Morgunblaðið - 12.02.2002, Blaðsíða 16
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
16 ÞRIÐJUDAGUR 12. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Nýtt - Jacob Jensen hönnun - Nýtt
Garðar Ólafsson, úrsmiður,
Lækjartorgi. Sími 551 0081.
Með veðurstöðinni frá
Garðari Ólafssyni úrsmið
við Lækjartorg spáir þú
sjálfur í veðrið.
Veðurstöðin, sem er
dönsk hönnun frá Jacob
Jensen, samanstendur
af einingum sem hver
og einn getur raðað
saman eftir því hvaða
mælitæki nýtast hon-
um best.
Í veðurstöðina er hægt
að fá rakamæli, loftvog, hita-
mæli úti og inni þráðlaust,
klukku og vekjara og kostar
hver eining frá 4.300 kr.
FJÖLMENNI var á fundi sem
Skipulags- og byggingarsvið Reykja-
víkurborgar boðaði til í gær um
skipulagsmál að Suðurhlíð 38 þar
sem fyrirhuguð er bygging fjögurra
hæða fjölbýlishúss. Skipulags- og
byggingarnefnd samþykkti nýtt
deiliskipulag á byggingarreitnum í
lok janúar, þar sem íbúðum í fyrir-
huguðu fjölbýlishúsi var fækkað úr
50 í 46 og húsið lækkað um allt að ein-
um metra og það brotið upp til að
koma til móts við athugasemdir íbú-
anna. Á fundinum kom fram að
margir íbúar hverfisins eru ennþá
ósáttir við fyrirhugaða byggingu og
telja hana í ósamræmi við skipulag í
hverfinu. Ingibjörg Sólrún Gísladótt-
ir borgarstjóri sagði að nú lægi fyrir
skipulagstillaga sem samþykkt hefði
verið í skipulags- og byggingarnefnd,
en ákveðið hefði verið að boða fund til
að heyra sjónarmið íbúanna áður en
málið verður afgreitt endanlega í
borgarráði.
Helga Bragadóttir, skipulags-
fulltrúi hjá Borgarskipulagi, kynnti
nýju skipulagstillöguna og rakti for-
sögu hennar. Hún sagði m.a. að Suð-
urhlíðahverfið hefði í upphafi verið
reist til að þétta byggð og það væri
jafnframt tilgangurinn með bygg-
ingu fjölbýlishússins í Suðurhlíð 38.
Þá sagði hún að í næsta nágrenni
væri Garðshorn, þar sem umhverfið
væri með nokkuð öðrum hætti en
íbúðabyggðin í hverfinu og því hefði
verið litið til þess að hverfið tæki
ákveðnum breytingum þegar sunnar
drægi.
Fólki tíðrætt um ímynd svæð-
isins í athugasemdum
Samkvæmt eldra aðalskipulagi var
lóðin skipulögð sem stofnanalóð en
því breytt yfir í íbúðabyggð og sagði
Helga margar tillögur hafa verið til
skoðunar um nýtingu byggingar-
reitsins. Hún sagði lóðina hafa verið
stærri í upphafi en henni hefði verið
skipt í tvennt sem m.a. helgaðist af
því að hluti upphaflegu lóðarinnar
væri veghelgunarstæði vegna fram-
tíðarlegu Hlíðarfóts.
Að sögn Helgu bárust um 15 at-
hugasemdir við byggingu fjölbýlis-
hússins auk undirskriftalista með
107 undirskriftum íbúa í hverfinu.
Helga sagði allar athugasemdirnar
eiga það sammerkt að fólk væri ósátt
við hæðina á húsinu og teldi það
skerða útsýni frá Suðurhlíðahverfinu
yfir Fossvoginn og til Kópavogs. Þá
hefði fólk bent á að hæð hússins væri
ekki í samræmi við aðrar byggingar í
hverfinu, íbúðir væru of margar og
aukin umferð mundi valda óþægind-
um og slysahættu.
„Fólki verður tíðrætt um ímynd
hverfisins, að hún muni í raun breyt-
ast vegna þess að þetta var svo heild-
stætt hverfi í upphafi,“ sagði Helga.
Hún sagði skipulagsyfirvöld líta
þannig á að þótt einhver útsýnis-
skerðing yrði stæðu syðstu húsin í
Suðuhlíðum það hátt að efri hæð
húsanna næði yfir fjórðu hæð fyrir-
hugaðs fjölbýlishúss og því væri ekki
um óeðlilega útsýnisskerðingu að
ræða innan borgarmarka.
„Þær tillögur sem hafa verið sam-
þykktar núna gera ráð fyrir að fjórða
hæðin verði töluvert inndregin. Þá
getur það fengið á sig léttara yfir-
bragð, eða uppbrotnara, skulum við
segja. Hvað varðar umferðina var
aukningin borin undir umferðardeild
sem taldi að umferð vegna 50 íbúða,
sem eru nú orðnar 46, myndi aukast
um 15-20% og gatnafyrirkomulagið
ætti að ráða auðveldlega við þá aukn-
ingu. Það er ekki talið að aukin um-
ferð leiti inn í sjálft hverfið, Birkihlíð-
ina og Víðihlíðina, við þessar breyt-
ingar. Ennfremur kemur fram í svari
umferðardeildar að bætt verði við
hraðahindrunum og Suðurhlíða-
hverfið verði 30 km svæði og komið
verði fyrir hraðahindrunum í hverf-
inu sem ættu að draga úr umferð-
arhraða,“ sagði Helga.
Mestu skiptir að gæði þess að
búa í hverfinu minnka
Hildur Einarsdóttir, talsmaður
íbúa í Suðurhlíðum, sagði að aldrei
hefði verið gert ráð fyrir byggingu
stórhýsis í hverfinu, enda hverfið
skipulagt þannig og bæri ekki meiri
umferð en þá sem fyrir er. „Í hverf-
inu eru tveir sérskólar, Heyrnleys-
ingjaskólinn og skóli fyrir þroska-
hefta, einn grunnskóli, sérbýli fyrir
þroskahefta og leikskóli og teljum
við það mikla slysahættu ef bílum
fjölgar. Í þessu litla hverfi er líka
kirkja og kirkjugarður og er umferð
mikil út og inn úr hverfinu við fjöl-
mennar jarðarfarir, auk þess sem
fólk heimsækir iðulega kirkjugarð-
inn.“
Þá sagði Hildur að við þessa nýju
skipan væri hætta á að fasteignamat
myndi lækka í hverfinu. Hún sagði
það hins vegar skipta íbúana mestu
máli að gæði þess að búa í hverfinu
myndu minnka til muna og sumir
hefðu orðað það að flytja úr hverfinu.
„Við teljum að bygging þessa húss
sé ekki okkar einkamál, þeirra sem
búa í þessu hverfi, heldur sé hér um
mjög sérstakt svæði að ræða, eitt
fegursta svæðið innan borgarmark-
anna og fjölsótt útivistarsvæði. Þetta
svæði er eina aðgengi okkar Reyk-
víkinga að strönd og við teljum ekki
hyggilegt að þrengja að því á þennan
hátt.“
Að sögn Hildar eru íbúar hverf-
isins í sjálfu sér ekki á móti nýrri
byggð á þessu svæði, svo framarlega
sem hún sé í samræmi og í sátt við
umhverfið. „En ef litið er til þess að á
lóð fyrir framan húsið á að vera
munni sem tekur við umferð frá
Fossvogsgöngum, eins og gert er ráð
fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkur, þá
teljum við hyggilegast að hætta við
að byggja á svæðinu, a.m.k. þar til
búið væri að hanna umferðarmann-
virkin þannig að menn sæju hvernig
þau koma út.“
„Við sem búum í hverfinu erum
flest frumbýlingar sem þýðir að við
höfum búið hér í 18 ár og höfum mjög
sterkar taugar til hverfisins og um-
hverfis þess. Við eigum mjög erfitt
með að sjá fyrir okkur þarna fjög-
urra hæða hús sem er að bygging-
armagni svipað að stærð og ráðhúsið
í Reykjavík. Við teljum þetta hús
engan veginn myndi fara vel í lands-
laginu, sem er aflíðandi, og myndi
skaga þarna upp úr eins og illa gerð-
ur hlutur. Við erum að vonast til að
borgaryfirvöld hlusti á okkur íbúana
og aðra Reykvíkinga sem telja að hér
sé um skipulagsslys að ræða,“ sagði
Hildur.
Þegar komnir 30 fyrirhugaðir
kaupendur á lista
Arnar Hannes Gestsson tók í svip-
aðan streng og Hildur og sagði það
skjóta skökku við að setja fjögurra
hæð blokk inn í hverfið. „Þetta er
falllegt hús en það bara passar ekki
inn í þetta hverfi. Af hverju var ekki
bara haldið áfram með hverfið í lág-
reistri byggð?“
Jón Valur Smárason tók síðan til
máls, en hann er annar eigenda lóð-
arinnar þar sem fyrirhuguð bygging
á að rísa. „Fyrirhuguð bygging er
tvær, þrjár og fjórar hæðir og stór
hluti húsa hér í hverfinu er þrjár
hæðir, þannig að ég get ekki alveg
skilið þann málflutning að hér sé um
háhýsi að ræða. Fjarlægðin á milli
þessara staða er frá 200 og allt að 400
metrum. Hæðarmunurinn er gífur-
legur, við erum að tala um 10 til 20
metra. Suðurhlíð 38 mun verða fal-
legt, lágreist fjölbýlishús sem fellur
vel að umhverfinu með um 46 íbúð-
um,“ sagði Jón Valur.
Hann sagði að þegar væru komnir
yfir 30 fyrirhugaðir kaupendur á
lista. Flestir ættu það sameiginlegt
að vera komnir yfir miðjan aldur og
það segði sig sjálft að betri nágranna
væri varla hægt að hugsa sér. „Við
höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá
fólki sem býr í þessu hverfi í stórum
húsum og hefur hug á að minnka við
sig en ekki fara úr hverfinu. Þar
væru íbúðir eins og þessar ef til vill
mjög góður kostur.“
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
borgarstjóri, sagði að hafa yrði í
huga í þessari umræðu að lóðin hefði
verið ætluð til að byggja á. „Þetta var
stofnanalóð, að vísu ekki ætluð til að
byggja þarna íbúðabyggð, en var
ætluð til uppbyggingar og það var
auðvitað ekkert sem gat komið í veg
fyrir að menn gætu nýtt hana með
þeim hætti. Þannig að þetta er ekki
eins og þarna hafi verið tekið grænt
svæði og því breytt í byggingalóð.“
Finnst væntanlegir ná-
grannar taka sér illa
Borgarstjóri sagði síðan hægt að
deila um hvernig yfirbragð bygginga
eigi að vera og alltaf sé umdeilt þegar
nýjar byggingar eru reistar í eldra
hverfi. „Menn verða síðan að hafa í
huga að það getur verið mikilvægt í
svona hverfum að hafa nokkuð fjöl-
breytta gerð íbúða, þannig að fólk,
sem vill t.d. minnka við sig, eigi ein-
hverra kosta völ.“
Þá sagði Ingibjörg Sólrún það
kosta talsverða fjármuni að breyta
svæðinu í útivistarsvæði. „Það var
einfaldlega okkar mat að ekki væri
réttlætanlegt að verja tugum millj-
óna úr borgarsjóði til þess að halda
þessari tilteknu lóð óbyggðri.“
Guðmundur Guðmundsson tók til
máls og sagði að hann og kona hans
hefðu mikinn áhuga á að kaupa íbúð í
væntanlegu fjölbýlishúsi við Suður-
hlíð 38. „Okkur finnst að væntanlegir
nágrannar taki okkur illa. Það er svo
að allsstaðar er fólk sem vill ekki ný-
búa nálægt sér.“ Hann sagðist ekki
myndi eiga leið í gegnum hverfið
heldur færi hann eftir samgönguleið
meðfram hverfinu. Þá sagðist hann
hafa skoðað húsin í hverfinu og fengi
ekki betur séð en mörg húsin væru
þrjár hæðir og nýja húsið væri aðeins
fjórar hæðir. „Það liggur lágt í land-
inu og nokkuð fjarri íbúðabyggðinni
sem hér er fyrir og skyggir því ekki á
hana,“ sagði Guðmundur.
Guðrún Zoëga sagði að svo virtist
sem sumir misskildu málstað þeirra
sem hafa mótmælt byggingu hússins.
Þeir séu almennt ekki á móti því að
þarna sé byggt en menn hafi skoðun
á því hvernig sé byggt og fólk telji að
þarna sé verið að byggja alltof stórt,
alltof mikið og í miklu ósamræmi við
önnur hús í hverfinu. „Mér finnst að
þarna eigi að vera lágreist byggð,
smá hús sem geta staðið þétt þess
vegna, en ekki svona veggur sem lok-
ar fyrir útsýnið út á sjóinn.“
Fyrirhuguð bygging fjölbýlishúss við Suðurhlíð 38 rædd á fjölmennum fundi
Telja byggingu fjölbýlishúss
í ósamræmi við byggðina
Íbúar Suðurhlíða hafa
mótmælt fyrirhugaðri
byggingu fjölbýlishúss
og telja það of hátt og
auka umferð of mikið
um hverfið. Nýtt deili-
skipulag hefur verið
samþykkt en skipulags-
yfirvöld borgarinnar
boðuðu til fundar með
íbúum til að kynna
framkvæmdir áður en
endanleg ákvörðun yrði
tekin í borgarráði.
Tölvugerð mynd sem sýnir fyrirhugað fjölbýlishús í Suðurhlíð 38.
Morgunblaðið/Sverrir
Fjölmennt var á fundi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar um skipulagsmál í Suðurhlíð 38.
Suðurhlíðar