Morgunblaðið - 19.04.2002, Blaðsíða 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. APRÍL 2002 45
að huga minn og leitt hann til betri
vegar.
Ég votta Bjarna, eiginmanni
Júllu, börnum þeirra og barnabörn-
um, öðrum ættingjum og vinum sam-
úð mína.
Guð blessi minningu Júlíönu Sím-
onardóttur.
Atli Dagbjartsson.
Á haustdögum 1964 fluttust til
Hafnarfjarðar frá Siglufirði sóma-
hjónin Júlíana Símonardóttir og
Bjarni E. Bjarnason ásamt börnum
sínum, þeim Særúnu, Kristínu, Ólöfu
og Símoni. Ég varð þeirrar gæfu að-
njótandi að kynnast þessari sóma-
fjölskyldu frekar náið. Þau fluttu
fyrst í Vesturbæinn í Hafnarfirði,
þar sem ég ólst upp. Júlla eins og
hún var ævinlega kölluð hóf störf hjá
föður mínum, Kristens Sigurðssyni,
árið 1965, í Vesturbúð sem var kaup-
maðurinn á horninu, hún starfaði þar
í 12 ár.
Júlla var kjarnakona til alls er hún
tók sér fyrir hendur, hörkudugleg,
ósérhlífin, eldfjörug, létt í lund og
dillandi hlátur var hennar einkenni.
Júlla var vinur vina sinna og ekki síst
þeirra sem minna máttu sín. Eftir að
faðir minn lést 1974 störfuðum við
saman í Vesturbúð eða Dúllabúð eins
og hún var kölluð og þar kynntist ég
þeirri manneskju sem hún hafði að
geyma. Ég held ég geti fullyrt að hún
átti fáa sína líka. Júlla var trúnaðar-
vinur minn til margra ára, og fæ ég
aldrei fullþakkað þá hjálpsemi sem
Júlla og hennar fjölskylda sýndu
mér á erfiðleikastundum. Júlla bar
ekki tilfinningar sínar á torg, heldur
hafði þær með sjálfri sér.
Fyrir um það bil þremur árum
veiktist Júlla sem gerði hana óvinnu-
færa, en hún starfaði í Fjarðarkaup-
um í Hafnarfirði meðan heilsan
leyfði. Er ég talaði við hana í síma í
desember sl. þá fór ekki á milli mála
að Júlla var ekki sú sama og hún átti
að sér að vera. Að leiðarlokum er
margs að minnast, efst í huga mér er
þó þakklæti fyrir að hafa fengið að
kynnast Júllu, þessum góða og stór-
kostlega persónuleika. Það verður
erfitt að gleyma slíkri manneskju,
enda verður minning hennar vand-
lega geymd í huga mér.
Við Sigrún og fjölskylda okkar
sendum Bjarna og öllum ættingjum
innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíl í friði, mín kæra vinkona.
Hilmar Kristensson.
Júlla var ein af þessum sjaldgæfu
perlum sem maður kynnist á lífsleið-
inni. Hún var glæsileg, vel gefin, af-
skaplega glaðvær og góð manneskja.
Hláturinn hennar var engum líkur
og hljómar í eyrum mér nú þegar ég
pára þessar línur. Júlla er jafngömul
mínum fyrstu bernskuminningum.
Foreldrar hennar voru nágrannar
foreldra minna á Siglufirði og þegar
hún hóf búskap með Bodda sínum
var það í næsta húsi við okkur.
Góður vinskapur var með foreldr-
um mínum, foreldrum Júllu og
tengdaforeldrum. Þetta fólk átti sinn
þátt í að skapa hið eina og sanna síld-
arævintýri á Siglufirði og þurfti að
berjast harðri baráttu fyrir sínu dag-
lega brauði. Þessi barátta gerði þau
að pólitískum samherjum og batt
þau órofa vináttuböndum sem aldrei
bar skugga á.
Vinátta Júllu við foreldra mína
styrktist enn meir þegar þau öldruð
fluttu í Hafnarfjörð, þar sem hún bjó
ásamt fjölskyldu sinni. Hún var for-
eldrum mínum ómetanleg stoð og
stytta, vinur sem gerði þeim elliárin
bærilegri. Þegar faðir minn var fall-
inn frá létti hún móður minni ein-
veruna með daglegu innliti, spila-
mennsku, spjalli og ómældri aðstoð.
Þær voru trúnaðarvinir sem trúðu
hvor annarri fyrir sínum hjartans
leyndarmálum, gleði og sorgum, sem
við hin áttum engan aðgang að. Eng-
in manneskja óskyld hefur reynst
móður minni betur en hún. Því vil ég
við leiðarlok færa Júllu hjartans
þakkir fyrir allt og allt. Blessun Guðs
og friður fylgi henni á ókunnum slóð-
um.
Eiginmanni, börnum og fjölskyld-
unni allri sendi ég einlægar samúð-
arkveðjur.
Gréta Guðmundsdóttir.
Mér er bæði ljúft og
skylt að minnast Guð-
rúnar föðursystur
minnar og vinkonu með
nokkrum orðum.
Hún fæddist í Bæjum á Snæfjalla-
strönd 28. okt. 1909 ásamt tvíbura-
systur sinni Helgu, sem lifir ein
þeirra systkina og maka þeirra. Þeg-
ar þær urðu níræðar 1999 voru þær
elstu þálifandi tvíburar landsins.
Báðar við bestu heilsu, en því meti
var hnekkt er Guðrún lést 23. mars
sl. á nítugasta og þriðja aldursári.
Foreldrar hennar voru hjónin Páll
H. Halldórsson og Steinunn Jó-
hannsdóttir í Bæjum.
Þau fluttu í fardögum 1910 norður
að Höfða í Jökulfjörðum í Grunna-
víkurhreppi með átta börn, það elsta
14 ára og yngstar voru tvíburasyst-
urnar rúmlega misserisgamlar.
Veturinn 1910 var mikill snjóavet-
ur. Páll rak féð, sem komið var að
burði, norður yfir Dalsheiði 8–10
tíma ferð. Hvergi sást á dökkan díl
nema hjallarandir, sem reynt var að
þræða.
Með honum í för voru tveir elstu
synir hans, 12 og 14 ára, og unglings-
stúlka. Hann hafði með sér reiðings-
hest með kláfum til að láta lömbin í
sem fæddust á leiðinni. Ferðin gekk
GUÐRÚN
PÁLSDÓTTIR
✝ Guðrún Pálsdótt-ir frá Höfða í
Grunnavíkurhreppi
fæddist í Bæjum á
Snæfjallaströnd 28.
október 1909. Hún
lést á hjúkrunar-
heimilinu Grund 23.
mars síðastliðinn og
fór útför hennar
fram frá Dómkirkj-
unni 2. apríl.
að óskum, enda blíð-
skaparveður. Svona
ferðalög voru víst engin
nýlunda í sveitum
landsins í þá daga. Páll
hélt heim aftur, en syn-
irnir gættu fjárins á
Dynjanda, næsta bæ,
hjá Einari Bæringssyni
og Engilráðu Bene-
diktsdóttur.
Viku seinna eða 10.
júní sótti Kristján
Jónsson bóndi á Nesi í
Grunnavík fólk og far-
angur á mótorbát með
sexæring aftan í (Síld-
inni, sem enn er til vestur í Bjarn-
arhöfn). Kýrnar voru í sexæringn-
um. Hásetarnir voru Pétur Maack
og Reimar Finnbogason.
Lagt var af stað úr Bæjum seint
um kvöld og haldið norður í Jökul-
fjörðu í logni og ládauðum sjó. Ferð-
in gekk að óskum.
Og við sólarupprás var lent á
Höfða. Enginn hafði búið þar þetta
árið og þurfti því að taka til hendinni
við að þrífa húsið.
Það var engin eldstó í húsinu, en
snjó var mokað upp úr hlóðum í úti-
eldhúsi. Steinunn kveikti upp eldinn
og hitaði kaffi fyrir mannskapinn.
Hún dáðist oft að því hve glatt hefði
logað, henni fannst mórinn betri á
Höfða en í Bæjum.
Þeim hjónum búnaðist vel á Höfða
og komu öllum börnum sínum til
manns, en eina telpu misstu þau
ungbarn í Bæjum.
Þarna ólst Guðrún upp með tví-
burasysturinni og hinum glaðværa
systkinahóp. Helga stóð henni afar
nær og eins Halldór bróðir hennar.
Hún minntist æsku sinnar sem bestu
ára ævi sinnar.
Á yngri árum fór hún í vistir á
vetrum, en vann foreldrum sínum
þar til faðir hennar lést 1937 og móð-
ur sinni ásamt bræðrunum Halldóri
og Jóhanni þar til hún lést 1942. Síð-
an bjuggu þau saman systkinin á
Höfða þar til Jóhann tók við búinu
1945. Þá flutti Guðrún til Reykjavík-
ur og keypti sér svo íbúð á Blóm-
vallagötu 13, þar sem hún bjó síðan.
Hún stundaði verkamannavinnu,
lengst af við matvælaiðnað í Mat-
borg, Sláturfélagi Suðurlands og víð-
ar. Einnig komst hún í síldina á
Siglufirði, var fanggæsla sjómanna í
Sandgerði og lengi vann hún á
Reykjalundi á vorin.
Guðrún var einn stofnenda Ung-
mennafélagsins „Glaður“ í sveitinni,
sem stóð fyrir byggingu samkomu-
húss í Flæðareyri um 1930, af mikilli
bjartsýni og dugnaði. Hún og fé-
lagarnir sáu um samkomu á jólunum
og eitt ball á sumrin. Þá kom fólk
víðs vegar að, allt vestan úr Bæjum
og norðan frá Horni og taldi ekki eft-
ir sér erfiðar fjallaferðir.
Guðrún tók oft á móti langferða-
fólkinu á Höfða, það fékk að borða og
leggja sig áður en lagt var á heiðar
heim aftur.
Átthagafélag Grunnvíkinga á Ísa-
firði eignaðist samkomuhúsið eftir
að byggðin lagðist í eyði 1962. Og
enn þann dag í dag er Flæðareyri
samkomustaður okkur Grunnvík-
inga. Á fjögurra ára fresti leggjumst
við út ungir sem aldnir 2–3 daga í júlí
og höldum hátíð. Guðrún fór á Flæð-
areyrarhátíðir nema tvær þær síð-
ustu. Hún ferðaðist mikið um landið
sitt og tók fallegar myndir. Hún fór
til Færeyja með Helgu systur sinni
og einnig fór hún til Vestmannaeyja
og taldi það nægar utanlandsferðir
fyrir sig. Hún var mikill náttúruunn-
andi og dýravinur.
Hún unni sveit sinni og fór vestur
á sumrin. Hún var mörg sumur með
okkur fjölskyldunni í Sætúni í
Grunnavík öllum til mikillar ánægju.
Hún var mikill göngugarpur og naut
náttúrunnar og fuglalífsins. Hún fór
oft niður að Tjörninni hér í Reykja-
vík að fylgjast með fuglalífinu þar.
Lengi vel gekk hún næstum borgina
á enda.
Hún giftist ekki og eignaðist ekki
börn sjálf. En systkinabörnin henn-
ar áttu hauk í horni þar sem hún var
og voru sum þeirra langdvölum hjá
henni á Höfða og leit hún á þau sem
sín eigin. Það var oft gestkvæmt hjá
henni bæði á Höfða og á Blómvalla-
götunni. Guðrún var einstaklega já-
kvæð og skemmtileg og létt í lund.
Sjálfstæð var hún og sá sjálf um
heimili sitt alla tíð og vildi að sem
minnst væri fyrir sér haft. Hún var
hraust um ævina. Hafði aðeins einu
sinni á unga aldri lent á sjúkrahúsi
með fingurmein í nokkra daga, þar
til hún veiktist og fór á Hjartadeild
Landspítalans við Hringbraut í lok
október og var þá hætt komin, en
hún náði sér furðu vel og var svo lán-
söm, að hún sagði sjálf, að komast
inn á Grund og þar var hún í góðum
höndum í tæpa þrjá mánuði. Hún
dásamaði fólkið og allt viðmót þar.
Hún hélt fullri reisn, minnið var
óskeikult, bæði gamli tíminn og ekki
síður nútíminn, þar til hún veiktist
alvarlega og lést eftir tæpa viku á
Sjúkradeildinni á Grund. Henni var
þyrmt við langri legu, Guði sé lof.
Þakkir eru færðar læknum og hjúkr-
unarliði sem önnuðust hana.
Innilegar samúðarkveðjur send-
um við Helgu frænku og frændliði
öllu. Við kveðjum hana með söknuði
og þökk fyrir það sem hún var okkur.
Faðir lífsins faðir minn,
fel ég þér minn anda í hendur.
Foldin geymi fjötur sinn.
Faðir lífsins, Drottinn minn,
hjálpi mér í himin þinn
heilagur máttur, veikum sendur.
Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda í hendur.
(Sig. Jónsson frá Arnarvatni.)
Steinunn María Guðmunds-
dóttir, Kristbjörn H. Eydal.
✝ Guðmundur Ein-ar Sölvason fædd-
ist á Séttu í Séttu-
hreppi 9. desember
1918. Hann lést á
Landspítalanum við
Hringbraut að kvöldi
12. apríl síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Verónika Kristín
Brynjólfsdóttir, f.
26.9. 1886, d. 9.1.
1981, og Sölvi Andr-
ésson, f. 12.6. 1889, d.
23.8. 1956. Systur
Guðmundar eru Her-
borg Arndís, maki
Kristinn Lárusson, látinn, Guðrún
Karítas, maki Sigurjón Guðmunds-
son, látinn. Fóstur- og uppeldis-
bræður Guðmundar voru Guðni
Árnason, f. 27.9. 1927, d. 21.6.
2000, maki Agnes Steinadóttir;
Guðmundur Karlsson, f. 20.3.
1932, maki Oddbjörg Kristjáns-
dóttir.
Guðmundur kvæntist Þóru
Mörtu Þórðardóttur, f. 27.3. 1924.
Foreldrar hennar voru Svanfríður
Aðalbjörg Guðmundsdóttir og
Þórður Matthíasson frá Ólafsvík.
Börn Guðmundar og Mörtu eru: 1)
Kristín Guðmunda, f. 2.8. 1946,
maki Mogens Thaagaard, f. 5.4.
1948. Börn: Margrét Thaagaard,
maki Óli Fjalar Böðv-
arsson. A: Sunna
Kristín; B: Steinunn
Eva, C: Móeiður
Kara. Martha Ann
Thaagaard, maki
Paul Henriksen; Est-
er Björg Thaagaard
maki Auðunn Ragn-
arsson. A: Andrea
Björk; B: Emil Andri.
Guðmundur Magnús
Thaagaard. 2) Brynj-
ólfur Ingi, f. 16.3.
1949, maki Guðný
Björg Hallgrímsdótt-
ir, f. 29.8. 1950. Börn:
Þórdís Ósk, maki Enrique Ramon
Sanches. A: Íris Hadda; B: Enri-
que. Birgir A: Sölvi Már. B: Arnór
Ingi. Hallgrímur A: Guðný Björg.
3) Vala Steinunn.
Guðmundur ólst upp á Sléttu til
níu ára aldurs. Þá flutist hann með
foreldrum sínum að Tungu í Fljóti
og síðar í Stakkadal.
Guðmundur lærði vélstjórn og
var til sjós á sínum yngri árum.
1946 hóf hann störf hjá Ísbirninum
sem vélstjóri og vann þar til ára-
móta 1988. Og hjá Eimi frá 1988 til
1993
Útför Guðmundar fer fram frá
Seltjarnarneskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 15.
Elskulegur tengdafaðir minn er
látinn. Hann sem var alltaf svo hlýr
og yndislegur og alltaf tilbúinn til að
rétta hjálparhönd. Mikið eigum við
öll eftir að sakna hans. Orð geta
ekki lýst því hvernig mér líður, en
ég veit að núna líður þér vel, þar
sem þú ert kominn heim til ástvin-
anna hinum megin. Takk fyrir góðu
stundirnar, elsku tengdapabbi.
Elsku Marta mín, guð gefi þér,
börnunum þínum og okkur öllum
styrk til að standast þessa raun.
Hvíl í friði, Guðmundur minn.
Þín tengdadóttir
Guðný Björg.
Ástkær afi minn lést síðastliðinn
föstudag á Landspítalanum við
Hringbraut.
Fyrst þegar ég hugsa út í þetta
allt saman, afi minn, þá verð ég að
viðurkenna að ég fann meira til létt-
is en sorgar þegar ég fékk frétt-
irnar að þú værir dáinn. Það er létt-
ir að hugsa til þess að þér líði betur
núna en þína seinustu daga meðal
okkar.
Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til
þegar ég og Gummi ætluðum að
koma í heimsókn til þín og ömmu.
Og líka alltaf á morgnana þegar ég
var hjá þér og þú gerðir handa okk-
ur hafragraut, ég fékk sykur út á
minn en þú fékkst þér smá salt. Þú
og amma voruð líka oft að reyna að
fá okkur Gumma til þess að vakna
með þér eldsnemma á morgnana til
þess að fara með þér í morgunsund.
Ekki tókst ykkar það oft því að við
litlu grislingarnir ykkar vorum yf-
irleitt svo þreyttir á morgnana.
Endalaust gæti ég talið upp góðu
stundirnar okkar, afi, því að án
gríns þá man ég ekki eftir því að við
höfum nokkurn tímann átt slæma
né leiðinlega stund þegar við vorum
saman.
En núna þegar ég sit hérna með
tárin í augunum en er jafnframt
brosandi af því að hugsa um þig, afi
minn, þá langar mig að skrifa það
sem ég einhvern veginn náði aldrei
að segja við þig þó að ég hafi vissu-
lega ætlað mér það: „Afi minn, ég
elska þig.“ Megi guð og allir hans
englar veita ömmu og börnum
hennar styrk í þessari raun og jafn-
framt gæta þín, afi minn.
Hallgrímur Brynjólfsson.
Einstakur maður er farinn á vit
hins óþekkta. Hlutverki hans í leik-
riti lífsins lokið.
Engan hef ég þekkt, sem sagði
svo margt með þögninni einni sam-
an. Fáa hef ég þekkt, með svo
sterka nærveru. Skopskyn að mínu
skapi, skarpt og djúpt. Jafnaðar-
geðið einstakt. Mótaður af stórkost-
legri náttúru Hornstrandanna, þar
sem nátturuöflin hafa vafalítið lagt
sitt á vogarskálarnar.
Höfðingi við kveðjum þig í dag.
Það er sárt. En þú hefur mótað góð-
ar minningar í hug okkar allra. Þær
munu fylgja okkur um ókomna tíð.
Við þökkum af heilum hug sam-
fylgdina. Það eru forréttindi að eiga
samleið með svo mætum manni.
Aðstandendum öllum vottum við
djúpa samúð, um leið og við þökkum
þeim góðan skilning á vináttunni,
sem við metum mjög mikils.
Elsku Marta mín, þú mikla og
mæta kona. Þú veist hvar þú hefur
okkur.
Hvíl í friði. Þökk fyrir allt og allt.
Fyrir hönd fjölskyldu minnar.
Kristín E. Guðjónsdóttir.
Elsku afi og langafi. Okkur lang-
ar að segja nokkur orð og þakka þér
fyrir allt sem þú gafst okkur af kær-
leik þínum og visku. Sá tími sem við
áttum saman kemur nú skýrt fram
og yljar um leið og hann kallar fram
tár eigingirninnar. Nú ertu farinn í
ljósið kærleiksríka og nýtur hins
mikla anda á betri stað. Að gefa sig
að sársaukanum er nokkuð sem er
hluti af eðlilegu lífi. Öll þurfum við
þennan samhljóm til að geta verið
stöðugri. Dagsljósið og náttmyrkrið
stíga léttan dans og það sama á við
um sæluna og sorgina. Raunveruleg
sæla birtist okkur ekki fyrr en við
höfum tekið á sorginni hvort sem
okkur líkar betur eða verr, Guð er
alltaf með okkur og það huggar sárt
hjartað.
Að finna friðinn innra með mér
veitir mér styrk og trú á Guð. Ég
þakka þér, kæri Herra, þú mikli
andi fyrir allt sem þú hefur fært
okkur og sýnt. Allan þann tíma sem
þú gafst okkur saman, sem lifir nú
áfram í ljúfsárri minningunni.
Í huga okkar áttu stað,
sem hjartað hlúir og gætir.
Fuglarnir kvaka, þeir syngja lag,
um kærleikans gleði stundir.
Náttúran glóir, það lýsir af þér,
vorið það sameinast sumri.
Lífsins yndi nú aftur er,
engill í sælunnar lundi.
(Þórdís Ósk Brynjólfsdóttir)
Elsku afi, láttu þér líða vel á nýja
staðnum. Dóttir mín sagði við mig
er ég útskýrði brottför þína: Hann
langafi minn fór til Guðs og er nú
orðinn engill. Ég er sammála henni,
við lifum, þroskumst og verðum
englar.
Elsku kæra amma og langamma,
Guð gefi þér styrkinn og ljósið sem
þú þarfnast til að takast á við þau
spor sem bíða þín. Við elskum þig.
Elsku pabbi og afi, Kristín og
Vala Steinunn, Guð gefi ykkur
styrkinn og ljósið sem þið þarfnist
til að takast á við þau spor sem bíða
ykkar. Við elskum ykkur.
Þórdís Ósk Brynjólfsdóttir,
Íris Hadda Jóhannsdóttir,
Enrique Ramon Sanchez,
Enrique Ramon Brynjólfs.
GUÐMUNDUR
EINAR M. SÖLVASON