Morgunblaðið - 28.06.2002, Síða 15
Reykjavík, 28. júní 2002
Kæri stofnfjáreigandi.
Boðun nýs stofnfjáreigendafundar í SPRON.
Eins og fram kom í bréfi okkar til stofnfjáreigenda í SPRON þann 26. júní 2002 er það mat okkar að afboðun stjórnar
SPRON á fundi stofnfjáreigenda sem vera átti þann 28. júní n.k. hafi verið ólögleg. Að gefnu tilefni viljum við upplýsa
stofnfjáreigendur um tilefni og eðli þess fundar sem halda átti. Fundi stofnfjáreigenda var ætlað að taka á þremur
dagskrárefnum, þ.e. að taka afstöðu til eftirfarandi tillagna:
1. Tillögu stjórnar SPRON um að breyta SPRON í hlutafélag.
2. Tillögu stofnfjáreigenda um að afnema hámarkseign sérhvers stofnfjáreiganda.
3. Tillögu stofnfjáreigenda um að stjórn SPRON muni ekki standa gegn framsali stofnfjárhluta í sparisjóðnum.
Af þessu má ljóst vera að fundi stofnfjárfesta SPRON var hvorki ætlað að taka afstöðu til tilboðs okkar til ykkar né
fjalla um aðkomu Búnaðarbankans. Fundinum var hins vegar ætlað að gera öllum stofnfjárfestum kleift að selja sín
stofnfjárbréf á sanngjörnu og eðlilegu verði, hvort sem sá kaupandi kynni að vera Búnaðarbankinn eður ei. Alger
forsenda fyrir því að stofnfjáreigendur geti selt stofnfé í sinni eigu með öðrum hætti en tillaga stjórnar SPRON gengur
út á er að hafna tillögu stjórnar SPRON (tillaga 1) og samþykkja tillögur stofnfjáreiganda (tillögur 2 og 3) sem tilgreindar
eru hér að ofan. Að öðrum kosti verður stofnfé SPRON að okkar mati illseljanlegt og í það minnsta til muna verðminna
en framkomið tilboð.
Með því að afboða fund stofnfjáreigenda SPRON þann 28. júní n.k. var stjórn SPRON ekki einvörðungu að koma í
veg fyrir að löglega boðaður fundur yrði haldinn, heldur einnig að reyna að koma í veg fyrir að stofnfjáreigendur
SPRON fái notið bestu kjara sem þeir eiga völ á og þar af leiðandi ekki að gæta hagsmuna stofnfjáreigenda.
Þessu til viðbótar er tilvísun stjórnar SPRON um að nauðsynlegt sé að bíða niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins, áður en
hægt sé að halda fund stofnfjáreigenda SPRON, ekki rétt. Fyrir liggur að þær efnislegu tillögur sem lágu fyrir fundinum
voru og eru fullkomlega löglegar, þó að stjórn SPRON kunni að halda að sala stofnfjár á síðari stigum að þeim fundi
loknum kunni að brjóta gegn ákvæðum laga.
Þar sem málum er svo háttað sem hér að ofan greinir þykir okkur nauðsynlegt, til að tryggja að stofnfjáreigendur
eigi möguleika á að selja stofnfé sitt, að fara fram á aðstoð þína við að boða fund stofnfjáreigenda SPRON svo fljótt
sem kostur er. Til þess að af því geti orðið þurfa stofnfjáreigendur a.m.k. 1/3 hluta stofnfjár að skrifa undir meðfylgjandi
kröfu um boðun nýs fundar. Í henni eru tilgreind þau fundarefni sem taka verður fyrir og eru þau hin sömu og
fyrirhugað var að taka fyrir á þeim fundi sem afboðaður var ólöglega. Kröfu um fundarboð í SPRON er rétt að koma
til lögmanns okkar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., Skólavörðustíg 6b, 101 Reykjavík.
Virðingarfyllst,
Sveinn Valfells Pétur H. Blöndal Ingimar Jóhannsson
Gunnar A. Jóhannsson Gunnlaugur M. Sigmundsson