Morgunblaðið - 12.01.2002, Qupperneq 24
ERLENT
24 LAUGARDAGUR 12. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
RÚSSAR hafa gagnrýnt Banda-
ríkjastjórn harðlega fyrir áform um
að geyma gamla kjarnaodda fremur
en að eyða þeim. Segja þeir það
grafa undan trúverðugleika sam-
komulags um að taka þúsundir
kjarnavopna í eigu ríkjanna úr notk-
un.
George W. Bush Bandaríkjafor-
seti hét því á fundi með Vladímír
Pútín Rússlandsforseta í nóvember
sl. að skera niður birgðir Banda-
ríkjamanna af langdrægum kjarna-
flaugum um tvo þriðju, í 1.700 til
2.200 kjarnaodda. Ari Fleischer,
talsmaður Hvíta hússins, staðfesti á
miðvikudag að Bush-stjórnin hefði í
hyggju að geyma einhvern hluta
þeirra kjarnaodda, sem teknir verða
úr notkun samkvæmt samkomulag-
inu, í stað þess að þeim verði öllum
eytt.
Rússar hafa brugðist ókvæða við
þessum tíðindum. „Við teljum að
frekari fækkun kjarnorkuvopna
samkvæmt samkomulagi Rússa og
Bandaríkjamanna verði að vera í
fyrsta lagi gagnger – í 1.500 til 2.200
kjarnaodda, í öðru lagi sannanleg, og
í þriðja lagi óafturkallanleg, svo af-
vopnunin verði ekki bara á pappírn-
um,“ segir í yfirlýsingu frá Alexand-
er Yakovenko, talsmanni rússneska
utanríkisráðuneytisins.
Afvopnunarviðræður
um miðjan mánuðinn
Pútín hét á fundinum í nóvember
svipaðri fækkun kjarnaodda og
Bush, en Rússar vilja ólíkt Banda-
ríkjamönnum að loforðin verði bund-
in í formlega samninga. Valerí Mani-
lov, varaformaður rússneska
herráðsins, ítrekaði þessa afstöðu
Rússa í fyrradag og sagði að einung-
is alþjóðlega bindandi samningar
gætu tryggt að afvopnunin færi fram
samkvæmt samkomulaginu.
Tilkynnt var á fimmtudag að af-
vopnunarviðræður færu fram milli
Rússa og Bandaríkjamanna í Wash-
ington 15. og 16. þessa mánaðar.
Rússneskir embættismenn sögðu að
viðræðurnar myndu fyrst og fremst
snúast um umfang afvopnunar, tíma-
mörk og eftirlit.
Rússar bregð-
ast ókvæða við
Moskva, Washington. AFP, AP.
Bush-stjórnin hyggst geyma kjarna-
odda í stað þess að eyða þeim
FYLGI við upptöku evrunnar
hefur aukist mikið í Danmörku
að undanförnu en henni var
hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu
árið 2000. Er þegar komin af
stað umræða um nýja þjóðarat-
kvæðagreiðslu en Anders Fogh
Rasmussen forsætisráðherra
telur hana þó ótímabæra að
sinni.
Samkvæmt skoðanakönnun,
sem birt var í fyrradag, eru 57%
danskra kjósenda hlynnt upp-
töku evrunnar en Danmörk, Sví-
þjóð og Bretland eru einu Evr-
ópusambandsríkin, sem standa
utan Evrópska myntbandalags-
ins. Í könnuninni kváðust 34%
vera andvíg gjaldmiðilsbreyt-
ingu og 8% höfðu enga skoðun.
Per Stig Møller, utanríkisráð-
herra Danmerkur, sagði fyrr í
vikunni, að ríkisstjórnin stefndi
jafnvel að nýrri þjóðaratkvæða-
greiðslu á næsta ári en Rasm-
ussen forsætisráðherra sagði í
gær, að ekki væri rétt að ræða
um nýjar tímasetningar að svo
komnu. Meira máli skipti að
ræða um hið eiginlega innhald
hugsanlegrar gjaldmiðilsbreyt-
ingar.
57%
Dana
vilja
evruna
Kaupmannahöfn. AFP.
en myndin er frá tyrkneska bæn-
um Sivas, sem er inni í miðju
landi. 22 stiga frost var á þessum
slóðum í gær.
MIKIÐ fannfergi og grimmd-
arfrost hefur verið víða í Tyrk-
landi síðustu daga og ekkert
ferðaveður fyrir viðkvæmar
skepnur eins og þessa kvígu, sem
gægist hér út um afturgluggann á
bifreiðinni. Ekki kom fram hvort
kvígan var með sætisólar spenntar
Reuters
Kuldaboli og kvígan
ANGELA Merkel, leiðtogi Kristi-
lega demókrataflokksins (CDU),
tilkynnti í gær að hún hefði fallist á
að Edmund Stoiber, leiðtogi Kristi-
lega sósíalsambandsins (CSU),
systurflokks CDU í Bæjaralandi,
verði kanslaraefni flokkanna
tveggja í þingkosningunum í
Þýskalandi í september. Merkel
sagði á fundi forystumanna CDU í
Magdeburg að þau Stoiber hefðu
náð samkomulagi um þetta á morg-
unverðarfundi í gær.
Þýska sjónvarpsstöðin NTV
sagði að Merkel hefði átt í við-
ræðum í nokkra daga við Stoiber
um hvort þeirra ætti að fara fyrir
flokkunum í baráttunni við Jafn-
aðarmannaflokk Gerhards Schröd-
ers kanslara. Merkel hafði sóst eft-
ir því að verða kanslaraefni
flokkanna og sagði fyrir jól að
tímabært væri að kona tæki við
kanslaraembættinu.
Fulltrúar CSU óskuðu eftir því á
þriðjudag að CDU samþykkti að
Stoiber yrði kanslaraefni flokk-
anna og þótti beiðnin óvenjuleg þar
sem kanslarinn hefur oftast komið
úr röðum CDU þegar flokkarnir
hafa verið við stjórnvölinn. For-
ystumenn CSU í Bæjaralandi
sögðu að Stoiber væri sigurstrang-
legri en Merkel, sem hefur ekki
tekist að vinna almenning á sitt
band.
Merkel og Stoiber áttu að koma
saman síðar í mánuðinum til að
ákveða hvort þeirra yrði kanslara-
efni en ákveðið var að flýta ákvörð-
uninni til að koma í veg fyrir að
deilan skyggði á ársþing CDU sem
hófst í Magdeburg í gær.
Schröder er miklu vinsælli
en Stoiber og Merkel
Skoðanakönnun, sem birt var í
gær, bendir til þess að CDU og
CSU fengju ívið meira fylgi en
Jafnaðarmannaflokkurinn ef kosn-
ingarnar yrðu haldnar nú. Er þetta
í fyrsta sinn í tvö ár sem hægri-
flokkarnir mælast með meira fylgi
en stjórnarflokkurinn.
39% aðspurðra sögðust ætla að
kjósa CDU eða CSU og 38% Jafn-
aðarmannaflokkinn. Fylgi Frjálsra
demókrata (FDP) var 8%, Flokks
lýðræðislegs sósíalisma 7% og
Græningja aðeins 5%.
Könnunin bendir til þess að
Jafnaðarmannaflokkurinn og
Græningjar missi þingmeirihluta
sinn og að Schröder þurfi að snúa
sér til Frjálsra demókrata til að
halda völdunum. Hugsanlegt er að
Græningjar fái ekkert þingsæti því
til þess þarf kjörfylgi hans að vera
að minnsta kosti 5%.
Infratest Dimap framkvæmdi
könnunina, sem var birt í dag-
blaðinu Der Tagesspiegel. 1.300
manns voru í úrtakinu.
Könnunin leiddi ennfremur í ljós
að Schröder er miklu vinsælli en
Stoiber og Merkel. 58% aðspurðra
sögðust myndu kjósa Schröder ef
kanslarinn væri kjörinn í almenn-
um kosningum, 39% studdu Stoib-
er og 32% Merkel.
Meðal stuðningsmanna CDU og
CSU var fylgi Stoibers 76% og
Merkels 60%.
Stoiber verður kansl-
araefni CDU og CSU
Berlín. AFP.
Reuters
Edmund Stoiber, leiðtogi CSU.
Angela Merkel, leiðtogi CDU, á
fundi flokksins í Magdeburg.
Flokkarnir eru nú með meira fylgi en
jafnaðarmenn í fyrsta sinn í tvö ár
TALSMAÐUR Alþjóðagjaldeyris-
sjóðsins (IMF), Thomas Dawson,
sagði í gær að sjóðurinn myndi fram-
vegis verða sveigjanlegri í skilyrðum
sínum og taka með í reikninginn
raunverulegar pólitískar aðstæður í
þeim ríkjum sem sjóðurinn veitir lán.
Lét Dawson þessi orð falla í kjölfar
gagnrýni á sjóðinn þess efnis, að skil-
yrði hans væru afdráttarlaus og
gerðu illt verra í stað þess að bæta
ástandið hjá þeim þjóðum sem þyrftu
á aðstoð hans að halda.
Dawson er framkvæmdastjóri ytri
samskipta sjóðsins. Hann vísaði til
föðurhúsanna þeim fullyrðingum að
sjóðurinn hefði ekkert lært af fjár-
málakreppunni í Asíu 1997–1998, og
ætti sök á kreppunni sem nú ríkir í
Argentínu.
Aðgerðirnar verði áhrifaríkari
Dawson sagði í ræðu hjá Banda-
ríska verslunarráðinu í Singapúr að
verið væri að reyna að forgangsraða
málum hjá sjóðnum og „vinna með
ríkisstjórnum til þess að fá betri til-
finningu fyrir því hvernig stjórnmála-
ástandið er í raun og veru.“ Mark-
miðið sé að aðgerðir sjóðsins verði
áhrifaríkari.
IMF tók þátt í að skipuleggja
margra milljarða dollara fjárhagsað-
stoð til ríkja sem urðu illa fyrir
barðinu á fjármálakreppunni í Asíu.
En sjóðurinn var gagnrýndur fyrir að
setja of afdráttarlaus skilyrði um end-
urskipulagningu og aðhald gegn því
að aðstoð yrði veitt, og fyrir að fara út
fyrir valdsvið sitt og valda þeim ríkj-
um, er í hlut áttu, meiri erfiðleikum.
Dawson viðurkenndi að Asíu-
kreppan hefði kennt sjóðnum mikil-
vægar lexíur, m.a. um nauðsyn þess
að slaka á skilyrðum og vera sveigj-
anlegri. Hægt væri að ná meiri sveigj-
anleika með því að veita lengri frest
fyrir umbætur. En hann sagði enn-
fremur að breyttum aðferðum kynnu
að fylgja vandkvæði, því þær tækju
ekki á spurningum um gegnsæi í að-
gerðum stjórnvalda og um spillingu.
Dawson sagði um málefni Argent-
ínu að aðgerðir þær sem ráðamenn
þar í landi hefðu gripið til, t.d. að
tengja gengi pesóans við gengi doll-
arans, stefna að hallalausum fjárlög-
um og gæta aðhalds, hefðu verið
ákveðnar af Argentínumönnum sjálf-
um, en ekki að kröfu IMF.
„Sjóðurinn gaf Domingo Cavallo
aldrei neinar fyrirskipanir,“ sagði
Dawson, og skírskotaði þar til fyrr-
verandi fjármálaráðherra Argentínu,
er sagði af sér í síðasta mánuði.
Sveigjanlegri skilyrði
Singapore. AFP.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hyggst taka meira tillit til pólitískra aðstæðna í ríkjum sem fá aðstoð