Morgunblaðið - 01.02.2001, Síða 30

Morgunblaðið - 01.02.2001, Síða 30
LISTIR 30 FIMMTUDAGUR 1. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ HANN er uppfullur af skrýtnum og skemmtilegum hugmyndum og nýtur þeirra forréttinda að geta helgað sig því að setja þær á svið út um allan heim. Það gengur ekki alltaf sem skyldi og það liggur illa á Norðmanninum Jo Strømgren daginn áður en hann heldur til Ís- lands þar sem hann er að fara setja upp sýningu hjá Íslenska dans- flokknum. Hann tekur þó fljótt gleði sína, enda mörg spennandi verkefni framundan og mistökin til þess að læra af. Auk þess kemur í ljós að mistökin sem hann taldi svo, hljóta afbragðs dóma. Sýningin sem Strømgren er svo ósáttur við var önnur tilraun hans til að setja norska þjóðararfinn á svið, Pétur Gaut eftir Henrik Ib- sen. Fyrsta atrennan var í Noregi fyrir nokkrum árum og þrátt fyrir góðar viðtökur og jákvæða gagn- rýni lýsti Strømgren því yfir að það hefði verið „misheppnaðasta upp- setning“ sem hann hefði nokkurn tíma látið frá sér fara. Nú stendur valið á milli fyrstu og annarrar uppsetningar en sú síðarnefnda var frumsýnd í Kaup- mannahöfn í janúar hjá Danse- scenen. Það er greinilegt á svip Strømgren á frumsýningunni að hann er allt annað en sáttur og daginn eftir hristir hann hausinn, hún gekk ekki upp. En hann segist læra af mistökunum og ætlar að reyna við Pétur Gaut í þriðja sinn í febrúar, í Sundsvall í Svíþjóð. Raunar eru gagnrýnendur á allt öðru máli en Strømgren, því sýn- ingin hefur hlotið einróma lof í dönskum fjölmiðlum, þykir kraft- mikil, fersk og frumleg. Kannski bara eigingirni Það hefur verið í nógu að snúast hjá Jo Strømgren, sem er einn þekktasti ungi dansahöfundur Norðurlanda. Hann hefur sett upp rúmar tuttugu á síðustu þremur árum. „Ég hef sett upp mörg verk á stuttum tíma, fengið góða gagn- rýni og gengið vel. Ég var einfald- lega eigingjarn, langaði að reyna aftur við Pétur Gaut en það sem gekk ekki upp í fyrstu atrennu gekk ekki heldur nú. Ég ætla að reyna einu sinni enn en held að þá sé nóg að gert, ég ætla ekki að helga líf mitt því að ná tökum á verkinu.“ Strømgren setur yfirleitt upp eigin verk, segir annað hafa til- hneigingu til að verða hver annar bisness. Hann hefur þó gert aðra undantekningu á, setti upp Hnotu- brjótinn í Mulhouse í Frakklandi skömmu fyrir jól, „með sinfóníu- hljómsveit og öllu, ég fékk að bregða mér í hlutverk einræðis- herra“. Strømgren segir vinnu að nýju með dansflokki vera endalausa uppsprettu hugmynda og fantasíu þar sem dansararnir hafa í flestum tilfellum heilmikið að segja um út- komuna. Þó er afar misjafnt hvað Strømgren hefur í höndunum þeg- ar hann hefst handa við nýja upp- setningu, stundum eru handrit og myndbandsupptökur af hreyfing- um en svo gerist það einnig að ekk- ert annað en hugmynd í kolli höf- undarins er fyrir hendi. Hann dansar enda af og til í eigin verk- um, þegar honum finnst mikið liggja við að koma einhverju ákveðnu á framfæri. „Ég er ekki í samkeppni við dansarana en lík- amstjáning er afar persónuleg og stundum vil ég bara dansa sjálfur.“ Tíminn sem til þess gefst er þó takmarkaður, þar sem hann er á stöðugum þeytingi á milli landa. Hann er bókaður á þriðja ár fram í tímann allt frá Tævan til Eystra- saltsríkjanna. Mannfræðistúdía á ferð „Að ferðast svona mikið er frá- bært, mannfræðileg áhugamanna- stúdía sem ég nýt í botn hvar sem ég er. Listamönnunum á hverjum stað finnst þeir auðvitað vera í nafla alheimsins,“ segir Strømgren og glottir. „Svo finnst mér nátt- úrulega gott að vera svona mikið á ferðinni því þá þarf ég ekki að standa svo oft frammi fyrir fjand- mönnum mínum,“ bætir hann við og brosir enn breiðar. Hann er hrifnastur af Austur- Evrópu „þar sem afturgöngur kommúnismans eru á hverju götu- horni, það er grátbroslegt á ein- hvern hátt sem ég á erfitt með að lýsa“. Óvenjulegustu reynsluna segir hann þó hafa verið að fara til Írans, þar sem vestrænn dans hafði ekki verið sýndur í tvo ára- tugi. „Þetta var óskaplega flókið, tekist á um komu danshópsins á ír- anska þinginu, svo og í Noregi, þar sem við vorum gagnrýnd fyrir að fara til lands sem styddi hryðju- verkastarfsemi. En reynslan var ótrúleg og okkur var tekið með kostum og kynjum.“ Mitt á milli hláturs og gráts Strømgren teflir oft á tæpasta vað í sýningum sínum, í vor heldur hann t.d. til Eystrasaltsríkjanna og Rússlands til að setja upp stóra sýningu með dönsurum og leikur- um sem flytja texta á rússnesku. „Reyndar ekki alvöru rússnesku,“ segir dansahöfundurinn hikandi. „Ég er ekki hræddur við gagn- rýni, ég hef fengið lof og last. Ég læt það ekki á mig fá, ég veit best sjálfur hvað er gott og hvað mið- ur.“ Verk Strømgren hafa verið sögð gamansöm og frumleg, sjálfur seg- ir hann þau hafa breyst. „Fyrstu verkin sem ég setti upp voru svo melankólísk að það kom fyrir að áhorfendur táruðust. Svo breyttust þau, húmorinn fór að skipta meira og meira máli og við urðum stund- um að gera stutt hlé á sýningunni af því að fólk hló svo mikið. Núna eru verkin einhvers staðar á milli hláturs og gráts, það er ekki að því stefnt að græta fólk.“ Angurværð frá fimmta áratugnum Tónlistin skipar ekki þann önd- vegissess í uppsetningum Strøm- grens sem menn myndu ætla enda segir hann dans annað og meira en taktfastar hreyfingar við tóna. Þögn á sviði er enginn glæpur að hans mati og hann hefur gaman af að leika sér með ýmis hljóð, t.d. af götu eða hjartslætti. Strømgren ætlar sjálfur að sjá um tónlistina í uppsetningunni í Borgarleikhúsinu, blanda saman hljóðum og gömlum slögurum frá fimmta áratugnum. Sýningin sem Strømgren setur upp á Íslandi nefnist Kraak Eet og Kraak Twe upp á hollensku. Ekki vill höfundurinn gefa upp þýð- inguna, segist með þeim hætti vilja verðlauna þá sem nenni að grafa það upp. Verkið sjálft byggist á aftur- hvarfi og angurværð, horft er aftur til fimmta áratugarins í tónlist og stemmningu. „Verkið fjallar um konur, sem er tiltölulega ný reynsla fyrir mig. Ég hef unnið mest með körlum hingað til og styrkur minn hefur m.a. legið í því að ég var mikið í íþróttum og vera kann að það sjáist á mörgum fyrri verka minna. En mig langar til að spreyta mig á verki um konur og vona auðvitað að mér takist að skilja þær,“ segir hann. „Margir karlmenn hafa jú verið sakaðir um að hafa engan skilning á hinu kven- lega. Það sem konum finnst kjána- legt kann okkur körlum að þykja dularfullt – og kvenlegt.“ Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Strømgren kemur til Íslands, fyrir tæpum tveimur árum sýndi hann með hinum norska dansflokki sín- um í Norræna húsinu við misjafnar undirtektir. Það var sýningin „Mandlige mysterier“ sem hlaut þann dóm hér í blaðinu að hún væri „óspennandi“, „næði ekki flugi“, hugmyndavinnan væri takmörkuð og um dansinn sjálfan var sagt að hreyfingar Strømgrens væru „at- hyglisverðar“. „Við komum hingað sama dag og sýningin var og fórum fyrst í Bláa lónið þar sem við nut- um þess að liggja í nokkra klukku- tíma. Við misstum hreinlega dóm- greindina í heitu vatninu og sýningin var eftir því. Þetta var versta sýning sem ég hef nokkurn tíma sett upp og ég biðst hér með afsökunar á henni,“ segir Strøm- gren. „Mér finnst það bera vott um hugrekki af Íslenska dansflokknum að bjóða mér hingað en er afar þakklátur fyrir það.“ Morgunblaðið/Þorkell Norski dansahöfundurinn Jo Strømgren á æfingu með Íslenska dansflokknum. Að skilja konur Það sem konum finnst kjánalegt kann körl- um að finnast dularfullt og seiðandi. Norski dansahöfundurinn Jo Strømgren ætlar að spreyta sig á viðfangsefninu konur með Ís- lenska dansflokknum. Urður Gunnars- dóttir hitti hann í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Thomas Petri Úr Pétri Gaut eftir Jo Strøm- gren. Bøjgen (Jason Nelson) og Solveig (Andrea Bescond). GLUGGAGALLERÍ Bjargar Inga- dóttur í Kaupmannahöfn er hið eina sinnar tegundar í borginni við sundið. Nú sýnir Tumi Magn- ússon vegfarendum myndir af öðru galleríi innan í. Minnsta galleríið í Kaupmanna- höfn hefur vakið óskipta athygli vegfarenda í nágrenni Kóngsins Nýjatorgs, þar sem það kúrir í kjallaraglugga rétt við Nýhöfn. Listunnendur hafa heldur ekki látið það fram hjá sér fara, þótt vissulega láti Window Space lítið yfir sér í listaumhverfi borgar- innar. Eigandi gallerísins er ís- lenska listakonan Björg Ingadótt- ir sem hefur tekið að sér að kynna hina ágætu íslensku hefð fyrir örgalleríum fyrir nágrönn- um okkar. Hefur Björg fengið ýmsa listamenn til að sýna þar og fyrir helgi opnaði Tumi Magnús- son sýningu á verki sínu Galleríi í örgalleríinu. Window Space er eins og nafnið gefur til kynna gluggi sem er tæplega einn rúmmetri að stærð. Var það opnað í nóvember 1999 og hafa verið haldnar tíu sýn- ingar þar sem opnar hafa verið allan sól- arhringinn, eðli máls- ins samkvæmt. Fyrir innan galleríið er vinnustofa Bjargar og hefur vinnu- friðnum stundum verið raskað þegar áhugasamir vegfar- endur vilja fá meira að sjá og heyra um það sem í glugganum er. Björg, sem hefur verið búsett í Dan- mörku í 23 ár, segir sig lengi hafa langað að opna örgallerí en þrátt fyrir allnokkra hefð fyrir galleríum sem verið hafa á barm- nælum, í uppábrotum og í glugg- um á Íslandi, á það sama ekki við um Danmörku. „Þetta fór hægt af stað en hefur vakið meiri og meiri ahygli og fólk verið óspart á at- hugasemdir um það. Þá hefur ver- ið haft samband við mig erlendis frá til að forvitnast um þetta.“ Sjálf vinnur Björg með innsetn- ingar og sýndi eigið verk í gall- eríinu fyrir jólin. Fyllti hún gluggann af klementínum en óvenjumikil hlýindi fyrir jólin urðu til þess að flýta rotnun þeirra við lítinn fögnuð nágrann- anna, sem kröfðust þess að listin yrði fjarlægð, segir listakonan og brosir. Nú hefur hún fengið Tuma Magnússon til að setja upp í glugganum og sýnir hann ljós- myndir af öðru og stærra galleríi. Tók hann myndir af hverjum vegg, stækkaði á límfólíu og sneið svo þær passa inn í sýningarrýmið en það verður til þess að fyrir- myndin afbakast. Segist hann vissulega hafa gaman af að sýna í svo takmörkuðu rými enda rak hann sjálfur gluggagallerí á Vest- urgötunni í Reykjavík í upphafi níunda áratugarins, sem nefndist Á bak við bókaskápinn. Tumi sýnir einnig á Carnegie sýningunni í Sophienholm í Kaup- mannahöfn en hann var einn þeirra listamanna sem valdir voru til að sýna á henni. Carnegie- sýningin fer á milli allra höfuð- borga Norðurlandanna og mun Tumi sjá þær allar, þar sem hann málar verkið „Fireexit“ á vegg hvers sýningarstaðar fyrir sig. Næstur í röð listamannanna sem sýna í Window Space er Dan- inn Jesper Fabricius. Hann fæst við klippimyndir, ljósmyndun, málverk og margt annað, auk þess sem hann gefur út lista- tímaritið Pist Protta. „Ég hef ekki enn ákveðið hvað ég ætla að sýna. En ég gat auðvitað ekki annað en þegið boð um að sýna í svona óvenjulegu galleríi. Vandinn er bara að takmarka sig í svona skýrt afmörkuðu sýningarrými.“ Tumi Magnússon Guðað á glugga Björg Ingadóttir Morgunblaðið/Urður Gunnarsdóttir Window Space lætur lítið yfir sér þar sem það kúrir við Peder Skrams Gade númer 16B.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.