Morgunblaðið - 12.02.2002, Qupperneq 26

Morgunblaðið - 12.02.2002, Qupperneq 26
LISTIR 26 ÞRIÐJUDAGUR 12. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÍSLENSKA óperan stendur fyrir hádegistónleikum í híbýlum sínum í Gamla bíói í dag, þar sem Hulda Björk Garðarsdóttir og Ólafur Kjartan Sigurðarson flytja atriði og aríur úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart við píanóleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur. Tónleikarnir hefjast kl. 12.15 og eru þeir fyrstu í hádegistónleikaröð sem Óperan stendur fyrir í febrúar og mars til að kynna nýja og væntanlega söngvara. Yfirskrift tónleikanna er „Brúð- kaup á hálftíma“ og segir Hulda Björk um nokkurs konar útdrátt úr þessari sígildu gamanóperu Moz- arts að ræða. „Við Ólafur Kjartan flytjum atriði og aríur úr verkinu er lýsa samskiptum brúðhjónanna til- vonandi, Súsönnu og Fígarós. Þau eru einkaþjónar Almaviva greifa og frúr hans, og gengur á ýmsu áður en hjónavígslan nær fram að ganga, ekki síst vegna þess að greifinn girnist mjög brúðina tilvonandi. Við munum sem sagt bregða okkur í búning elskendanna en óhætt er að fullyrða að miklar sviptingar eigi sér stað í þessari hraðferð um verk- ið.“ Hulda Björk Garðarsdóttir mun ganga til liðs við Íslensku óperuna sem fastráðinn söngvari í byrjun árs 2003, en Ólafur Kjartan Sigurð- arson hefur verið fastur söngvari þar frá því í ágúst síðastliðnum. Hulda Björk segist vonast til að áherslur starfseminnar á fjöl- breyttar uppákomur samhliða stærri óperuuppfærslum muni virkja bæði söngvara og áhorfendur sem best. „Tónleikarnir gefa gest- um og gangandi kost á að njóta dá- lítillar óperuupplifunar í hádeginu, en dagskráin tekur aðeins fjörutíu mínútur. Þeir sem lítið þekkja til Brúðkaupsins ættu að geta fengið dálítið skemmtilega innsýn í óper- una á tónleikunum,“ segir Hulda. Tónleikarnir „Brúðkaup á hálf- tíma“ hefjast sem fyrr segir kl. 12.15 í dag og er aðgangseyrir krónur 600. Morgunblaðið/Sverrir Hulda Björk Garðarsdóttir og Ólafur Kjartan Sigurðarson. Á hraðferð um Brúðkaup Fígarós Í TÓNLEIKARÖÐ kennara Tón- listarskóla Kópavogs í Salnum var s.l. sunnudag komið að Erik Júlíusi Mogensen. Undir fyrirsögninni Sjálfsmynd voru eftir hann leikin fimm kammerverk frá árunum 1997– 2002. Fjögur þeirra höfðu verið frumflutt erlendis, en öll voru þau flutt í fyrsta sinn á Íslandi við þetta tækifæri. Ekki hefur mikið farið fyrir tón- skáldinu Erik Mogensen hingað til í íslenzku tónleikalandslagi, hvað svo sem verða vill eftirleiðis. Eftir nám í klassískum gítarleik hér og á Spáni lærði hann tónsmíðar við Tónfræði- deild Tónlistarskólans í Reykjavík 1989-92 og við Tónlistarháskólann í Boston 1997-99, þ. á m. í kvikmynda- og tölvutónlist. Má því segja að um tiltölulega síðbúið tónsmíða„debút“ hafi verið að ræða – a.m.k. hér á landi – en gaf um leið vísbendingu um óvenjumikla vandvirkni og sjálfs- gagnrýni, sem væri að sönnu verð til eftirbreytni og ætti almennt að örva áhuga flytjenda og hlustenda á nýrri listmúsík. Kammerverkin báru flest enda með sér virka reynslu og þroska umfram það sem algengast er hjá yngstu tónsmíðanemum, nýút- skriðnum úr akademískum steini, sem sumir hafa lítt eða aldrei leikið með öðrum og jafnvel ekki einu sinni sungið í kór. Sérstaklega virtust strengjakvart- ettarnir skera sig úr, bæði að vandvirkni og innblæstri. Fátt er sem kunnugt tónskáldi meira hvetjandi en úr- valsflutningur, og kann þar að hafa vegið þungt á metum framlag tékk- nesku Stamica kvart- ettspilaranna, sem léku Nr. 1 í Prag haustið 2000, og kannski ekki sízt Martinù, sem pönt- uðu og frumfluttu Nr. 2 á sama stað í fyrra. Var a.m.k. síðarnefndi hóp- urinn þegar fyrir löngu mikils metinn í mínu ungdæmi og víðkunnur af innspilun gamalla meistara á Supraphon. En eftir fyrstu heyrn að dæma var flutningur hins þrálátt nafnlausa kvartetthóps Sigrúnar Eðvaldsdótt- ur og félaga, sem vakti nýverið verð- skuldaða athygli á yfirstandandi Myrkum músíkdögum, sannarlega ekkert slor heldur, og hugsanlega stórafrek, hafi æfingartími verið jafntakmarkaður og oft vill verða. Og hafi hinir hrynrænt séð mest krefjandi staðir e.t.v. ekki alveg ver- ið upp á hundrað – sem ekki var auð- heyrt – þá var alltjent aðdáunarlega vel fúskað. Umfram allt skilaði megininntak þessa fremur stutta (11 mín.) en afar hnitmiðaða verks sér til fullnustu, fleytt áfram af þeirri makalausu ein- beittu spilagleði sem einkennt hefur fyrri framkomur hópsins. Um tón- smíðina má segja að flest hafi snúizt um gegnfærslu á fáeinum hvössum akkorðudröngum og hröðum smá- stígum fjögurra tóna frumum sem verkuðu líkt og fliss eft- ir kjaftshögg upphafs- ins. Allt var byggt á tólf tóna röð og í samhverfu heildarformi, þar sem fjöldi smárra alþagna juku á dramatíska dul- úð. Kviknaði fljótt grunur um að hér færi tónskáld sem hefði þeg- ar tamið sér óvenju- nosturssamlega úr- vinnslu. Það kom og á daginn í seinni kvart- ettinum, þar sem kunn- uglegra stefjaefni varpaði skýrara ljósi á vinnubrögðin. Frumraun Eriks í kvartettgrein- inni hélt góðri athygli meðan á henni stóð og vakti meiri væntingar um að ynni á við endurheyrn en títt er um háafströkt fagurtónverk seinni tíma. Reyndar komu mestu andstæður hennar á dagskránni að hlustvæn- leika, þ.e. Chant og Kvartett nr. 2, manni til að hugleiða, hvort hagnýt- ur megintilgangur módernískra vinnuaðferða handan dúrs og molls sé lengur nema sjálfsögunarlegs eðl- is. Þ.e. áskorun um að byggja upp samhangandi strúktúr úr óeftir- minnilegu tónefni, án stuðnings frá kunnara tónmáli og púlstengdu hrynferli. Að höfundar skuli í vax- andi mæli hafa sagt skilið við hrein- ræktun atónallar nálgunar á síðari árum bendir a.m.k. til þess að trúin á framhaldsmöguleika hennar hafi dofnað. Og e.t.v. líka að þörfin fyrir almenna tilhöfðun hafi aukizt. Þess gætti þó síður í Svítu fyrir einleiksflautu (1999; 9 mín.), eins og vænta mátti af verki unnu úr sex tóna röð. Þó að lítt bæri á eiginlegum framúrstefnueffektum (burtséð frá smávegis klappaskrölti og urr- blæstri („Flatterzunge“) á einum stað), var gamalkunnur karbólkeim- ur af hefðbundinni nútímatónskóla- speki yfir heildinni, sem manni fannst einhvern veginn hafa heyrzt oft áður. Samt var verkið ekki laust við íhugulan pastoralan þokka, sem reyndar er erfitt að slíta frá erki- ímynd hljóðfærisins, og var í öllu falli laglega leikið af Magneu Árnadótt- ur. Því meir kom næsta atriði á óvart, Chant fyrir óbó og strengjatríó (5:30), sem Heliosphere kammer- hópurinn frumflutti í New York 1997 og var sérdeilis hrífandi leikið af Pet- er Tompkins og nafnlausa kvart- ettinum (mínus Dubik). „Chant“ merkir söngur, og mátti til sanns vegar færa um óbópartinn, en ann- ars var ekki annað að heyra en að yl- heit salsatónlist svifi yfir vötnum. Ef þá ekki beinlínis afbrigði af tangó, sem undirstrikaði mjúkt dansandi yfirbragð stykkisins af munaðarfull- um suðrænum ídyll í heiðskírri nor- rænni miðsumarbirtu. Hér fór upp- lögð kvikmyndatónlist við blóðheita ástarsenu á blaktandi sykurakri, sem lauk á afgerandi mollhljómi. Strengjakvartett nr. 2 (16:30) hafði greinilega alla burði til lang- lífis, og freistaði satt að segja und- irritaðs til að voga sér fram með stimpilinn „lítið meistaraverk“. Ekki endilega vegna íslenzku þjóðlaganna sem mynduðu stefræna uppistöðu, heldur öllu heldur vegna meðferðar þeirra. Sem rækilega andstæðu við höfgan og allt að því helgan blæ Liljulagsins í stundum þjóðlega sam- stígri útfærslu, stundum í exótískt krómatískum leyndarhjúp, setti tón- skáldið Klappa saman lófunum, sem reif upp íhugulustu augnablikin með hvatvísri kvæðamannahrynjandi. Sem formrænan kontrapunkt voru notaðir samtímis rísandi og hnígandi krómatískir tónstigar, sem mótuðu langan inngangskaflann og fléttust stundum saman við hitt, fyrir utan að ganga aftur í Kóda. Höfundur sýndi hér lygilega gott vald á slunginni samtvinnun ýmist heilla lagstúfa eða misstuttra frumbrota í fjölbreyttri úrvinnslu, þ. á m. hermipólýfónískri, enda að vísu með ólíkindum hversu langt er hægt að seilast með jafn- kunnu efni, séu raddfærslufærni, ímyndunarafl og markvisst næmi á framvindu fyrir hendi. Hljóðfæra- leikurinn var eftir því innblásinn. Spilararnir voru augljóslega komnir í ham, og varð löngu fyrir lokin ljóst að hlustendur voru sama sinnis. Síðasta og nýjasta verkið á dag- skrá, Svart & Hvítt fyrir klarínett og píanó (3/2001-1/2002), birtist manni sem kyrralífsmynd í tónum og átti enga sanngjarna möguleika eftir því- líkan „tour de force“ hápunkt. Þótt efnið væri að sögn fengið frá Strengjakvartetti nr. 1, minnti dúóið að hluta á flautuverkið á undan, þar eð strúktúralísk hugsun átti líka hér til að bera tilhöfðunina ofurliði. Ytra formið var sömuleiðis runnið frá Nr. 1, þ.e. samhverft bogaform með svip- uðum endi og í upphafi. Sjakkonna (sí-ítrekuð hljómaröð eða bassalína) myndaði hins vegar form miðþáttar með áberandi iðandi tremólógárum píanósins líkt og skinnaköstum á sléttum vatnsfleti. „Slitru“-áferð út- þátta gat með góðum vilja minnt lít- ilsháttar á klíníska útgáfu af bíboppi, en annars fannst manni frekar lítt draga til tíðinda, þrátt fyrir prýðis- góðan leik Ármanns Helgasonar og Valgerðar Andrésdóttur. Lítið meistaraverkTÓNLISTSalurinn Erik Júlíus Mogensen: Strengjakvartett nr. 1. Svíta fyrir einleiksflautu. Chant f. óbókvartett. Strengjakvartett nr. 2. Svart & Hvítt f. klarínett og píanó (frumfl.). Sigrún Eðvaldsdóttir, Zbigniew Dubik, fiðlur; Helga Þórarinsdóttir, víóla; Bryndís Halla Gylfadóttir, selló; Peter Tompkins, óbó; Magnea Árnadóttir, flauta; Ármann Helgason, klarínett; Val- gerður Andrésdóttir, píanó. Sunnudaginn 10. febrúar kl. 17. KAMMERTÓNLEIKAR Ríkarður Ö. Pálsson Erik Mogensen NORSKI rithöfundurinn Lars Saabye Christensen hlýtur bók- menntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002 fyrir skáldsögu sína Hálf- bróðirinn (Halvbroren). Skáldsagan spannar síðari hluta 20. aldar og fylgir eftir fjölskyldu sögupersón- unnar Barnum Nilsen í gegnum þrjár kynslóðir. Dómnefnd bók- menntaverðlauna Norðurlandaráðs kom saman í Norræna húsinu í Reykjavík um helgina og tilkynnti niðurstöðu sína á hádegi í gær. Í um- sögn dómnefndar um skáldsögu Christensen segir: „Þetta er marg- ræð og breið skáldsaga, sem segir sögu margra kynslóða í frásögn sem sveiflast milli raunsæis og töfra- raunsæis. Frásögnin af Barnum Nil- sen og bróður hans Fred einkennist af fjarlægð, missi og sorg, um leið og hún rúmar mildari tón kímni, vináttu og vonar.“ Þrettán norrænir höfundar voru tilnefndir til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, þar á meðal Gyrðir Elíasson og Mikael Torfason fyrir Íslands hönd. Verðlaunin hljóða upp á 350 þúsund danskar krónur og verða afhent formlega síðar á árinu í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Helsingfors sem stendur yfir dag- ana 29. til 31. október. Lars Saabye Christensen er fædd- ur árið 1953 og er einn kunnasti rit- höfundur Noregs. Hann er búsettur í Ósló og nýtur mikilla vinsælda í heimalandi sínu. Christensen steig fram á sjónarsviðið sem rithöfundur árið 1976 með ljóðabókinni Sagan af Gly (Historien om Gly). Árið 1984 skipaði hann sér á bekk með fremstu rithöfundum Norðmanna með skáld- sögunni Beatles, uppvaxtarsögu er á sér stað í Osló. Christensen hefur á sínum 25 ára ferli sent frá sér skáld- sögur, smásögur og ljóð, skrifað kvikmyndahandrit og unnið til fjöl- margra verðlauna fyrir verk sín. Skáldsöguna Hálfbróðirinn sendi Christensen frá sér í september síð- astliðnum, en árið 2001markaði 25 ára rithöfundarferil hans. Hinn 23. mars næstkomandi mun Saabye Christensen koma fram á Bókmenntasíðdegi í Norræna húsinu ásamt skáldinu Sjón í tengslum við menningardagskrá byggðasamstarfs Vesturáls og Norræna hússins. Christensen fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs „Þetta er margræð og breið skáldsaga“ SCANPIX Lars Saabye Christensen fagnar tíðindunum í Ósló í gær. Morgunblaðið/RAX Í Norræna húsinu í gær gaf að líta verk þeirra höfunda sem tilnefndir voru. Í forgrunni má sjá Hálfbróðurinn en hún er rúmar 650 blaðsíður.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.