Morgunblaðið - 01.06.2002, Síða 42
LISTIR
42 LAUGARDAGUR 1. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Í DAG efna lúðrasveitir á höfuð-
borgarsvæðinu til Dags lúðrasveit-
anna. Um átján lúðrasveitir munu
safnast saman við Hljómskálann í
Reykjavík og ganga í skrúðgöngu
eftir Fríkirkjuvegi og Austurstræti
að Ingólfstorgi. Þar safnast sveit-
irnar saman og leika saman nokkur
lög. Um 500 manns á öllum aldri
skipa þessar átján sveitir. Tilgang-
urinn með Degi lúðrasveitanna er
að vekja athygli á þeim mikla fjölda
barna og fullorðinna sem tekur þátt
í hljómsveitarstarfi af þessu tagi.
Gangan hefst kl. 15.00 við Hljóm-
skálann, en kynnir á Ingólfstorgi
verður Stefán Karl Stefánsson leik-
ari.
Össur Geirsson stjórnandi Skóla-
hljómsveitar Kópavogs er einn
skipuleggjenda dagsins. „Þetta er
nýbreytni sem Samtök íslenskra
skólalúðrasveita og Samtök ís-
lenskra lúðrasveita standa fyrir.
Hugmyndin að þessu fæddist í
haust og þá var ákveðið að prófa
þetta þennan dag. Ef vel tekst til
hjá okkur ætlum við að reyna að
gera það að föstum árlegum við-
burði að fara út í vetrarlok og láta
heyra í okkur. Við höfum beint því
til lúðrasveita um allt land að þær
gerðu eitthvað líka, hver í sínu hér-
aði. Lúðrasveit verkalýðsins er til
dæmis að fara út á land, og spilar
austur á fjörðum á morgun í tilefni
dagsins, og Ísfirðingar voru með
lúðrasveitadag hjá sér um síðustu
helgi. Við höfum hins vegar hóað í
lúðrasveitir frá Akranesi, Selfossi,
Reykjanesi, Mosfellsbæ og öðrum
byggðum kringum Reykjavík til að
taka þátt í deginum hér. Við hitt-
umst í Hljómskálanum og æfum
fyrst saman nokkur lög áður en við
leggjum af stað í skrúðgönguna
klukkan þrjú, og á Ingólfstorgi spil-
um við saman fimm, sex lög um hálf
fjögurleytið. Þetta verða bæði
skólalúðrasveitir og lúðrasveitir
fullorðinna. Þetta er allt frá níu ára
gömlum krökkum upp í rígfullorðið
fólk.“
Össur segir að um 1500–2000
börn í landinu taki þátt í starfi
skólalúðrasveita, flest á höfuðborg-
arsvæðinu, en eilítið færri starfa í
fullorðinssveitunum.
Dagur lúðra-
sveitanna
Morgunblaðið/Jim Smart
Ungir sem aldnir taka þátt í starfi lúðrasveita um allt land.
BRAKRADDIR er 15 mínútna
langt dansmyndbandsverk eftir
Helenu Jónsdóttur. Það er hluti af
listahátíð og unnið í samvinnu við
Íslenska dansflokkinn. Í myndinni
er fylgst með stórsöngvara sem Ell-
ert Ingimundarsson leikur og þrjár
bakraddir dansaðar af þeim Ástu
Sighvats Ólafsdóttur, Guðmundi
Elíasi Knudsen og Katrínu Á. John-
son. Stórsöngvarinn lætur ljós sitt
skína á stórtónleikum meðan bak-
raddir hans bíða óþreyjufullar eftir
að að þeim komi. Fljótlega missa
bakraddirnar einbeitinguna en í
stað þess að sofna úr leiðindum
hefjast þær handa við að skapa sitt
eigið listaverk í óþökk stórsöngv-
arans. Bakraddirnar fara úr hefð-
bundnum jökkunum en undir þeim
koma litríkir búningar í ljós. Stór-
söngvarinn reynir að hafa hemil á
bakröddunum sem fá uppreisn æru
í lok verksins.
Verkið er vel uppbyggt frá byrjun
til enda. Tökustíllinn er lifandi en
Helena notar oft þröngan mynd-
ramma og súmmar gjarnan inn á
einn líkamshluta í einu. Dans og
hreyfingar koma vel út í daufri lýs-
ingunni og samspil ljóss og skugga
gefur myndinni hrátt yfirbragð.
Búningarnir eru fjörugir undir
hefðbundnum jökkunum og litir og
stíll eiga vel við það sem á sér stað í
myndinni. Það er dans í trommu-
taktinum og kórsöngurinn hæfir yf-
irborðskenndum stórsöngvaranum
vel. Klipping Elísabetar Ronalds-
dóttur er þannig úr garði gerð að
aldei verður dauður kafli í verkinu.
Myndin heldur athygli áhorfandans
allt til enda. Möguleikar í samspili
dansara og tökuvélar á hreyfingu er
óþrjótandi og spennandi viðfangs-
efni. Þetta dansvideóverk er gott
dæmi um það.
Brakraddir er sýnt til loka maí-
mánaðar í Listasafni Reykjavíkur.
Brakraddir láta
frá sér heyra
KVIKMYND
Listahátíð
Listasafn Reykjavíkur
Handrit, dansgerð og leikstjórn: Helena
Jónsdóttir. Tónlist: Greg Ellis.
Klipping: Elisabet Ronaldsdóttir. Leik-
endur og dansarar: Ellert Ingimundarson,
Katrín Á. Johnson, Ásta Sighvats Ólafs-
dóttir, Guðmundur Elías Knudsen.
Myndataka: Magni Ágústsson. Lýsing:
Jóhann Pálmason. Búningar: Kristín Að-
alsteinsdóttir.
DANSMYNDBAND
Lilja Ívarsdóttir
SUMARSTARFSEMI Árbæjarsafns
hefst í dag en þá verður safnið opið
frá kl. 10–18. Klukkan 13 verður
opnuð ný sýning í húsinu Garða-
stræti, einu húsanna við Torgið.
Sýningin nefnist Á harða kani –
sýning í hesthúsi.
Þar er á ferðinni sýning á sleða
Geirs Zoëga, kaupmanns og út-
gerðarmanns, frá síðari hluta 19.
aldar. Sleðar voru stundum nefndir
kanar. Sú gerð sem er til sýnis nú
var fágæt hérlendis og einungis
efnamenn áttu slíka sleða, enda
voru þeir dregnir af hesti. Sýningin
er í hesthúsi sem upphaflega stóð
við Garðastræti 9 og þar eru einnig
ýmsir munir og myndir sem tengj-
ast hestaferðum og útreiðum í
Reykjavík um aldamótin 1900.
Kl. 14 býður Þorlákur Ó. Johnson
upp á skemmtidagskrána Spek-
úlerað á stórum skala, í húsi sínu
Lækjargötu 4. Sérstök leikja-
dagskrá verður fyrir börn við
Kornhús og teymt verður undir
börnum við Árbæinn. Húsfreyjan í
Árbæ bakar lummur í tilefni dags-
ins og handverksfólk verður á bað-
stofulofti við tóvinnu. Í Dillonshúsi
er veitingasala.
Á sunnudag verður harm-
óníkudagur í safninu. Fjöldi harm-
óníkuspilara á öllum aldri, bæði
einstaklingar og hljómsveitir,
heimsækja safnið og spila fyrir
gesti. Samfelld harmóníkuveisla
verður á Kornhúsloftinu frá kl. 13–
16. Meðal flytjenda þar eru danska
sveitin Tesco Value, sem mun spila
á Hróarskelduhátíðinni síðar í sum-
ar. Einnig spilar Strákabandið frá
Húsavík, hressir karlar á besta
aldri, sem og Karl Adolfs og fé-
lagar. Auk þess munu einstaklingar
spila í húsunum og úti á safnsvæð-
inu ef veður leyfir. Auk þess verður
hefðbundin dagskrá og handverks-
fólk verður í húsunum. Safnið verð-
ur opið alla virka daga nema mánu-
daga frá kl. 9–17 og um helgar frá
kl. 10–18. Á mánudögum verður
Árbærinn og kirkjan opin frá kl.
11–16.
Sumardagskrá
Árbæjarsafns
Morgunblaðið/Einar Falur
Laugardagur 1. júní
Kl. 9-11.15 Oddi 101: Ritmenn-
ing, lestur og samfélag 1830-
1930.
Oddi 206: Íslensk skjalasöfn:
Aðfangastefna og aðgangur
sagnfræðinga.
Oddi 201: Verður sagan sögð í
sýningum?
Oddi 106: Undirstaða sagn-
fræðirannsókna: Heimildaút-
gáfur.
Oddi 206: Hagrænar forsendur
trúariðkunar í íslensku bænda-
samfélagi.
Oddi 201: „Ways to the past:
Ten years of change in the hi-
story curriculum, examinata-
ions and textbooks.“ Málstofa
Sue Bennetts.
13.30-17 Oddi 206: Landshag-
ir, menning og mannfjöldi:
Hreyfanleiki í kyrrstæðu sam-
félagi 1650-1850.
Oddi 201: Sögukennsla í skól-
um.
Oddi 101: Minni og vald.
Oddi 206: Sjálfsmynd and-
spænis framandleika.
Oddi 201: Þorskastríð og kalt
stríð.
Oddi 101: Listin í nýju ljósi:
Tónlist, leiklist, myndlist og
dans sem hluti af íslenskum
menningararfi.
Kl. 17 Oddi: Þingslit.
Íslenska
söguþingið
F
ótbolti er í ótrúlega
miklum metum hjá
öllum almenningi
allra landa virðist
vera. Þeir sem leyfa
sér að lýsa yfir áhugaleysi á
þessari íþróttagrein mega mæta
skilningsleysi og mikilli undrun
áhangendanna. Nú er heims-
meistaramótið hafið einhvers
staðar í Asíu. Mig langar alveg
eins að prófa að horfa á einn,
tvo leiki en hef víst ekki borgað
fyrir áskrift að réttu sjónvarps-
stöðinni til þess. Svo skilst mér
reyndar að maður þurfi að
vakna fyrir allar aldir til að
fylgjast með. Þá held ég að ég
vilji frekar vakna til að hreyfa
sjálfa mig heldur en að horfa á
aðra hreyfa sig. En þetta snýst
orðið um
eitthvað allt
annað en
hreyfingu.
Það er eins
og allir karl-
kyns Íslend-
ingar hafi
áhuga á fótbolta. Ef undirrituð
væri karlmaður fengi hann
kannski sterk viðbrögð við þess-
um skrifum, en þar sem ég er
kona get ég einhverra hluta
vegna leyft mér að lýsa yfir
áhugaleysi á fótbolta. Ég hef
lesið tvær skemmtilegar greinar
nýlega eftir tvo karlkyns anti-
fótboltista, annan ítalskan, hinn
breskan. England og Ítalía eru
eins og allir vita mikil boltalönd
og orðasambandið „enska knatt-
spyrnan“ var með þeim fyrstu
sem mín kynslóð lærði í
bernsku.
Sá breski, Andy Miller, segir
m.a. í lauslegri þýðingu úr grein
hans sem Guardian birtir: „Það
er engin hefð fyrir því að hata
íþróttir í Bretlandi. Annaðhvort
elskar maður þær – og það er
betra fyrir mann – eða maður
reynir að láta sem maður sjái
þær ekki. Það þýðir ekki að það
sé alslæmt að láta sem maður
sjái þær ekki, á virkan hátt.
Langar þig að gera leigubíl-
stjóra kjaftstopp þegar hann
spyr þig hvort þú hafir séð leik-
inn? Það þarf bara fimm orð:
„Nei“, „ég“, „þoli“, „ekki“ og
„fótbolta“. Svona já. Vertu hug-
rakkur. Prófaðu það.“
Sá ítalski, Umberto Eco, segir
m.a. að það sé umhugsunarefni
að umræða um fótbolta sé al-
gengari en umræða um pólitík.
„Til að vera umræðuhæfur um
fótbolta þarf ekki að standast
miklar kröfur og þegar öllu er á
botninn hvolft er lítil hætta á að
verða útskúfaður. Maður fær
leyfi til að setja sig í stellingar,
segja skoðanir sínar, koma með
lausnir án þess að eiga það á
hættu að vera handtekinn, sett-
ur í flokk öfgahópa af einhverju
tagi eða fá aðdróttanir í þá átt.
Og maður þarf ekki að taka sig
of alvarlega í umræðunum þar
sem maður hefur hvort sem er
engin áhrif á gang mála. Og að
lokum leyfir þetta okkur að taka
þátt í almennri umræðu án
þjáninganna og krafnanna og
efasemdanna sem fylgja póli-
tískri umræðu,“ segir m.a. í
grein hans sem birtist í þýðingu
Hólmfríðar Ólafar Ólafsdóttur í
TMM fyrir tæpu ári.
Báðum hefur þeim Miller og
Eco, eins og títt er um anti-
sportista, gengið illa í íþróttum
á æskuárum sínum, voru ekki
valdir í fótboltaliðið í frímín-
útunum eða gerðu kannski
sjálfsmark eða gáfu á andstæð-
inginn í þau fáu skipti sem þeir
snertu boltann, eins og Eco
nefnir. Þegar fótbolti er svona
stór hluti af daglegu lífi og fé-
lagsmótun er nú ekkert skrýtið
að svoleiðis hafi áhrif á menn.
Að stunda fótbolta er einhver
hluti af félagsþroska stráka. Já
ég segi stráka, þar sem fótbolti
er miklu mikilvægari hluti af
þeirra lífi en lífi stelpnanna.
Fótbolti og frímínútur er órjúf-
anlegt samband í huga flestra
stráka. Að vera góður í fótbolta
er stór þáttur í því að vera tek-
inn í sátt, en að vera lélegur í
fótbolta getur verið ávísun á
höfnun jafnaldra.
„Já, þið hafið rétt fyrir ykk-
ur,“ segir Miller. „Ellefu æsku-
ár full af niðurlægingu og op-
inberri höfnun jafnaldranna,“
kallar hann þetta. Stelpur sem
ekki eru góðar í fótbolta þurfa
ekki að þola slíkt. En hvers eiga
börn að gjalda, þ.e. strákar, eins
og málum er háttað, sem ekki
hafa áhuga á fótbolta?
Auðvitað á fótbolti sínar já-
kvæðu hliðar. Þetta er góð
hreyfing og stunduð í hópi þar
sem oft myndast vinátta. Með
því að æfa fótbolta eykst metn-
aður krakka, þeir læra að bera
virðingu fyrir andstæðingnum
og umhyggju fyrir samherjum.
Segja a.m.k. þeir sem til þekkja.
Ég fer kannski að kynnast
þessu sem óð mamma á vell-
inum, hver veit.
Fótbolti er eitthvað svo miklu
meira en íþrótt. Auk þess sem
íþróttin er komin langt frá upp-
runa sínum, þ.e. frá því að vera
leikur og hreyfing og orðin at-
vinnugrein sem veltir miklum
fjármunum, er þetta eitt helsta
umræðuefni fólks frá degi til
dags og þessi stóri hluti af dag-
legu lífi. Í greinaflokki í nýjasta
hefti The Economist er fjallað
um knattspyrnu í tilefni af
heimsmeistaramótinu. Í einni
greininni kemur fram sú ágisk-
un hagfræðings í London að fót-
boltaiðnaður heimsins sé 150
milljarða punda virði um þessar
mundir. Þetta samsvarar um 20
þúsund milljörðum íslenskra
króna og er eiginlega ofar skiln-
ingi manns. Í þessari sömu
grein segir að peningar séu ekki
aðalmálið varðandi alþjóðlegan
fótbolta, heldur fremur ástríðan
og þjóðarstoltið sem honum
fylgja.
Mörgum fótboltaáhangendum
finnst það t.d. helgispjöll að
tengja fótboltaleik við markaðs-
öflin. Economist greinir t.d. frá
því að Barcelona-fótboltaliðið
hafi hafnað samningi upp á sem
samsvarar 840 milljónum ís-
lenskra króna á ári fyrir að hafa
auglýsingu á treyjum leikmann-
anna. Forsvarsmenn liðsins út-
skýra þetta þannig að liðið sé
tákn Katalóníu og treyjurnar
verði að vera hreinar.
Flott hjá Senegal að vinna
Frakkland í gær!
Fótbolti og
frímínútur
Í einni greininni kemur fram sú ágisk-
un hagfræðings í London að fótboltaiðn-
aður heimsins sé 150 milljarða punda
virði um þessar mundir.
VIÐHORF
Eftir Steingerði
Ólafsdóttur
steingerdur-
@mbl.is