Morgunblaðið - 25.01.2001, Síða 50

Morgunblaðið - 25.01.2001, Síða 50
SKOÐUN 50 FIMMTUDAGUR 25. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ UNDIRRITAÐUR fjallaði nýlega um al- þjóðlegar horfur í um- hverfismálum og nauðsynina á að blása nýju lífi í Ríóferlið [Umhverfismál í aldar- byrjun, Mbl. 10. jan- úar 2001, s.39]. Liður í því er að menn greini stöðuna í hverju landi, bæði styrkleika og brotalamir. Hér verð- ur staldrað við fáeina þætti er Ísland varða og möguleika á að koma af stað sjálf- bærri þróun. Staða íslensks um- hverfis er um margt jákvæð í sam- anburði við önnur lönd. Lega lands- ins í reginhafi milli heimsálfa veitir mikla sérstöðu og sóknarfæri. Eld- virknin sem fylgir flekaskilum og heitum reit undir landinu er ein- stakt mótunarafl og varmagjafi. Einangrun lífríkis og búfjár getur verið vörn gegn vágestum kunni menn fótum sínum forráð. Fámenni í stóru landi er um margt kostur í samanburði við þéttbýl lönd þar sem landþrengsli og mengun eru erfið viðfangs. Endurnýjanlegar náttúruauðlindir, hvort sem er í fiskistofnum eða fallvötnum, eru mikilvæg undirstaða sé rétt á hald- ið. Ómengað grunnvatn er fjársjóð- ur, dýrmætari til framtíðar litið en þverrandi olíulindir. Óbyggðar víðáttur á hálendi og útnesjum eru aðdráttarafl á nú- tíðarkvarða í heimi þar sem hávaði og fólksmergð setur vax- andi svip á umhverfi. Allt þetta er meðgjöf í harðnandi alþjóðlegri vistkreppu. Á þessum grunni, með því að hagnýta þekkingu og skipta þjóðarauðnum réttlátlega, á að vera unnt að skapa hér til frambúðar aðstæður eins og þær gerast bestar á hótel Jörð. Sjálfbært samfélag gæti því verið innan seilingar á Íslandi, ef rétt er að málum staðið. Sjávarútvegur á hættuslóð Því miður höfum við hingað til ekki megnað að halda á þessum heimanmundi sem vert væri. Hægt er að glutra honum úr höndum okk- ar ef skammsýni og handahóf ráða ferðinni. Meginundirstaða íslensks efnahagslífs til þessa, sjávarauð- lindirnar, virðist nokkuð traust. Þó er auðvelt að misbjóða henni með ofnýtingu eins og gerst hefur víða í kringum okkur. Það vantar mikið á að við stundum vistvænar veiðar og skynsamlega hagnýtingu þess sem aflast. Nægir þar að nefna stórfellt brottkast afla og hömlulaust skark með botnlægum veiðarfærum sem gjörbreytt hefur landslagi fiskimið- anna og uppvaxtarskilyrðum ung- viðis. Tæknivæðingin við veiðarnar kallar ein og sér á aðgát, bæði kostnaðarlega og við hagnýtingu sjávarlífs. Lítið er horft á orku- kostnaðinn við fiskveiðar, að ekki sé talað um þá ráðsmennsku að keyra sjávarafla þvers og kruss á þjóðvegum landshorna á milli. Verðsprenging á olíuvörum getur dunið yfir hvenær sem er og efna- hagslífið er illa í stakk búið að mæta slíkum aðstæðum. Þá geta loftslagsbreytingar haft mikil áhrif á sjávarlíf og viðkomu og göngur nytjastofna. Þjóðfélagsumræðan snýst að vonum mikið um veiðirétt og stjórnun veiða. Þörf er hins veg- ar á að líta til fleiri átta og leggja vistvænan mælikvarða á alla þætti sjávarútvegsins að fiskeldi með- töldu. Gróðurríkið hin gleymda auðlind Fyrir öld var ástand jarðvegs og gróðurs hérlendis með því versta sem þekktist í Evrópu. Gildar ástæður lágu þar að baki og við sem nú lifum ættum ekki að hafa um það stór orð. Hitt er verra að þrátt fyrir meiri þekkingu og góðan efnahag hafa Íslendingar ekki náð tökum sem skyldi á gróður- og jarðvegseyðingu. Slökkvistarf við að hefta uppblástur hefur vissulega skilað umtalsverðum árangri, beit- arhættir hafa víða færst til betri vegar og fleytt hefur fram þekk- ingu á vaxtarskilyrðum og orsökum jarðvegseyðingar. En heildarstaðan á þessu sviði er enn dapurleg og í molum. Látum gegndarlausa fram- ræslu votlendis liggja milli hluta. Alvarlegast er að ofbeit viðgengst enn á stórum svæðum í byggð og óbyggð og áframhaldandi jarðvegs- eyðing. Þar hafa hross að hluta til tekið við af sauðkindum en fjöldi hrossa hefur tvöfaldast á aldar- fjórðungi. Viðleitni til úrbóta er fálmkennd og úrræðin á stundum skaðleg eins og dreifing lúpínu er dæmi um. Engin gróðurverndarlög- gjöf sem nafn er gefandi er í raun til í landinu. Engin opinber stofnun fjallar heildstætt um gróður- og jarðvegsvernd. Ráðuneyti landbún- aðarmála fer með málaflokkinn og mikið hefur þar skort á hlutlæg vinnubrögð, skýra stefnumótun og vistfræðileg tök undirstofnana þess. Í gróður- og jarðvegsvernd og sjálfbærri landnýtingu bíður gífur- legt verkefni þar sem margir þyrftu að leggjast á árar út frá vel skilgreindum markmiðum. Það sem hér er sagt um nátt- úruauðlindir í sjó og á landi á einn- ig við um aðrar atvinnugreinar, þar á meðal ferðaþjónustu sem gerir út á náttúru landsins og menningu íbúanna. Orkunýting í öngstræti Um stefnuna í orkunýtingu ríkir nú stríðsástand og stjórnvöld virð- ast helst kunna þau ráð um þessar mundir að hella olíu á eld. Af hálfu ríkisstjórnar er stefnt að því að binda stóran hluta af virkjanlegri orku í þungaiðnaði og það sem fyrst. Tvær risaálverksmiðjur eru í undirbúningi með aðild og blessun stjórnvalda. Til samans þurfa þess- ar verksmiðjur um 10 teravatt- stundir af raforku á ári en heildar- framleiðsla raforku í landinu er um þessar mundir nálægt 7 teravatt- stundir. Samtímis eru í undirbún- ingi fleiri orkufrek fyrirtæki eins og magnesíumverksmiðja, fyrir ut- an skuldbindingar gagnvart ÍSAL og Íslenska járnblendifélaginu á kostakjörum. Lengi hafa orkuyfirvöld talið orkuforða í hagkvæmu vatnsafli hérlendis um 30 teravattstundir. Þá er ekki horft neitt á umhverfisáhrif og Gullfoss og Dettisfoss meðtaldir, svo dæmi sé tekið. Helminga ætti þessa viðmiðunartölu vegna nátt- úruverndar þegar spáð er í framtíð- ina en þess utan er auðvitað hægt að sækja talsvert af raforku í jarð- varma, vind og fleiri orkugjafa. Að- alatriðið er að með núverandi stefnu er verið að stefna í mjög harðan hnút. Hafa ber í huga að í orði kveðnu þykjast stjórnvöld hliðholl vetnis- samfélagi í framtíðinni, þ.e. að vetni eða skyldir orkugjafar framleiddir hérlendis leysi innflutt jarðefna- eldsneyti af hólmi. Orkan sem til þess þarf er að minnsta kosti 10 teravattstundir og þá miðað við bestu tækni í formi efnarafala. Sá þungaiðnaður sem nú er á döfinni þrengir að þessum möguleikum nema þeim mun harðar verði geng- ið að náttúru landsins með virkj- unum. Rammaáætlunin blekkingaleikur Fyrir hálfu öðru ári settu stjórn- völd af stað vinnu við svonefnda rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Gefið var í skyn að með henni ætti að leggja faglegan grunn að ákvörðunum um for- gangsröðun um nýtingu og þá um leið hvaða svæði ætti að varðveita óröskuð til framtíðar. Margt ágætt fólk gaf kost á sér til starfa að þessu verkefni undir forystu Svein- björns Björnssonar eðlisfræðings. Sá galli var á málinu frá byrjun að verkefnið var sett undir forræði iðnaðarráðuneytis en ekki umhverf- isráðuneytis eins og og gerist í Noregi þaðan sem forskriftin er að öðru leyti fengin. – Af hálfu ráð- herra var látið að því liggja að rammaáætlunin ætti að verða tæki til að leggja grunn að sáttum og málamiðlunum. Forsenda þess að svo gæti orðið var auðvitað að beðið væri heildstæðrar niðurstöðu og stóriðjuáform með tilheyrandi virkjunum yrðu sett í biðstöðu á meðan. Eins og alþjóð veit hefur raunin orðið þveröfug og aldrei ver- ið teflt fastar á stóriðjufram- kvæmdir en einmitt nú. Náin tengsl eru á milli þessarar stefnu og af- stöðu Íslands í loftslagsmálum, þar sem krafist er undanþágu vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjufyrirtækjum. Umhverfisráðuneyti í bóndabeygju Þegar leitað er skýringa á veikri stöðu umhverfismála í stefnumörk- un stjórnvalda verður ekki framhjá því horft að sjálf stjórnstöðin, um- hverfisráðuneytið, er langt frá því að rísa undir nafni og væntingum. Fjársvelti stofana ráðuneytisins er viðvarandi, eins og m.a. bitnar til- finnanlega á Náttúruvernd ríksins og Hollustuvernd. Brýnt er líka að styrkja sjálft ráðuneytið til mikilla muna frá því sem nú er. Öll rök standa til þess að umhverfisráðu- neytið gegni lykilhlutverki ásamt ráðuneytum efnahagsmála þegar um stefnumörkun til framtíðar er að ræða. Samtvinna þarf umhverf- isstefnu hagrænum þáttum og leggja mat á gildi óspilltrar nátt- úru. Í núverandi stjórnarsamstarfi birtist umhverfisráðuneytið mörg- um sem handlangari iðnaðarráðu- neytisins, m.a. í úrskurðum í við- kvæmum kærumálum. Veikleiki ráðuneytisins birtist einnig í slök- um undirbúningi lagafrumvarpa og í vanrækslu við að sinna alþjóða- samningum á umhverfissviði sem Ísland hefur gerst aðili að síðustu tíu ár. Dæmi um það er Ríó-samn- ingurinn um varðveislu líffræði- legrar fjölbreytni sem þjóðin hefur nánast ekkert frétt af síðan hann var staðfestur af Íslands hálfu 1994. Innflutningur erfðaefnis, framandi tegunda og erfðabreyttra matvæla eru jafnframt stór svið þar sem flest er unnið með hangandi hendi en fleiri ráðuneyti eiga þar hlut að máli. Þessi dapurlega staða endurspeglar fyrst og fremst skiln- ingsleysi valdhafa á gildi framsæk- innar stefnu í umhverfismálum. Horft fram á veg Sjálfbær þróun íslensks sam- félags er enn fjarlægur draumur og flest í molum sem til þarf að hann rætist. Gjörbreyting þarf að verða á stjórnarstefnu frá því sem nú er þar sem umhverfismál og græn gildi yrðu sett í forgang. Hverfa verður frá blindri stóriðjustefnu með þeim miklu fórnum sem henni fylgir fyrir náttúru og samfélag. Fræðsla í skólum og fjölmiðlum er afar mikilvæg með það að mark- miði að auka skilning á samhenginu í umhverfi okkar í stóru og smáu, allt frá heimilshaldi og daglegri breytni til efnahagsmála og stjórn- mála í víðu samhengi. Fá þarf sem flesta til virkrar baráttu fyrir betra umhverfi og sjálfbærri þróun sam- félagsins. Frjáls samtök áhugafólks um umhverfismál gegna þar þýð- ingarmiklu hlutverki en fá hér langtum minni stuðning en í ná- grannalöndum. Fátt sýnist brýnna fyrir Íslend- inga en að standa vörð um óspillt umhverfi og bæta úr því sem aflaga hefur farið. Framsýni á þessu sviði mun skila sér í góðum efnahag og farsæld til lengri tíma litið. UMHVERFISMÁLIN OG STAÐA ÍSLANDS Hjörleifur Guttormsson Sjálfbær þróun íslensks samfélags er enn fjarlægur draumur, segir Hjörleifur Guttormsson, og flest í molum sem til þarf að hann rætist. Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.