Morgunblaðið - 12.02.2002, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 12.02.2002, Blaðsíða 24
ERLENT 24 ÞRIÐJUDAGUR 12. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÞÓTT júgóslavnesk stjórnvöld hafi samþykkt að framselja Slobodan Mil- osevic, fyrrverandi forseta Júgóslav- íu, vegna efnahagslegs þrýstings Vesturlanda eru ákærurnar á hendur honum mikið feimnismál í Belgrad. Flestir ráðamannanna hafa færst undan því að ræða málið og þeir sem hafa látið álit sitt í ljós efast um hlut- leysi stríðsglæpadómstólsins í Haag. Viðbúið er að tortryggni Serba aukist eftir að réttarhöldin yfir Milosevic hefjast í dag. „Hver einn og einasti maður sem ég tala við hérna er mjög andvígur dómstólnum í Haag,“ sagði serbneski lögfræðingurinn Biljana Kovacevic- Vuco, sem er hlynnt réttarhöldunum. „Fólk byrjar á að segja: „Við verðum að fordæma alla stríðsglæpamenn og það sem gerðist í Srebrenica var mjög slæmt, það var glæpur, en … en … en …“ Það eru alltaf einhver „en“.“ Talið er að serbneskar öryggis- sveitir hafi myrt 7.000 múslíma, karl- menn og drengi, í Srebrenica á þrem- ur dögum árið 1995 eftir að þær náðu borginni á sitt vald. Voru það mestu fjöldamorðin í stríðinu í Bosníu 1992– 95. „Serbar geta ekki trúað því að sam- landar þeirra hafi framið þessa glæpi, þannig að segja má að þjóðin sé í af- neitun,“ sagði Bratislav Grubacic, stjórnmálafræðingur í Belgrad. Söguleg réttarhöld Þrátt fyrir andstöðu Serba verða réttarhöldin í Haag mjög söguleg því þetta eru mikilvægustu stríðsglæpa- réttarhöld í Evrópu frá því að réttað var yfir leiðtogum nasista í Nürnberg eftir síðari heimsstyrjöldina. Er þetta í fyrsta sinn sem fyrrverandi þjóð- höfðingi er sóttur til saka fyrir stríðs- glæpi, meðal annars þjóðarmorð. Stríðsglæpadómstóllinn hefur ákveðið að sameina allar ákærurnar á hendur Milosevic, þannig að aðeins verður réttað einu sinni í málum hans en ekki tvisvar eins og áður var ráð- gert. Stríðið í Kosovo verður þó tekið fyrir fyrst og síðan verður fjallað um átökin í Bosníu og Króatíu. Milosevic hefur verið ákærður fyrir þjóðarmorð í Bosníu og glæpi gegn mannkyninu í Kosovo og Króatíu. Hann er einnig sakaður um brot á Genfarsáttmálanum og lögum og við- teknum venjum sem gilt hafa í hern- aði. Verði hann fundinn sekur verður hann dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hafnar dómstólnum Paul Williams, lagaprófessor við American University í Washington, tók þátt í stofnun stríðsglæpadóm- stólsins árið 1993 þegar hann starfaði í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Hann segir að dómstóllinn hafi þrjú meginmarkmið: „að skrásetja ná- kvæmlega atburðina á Balkanskaga, fyrirbyggja að aðrir þjóðarleiðtogar heimili stríðsglæpi í framtíðinni og láta þá sem báru ábyrgð á stríðsglæp- unum á Balkanskaga svara til saka í því skyni að hlífa þjóð þeirra við sam- eiginlegri sök“. Milosevic hefur reynt að grafa und- an þessum markmiðum dómstólsins með því að ýta undir þá tilfinningu Serba að þeir hafi enn einu sinni verið gerðir að fórnarlambi. Hann segir að dómstóllinn hafi verið stofnaður á fölskum forsendum, sé pólitískt tæki til að koma óorði á Serba og hafi ekki vald til að draga hann fyrir rétt. Dóm- stóllinn eigi frekar að ákæra Atlants- hafsbandalagið fyrir stríðsglæpi þar sem óbreyttir borgarar hafi fallið í loftárásum þess á Serbíu þegar Kos- ovostríðið geisaði. „Hann ver serbnesku þjóðina, ekki sjálfan sig“ Dómstóllinn og aðalsaksóknari hans, Carla Del Ponte, hafa margoft sagt að aðeins sé réttað yfir Milosevic og ekki serbnesku þjóðinni. Margir Serbar eiga þó erfitt með að trúa því og þögn ráðamannanna í Belgrad ýtir undir efasemdirnar. Margir þekktir Serbar, þeirra á meðal nokkrir lög- fræðingar sem hafa verið óformlegir ráðgjafar Milosevic, hafa einnig kynt undir tortryggninni. „Í réttarhöldunum sem hefjast 12. febrúar eru það Júgóslavía og Serbía sem svara til saka,“ sagði Zdenko Tomanovic, lögfræðingur í Belgrad sem ræddi við Milosevic í Haag ný- lega. Milosevic virðist njóta verulegs stuðnings í Serbíu og andstaðan við dómstólinn hefur aukist. „Það er aug- ljóst að þetta er pólitískur dómstóll og greinilegt er að allt er spunnið upp til að koma óorði á serbnesku þjóðina,“ sagði Dragan Petrovic, 77 ára ellilíf- eyrisþegi í Belgrad. „Ég styð allt sem Milosevic gerir í Haag. Hann er af- bragðsföðurlandsvinur. Hann ver serbnesku þjóðina, ekki sjálfan sig,“ sagði Petrovic og bætti við að hann væri miklu ánægðari með Milosevic núna en þegar hann var forseti. Margir stjórnmálaleiðtogar, lög- fræðingar og stjórnmálaskýrendur í Serbíu telja að eina leiðin til að auka trúverðugleika dómstólsins, að minnsta kosti í augum Serba, sé að tryggja Milosevic góða málsvörn fyrir rétti. Það væri til að mynda hægt með því að heimila spurningar um ýmsa óljósa þætti átakanna á Balkanskaga. Verjandi Milosevic gæti til dæmis bent á að þótt serbneskir hermenn hafi fram- ið stríðsglæpi í Kró- atíu hafi þeir orðið til þess að tugir þús- unda Serba hafi verið reknir þaðan og margir þeirra séu nú flóttamenn í Serbíu. Forseti Króatíu á þessum tíma, Franjo Tudjman, hafi þó ekki verið ákærður, aðeins Milosevic. „Það verður aldrei hægt að skrá- setja söguna nákvæmlega vegna þess að Tudjman var aldrei ákærður,“ sagði Williams, fyrrverandi lögfræð- ingur bandaríska utanríkisráðuneyt- isins. Tudjman lést í desember 1999, áður en stríðsglæpadómstóllinn gat ákært hann. Ákæran sögð geta haft slæmar afleiðingar fyrir Júgóslavíu Milosevic hefur neitað að ráða verj- anda og Dragoljub Micunovic, forseti neðri deildar serbneska þingsins, hef- ur skorað á stjórn Serbíu að ráða lög- fræðing til að verja serbnesku þjóðina fyrir réttinum. „Dómstóllinn í Haag er að skrifa sögu Balkanskaga og ein stofnun dugir ekki til að tryggja hlut- leysi. Okkur sem þjóð ber skylda til að hjálpa dómstólnum að sjá allar staðreyndir málsins, þannig myndum við hjálpa dómstólnum en einnig al- menningi að skilja atburðina.“ Micanovic varar við því að ákæran um þjóðarmorð í Kosovo geti haft al- varlegar afleiðingar fyrir júgóslav- neska ríkið. „Þjóðarmorðsákæran er mjög al- varleg og beinist ekki aðeins að Milos- evic og tveimur eða þremur öðrum einstaklingum, heldur er hætt við að hún kastist til baka á ríkið.“ Predrag Simic, ráðgjafi Vojislavs Kostunica, forseta Júgóslavíu, óttast að dómstóllinn einfaldi útlistanir sín- ar á átökunum um of. „Ég er hræddur um að sagan sem dómstóllinn skrifar einkennist af stöðluðum ímyndum, dregin verði upp einhæf mynd af yf- irgangi [Serba].“ Gamlir samstarfsmenn Milosevic geta ráðið úrslitum Búist er við að réttarhöldin standi í rúmt ár. Saksóknararnir ætla að stefna hundruðum vitna fyrir dóm- stólinn og flest þeirra voru fórnar- lömb stríðsglæpanna í Kosovo, Bosn- íu og Króatíu. Þeir segja að allt að 30 fyrrverandi samstarfsmönnum Mil- osevic verði einn- ig stefnt og vitn- isburður þeirra gæti ráðið úrslit- um í réttarhöld- unum. Saksóknar- arnir hafa ekki enn birt lista yfir serbnesku vitnin en júgóslavneskir fjölmiðlar hafa birt nöfn fyrrverandi embættismanna sem líklegt er að komi fyrir réttinn. Þeirra á meðal er Zoran Lilic, sem var forseti Júgóslavíu á árunum 1993–97 en var mjög valdalítill í sambandsrík- inu. Milosevic var þá forseti Serbíu og hafði bæði tögl og hagldir í Júgóslav- íu. Milosevic vék Lilic úr embætti vegna andstöðu hans við aðgerðir serbnesku öryggissveitanna í Kosovo. Lilic viðurkenndi í viðtali við serb- neskt dagblað nýlega að saksóknar- arnir hefðu óskað eftir því að hann bæri vitni. „Ef til vill geri ég það vegna þess sem hann gerði mér,“ hafði blaðið eftir honum. Ætla að stefna Clinton og Blair fyrir réttinn Dómstóllinn getur gefið út vitn- astefnur en ekki neytt menn til að koma fyrir réttinn. Stuðningsmenn Milosevic telja ýmislegt benda til þess að saksóknararnir eigi í vandræðum með að fá embættismennina fyrrver- andi til að bera vitni gegn honum. Ráðgjafar Milosevic vona reyndar að hann hagnist sjálfur á vitnisburði fyrrverandi samstarfsmanna sinna og segja að 1.380 stuðningsmenn hans hafi samþykkt að koma fyrir réttinn. Þeir segjast einnig ætla að reyna að stefna Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Madeleine Al- bright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Tony Blair, for- sætisráðherra Bretlands, fyrir rétt- inn. AP Bosnísk kona heldur á myndum af ættingjum sem voru myrtir eða hurfu í Srebrenica í Bosníu árið 1995 eftir að serbneskar öryggissveitir náðu borginni á sitt vald. Konan var í mótmælagöngu í gær í bænum Tuzla. Serbar efast um hlutleysi dómstóls- ins í Haag Fyrstu stríðsglæparéttarhöld yfir fyrrverandi þjóðhöfðingja að hefjast AP Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, leiddur fyrir stríðsglæpadóm- stólinn í Haag í júlí á síðasta ári. Réttarhöldin í máli hans hefjast í dag. ’ Saka dómstólinnum lygar til að koma óorði á serb- nesku þjóðina ‘ YASSER Arafat, forseti heimastjórnar Palestínu- manna, kvaðst í gær staðráðinn í því að standa af sér tilraunir Ísraelsstjórn- ar til að ýta honum til hlið- ar en Ariel Sharon, for- sætisráðherra Ísraels, hefur sagt að hann vilji sjá aðra viðsemjendur fyrir hönd Pal- estínumanna en Arafat. Sagði Arafat að Ísraelsmönnum myndi ekki takast að knésetja palestínsku þjóðina og að þeim væri nauðugur einn kostur að ræða við hann enda væri hann réttkjörinn leiðtogi Palestínu- manna. Sharon kennir Arafat um þá öldu ofbeldis sem riðið hefur yf- ir í Mið-Austurlöndum undan- farna mánuði og hefur átt fundi með tveimur háttsettum emb- ættismönnum palestínsku heimastjórnarinnar, Ahmed Qorei og Mahmoud Abbas. Segja Ísraelsmenn að þessir menn séu líklegri en Arafat til að vilja beita palestínska öfga- menn, sem efnt hafa til fjölda sjálfsmorðsárása gegn Ísr- aelum undanfarnar vikur og mánuði, hörðu. Hefur lagt sig allan fram Arafat sagði hins vegar í samtali við breska ríkisútvarp- ið, BBC, í gær að Qorei og Abb- as væru samstarfsmenn sínir og „á sama báti“ og hann. „Ísr- aelar verða að semja við palest- ínsku þjóðina og palestínska þjóðin hefur kjörið Yasser Ara- fat sem leiðtoga sinn. Það er jafnframt hennar að velja arf- taka hans,“ sagði Arafat. Arafat kvaðst gera allt sem í hans valdi stæði til að halda hryðjuverkum Palestínumanna í skefjum. „Það er ekki hægt að biðja mig um að gera meira því ég hef lagt mig allan fram. Enginn getur hins vegar skilað fullkomnum árangri, ekki einu sinni öflugasta stórveldi heims- ins í dag, Bandaríkin.“ Sagði Arafat í samtali sínu við fréttamann BBC að það væri lygi að palestínskir hermdarverkamenn gengju nú lausir, sem að öllu jöfnu ættu að vera á bak við lás og slá. Arafat segist eini við- semj- andinn Yasser Arafat TÍU manns biðu bana þegar mað- ur gekk berserksgang í bænum Mdantsane, nálægt hafnarborginni Austur-London í Suður-Afríku, á laugardag. Sjö til viðbótar voru fluttir alvarlega særðir á sjúkra- hús og tveir þeirra voru enn í lífs- hættu í gær. Maðurinn er sagður hafa skotið kærustu sína til bana eftir rifrildi, en hún mun hafa slitið sambandi þeirra. Hann fór einnig heim til foreldra hennar og myrti þá og einn ættingja þeirra. Hann rændi síðan bíl, ók um hverfið og hóf skothríð á vegfarendur. Hann skaut að lokum sjálfan sig til bana þegar lögreglumenn umkringdu hann. Meira en 20.000 morð eru fram- in í Suður-Afríku á ári hverju og um helmingur þeirra með byssum. Myrti 10 manns í æðiskasti Mdantsane. AFP.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.