Morgunblaðið - 13.02.2001, Side 12
FRÉTTIR
12 ÞRIÐJUDAGUR 13. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
DÓMKIRKJAN, Hallgrímskirkja,
Neskirkja og miðborgarstarf kirkj-
unnar efndu til málþingsins þar sem
markmiðið var að draga fram mynd
af þörfum fólks í miðborginni með til-
liti til þjónustu kirkjunnar og koma
með hugmyndir um möguleika kirkj-
unnar til að mæta þessum þörfum
enn betur.
Séra Jóna Hrönn Bolladóttir, ný-
vígður miðborgarprestur og fram-
kvæmdastjóri miðborgarstarfs
KFUM og KFUK, opnaði umræðuna
þar sem hún sagði miðborg hverrar
borgar vera lýsandi fyrir sjálfsmynd
þjóðarinnar og segði mikið um íbúa
sína. Hún dró upp dökka mynd af
miðbæjarkjörnum stórborga sem hún
sagði vera flakandi sár á þjóðarlík-
amanum þangað sem auðurinn og
eymdin söfnuðust og byggju hlið við
hlið. Þar sem peningastofanir og ut-
angarðsmenn ættu sér heimili en hinn
almenni borgari reyndi að forðast eft-
ir megni, sérstaklega þegar kvölda
tæki.
„Borgir deyja innan frá og miðbær-
inn okkar er því miður farinn að kólna
svona, þar sem neysla, tómhyggja og
innantómt ráf einkenna helgarnar í
miðborginni,“ sagði Jóna Hrönn og
minnti á að það væri eitt hlutverka
kirkjunnar og trúarinnar að sporna
gegn þessari óvænlegu þróun. Hún
sagði kristið miðborgarstarf eiga að
vera unnið með boðun á götunni, inn-
an um fólkið og iðandi lífið, líka á næt-
urnar þegar neyðin væri síst minni.
Kirkjan ætti að tala tungu sem gatan
skildi, en það væri ekki nóg því einnig
þyrfti að „lækka þröskuldinn og víkka
dyrnar svo við sem kirkjunni tilheyr-
um lokumst ekki inni“.
Séra Bjarni Karlsson, sóknarprest-
ur í Lauganeskirkju, tók undir orð
Jónu Hrannar og sagði miðborgar-
starfið eiga að felast öðru fremur í því
að kirkjan væri til staðar hvar þar
sem fólk væri samankomið til að eiga
heiðarlegt samtal um raunveruleg
lífsskilyrði og lífsgildi. Kirkjan hefði í
gegnum aldirnar átt samleið með
þjóðinni og það væri verkefni dagsins
í dag að sjá til þess að hún hætti því
ekki. „Kirkjan þarf að efna til tengsla
og megna að hafa fyrir því að vera á
staðnum – á götunni,“ sagði séra
Bjarni og minnti á að stofnun emb-
ættis miðborgarprests væri yfirlýsing
frá þjóðkirkjunni til þess að þekkja og
viðurkenna þá breidd sem sé að fyr-
irfinna í íslensku samfélagi.
Embættismenn kirkjunnar
ósýnilegir?
Tónlistarmaðurinn Magga Stína,
gamall Hlemmari eins og hún kynnti
sig, sagði ekki vanþörf á breytingum í
kirkjustarfinu. Sér virtust embættis-
menn kirkjunnar ósýnilegir, þeir
væru ekki í sambandi við fólk og engu
væri líkara en djúp gjá hefði myndast
milli kirkjunnar og almennings. Fólk
talaði sitthvort tungumálið sem væri
ekki undarlegt þar sem menn væru
lokaðir inni í kirkjunum og færu ekki
út. Hún tók því vel í orð séra Bjarna
um að það væri grundvallaratriði að
prestar færu út meðal fólksins og
reyndu að bæta mannlífið.
Séra Jakob Hjálmarsson, dóm-
kirkjuprestur, svaraði þessari gagn-
rýni með því að benda á að 50 prestar
væru að sinna 120 þúsund höfuðborg-
arbúum og það væri því auðvelt að sjá
hversu lítils megnugir þeir væru utan
þess að sinna daglegum skyldum sín-
um. „Það koma svo margir inn um
dyrnar á kirkjunni minni að ég kemst
ekki út,“ sagði séra Jakob.
Neyðaraðstoðin aðeins plástur
á sár eymdarinnar
Miðborgarmynd Önnu M. Ólafs-
dóttur, fræðslufulltrúa Hjálparstarfs
kirkjunnar, var af döprum og ein-
mana sálum. Af þeim 1.600 sem leit-
uðu aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunn-
ar í fyrra var að sögn Önnu rúmur
helmingur frá einhleypu fólki og
helmingur þess býr í miðbænum.
Anna sagði skýringuna á þessu að
nokkru leyti vera að mun auðveldara
væri að nálgast eiturlyf í miðborg
Reykjavíkur heldur en í úthverfum
hennar og flestir sem leituðu hjálp-
arinnar ættu við fíkn að stríða. Marg-
ir væru ofbeldishneigðir, illa til reika
og illa lyktandi og fyndu sér skjól yfir
blánóttina í húsaportum og við hita-
veitustokka.
Kirkjan hefði aðeins færi á að veita
þessum einstaklingum neyðaraðstoð
– plástur á sárið og sagði Anna það
jafnvel vera spursmál hvort kirkjan
ætti að beita sér á þessum vettvangi
þar sem það væru í raun yfirvöld sem
veita ættu þessa aðstoð og kirkjan
ætti ef til vill frekar að snúa sér að
orðabaráttu fyrir kjörum þeirra sem
á því þurfa að halda, eins og t.d. ör-
yrkjum sem væru 60% þeirra sem
sækja nú aðstoð hjá Hjálparstofnun-
inni. Einnig væri verðugt athugunar-
efni hvort kirkjan ætti frekar að snúa
sér að aðstoð við þá sem eru móttæki-
legir fyrir henni, þannig væri jafnvel
hægt að borga fyrir börn efnaminni
fjölskylda í sumarbúðir og sinna þeim
frekar en útigangsmönnunum sem
oftar en ekki tæku veittri aðstoð illa.
Séra Jakob sagði ljóst að lífið væri
ekki bara sæla í 101 Reykjavík, það
væri hins vegar hægt að taka á hlut-
unum og breyta umhverfinu. Þar spil-
aði kirkjan stórt hlutverk í að vinna
að umbótum á sviði mannlífsins. Jak-
ob sagði að það hefði verið stefna
Dómkirkjunnar sl. áratug að vísa
þurfandi fólki ekki til Hjálpastofnun-
ar kirkjunnar heldur reyna að leysa
úr vandanum í kirkjunni sjálfri.
Hjálparstarf á heimavettvangi, í söfn-
uðunum sjálfum, væri mikilvægt og
t.d. væri æskilegt að söfnuðirnir sæi
um mataraðstoð, fatagjafir o.þh.
Jakob varpaði þeirri spurningu
fram hvort samsetning byggðarinnar
leiddi til þess að fátækt fólk sækti í
miðbæinn þar sem húsnæði væri
ódýrara en að sama skapi lélegra.
Kristín Einarsdóttir, framkvæmda-
stjóri miðborgarinnar, svaraði og
sagði að þegar tekjur fólks væru
skoðaðar eftir svæðum, væru tekjur
fólks í miðbænum lægri en annars
staðar í borginni. Þó væru teikn á lofti
að þetta væri að breytast. Spurð
hvort samsetning íbúahópsins væri
öðruvísi en í öðrum borgarhlutum,
fleiri nýbúar og öryrkjar, sagði hún
litlar ef nokkrar upplýsingar liggja
fyrir um þetta.
Breytingar – framtíðarsýn
Fundargestir voru sammála um að
kirkjan hefði stóru hlutverki að gegna
í miðborgarsamfélaginu, ekki sem
siðapostular og predikarar heldur
virkir þátttakendur í daglegu lífi íbú-
anna. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson,
prófastur, sagði kirkjuna eiga margt
ólært í borgarsamfélaginu og því væri
nauðsynlegt að gera betur og leita
nýrra leiða. Samstarf við aðrar stofn-
anir í borginni væri fýsilegur kostur
þar sem hægt væri að takast á við
vandamál og verkefni í sameiningu.
Til að efla framtíðarstarf kirkjunn-
ar sögðu fundarmenn að leggja þyrfti
áherslu á starf með börnum og for-
eldrum ungra barna og efla æsku-
lýðsstarf kirkjunnar. Séra Bjarni
sagði það sorglegt hvað kirkjurnar
væru fjársveltar vegna unglinga-
starfsins, orð sem séra Sigurður Páls-
son tók undir og sagði það erfiða mót-
sögn að það kostaði að sinna börnum
en kirkjan ætti alltaf að vera ókeypis.
Til að halda úti góðu æskulýðsstarfi
þyrfti hæfa einstaklinga og þeir kost-
uðu peninga. Séra Bjarni sagði ef til
vill tímabært að kirkjan leitaði sam-
starfs við fyrirtæki sem gætu kostað
starfið. Það væri mikilvægt að ná til
ungs fólks því það væri framtíðar-
safnaðarfólk og því þyrfti kirkjan að
starfa með íþróttafélögum, skátunum
og öðru félagsstarfi, „ekki með pred-
ikunum heldur framkomu og lífi“.
Fjölsótt málþing um stöðu kirkjunnar í miðborg Reykjavíkur
Kirkjan þarf
að efla tengsl-
in við fólkið
Morgunblaðið/Þorkell
Þau voru meðal mælenda, frá vinstri: séra Halldór Reynisson, Anna M.
Ólafsdóttir, séra Jakob Hjálmarsson og Kristín Einarsdóttir.
Kirkja í borg og þarfir fólks voru m.a. um-
ræðuefni á málþinginu á Dómkirkjuloftinu.
Í frásögn Jóhönnu K. Jóhannesdóttur kem-
ur fram að ýmsar myndir voru dregnar
upp af miðborgum, til dæmis að þar
byggju auðurinn og eymdin hlið við hlið.
FORMLEG opnun ferðaskrifstof-
unnar Sólar hf. var föstudaginn
9. febrúar síðastliðinn og daginn
eftir var opið hús vegna útkomu
fyrsta sumarbæklingsins.
Aðaláfangastaðir ferðaskrif-
stofunnar í beinu leiguflugi eru
Kýpur, sem nú er í fyrsta sinn
boðin í beinu flugi frá Íslandi, og
Algarve í Portúgal. Á Algarve
hefur Sól gert langtímasamning
með einkaumboð á Íslandi við Ap-
arthotel Paraiso de Albufeira
sem opnar í lok febrúar en ferða-
skrifstofan er önnur tveggja evr-
ópskra ferðakrifstofa sem býður
þennan gistimöguleika. Frá Kýp-
ur býður Sól síðan upp á tengi-
ferðir til Ísrael og Egyptalands
með íslenskri fararstjórn.
Samið hefur verið við flug-
félagið Euro Cypria, sem er dótt-
urfyrirtæki ríkisflugfélags Kýp-
ur, Cyprus Airways, um flug
þangað en til flugsins verða not-
aðar Airbus A320 vélar. Portú-
galsflugið verður síðan með flug-
félaginu SATA International, sem
er annað tveggja ríkisflugfélaga
Portúgals, en flogið verður á Bo-
eing 737-300 vélum.
Auk leiguflugsins býður Sól í
sumar m.a. upp á margs konar
skemmtisiglingar vestan hafs og
austan, heilsuferðir til Ungverja-
lands auk almennrar farseðlasölu
og hótelbókana víða um veröld.
Formaður stjórnar Sólar er Jó-
hann Óli Guðmundsson og vara-
formaður er Helgi Magnússon.
Að auki eru í stjórninni Óskar
Magnússon, Ásgeir Bolli Krist-
insson, Hannes Guðmundsson og
séra Pálmi Matthíasson.
Ferðaskrifstofan
Sól hefur form-
lega starfsemi
Morgunblaðið/Kristinn
Ómar Kristjánsson forstjóri, t.v., og Goði Sveinsson markaðsstjóri.
DÓMSMÁLARÁÐUNEYTIÐ gaf á
föstudag út bráðabirgðahappdrætt-
isleyfi fyrir Milljónapottinn, síma-
happdrætti Ástþórs Magnússonar.
Leyfið, sem gildir fram til 30. júní,
var gefið út með þeim forsendum að
breyting yrði gerð á formi happ-
drættisins þannig að hér eftir komi
það út sem skafmiðar.
Ástþór sagði framkvæmdina
verða umfangsmeiri og þyngri í vöf-
um fyrir vikið en breytti annars
engu. Spurður hvort hann myndi
sækja um endurnýjun leyfisins þeg-
ar það rynni út sagði hann það ekki
ljóst, framhald og framkvæmd happ-
drættisins yrði endurskoðað þegar
þar að kæmi. „Nú er þetta allt saman
leyst og orðið formlega löglegt enda
var dregið úr happdrættinu hjá
sýslumanninum í Reykjavík í gær,“
sagði Ástþór sem átti von á öðrum
drætti úr happdrættispottinum síðar
í dag.
Bráðabirgða-
leyfi fyrir
Milljónapott-
inum veitt
HÆSTIRÉTTUR hefur fellt úr gildi
gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms
Reykjavíkur yfir alsírskum ríkisborg-
ara sem réðst á mann við pítsustað í
Fákafeni þann 5. janúar sl. Alsírbúinn
veitti manninum tvö djúp stungusár
með hnífi. Þegar hann losnaði úr
gæsluvarðhaldi á föstudaginn hafði
hann setið þar í fimm vikur.
Í læknisvottorði segir að hnífslögin
sem hann veitti manninum hafi geng-
ið nærri mikilvægum líffærum. Ekki
virðist þó sem fórnarlambið muni
bera varanlegan skaða af völdum
áverkanna. Málið er rannsakað sem
tilraun til manndráps.
Í úrskurði héraðsdóms er vitnað í
skýrslu lögreglustjórans í Reykjavík
þar sem segir að maðurinn hafi áður
komið við sögu lögreglu í málum sem
varða samskipti hans við fólk hér af
norður-afrískum uppruna. Hann hafi
níu sinnum verið kærður vegna þess-
ara mála en fimm sinnum hafi hann
verið kærandinn. Sum málanna varða
hann og fórnarlamb hnífsstunguárás-
arinnar og bræður hans.
Héraðsdómur hafði úrskurðað að
maðurinn skyldi vera í gæsluvarð-
haldi til 6. mars en lögreglan hafði
farið fram á gæsluvarðhald til 20.
mars.
Hefur ítrekað hótað lífláti
Rök lögreglunnar fyrir áframhald-
andi gæsluvarðhaldsvist voru m.a.
þau að hann hafi ítrekað hótað fórn-
arlambinu lífláti. Gangi hann laus sé
líklegt að hann haldi áfram hótunum
sínum við fórnarlambið og fjölskyldu
hans. Þá sé hætta á frekari líkams-
árásum með eggvopnum. Einnig sé
hann sjálfur í hættu fyrir hefndum.
Lögreglan taldi enn fremur hættu
á að maðurinn myndi spilla sönnunar-
gögnum en lögreglan leitar enn fatn-
aðar sem hann var í þegar árásin var
framin. Þá sé maðurinn með erlent
ríkisfang. Hann stundi hvorki vinnu
né eigi hann fjölskyldu hér á landi.
Líklegt verði að teljast að hann reyni
að koma sér undan málsókn, gangi
hann laus.
Á þetta féllst Hæstiréttur ekki. Í
dómnum segir að af gögnum málsins
verði ekki séð að leit að fötunum hafi
verið haldið áfram á þeim tíma sem
maðurinn hefur setið í gæsluvarð-
haldi.
Hæstaréttardómararnir Markús
Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og
Gunnlaugur Claessen dæmdu.
Hnífsstunguárásin
í Fákafeni
Gæsluvarð-
halds-
úrskurður
úr gildi
♦ ♦ ♦