Morgunblaðið - 16.06.2001, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 16.06.2001, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 16. JÚNÍ 2001 29 Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar? Svar: Landnámsmenn Íslands hafa flestir verið ókunnugir jarðhita, svo að hverir og laugar Íslands hljóta að hafa komið þeim á óvart. Örnefni sýna að þeim hefur hætt til að finn- ast hveragufan vera reykur; margir jarðhitastaðir eru kenndir við reyk, en gufu-örnefni eru fá og líklega ekk- ert sérstaklega á jarðhitastöðum, enda eru þau skýrð þannig í Land- námabók að þar hafi landnámsmenn sem hétu Gufa að skírnarnafni eða viðurnefni komið við. Þó kemur þessi nýstárlega reynsla landnámskynslóðarinnar furðu lítið fram í sögum, eins og raunar reynsla þeirra af eldgosum og öskufalli. Það er eins og venjur hafi ráðið miklu um það af hverju voru sagðar sögur. En þegar ritaðar sögur koma til, um þremur öldum eftir upphaf land- náms, var sagt frá tvenns konar jarð- hitanotkun sem sjálfsögðum hlut. Annars vegar baðaði fólk sig í laugum. Frá því segir í Íslend- ingasögum, til dæmis í Laxdæla sögu í tengslum við atburði sem eru tíma- settir nálægt aldamótunum 1000. Auðvitað verður ekki fullyrt að þar sé sögulega rétt sagt frá, þótt ekkert sérstakt mæli á móti því, og víst er að á 12. öld fóru menn í bað í laugum. Þannig andaðist Ketill Þorsteinsson Hólabiskup í laugarferð í Laugarási í Biskupstungum þegar hann var í heimsókn í Skálholti árið 1145. Frá því segir í sögunni Hungurvöku, sem er varla skrifuð meira en um hálfri öld eftir atburðinn. Líka segir frá laugarsetu Snorra Sturlusonar í Reykholti á fyrri hluta aldarinnar á eftir, og fleira mætti tína til. Snorra- laug í Reykholti er að því leyti merkileg að hún er manngerð og vatni hefur verið veitt í hana úr hver um leiðslu gerða úr grjóti. Hins vegar var jarðhitavatn notað til þvotta. Í Reykholti báru konur heim vatn úr hver í svo stórum katli að þær héldu á honum á stöng á milli sín. Í Skagafirði fóru konur til laugar með þvotta sína, hittust þar frá fleiri bæjum og skýldu sér í húsum við laugina. Þetta voru hversdagsat- burðir og koma aðeins við sögu af því að þeir skópu tilefni til að sanna heil- agleika dýrlinga okkar. Kona datt í hverinn í Reykholti og reyndist furðu lítið brunnin eftir að heitið hafði verið á hinn sæla Þorlák bisk- up. Hrafn stal skóm einnar konunnar í Skagafirði en skilaði þeim aftur þegar hún hafði ákallað Jón biskup Ögmundarson. Í Þorgils sögu skarða í Sturlungu kemur fram að kona þvoði þvott við Lýsuhvolslaug á Snæfellsnesi; hún er nefnd af því að Þorgils glensaði meira við hana, þeg- ar hann kom til laugar, en bónda hennar líkaði. Kannski ber minna á jarðhitanotkun í heimildum en efni standa til af því að hún kom mest við hversdagsiðju kvenna. Engu að síður er greinilegt að jarðhitinn hefur ver- ið vannýtt auðlind. Notkun jarðhita hefur væntanlega haldist í svipuðu formi langt fram eftir öldum. Í Íslandslýsingu Þórðar biskups Þorlákssonar sem kom út 1666 segir til dæmis að Íslendingar telji heilsusamlegt að baða sig í volg- um laugum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og fleiri ritum 18. aldar er víða minnst á laugar og böð í þeim. En yfirleitt er samt ekki talað um jarðhita sem hlunnindi eða kosti á jörðum á þess- um tíma, til dæmis ekki í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem var skráð á fyrstu áratugum 18. aldar. Í mikilli jarðhitasveit eins og Biskupstungum í Árnessýslu er varla minnst á jarðhita. Þó segir um Laugarás: „Eldivið spara hér hver- arnir, en þar á mót drepst þar í pen- ingur þess á milli.“ Hér kann að vera átt við að sparist að hita þvottavatn, til dæmis til að þvo ull, en kannski hefur heitt hveravatn líka verið not- að til eldunar. Á árunum 1773-93 var salt unnið á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp með því að sjóða sjó í hveravatni. Þetta var opinber framkvæmd í eigu kon- ungssjóðs og einstæð á Íslandi á þessum tíma. Á 19. öld var tekið að skipuleggja notkun Þvottalauganna í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur; árið 1832 var fyrst reist þar hús fyrir þvotta- konur. Um miðja öldina var tekið að rækta kartöflur í volgri jörð víða um land. En það beið 20. aldar að menn leiddu heitt vatn í hús sín til upphit- unar. Fyrstur mun hafa gert það Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, líklega árið 1908, en Erlendur Gunnarsson á Sturlureykj- um í Borgarfirði leiddi hveragufu í hús sitt um það bil þremur árum síð- ar. Á þriðja áratug aldarinnar var síðan tekið að nota hveravatn til yl- ræktar, við Þvottalaugarnar í Laug- ardal og á Reykjum í Mosfellssveit. Upp úr þessu hófst jarðhitanotkun Íslendinga að marki, og er skýrt rækilega frá henni í afar vandaðri bók Sveins Þórðarsonar, Auður úr iðrum jarðar, sem kom út árið 1998 í Safni til iðnsögu Íslendinga. Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði við HÍ. Hvað er bráðahvítblæði og hvað er gert við því? SVAR: Hvítblæði er illkynja sjúk- dómur sem, eins og nafnið gefur til kynna, lýsir sér með auknum fjölda hvítra blóðkorna. Hvítblæði er stundum kallað blóðkrabbi og eins og í öðrum krabbameinum eru ill- kynja frumurnar ekki aðeins of margar heldur gegna þær ekki leng- ur réttu hlutverki í samfélagi frumn- anna og trufla auk þess eðlilega starfsemi annarra frumna. Allar frumur blóðsins eiga upp- runa sinn í beinmerg. Þar eru fjöl- hæfar stofnfrumur sem geta af sér nokkrar gerðir af öðrum stofn- frumum og afkomendur þeirra verða síðan að fullþroskuðum blóðfrumum. Sérstök gerð af stofnfrumum er for- veri rauðra blóðkorna, önnur er for- veri hvítra átfrumna í blóði og svo framvegis. Hér þarf að skjóta því inn að hvítu blóðkornin skiptast gróft sagt í át- frumur og eitilfrumur og gegnir hvor gerðin sínu sérhæfða mikilvæga hlutverki við varnir líkamans gegn sýkingum. Aðalstarfsvettvangur eit- ilfrumna er í eitlum og milta og þar taka þær út lokaskrefin á þroskaferli sínum. Illkynja vöxtur getur átt uppruna sinn í stofnfrumum allra hinna ólíku tegunda blóðfrumna og eftir því er hvítblæði skipt í tegundir eftir upp- runa. Gróft sagt er aðalskiptingin í hvítblæði af átfrumuuppruna (myeloid) og hvítblæði af eitilfrumu- uppruna (lymphoid). Síðan er gerður greinarmunur eftir því hversu hrað- ur sjúkdómsgangurinn er, og talað um „krónískt“ eða langvinnt hvít- blæði annars vegar og „akút“ eða bráðahvítblæði hins vegar. Það fyrr- nefnda segir einkum til sín á efri ár- um og getur sjúklingurinn haft slíkt hvítblæði árum og jafnvel áratugum saman, en oft endar það með bráða- hvítblæði þegar frá líður. Bráðahvít- blæði af eitilfrumuuppruna leggst hins vegar einkum á börn og ung- linga. Bráðahvítblæði greinist oft þannig að sjúklingur leitar læknis vegna einkenna sem stafa af ofangreindri truflun á eðlilegri starfsemi, í þessu tilviki blóðfrumna, svo sem þreytu, úthaldsleysi, endurteknum sýk- ingum eða marblettum. Sjúkdóms- greiningin fæst með því að skoða sýni úr blóði og beinmerg. Við meðferð bráðahvítblæðis er einkum beitt frumueyðandi lyfjum sem hafa þann eiginleika að eyða frumum sem eru að fjölga sér. Það gefur því augaleið að aukaverkanir slíkra lyfja eru að þau ráðast líka gegn eðlilegum frumum sem fjölga sér hratt, það er eðlilegum stofn- frumum blóðfrumna og frumum í hársekkjum og slímhúðum. Með- ferðin hefur því í för með sér hárlos, mjög mikla áhættu á sýkingum og sár í öllum meltingarveginum. Lífs- horfur barna með hvítblæði eru þrátt fyrir þetta góðar og litið er á bráðahvítblæði barna sem lækna- nlegan sjúkdóm. Þótt árangur hjá fullorðnum sé síðri eru lífshorfur þeirra allgóðar. Hugsunin með meðferðinni er að uppræta illkynja stofnfrumur og ein leið til að ná því markmiði á árang- ursríkan hátt er að beita mjög kröft- ugri lyfjameðferð (ásamt geisla- meðferð) sem gerir út af við allan eðlilegan blóðmyndandi vef og gefa síðan sjúklingnum nýjan blóðmynd- andi vef með beinmergsígræðslu. Þegar það er gert þarf að vanda vel til vals á merggjafanum, hann þarf að hafa svokallaða vefjaflokkagerð sem líkist sem mest þeirri sem þeg- inn hefur. Það er nauðsynlegt því að nýi mergurinn á að setjast að í þeg- anum sem nýtt ónæmiskerfi og má því ekki bera með sér ónæmisfrumur sem gætu ráðist gegn líffærum þeg- ans. Þetta er sérhæfð og vandasöm meðferð og tekur mjög á sjúklinginn en getur borið prýðilegan árangur. Allnokkrir íslenskir sjúklingar hafa fengið bata af slíkri meðferð. Merg- skipti eru ekki framkvæmd hér- lendis og hafa flestir hinna íslensku sjúklinga farið til Svíþjóðar til slíkr- ar meðferðar. Helga Ögmundsdóttir, dósent í læknisfræði við HÍ. Hvernig nýttu for- feður okkar jarðhita- orku sér til búsældar? Meðal umfjöllunarefnis á Vísindavefnum undanfarna viku má nefna nafnið á heimsálfunni Afríku, sturtutjöld, villta gullfiska, fordóma gagnvart fötluðum, frjálshyggju, hor, stærstu lönd í heimi, íslenska vegakerf- ið, frídaga, tarantúlur, töluna 13, fjölgun mannkyns, víkjandi lán, vísitölur, Alexander Fleming, NEP-stefnuna og vísuna „Grundar dóma“. Slóð vefsetursins er www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI Snorralaug í Reykholti.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.