Morgunblaðið - 25.01.2001, Page 14
FRÉTTIR
14 FIMMTUDAGUR 25. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Í SÉRSTAKRI greinargerð Evr-
ópunefndar Framsóknarflokksins er
m.a. fjallað um horfur um áhrif af
aðild að Evrópusambandinu (ESB),
og segir að áhrif hugsanlegrar að-
ildar Íslands að ESB verði mismun-
andi og mismikil á einstakar at-
vinnugreinar og einstök svið hag-
kerfis og þjóðlífs.
Hér á eftir er drepið á nokkra
þætti greinargerðarinnar um svið
sem mest hafa verið til umræðu.
Þannig segir m.a. um áhrifin á land-
búnað:
Landbúnaður
Vafalítið herðir mjög á þeirri hag-
ræðingu og þeirri fækkun búa og
byggðaröskun sem nú þegar stend-
ur yfir. Talið er að búvöruverð lækki
og innlent framleiðslumagn minnki.
Væntanlega verður röskun í afkomu
mjólkur- og kjötframleiðenda og
jafnvel miklir erfiðleikar í svína- og
alifuglarækt og garðyrkju. Færð
hafa verið rök fyrir því að aðild að
ESB muni leiða af sér hrun í land-
búnaðinum, en einnig að ESB muni
aðeins hraða þróun sem þegar er
hafin í landinu. Er erfitt að meta
hvað er beinlínis tengt aðild að ESB
og hvað er henni óháð í þessu. ESB
býður aðstoð atvinnuþróunar-, vel-
ferðar-, harðbýlis- og byggðasjóða,
og vitað er að Finnar náðu t.d.
samningum um bann við innflutn-
ingi eggja og kjúklinga. Ljóst er að
styrkjakerfi ESB er lítt framleiðslu-
tengt og því erfitt að sjá hver áhrif
mikil lækkun í búvöruverði til
bænda, sem væntanleg er við aðild,
muni hafa á kjör þeirra. Sem fyrr
segir hefur verið bent á hættu á
hruni í landbúnaði við aðild að ESB,
en einnig hefur verið bent á með til-
vísun til reynslu iðnaðarins af inn-
göngu Íslands í EFTA að ný tæki-
færi fyrir íslenskan landbúnað
kunna einnig að felast í aðild að ESB
og því ófullnægjandi að meta horfur
einvörðungu út frá núverandi að-
stæðum, framleiðsluháttum og
framleiðslugreinum landbúnaðarins.
Þá er og óljóst hver áhrif inngöngu
Austur-Evrópuþjóða, ekki síst Pól-
verja, kunna að verða á landbúnað-
arstefnu og þróun landbúnaðarmála
innan ESB. Menn hafa ekki verið
samdóma í mati um framvindu land-
búnaðarins í Finnlandi á síðustu ár-
um og virðist það m.a. stafa af því að
menn leggja ólík sjónarmið til
grundvallar, sumir annars vegar
fjölda bænda og býla en aðrir hins
vegar tekjur í landbúnaði og al-
menna hagþróun í landinu. Fram
hefur komið að mjög miklu máli
skiptir að reglur um heilbrigðis-
varnir vegna innflutnings lifandi
dýra og matvæla haldist áfram, og
einnig að tækifæri geti falist í hrein-
leika og ferskleika íslenskrar land-
búnaðarvöru.
Búvöruiðnaður
Og um áhrifin á búvöruiðnaðinn
segir m.a.: Vafalaust herðir mjög á
þeirri hagræðingu og fækkun af-
urðastöðva sem nú þegar stendur
yfir. Líklega verður hrundið af stað
hraðri og róttækri endurskipulagn-
ingu með hættu á mikilli byggða-
röskun. Flest bendir til að nokkrar
greinar mjólkuriðnaðar verði illa úti
við aðild að ESB. Að líkindum leiðir
aðild að ESB til hruns kjötiðnaðar-
ins, a.m.k. miðað við núverandi
skipulag og kostnaðarstig, en
vandamál kjötiðnaðarins eru reynd-
ar gamalkunn og óháð ESB. Ljóst
er að bein tengsl eru milli byggða-
þróunar og staðsetningar afurða-
stöðva, en einnig hefur verið bent á
að áhrif ESB muni aðeins hraða þró-
un sem þegar er hafin í landinu.
Bent er á að ESB býður aðstoð at-
vinnuþróunar-, velferðar-, harð-
býlis- og byggðasjóða en um þau
efni verður þó að semja.
Fiskveiðar
Þá er í ítarlegu máli fjallað um
áhrifin á fiskveiðar og segir m.a.: Í
samningum við ESB um málefni
fiskveiða reynir jafnan bæði á samn-
ingsvilja Íslendinga og einnig á
skilning og vilja ESB. Bent er á að
forræði yfir mikilvægustu auðlind-
um er í húfi, lífsréttur og lífshags-
munir. Ná verður samningum m.a.
um landhelgisgæslu, deilistofna,
flökkustofna, úthafsveiðar, stofna
sem ekki eru kvótasettir, áður
ónýtta stofna, og aðrar auðlindir
hafsins. Reynsla ESB bendir til þess
að virk landhelgisgæsla og veiðieft-
irlit sé umfangsmikið og erfitt verk-
efni innan þess en er jafnframt í
þróun, einkum á síðari árum. Það er
yfirlýst stefna ESB að virða og
treysta efnahagslega grundvallar-
hagsmuni allra aðildarþjóða og að
leitast við að mæta þeim sérstaklega
í hverju einstöku atviki. Fiskveiðar
Íslendinga eru sjálfbær og arðbær
atvinnuvegur, ólíkt því sem tíðkast í
ESB, og er því ólíku saman að jafna.
Dæmi eru um sérsamninga og sér-
staka túlkun á sameiginlegri stefnu
ESB. Samningar Norðmanna og
ESB frá 1994 benda sterklega til
þess að í a.m.k. mörgum mikilvæg-
um atriðum hafi mátt ná viðunandi
niðurstöðu, frá íslenskum sjónarhóli
séð. Einnig er bent á að ýmis ákvæði
í sameiginlegri stefnu ESB sam-
rýmast hagsmunum Íslendinga.
Þannig eru Íslandsmið sérstakt haf-
svæði og mikilvægustu fiskistofnar
eru kvótasettir. Semja má að ráð-
gjöf íslenskra stofnana liggi til
grundvallar ákvörðunum um veiði-
magn, en innan ESB eru þær
ákvarðanir formlega teknar í ráð-
herraráðinu í Brüssel. Veiðireynsla,
framseljanlegir kvótar og aðrir mik-
ilvægir þættir fiskveiðistjórnunar
geta haldist innan ESB, en hver að-
ildarþjóð ESB hefur nú forræði um
fiskveiðistjórnun á sínu hafsvæði.
Veiðiheimildir og kvótaskipting geta
haldist, þ.e. alger forgangur Íslend-
inga að kvótasettum svæðisbundn-
um stofnum í íslenskri auðlindalög-
sögu. Samkvæmt reglum ESB er
veiðireynsla mikilvægt grundvallar-
atriði og samkvæmt þessum reglum
er ekki lengur um neina veiði-
reynslu annarra Evrópuþjóða að
ræða innan íslenskrar auðlindalög-
sögu. Veiðireynsla ræður einnig
samkvæmt reglum ESB um skipt-
ingu veiðiheimilda í öðrum fiskteg-
undum og einnig hefur verið rætt
um tillit til dreifingar stofna í haf-
svæðum og mikilvægi veiða í at-
vinnulífi. Beinar takmarkanir á
eignaraðild að fyrirtækjum, sem
beinast aðeins að þegnum annarra
ríkja, verða að hverfa. En mat á
stöðu útgerðarfyrirtækja hefur
breytst og viðurkennd eru innan
ESB efnahagsleg skilyrði m.a. fyrir
þátttöku útlendinga í útgerð ein-
stakra aðildarlanda. Í samningum
um þessi mál verður að taka tillit til
fiskvinnslu, smábátaútgerðar og
byggðaþróunar. Innan ESB eru
þekktar almennar takmarkanir á
eignaraðild að fyrirtækjum og í út-
gerðarfyrirtækjum gilda t.d. í Bret-
landi reglur um lögheimili fyrirtæk-
is og starfsmanna og viðskiptatengsl
við fiskvinnslu og þjónustu í landi.
Önnur dæmi um sérreglur eru t.d.
að í Danmörku eru í gildi takmark-
anir við því að útlendingar eigi sum-
arbústaði og á Álandseyjum gilda
takmarkanir um eignaraðild útlend-
inga að fyrirtækjum yfirleitt. Meðal
annars hefur komið fram það sjón-
armið að mjög ótrúlegt sé að aðild-
arsamningar við ESB um fiskveiði-
mál geti tekist yfirleitt, en á það er
einnig bent að upplýsingamiðlun um
þessi efni hafi verið næsta takmörk-
uð hérlendis og þau lítt verið rædd á
almennum vettvangi, en þess vegna
sé nokkuð um hæpnar fullyrðingar.
Þá hefur og verið lýst áhyggjum
vegna trygginga til handa Íslend-
ingum um stefnu og stjórnun fisk-
veiða til lengri framtíðar, m.a. vegna
þess að til breytinga á EES-samn-
ingnum þurfa öll þjóðþingin að sam-
þykkja breytinguna. En bent er á að
ekkert bendi til að reglan um hlut-
fallslegt jafnvægi muni víkja, en hún
er einn af hornsteinum í skipulagi og
starfi ESB og þarf samþykki allra
aðildarríkjanna til að breyta henni.
Ýmsir aðrir þættir
Almennt er viðurkennt að að æ
fleiri samfélagsleg viðfangsefni ná
yfir stærra svæði og meiri mann-
fjölda en nemur þjóðríki. Má nefna
mengun, náttúruvernd, vatn og loft,
þróun heilsugæslu og heilbrigðis-
fræða, varnar- og öryggismál, lög-
gæslu og réttarfar, samgöngumál,
listir og afþreyingarstarfsemi,
mannréttindi, framhaldsmenntun
og margt fleira. Sama gildir um þró-
unarverkefni og nýsköpun í atvinnu-
lífi, markaði, vísindum, tækni og
menningu. Einnig er bent á að sam-
eiginlegur vettvangur auki fjöl-
breytni, hagræði, öryggi, skilvirkni,
bæti lífskjör, og mæti þörfum nýrra
kynslóða. Færð hafa verið rök fyrir
því að þessi ofarnefndu atriði eigi
m.a. við um mögulega aðild Íslend-
inga að ESB. Við aðild lækkar verð
einhverra matvörutegunda og þjón-
usta sumra sameiginlegra stofnana
verður ódýrari. Við aðild lækkar
fjármagns- og gjaldeyriskostnaður,
svo og kostnaður við banka-, fjár-
mála- og tollkerfi. Við aðild lækkar
almennur viðskiptakostnaður at-
vinnulífsins, en viðurkennt er að
örðugt er að meta slíka lækkun ná-
kvæmlega fyrirfram. Bent hefur
verið á áhrif Evrópusamrunans og
sameiginlegs gjaldmiðils á sam-
keppni og verðlag, á aðhald að ráð-
andi fyrirtækjum og gagnsæi í
markaðsákvörðunum, á framleiðni-
þróun, hagvaxtarforsendur og þar
með á almennan kaupmátt og lífs-
kjör.
Greiðslur
Þá er vikið að greiðslum vegna að-
ildar Íslands að ESB, bæði
greiðslum Íslands til ESB og fram-
lögum og styrkjum frá ESB. Þar
segir: Lauslegar áætlanir benda til
þess að beinar árlegar greiðslur Ís-
lendinga til ESB muni við aðild
verða nálægt 8 milljarðar króna, en
aftur komi um 5 milljarðar króna í
ýmsum framlögum og styrkjum.
Þetta eru u.þ.b. 10.000–12.000 kr. í
hreina árlega greiðslu til ESB á
mann hér á landi miðað við mjög
lauslegar áætlanir. Hafa ber í huga
að þessar áætlanir sýna fyrst og
fremst mjög grófar tölur um
greiðslur ríkisins, en annars vegar
taka þær ekki tillit til þess að sjóðir
ESB taka á sig margvísleg útgjöld
sem íslenska ríkið ber nú og hins
vegar sýna þær ekki áhrif af lækk-
uðum viðskiptakostnaði atvinnulífs-
ins og öðrum þáttum sem getið er
annars staðar. Þær taka heldur ekki
tillit til þess að við aðild lækkar
kostnaður Íslendinga við sameigin-
leg verkefni, stjórnsýslu og þátttöku
og vegur það nokkuð á móti auknum
almennum rekstrarkostnaði stjórn-
sýslunnar. Með fjölgun aðildarlanda
er talið að framlag Íslendinga muni
að öllum líkindum hækka. Rétt er að
taka fram að sérfræðingar telja að
hagræði vegna lækkaðs fjármagns-
og viðskiptakostnaðar o.fl. nemi
miklu hærri fjárhæðum en þær ár-
legu beinu greiðslur sem getið er
hér að ofan.
Fullveldi
Loks er hér gripið niður í grein-
argerðinni þar sem er fjallað áhrif
aðildar fyrir fullveldi landsins og
segir um það:
Rök hafa verið leidd að því að nú-
tíðaraðstæður rekist að ýmsu leyti á
hefðbundinn skilning á fullveldi og
sjálfstæði þjóða. Alhliða samskipti
og viðskipti séu orðin svo miklum
mun meiri og fjölþættari en áður og
hagsmunir þjóðanna samofnir langt
umfram það sem áður var. Bent er á
að við þessu eigi ekki að bregðast
með því að falla frá viðurkenndum
hugsjónum íslensku þjóðarinnar,
heldur með því að meta stöðuna og
skilgreina hvernig hugsjónirnar
hæfa gerbreyttum aðstæðum og
hvernig þær verði áfram leiðarvísir
þjóðarinnar í breyttum heimi. Ljóst
virðist að aðild að ESB felur í sér af-
sal formlegra hefðbundinna fullveld-
isréttinda og því hefur einnig verið
haldið fram að svipað eigi við um
EES og jafnvel Atlantshafsbanda-
lagið. Þá hefur verið bent á að tak-
markanir á möguleikum á raunveru-
legri beitingu fullveldisréttar í verki
skipta einnig máli. Það sjónarmið
hefur komið fram að endurskilgrein-
ing ESB á fullveldisrétti aðildar-
þjóða sé raunhæft endurmat við
gerbreyttar aðstæður. Þá er vakin
athygli á því að ekki fylgjast æv-
inlega að lögformlegt fullveldi og
stjórnmálalegt sjálfstæði, og má
jafnvel halda því fram að full aðild
að ESB geti styrkt stjórnmálalegt
sjálfstæði frekar en hitt, miðað við
núverandi stöðu og horfur um þróun
EES. Bent er á að innan ESB er
m.a. rætt um möguleika á því að
auka sveigjanleika, svigrúm og fjöl-
breytni í samrunaþróuninni, t.d.
þannig að einstök ríki geti valið sér
misnáin tengsl og mismikinn sam-
runa án þess að aðildarríkjum verði
þá skipt í misréttháa flokka. Skipu-
lagsþróun ESB að þessu leyti hefur
einnig áhrif á horfur um fullveldi og
sjálfstæði aðildarríkjanna.
Umfjöllun um greinargerð Evrópu-
nefndarinnar er einnig að finna á Frétta-
vef Morgunblaðsins, www.mbl.is/frettir,
undir yfirskriftinni Helstu mál. Þaðan er
hægt að tengjast á heimasíðu Framsókn-
arflokksins, www.framsokn.is, þar sem
skýrslan er birt í heild.
Úr greinargerð Evrópunefndar Framsóknarflokksins
Ýmis umdeild
áhrif ESB-
aðildar reifuð
Morgunblaðið/Þorkell
Ítarlega er fjallað um áhrif aðildar að Evrópusambandinu á fiskveiðar.
Gunnar Jónasson, barnalæknir,
varði hinn 25. nóvember 2000 dokt-
orsritgerð sína við læknadeild Há-
skólans í Ósló.
Ritgerðin byggist
á 6 vísindagrein-
um sem birtar
hafa verið í al-
þjóðlegum vís-
indatímaritum
sem einkum fjalla
um ofnæmis- og
lungnasjúkdóma.
Titill ritgerðar-
innar er: „Childhood asthma; hospit-
al admissions and treatment. A 16
year study of hospital admissions in
Oslo and the effect of low dose in-
haled steroids in children with mild
asthma.“
Ritgerðin fjallar að hluta um
breytingar sem hafa orðið á inn-
lögnum barna á sjúkrahús vegna
bráðaastma í Ósló á árunum frá
1980–1995 og byggist þar á upplýs-
ingum úr sjúkraskrám allra barna
sem lögð voru inn vegna sjúkdóms-
ins á tímabilinu. Innlagnartíðni
hvers árs var reiknuð út miðað við
fólksfjölda í sambærilegum aldurs-
hópum og fór vaxandi fram til 1990,
en eftir þetta dró nokkuð úr heild-
artíðninni. Tíðni fyrstu innlagnar
vegna astma fór þó vaxandi á öllu
tímabilinu, einkum vegna tíðra inn-
lagna yngstu barnanna (0–3 ára),
sem getur endurspeglað aukna tíðni
sjúkdómsins í þessum aldurshópi.
Fjölda endurinnlagna vegna sjúk-
dómsins fækkaði hins vegar veru-
lega á tímabilinu og að sama skapi
var sýnt fram á marktæka styttingu
sjúkrahúsdvalar innlagðra barna á
seinni hlutanum Líklegt er talið að
vaxandi notkun stera við meðferð
sjúkdómsins minnki líkur á sjúkra-
húsinnlögn.
Ritgerðin greinir einnig frá nið-
urstöðum annarrar tvíblindrar rann-
sóknar sem einkum fjallar um áhrif
lágskammtameðferðar (0,1–0,2 mg)
með innöndunarstera (budesonid)
gegn vægum astma. Niðurstöður
benda til þess að slík lágskammta-
meðferð geti komið í veg fyrir
áreynsluastma hjá börnum og valdið
fækkun bólgufrumna (eosinophils) í
blóði án þess að valda alvarlegum
aukaverkunum. Í ritgerðinni er
einnig sýnt fram á að meðferðar-
heldni (compliance) minnkar veru-
lega við langvarandi meðferð og var
einungis um 50% í lok meðferð-
artímabilsins, en foreldrar/börn virt-
ust oft skýra frá mun betri meðferð-
arheldni en hægt var að sannreyna
með því að mæla magn (ónotaðra)
lyfja sem skilað var reglulega meðan
á rannsókninni stóð.
Andmælendur við doktorsvörnina
voru Göran Wennegren prófessor
frá Háskólanum í Gautaborg, Leif
Bjermer prófessor frá Háskólanum í
Þrándheimi og Eirik Monn prófess-
or frá Háskólanum í Ósló. Að-
alleiðbeinandi Gunnars var Kai-
Håkon Carlsen prófessor.
Gunnar lauk stúdentsprófi frá MR
1977 og læknaprófi frá HÍ 1984.
Hann starfaði sem aðstoðarlæknir
við barnadeildir í Reykjavík frá
1986–1988 og við barnadeild Haukel-
and-háskólasjúkrahússins í Bergen
frá 1988–1991 og lauk þar sérfræði-
menntun í barnasjúkdómum árið
1991. Hann starfaði sem sérfræð-
ingur í barnasjúkdómun við Ullevål-
háskólasjúkrahúsið í Ósló frá 1992,
og sem yfirlæknir ofnæmis- og
lungnadeildar barna 1998–2000.
Gunnar hlaut réttindi í ofnæm-
islækningum barna 1995. Hann
starfar nú sem deildarlæknir á
barnadeild Landspítala í Fossvogi
og rekur lækningastofu. Foreldrar
hans eru Ásta G. Pjétursdóttir og
Jónas S. Jónasson kaupmaður, sem
nú er látinn. Gunnar er kvæntur
Guðbjörgu Eggertsdóttur sjúkra-
þjálfara og eiga þau þrjú börn.
FÓLK
Doktors-
ritgerð um
astma