Morgunblaðið - 23.11.2001, Page 24

Morgunblaðið - 23.11.2001, Page 24
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF 24 FÖSTUDAGUR 23. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur veitti í gær Kjöt- umboðinu hf., sem áður hét Goði hf., heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna. Kjötumboðið lagði fram frumvarp að nauða- samningi með beiðni sinni um heimild til nauða- samninga. Þar kemur fram að lánardrottnum verður boðið að velja einn þriggja kosta um greiðslutilhögun. Fyrsti valkosturinn hljóðar þannig að lánar- drottinn fær greidd 61% krafna sinna. Munu 19,5% þeirrar kröfu verða greidd innan þriggja mánaða frá staðfestingu nauðasamnings, önnur 19,5% innan sex mánaða og 19,5% innan tólf mán- aða. Þá verði 41,5% greidd með hlutafé í Norð- lenska matborðinu ehf. á genginu 1,0. Kjötumboð- ið mun freista þess að ná fram kauptilboði frá þriðja aðila í hlutaféð þannig að lánardrottnar geti átt val um hvort þeir vilji selja væntanlega hluti sína eða eiga þá. Í annan stað geta þeir lánardrottnar sem eiga kröfur að fjárhæð 75 þúsund krónur eða lægri fengið þær greiddar innan þriggja mánaða. Í þriðja lagi eiga þeir lánardrottnar sem eiga kröfur sem eru hærri en 75 þúsund krónur þess kost að fá 75 þúsund krónur greiddar upp í kröfu sína og telst hún þá að fullu greidd. Sleginn er sá varnagli við framangreinda val- kosti að áætlanir Kjötumboðsins standist um inn- heimtanleika útistandandi krafna félagsins og áætlað söluverðmæti lausafjár og vörubirgða auk rekstrarkostnaðar á samningstímanum. Engar tryggingar verða veittar fyrir greiðslu samningskrafna. Samkvæmt frumvarpinu mun Sparisjóður Mýrasýslu falla frá 40 milljóna króna veðkröfum í fasteignum Kjötumboðsins í Borgarnesi. Fjárhæð samningskrafna hækkar því um þá upphæð. Þá mun Grísabær sf. falla frá bindandi húsaleigu- samningi við Kjötumboðið til ársins 2009, sem fel- ur í sér kvöð til greiðslu 60 milljóna króna í húsa- leigu, gegn því að fá greiddar 5 milljónir króna í skaðabætur. Kjötumboðinu veitt heimild til nauðasamninga KOSTUN hefur mikið færst í vöxt meðal fyrirtækja jafnt hér á landi sem annars staðar. Kostun er hins vegar margflókið verkefni sem krefst fagmennsku til að hún skili tilætluðum árangri. Þetta kom fram í máli Leópolds Sveinssonar, fram- kvæmdastjóra markaðssviðs AUK auglýsingastofu, en hann var fund- arstjóri á hádegisverðarfundi ÍMARK sem bar yfirskriftina „Skila styrkir og kostun árangri?“ Leópold sagði að til að kostun skili fyrirtækjum tilætluðum ár- angri væri ekki nóg að styrkja gott málefni, það þurfi jafnframt að láta markaðinn vita á óyggjandi hátt að verið sé að því. Flutt voru tvö erindi á fundinum. Hrefna Bachmann, markaðsstjóri hjá Símanum, sagði í sínu erindi að árangur fyrirtækisins af kostun væri ótvíræður. Minni fjármunum væri varið í kynningar en áður en árangurinn væri meiri. Þá kom fram í máli Jóhanns P. Jónssonar, deildarstjóra markaðs- og kynning- ardeildar ESSO, að það hafi tví- mælalaust verið jákvætt fyrir fyr- irtækið að hrinda af stað verkefninu ESSO og Bubbi gegn fíkniefnum. Það verkefni sýndi að stuðningur við samfélagsverkefni og ímyndaruppbygging fyrirtækja geti vel farið saman. Kostun fylgt eftir á faglegan hátt Leópold sagði að um 10 ár væru liðin frá því fyrst hafi borið á kost- un hér á landi og að algengustu kostunarverkefnin væru tengd íþróttum og öðrum dagskrárliðum ljósvakamiðla. Menningarmál væru þó einnig farin að njóta athygli kostenda. Listasafn Íslands, Ís- lenski dansflokkurinn og Sinfóníu- hljómsveitin hafi þannig fengið verulegan stuðning frá fyrirtækjum á síðustu misserum. Þá hafi sjúkra- stofnanir notið góðvildar félagasam- taka í gegnum tíðina, sem hafi verið dugleg við að safna peningum hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Er- lendis byggja sjúkrastofnanir víða tilveru sína að talsverðu leyti á kostun. Hann nefndi einnig að Greenpeace-samtökin byggðu til- veru sína að meira eða minna leyti á kostun. Samtökin nái að vera eins sterk og raun ber vitni á grundvelli þessa. Leópold sagði það hafa verið djarfa ákvörðun hjá ESSO að taka afstöðu gegn fíkniefnum. Það sé til vitnis um að eitthvað nýtt sé að gerast á markaðinum hér á landi. Kannski muni íslensk fyrirtæki í auknum mæli taka afstöðu til ýmssa mála, þegar árangurinn af átaki ESSO kemur í ljós. Hann sagði kannanir hafa sýnt að kostun geti verið árangursríkt markaðstæki. Þær sýni líka að kostun skili stundum litlum sem engum árangri. Kostunarverkefn- um sem fylgt sé eftir af fullum krafti á faglegan hátt nái þó oftast góðum árangri, þ.e. ef fólk þekkir þær gildrur sem hægt er að falla í og nær að varast þær. Leópold sagði skýringarnar á því að kostun skili ekki tilætluðum ár- angri geti verið margsnúnar. Al- gengasta gildran sem fyrirtæki falli í sé sú að kostendur séu of margir. Kannanir sýni að ef kostendur eru orðnir fimm, sex eða fleiri, verði ár- angurinn fyrir hvert fyrirtæki lítill. Verkefnin þurfi að vera áhugaverð og ekki of tengd öðru fyrirtæki. Þá nefndi hann ónógan sýnileika á vettvangi, litla eða enga tengingu við málefnið og of stuttan samn- ingstíma sem mögulegar ástæður fyrir því að kostun skili ekki tilætl- uðum árangri fyrir viðkomandi fyr- irtæki. Vel staðið við málefni lands og þjóðar Hrefna Bachmann sagði að Sím- inn hefði sett sér það markmið að vera þekktur fyrir að veita mark- vissan stuðning við íþróttir, menn- ingu og listir, menntun og mann- úðarmál. Á íþróttasviðinu hafi fyrirtækið einbeitt sér að stuðningi við KSÍ og varðandi menningu og listir að Listasafni Íslands og Leik- félagi Íslands. Á þessu ári væri ekki sérstök áhersla lögð á kostun við menntun, en stefnt væri að því að gera meira í þeim efnum á næsta ári. Varðandi mannúðarmálin hafi markvisst verið unnið að stuðn- ingi við Krabbameinsfélagið og Rauða krossinn. Hún sagði að Síminn hefði kostað Símadeildina í knattspyrnu síðast- liðin fjögur ár. Forsendan fyrir því væru vinsældir knattspyrnunnar sem fengi mikla umfjöllun í fjöl- miðlum. Með stuðningi við Lista- safn Íslands væri verið að nálgast annan markhóp en í fótboltanum. Árangurinn hafi skilað sér í 75% aukinni aðsókn að safninu. Fram kom í máli Hrefnu að könnun sem Gallup gerði fyrir Sím- ann sýndi að um 75% aðspurðra teldu að fyrirtækið hefði staðið vel við málefni lands og þjóðar. Þá hafi jafnframt komið fram að viðhorf al- mennings til Símans, mælt á einkunnaskalanum frá 0 til 10, hefði hækkað úr 6,6 í september á síð- asta ári í 7,1 í sama mánuði á þessu ári. Í júní 1997 var samsvarandi einkunn Símans 7,3, hún var 6,9 í maí 1998 og 6,9 í ágúst 1999. Átak gegn fíkniefnum er jákvætt Jóhann P. Jónsson sagði frá átaki ESSO og Bubba Morthens gegn fíkniefnum. Hann sagði að átakið snerist fyrst og fremst um forvarn- ir með fræðslu og fjárstuðningi. Þá styðji viðskiptavinir ESSO átakið með notkun safnkorts félagsins. Foreldrahúsið hafi verið fyrst til að hljóta styrk vegna átaksins en Jafn- ingjafræðslan hafi einnig notið góðs af því. Nýir aðilar verði styrktir í febrúar á næsta ári. Jóhann sagði erfitt að meta ár- angurinn af þessu forvarnarstarfi. Þar til grundvallar hafi huglæg áhrif verið metin með viðtölum við grunnskólanema og skólastjórnend- ur eftir fyrirlestra sem félagið hafi staðið fyrir. Þá hafi markaðslegur árangur verið metinn eftir söluaukningu og með markaðskönnunum. Hann sagði að könnun hafi leitt í ljós að 44% aðspurðra hafi lýst því yfir að þeir væru jákvæðari í garð ESSO eftir átakið, 53% væru hvorki já- kvæðari né neikvæðari en einungis 3% væru neikvæðari. Tvímælalaust væri því jákvætt að styrkja verk- efni af þessu tagi. Fundur ÍMARK um árangur af styrkjum og kostun Kostun færist í vöxt Morgunblaðið/Þorkell Leópold Sveinsson sagði að algengasta skýringin á því að kostun skilaði fyrirtækjum ekki tilætluðum árangri væri að kostendur væru of margir. HAGNAÐUR Olíuverzlunar Íslands hf. á fyrstu níu mánuðum ársins nam fyrir skatta 47 milljónum króna en allt árið í fyrra nam hagnaður fyrir skatta 144 milljónum króna. Félagið færir á tímabilinu til tekna 81 millj- ónar króna lækkun á tekjuskatts- skuldbindingu og nemur hagnaður samstæðunnar á tímabilinu 112 milj- ónum króna. Allt árið í fyrra var hagnaður samstæðunnar 102 milljón- ir króna. Velta samstæðunnar nam á tíma- bilinu 9,6 milljörðum króna en var 11,8 milljarðar króna allt síðasta ár. Rekstrargjöld voru 1,6 milljarðar samanborið við 2,2 milljarða króna allt árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjár- magnsliði, EBITDA, nam 1 milljarði króna eða sem nemur 10,4% af rekstrartekjum tímabilsins. Allt árið í fyrra nam EBITDA hagnaður 729 milljónum króna, sem var 6,2% af rekstrartekjum ársins. Hrein fjármagnsgjöld námu 767 milljónum króna á tímabilinu saman- borið við 344 milljónir króna allt árið 2000. Gengistap á tímabilinu 790 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár 2,8% Eigið fé í lok tímabilsins var 3,3 milljarðar króna og hafði aukist um 262 milljónir frá árslokum eða 9%. Eiginfjárhlutfall var 31,9% en var í árslok 34,0%. Arðsemi eigin fjár reyndist 2,80% en var 8,20% um ára- mót. Veltufjárhlutfall var 1,7 og jókst úr 1,3 frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam 653 millj- ónum króna, en allt árið í fyrra nam það 406 milljónum króna. Í tilkynningu frá félaginu segir að veiking íslensku krónunnar hafi áfram sett verulegt mark sitt á rekst- ur og afkomu félagsins á þriðja árs- fjórðungi. Þá hafi miklar sveiflur og óvissa í gengismálum einkennt mjög reksturinn fyrstu níu mánuðina auk hækkandi eldsneytisverðs. „Vegna breytinga á ytra umhverfi og versn- andi afkomu hafa stjórnendur félags- ins gripið til aðhaldsaðgerða, sem hafa skilað nokkrum árangri. Standa vonir til að áframhaldandi aðhaldsað- gerðir muni skila félaginu enn frekari árangri á næstu misserum.“ Sameinast Ellingsen-Sandfelli Þá hefur verið tilkynnt um að stjórnir Olíuverzlunar Íslands og Ell- ingsen-Sandfells ehf. hafi ákveðið að sameina félögin frá 1. júlí 2001. „Olís á allt hlutafé í Ellingsen-Sandfelli ehf. og renna allar eignir, skuldir og skuldbindingar Ellingsen-Sandfells ehf. inn í Olís. Hlutafé í Olís breytist ekki við samrunann og gilda sam- þykktir Olís um hið sameinaða félag“, segir í tilkynningunni. Hagnaður Olís fyrir skatta 47 milljónir REKSTUR Tryggingamiðstöðvar- innar hf., TM, skilaði 334 milljóna króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 150 milljónum króna. Aukningin nemur 122% á milli ára eða ríflega tvöföldun. Eigin iðgjöld TM námu 3,4 millj- örðum króna á tímabilinu og jukust um 31% frá sama tímabili í fyrra. Fjárfestingatekjur af vátrygginga- rekstri nam rúmum 1 milljarði króna, sem er 82,5% aukning frá fyrra ári. Aukningin er sögð skýrast af mikilli verðbólgu á fyrri hluta ársins og háum vöxtum. Eigin tjón námu 3,2 milljörðum króna og er það 26% aukning frá sama tímabili árið 2000. Hreinn rekstrarkostnaður nam 626 milljón- um króna, sem er 23% aukning frá fyrra ári en alls nam hagnaður af vá- tryggingarekstri 606 milljónum króna og er það nær sexföldun frá fyrra ári. Tap af fjármálarekstri nam 101 milljón króna samanborið við 229 milljóna króna hagnað árið áður, en það skýrist af því að mun hærri fjár- hæð var nú yfirfærð á fjárfestinga- tekjur af vátryggingarekstri en áður. Veltufé frá rekstri var rúmir 2 milljarðar króna, en var ríflega 1,1 milljarður á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu frá TM segir að félag- ið telji afkomu tímabilsins viðunandi. Verulegt tap hafi verið á eignatrygg- ingum sem fyrr, m.a. vegna þriggja stórra brunatjóna. Þá segir að veru- legur bati hafi orðið á afkomu öku- tækjatrygginga og sé meginástæðan sú að iðgjaldahækkanir síðasta árs séu nú farnar að skila sér auk þess sem fyrstu fjórir mánuðir ársins hafi verið óvenju tjónaléttir. Gert er ráð fyrir að hagnaður á árinu verði nálægt 400 milljónum. Hagnaður TM ríflega tvöfaldast SPARISJÓÐUR Hafnarfjarðar hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: „Í gær, mið- vikudaginn 21. nóvember, sagði Jónas Reynisson, sparisjóðs- stjóri, upp starfi sínu hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar frá 30. nóvem- ber 2001 af persónulegum ástæðum. Sam- komulag varð um að starfslok hans yrðu frá og með deginum í dag, 22. nóvember 2001. Stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar sam- þykkti afsögn Jónasar.“ Hættur hjá SPH Jónas Reynisson MIKIL viðskipti voru áfram með hlutabréf í Bakkavör hf. í gær í kjöl- far tilkynningar á þriðjudag um kaup félagsins á bresku matvæla- framleiðslufyrirtæki. Viðskipti gærdagsins námu 79,4 milljónum króna en á miðvikudag námu viðskiptin 89,7 milljónum króna. Til samanburðar má geta þess að á föstudag, þegar síðast var verslað með bréf í félaginu áður en kaupin voru tilkynnt, námu viðskipti dagsins 2,3 milljónum króna. Lokagengi bréfanna hækkaði lít- illega frá miðvikudegi, fór úr 5,9 í 6,0. Lokagengi sl. föstudags var hins vegar 4,54 og nam verðhækkun hlutabréfanna á miðvikudag 30%. Skráð hlutafé Bakkavarar er tæp- ar 700 milljónir króna að nafnvirði. Miðað við lokagengi gærdagsins er markaðsvirði félagsins því 4,2 millj- arðar króna. Enn mikil við- skipti með bréf í Bakkavör ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.