Morgunblaðið - 17.07.2002, Blaðsíða 14
Morgunblaðið/Júlíus
Gunnar Marel Eggertsson, skipstjóri og eigandi Íslendings, afhenti Árna Sigfússyni bæjarstjóra mynd af skip-
inu þegar kaupin á því til Reykjanesbæjar voru kynnt í gær.
ÁFORM eru uppi um að byggja
upp víkinga- eða landnámsþorp
við torfbæinn Stekkjarkot í Innri-
Njarðvík og að það verði eins
konar sviðsmynd fyrir vík-
ingaskipið Íslending sem keypt
hefur verið til Reykjanesbæjar og
liggja mun þar í víkinni. Kaupin
á Íslendingi voru formlega kynnt
í gær við athöfn í Duus-húsum í
Keflavík og á skipið að koma
heim frá New York í sept-
embermánuði.
Fljótlega eftir að nýir menn
tóku við stjórn bæjarmála í
Reykjanesbæ eftir síðustu sveit-
arstjórnakosningar var farið að
vinna að því að fá víkingaskipið
Íslending keypt til bæjarins. Árni
Sigfússon bæjarstjóri sagði frá
því í gær, þegar samningarnir
um kaupin voru kynntir, að
greiða hefði þurft úr ýmsum mál-
um, meðal annars vegna skulda
sem hvíla á skipinu. Kröfuhafar
hefðu verið sveigjanlegir í samn-
ingum og fyrirtæki á svæðinu
lagt mikið af mörkum til að ná
skipinu heim.
Árni sagði í samtali við Morg-
unblaðið að rúmlega 60 milljóna
króna skuldir hvíldu á skipinu og
þær yrðu gerðar upp áður en
skipið kæmi. Hluti af þeim væri
til kominn vegna siglingar skips-
ins vestur um haf árið 2000 og
myndi ríkið leggja fram tæplega
þriðjung af kaupverðinu til að
standa undir þeim kostnaði. Meg-
inhlutann af því sem eftir er
legðu kröfuhafar og fyrirtæki á
Suðurnesjum fram, yfir 20 fyr-
irtæki, og Reykjanesbær greiddi
aðeins lítinn hluta kaupverðsins.
Hins vegar kæmi það í hlut bæj-
arins að fylgja málinu eftir, finna
skipinu stað og reka það.
Fyrsta og síðasta boð um
landkynningu
Gunnar Marel Eggertsson, nú-
verandi eigandi skipsins, mun
áfram eiga hlut í eignarhalds-
félagi um Íslending og hann hef-
ur verið ráðinn til að annast við-
hald skipsins og kynningu á sögu
þess og siglinganna vestur um
haf.
Gunnar Marel kveðst ánægður
með þá niðurstöðu sem fengin er,
að skipið komi heim til Íslands og
fái varanlega heimahöfn í
Reykjanesbæ. Hann segir að
Reykjanesbær sé alls ekki sísti
staðurinn til að hafa skipið á og
kannski sá allra besti vegna þess
hversu margir ferðamenn eigi
leið um nágrennið.
Árni Sigfússon leggur áherslu
á að ferðafólk muni sjá Íslending
úti á Njarðvík þegar það aki
Reykjanesbrautina, að og frá
flugstöðinni á Keflavíkurflug-
velli, og þannig verði skipið
fyrsta og síðasta boð um land-
kynningu fyrir nánast alla ferða-
menn sem til landsins koma. Ætl-
unin er að bjóða ferðafólki að
fara um borð í skipið og skoða
það og kynnast sögu víkingaþjóð-
arinnar. Einnig er gert ráð fyrir
því að hægt verði að bjóða hóp-
um í siglingu, að minnsta kosti
fyrstu árin.
Mikilvæg viðbót
Í Stekkjarkoti í Innri-Njarðvík
er torfbær sem gerður var upp í
sumar. Hugmyndir eru uppi um
að koma þar upp víkinga- eða
landnámsþorpi sem einskonar
sviðsmynd fyrir Íslending. Hefur
sú hugmynd ekki verið útfærð til
fulls en þó er byrjað að afla
stuðningsaðila við verkefnið.
Víkingaskipið verður mikilvæg
viðbót í ferðamálaflóruna á
Reykjanesi, að sögn Johans D.
Jónssonar, ferðamálafulltrúa
Suðurnesja. Með tilkomu þess
verða þrír mjög sérstakir staðir
fyrir ferðafólk á svæðinu, það er
að segja Bláa lónið og Brúin milli
heimsálfa, auk víkingaskipsins.
Jóhann leggur einnig áherslu á
að skipið verði sýnilegt öllu
ferðafólki og það fái strax nasa-
sjón af sögu lands og þjóðar.
Kaupin á víkingaskipinu Íslendingi til Reykjanesbæjar formlega kynnt
Landnámsþorp við Stekkj-
arkot verði sviðsmyndin
Innri-Njarðvík
SUÐURNES
14 MIÐVIKUDAGUR 17. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
SKIPAAFGREIÐSLA er orðinn
minnihluti starfseminnar hjá Skipa-
afgreiðslu Suðurnesja ehf. (SAS)
sem hún þó var eins og nafnið bendir
til einkum stofnuð til að sinna. Fyr-
irtækið er orðið að flutningafyrir-
tæki, raunar því stærsta á Suður-
nesjum, með ellefu gáma- og
vöruflutningabíla.
Skipaafgreiðsla Suðurnesja er að
verða fertugt fyrirtæki. Það var
stofnað sem samlagsfélag í byrjun
árs 1963 af liðlega fjörutíu fyrirtækj-
um og einstaklingum sem stunduðu
fiskverkun og útgerð á Suðurnesj-
um. Tilgangurinn var að samræma
og taka að sér alla vinnu við af-
greiðslu skipa á Suðurnesjum, aðal-
lega vegna mikils útflutnings sjáv-
arafurða. Síðar tók það einnig að sér
landanir úr togurum og stærri bát-
um og var það mikilvægur þáttur í
rekstrinum í mörg ár.
Starfsemi fyrirtækisins hefur
breyst mikið á þessum tíma sem og
eignarhald. Félagið er orðið að
einkahlutafélagi og Jón Norðfjörð úr
Sandgerði, sem verið hefur fram-
kvæmdastjóri frá 1981, er orðinn að-
aleigandi þess. Hann keypti eignar-
hluti stofnendanna á síðasta ári.
Jón tekur undir það að sjá megi
þróun atvinnulífs á Suðurnesjum,
ekki síst útgerðar og fiskvinnslu, í
starfsemi Skipaafgreiðslunnar. Þeg-
ar best lét voru tvö til þrjú flutninga-
skip lestuð á viku, fyrst og fremst við
útflutning á saltfiski, frystum fiski
og saltsíld. Þetta hefur breyst, nú fer
meginhluti útflutnings í gáma og um
hafnir á höfuðborgarsvæðinu. Þá
annaðist fyrirtækið landanir úr 13
togurum og stærri bátum, þegar út-
gerðin var sem mest. Féll þessi þátt-
ur starfseminnar alveg niður fyrir
tveimur árum. Togararnir eru farnir
annað og kvótinn með, nema hvað
enn er mikil útgerð í Grindavík.
Jón segir að ýmsar skýringar séu
á þessari þróun. Hann nefnir afleið-
ingar kvótakerfisins á útgerð á
svæðinu og breytingar á flutnings-
háttum með gámavæðingunni. Þá
hefur fiskvinnslan breyst, mörg fyr-
irtæki á Suðurnesjum leggja meiri
áherslu á vinnslu á fiski sem fluttur
er ferskur á markaði með flugi.
Laga sig að breyttum
aðstæðum
„Ekki var hægt að stöðva þessa
þróun og þegar við sáum í hvert
stefndi ákváðum við að laga okkur að
breyttum aðstæðum með því að fara
út í flutningastarfsemi. Fyrsti gáma-
flutningabíllinn var keyptur árið
1993 og síðan hefur þessi þáttur
starfseminnar smáþróast og er nú
orðinn meginhluti starfseminnar,“
segir Jón. Fyrir tveimur og hálfu ári
tók SAS við öllum flutningum Flytj-
anda á Suðurnesjum. Til þess að
sinna þeim voru keyptir fimm flutn-
ingabílar til viðbótar.
Flytjandi er dótturfélag Eimskips
en Skipaafgreiðslan hefur haft umboð
fyrir Eimskip í nærri tvo áratugi.
Eimskip er með marga stóra við-
skiptavini á Suðurnesjum og annast
SAS afgreiðslu á vörum til þeirra og
alla gámaflutninga til og frá fyrir-
tækjunum.
Skipaafgreiðsla Suðurnesja er
einnig með fjölda annarra stórra við-
skiptavina. Þannig annast fyrirtækið
alla afgreiðslu fyrir þau skip Atlants-
skipa sem eru í Ameríkusiglingum og
landa í Njarðvíkurhöfn og flutning á
vörunum til varnarliðsins á Keflavík-
urflugvelli og annarra viðtakenda.
Það annast dreifingu á fiskisalti fyrir
Hafnarbakka hf., dótturfélag Eim-
skips, og landanir úr saltskipum á
vegum þess, einnig afgreiðslu á tunn-
um fyrir Saltkaup, dótturfélag SÍF.
SAS var fyrsti samstarfsaðiðli danska
sementsframleiðandans Aalborg
Portland á Íslandi og annast ýmis
flutninga- og uppskipunarverkefni
fyrir það fyrirtæki.
Jón segir að fjöldi annarra fyrir-
tækja sé í miklum viðskiptum við fyr-
irtækið, nefnir sem dæmi að það Olíu-
félagið hf. og að SAS annist alla
flutninga fyrir Húsasmiðjuna á Suð-
urnesjum og vörudreifingu til við-
skiptavina þeirra. Þá leigir fyrirtækið
út geymslugáma og lyftara og veitir
ýmsa aðra þjónustu.
Fólk vill þjónustu
Nú starfa átján menn hjá Skipa-
afgreiðslu Suðurnesja. Er það mikill
munur frá því sem var þegar af-
greiðsla skipa og landanir úr togurum
voru uppistaðan í rekstrinum en þá
voru starfsmenn á bilinu 50 til 60 og
aukamenn kallaðir út á álagstímum.
SAS er með vörugeymslur sínar og
skrifstofur í húsi við Iðjustíg í Njarð-
vík, auk þess sem það er með verk-
stæði og vélageymslu við Njarðvíkur-
höfn og þvotta- og viðgerðaraðstöðu
fyrir stóru flutningabílana í húsnæði á
Iðavöllum í Keflavík.
Jón Norðfjörð gerir ekki ráð fyrir
jafnmiklum breytingum á starfsem-
inni á komandi árum og þeim síðustu
og segist ekki sjá neitt sem komi í
stað gámaflutninganna á næstunni.
„Við munum þróa okkur áfram í flutn-
ingunum og leggja áfram áherslu á að
veita Suðurnesjamönnum góða þjón-
ustu því að við vitum að fólk leggur
mikið upp úr henni,“ segir Jón. Hann
bætir við að hann verði áfram með op-
in augu fyrir möguleikum til að út-
víkka starfsemina.
Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi Skipaafgreiðslu Suðurnesja á síðustu árum
Nokkrir starfsmanna Skipaafgreiðslu Suðurnesja stilla sér upp til myndatöku.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Jón Norðfjörð með vöruafgreiðslu SAS í baksýn. Skipaafgreiðslan not-
ar gamla slökkviliðsbílinn úr Sandgerði til að kynna fyrirtækið en hann
var keyptur þegar Jón var þar slökkviliðsstjóri. Jón keypti þann gamla
þegar nýr slökkvibíll leysti hann af hólmi.
Auknir flutn-
ingar í stað
þjónustu við
útgerðina
Njarðvík