir jafnt 3em sekir. Hinir sak-
lausu játa á sig sekt til að sleppa undan
enn hræðilegri refsingum og þannig bygg-
ist upp samsekt þjóðfélag. Aftur er dauð-
inn eina leiðin út úr þessu víti, þar sem
aðalpersónan Proctor gengur í dauðann
til að vernda persónulegt frelsi sitt og til
varnar sannleikanum um leið og hann
mótmælir með því upplognum ásökunum
yfirvaldanna. „Hvemig á ég að lifa án
nafns?“ Þannig staðfestir hann tilveru sína
sem einstaklings með því að kjósa dauð-
ann. Hann endurheimtir jafnframt reisn
sína þar sem hann hafði gerst samsekur
áður. Persóna Proctors fær reyndar á sig
yfirbragð píslarvottsins og sem slíkur skil-
ur hann aðstæður sínar og gengur í dauð-
ann vitandi vits, á meðan Willy Loman og
Eddie Carbone í Horft af brúnni eru gjör-
sneyddir allri slíkri félagslegri meðvitund
um sjálfa sig.
Eddie Carbone gengur reyndar í dauð-
ann með nánast sömu orðum og Proctor,
„Ég heimta mannorð mitt...“ en forsend-
ur hans eru allt aðrar. Hann hefur látið
undan tilfínningum sínum, hlaupist undan
merkjum, hann þekkir sig ekki í því um-
hverfi tilfinningalegs róts sem hann er
lentur í, þar sem togast á löngun hans til
stjúpdóttur sinnar, jafnvel löngun til elsk-
huga hennar, ásamt því að hafna eigin-
konu sinni. Allt togast þetta á í honum
og verður að lokum til þess að hann svík-
ur þau einu lögmál sem h,ald er í í tilveru
hans; lögmál fjölskyldunnar og ættarinnar
- með því að framselja innflytjendurna,
frændur eiginkonunnar, í hendur ómann-
legu og fjandsamlegu kerfi. Þetta skiljum
við mætavel, tilfinningar hans líka og loks
öðlast hann reisn og fyrirgefningu með
því að ganga í dauðann og endurheimta
þannig mannorð sitt. Sögumaðurinn Alfi-
eri dregur boðskapinn saman í lokin með
þeim orðum að Ef við ætlum að halda lífi
í þessu samfélagi verðum við að sætta
okkur við helmingaskipti. Lifa sem hálfar
manneskjur, án mannorðs, án persónulegr-
ar reisnar.
Hetjan úr harmleikjum fyrri alda sem
berst með rétti eða röngu til ríkis og valda
með oddi og egg virðist okkur býsna fram-
andi núna, það sem við þekkjum og skynj-
um er nútímafórnarlambið, einstaklingur-
inn sem vill ekkert meira eða merkilegra
en vera bara hann sjálfur en fær ekki einu
sinni tækifæri til þess og líf hans öðlast
enga merkingu nema hann geri útaf við
sig í mótmælaskyni. Og harmleikurinn er
fólginn í því að hann veit ekki einu sinni
sjálfur hveiju hann er að mótmæla.
Framúrskarandi
KUNNÁTTA
Segja má að ákveðin kaflaskil verði í
höfundarverki Millers eftir Horft af brúnni.
Nær níu ár liðu þar til hann sendi frá sér
næsta leikrit, Eftir syndafallið, og þá kvað
við nokkuð nýjan tón. Fyrst og fremst í
byggingu verksins þar sem áherslan var
ekki lengur jafnafgerandi á eina aðalper-
sónu heldur tókst hann nú á við að lýsa
fleiri persónum, jafnvígum í tilteknum
aðstæðum. Þessa aðferð hefur hann síðan
fægt og slípað svo segja má að kunnátta
hans í að stefna saman persónum og
spinna úr samskiptum þeirra þykkan
dramatískan þráð með djúpa táknræna
merkingu langt út fyrir umhverfi verksins
nálgist fullkomnun.
Glerbrot er einmitt lýsandi dæmi um
þessa framúrskarandi kunnáttu Millers og
það er kannski táknrænt að Miller, sem
er sá höfundur þessarar aldar sem tekist
hefur flestum öðrum betur að finna hvar
harmurinn í dramatík nútímans er fólginn,
skuli á áttugasta aldursári sínu skrifa leik-
rit um viðbrögð umheimsins við þeim raun-
verulegu harmleikjum sem viðgangast í
veröldinni í dag, þrátt fyrir alla upplýsing-
una, tæknina og framfarirnar.
Hávar Sigurjónsson er leikstjóri og leiklistar-
ráðunautur Þjóðleikhússins.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 18. DESEMBER1995 43