Morgunblaðið - 27.08.2002, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 27.08.2002, Blaðsíða 33
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. ÁGÚST 2002 33 ósérhlífni og atorku. Sú átakasama barátta batt okkur systraböndum sem entust meðan báðar lifðu. Í ferðum okkar bekkjarfélaganna úr MR ræddum við Villa stundum trúmál og okkur langaði báðar að stúdera biblíuna og ræða málin undir leiðsögn prests sem gæti hjálpað okk- ur til meiri skilnings. Villa var persóna sem lét verkin tala. Í byrjun vorannar 1991 hringdi hún og sagðist vera búin að fá kenn- ara til að lesa með okkur biblíuna. Hún ætlaði að halda námskeið í kvennaguðfræði í Tómstundaskólan- um, þar sem hún var skólastjóri, og hafði fengið séra Auði Eiri Vilhjálms- dóttur til að kenna. Námskeiðið var vel sótt og þær áhugasömustu fóru á framhaldsnámskeið hjá séra Auði, sem síðan leiddi til þess að Kvenna- kirkjan var stofnuð árið 1993. Þannig varð Villa guðmóðir Kvennakirkjunn- ar. Hinn 29. september 1999 hélt Kvennakirkjan ráðstefnu í Hlaðvarp- anum í tilefni af 25 ára vígsluafmæli fyrsta kvenprestsins á Íslandi undir yfirskriftinni „Hvert er kvennahreyf- ingin að fara? Hvernig verður næsta bylgja?“ Þar hélt Villa ræðu sem fulltrúi gömlu rauðsokkanna og end- aði á að tala um þann vanda sem nú blasti við vegna fjölgunar nektar- dansstaða í Reykjavík. Eins og venju- lega hvatti hún til aðgerða og sagði: „Hvað myndu þeir gera ef við mætt- um allar?“ Svo var það í nóvember sama ár að 28 konur úr ýmsum áttum lögðu upp í vettvangskönnun á nekt- ardansstaðina. Sú ferð virtist vekja æðimarga til umhugsunar um þessa óheillastarfsemi. Þetta var síðasta „aðgerðin“ sem við Villa tókum þátt í saman og hún minnti á gamla daga. Enn í ágúst áttum við Villa samleið í stórbrotinni ferð um hálendið norð- an Vatnajökuls þar sem hún mætti skyndilega sínu skapadægri í hópi vina við Snæfell. Þegar mesti grát- urinn var þagnaður, búið var að segja það sem segja þurfti og syngja svolít- ið var farið í rútuna og keyrt um lengi dags í kafsnjó og slyddu. Þar fór hníp- inn hópur með hryggð í hjarta. Þegar líða tók á daginn byrjaði ég að finna sterkt fyrir nærveru Villu þarna í bílnum, sá hana fyrir hugarsjónum. Hún brosti og var glaðleg. Seinna kom í ljós að fleiri höfðu orðið fyrir sömu reynslu. Börnum Villu og öðrum ástvinum sendum við Ingólfur hjartanlegar samúðarkveðjur. Nú opnar fangið fóstran góða og faðmar þreytta barnið sitt; hún býr þar hlýtt um brjóstið móða og blessar lokað augað þitt. Hún veit, hve bjartur bjarminn var, þótt brosin glöðu sofi þar. (Þorst. Erl.) Rannveig Jónsdóttir. Ég kynntist Villu þegar ég fór að vinna á Iðntæknistofnun vorið 1985. Þau ár sem hún var samtíða mér þar voru afar skemmtileg og viðburðar- rík. Með okkur tókst góð vinátta og þótt hún færi síðan til annarra starfa vorum við alltaf í góðu sambandi . Ég saknaði hennar mikið þegar hún hætti á Iðntæknistofnun því það var aldrei lognmolla í kringum Villu, hún var svo lifandi, hugmyndarík, skemmtileg og gáfuð. Ég missti líka góðan skokkfélaga því við skokkuðum alltaf saman í hádeginu og létum þá móðann mása á meðan. Hún var mikill göngugarpur og þær voru ófáar gönguferðirnar sem farnar voru á meðan hún var á Iðn- tæknistofnun. Hún kenndi mér margt og opnaði augu mín fyrir mörgu. Ég er afar þakklát fyrir að hafa átt hana að sem samferðarmann og vin á veg- ferð minni. Ógleymanleg er ferð sem við fórum fjórar saman í júlí 1986 til Bournemouth á Englandi. Sú elsta í hópnum, Steina fóstra Villu, varð sjö- tug í ferðinni. Lóló fóstursystir Villu var einnig með í för. Við bjuggum í fallegri íbúð sem móðursystir Villu hafði átt við Baronsmeade þar í borg. Þetta er skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í til útlanda. Við náðum mjög vel saman og nutum þess að Villa var hagvön þarna. Við ákváðum strax á fyrsta degi að skrifa dagbók um ferðina og skipt- umst við á að skrifa fyrir hvern dag. Varð þetta hin skemmtilegasta lesn- ing og skemmtum við okkur vel við að hlusta hver á aðra. Ákváðum við að búa til bók með myndum þegar við kæmum heim. Við bjuggum til bók fyrir Steinu því þetta var jú afmæl- isferðin hennar en það dróst alltaf að gera fyrir okkur hinar þrjár. Ég get ekki látið hjá líða að segja frá því hvernig Netið, sem er sam- skiptanet kvenna á vinnumarkaði, varð til. Ég varð hreinlega vitni að því hvernig ein setning kom atburðarás af stað sem leiddi til stofnunar þess. Vorið 1986 var haldin ráðstefna á Iðn- tæknistofnun í kjölfar verkstjórnar- námskeiðs sem haldið var þar fyrir konur. Fyrirlesarar voru konur sem voru í forsvari í sínum fyrirtækjum og voru þær fengnar til að segja frá reynslu sinni og hvernig þær upplifðu sig sem yfirmenn. Niðurstaðan var sú að konum fannst næða um sig á toppnum. Þær vantaði fyrirmyndir og tengslanet sem þeim fannst að karlar hefðu svo ríkulega af. Hver kannast ekki við að ákvarð- anir eru teknar í gufubaðinu hjá strákunum að kvenyfirmanni fjar- stöddum? Þá sagði Þórður Markús Þórðarson sem þá var forstöðumaður Verkstjórnarfræðslunnar og beindi máli sínu til Villu. „Af hverju stofnið þið ekki svona net?“ Þar með var ten- ingunum kastað og Villa varð aðal- hvatamaður að stofnun Netsins. Haf- ist var handa við undirbúning að stofnun þess og komu margar mætar konur þar að. Netið var síðan form- lega stofnað á Hallveigarstöðum haustið 1986. Mætti þvílíkur fjöldi kvenna að halda varð framhaldsstofn- fund stuttu seinna. Netið er starfandi og virkt enn í dag. Við eigum Villu margt gott upp að unna og erum henni afar þakklátar. Hennar er sárt saknað. Við vottum börnum Villu, Dögg, Ilmi, Merði og systur hennar Helgu ásamt fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Fyrir hönd Netsins og barna minna. Ingibjörg Óskarsdóttir. Ég vil á fjöllin fara fremur en vera í byggð, orku þar enga spara en ávallt þjóna af dyggð. Guð hefur margan glaðan dag látið mig lifa á heiðum líknandi mínum hag. (Sigvaldi skáldi.) Við sem þekktum Vilborgu Harð- ardóttur vissum að hún glímdi við ill- vígan sjúkdóm seinustu árin og að höggið gæti riðið hvenær sem væri. Sú hugsun að svo kynni að fara var manni þó oftast fjarri, svo mikill var lífsþróttur hennar, hugurinn vökull og atorkan óbilandi. Það var gaman og gott að eiga Vil- borgu að vini. Í hennar hópi voru sí- fellt uppi áform um að gera eitthvað skemmtilegt saman. Og þar sem hún kom við sögu var ekki látið sitja við orðin tóm. Furðu oft fór svo að hún tók á sig meginþungann af skipulagn- ingu og framkvæmd, þó að ýmsir aðr- ir legðu gjörva hönd á plóginn. Á sama hátt gegndi hún öllum sín- um skyldustörfum af stakri elju og kostgæfni og níddist ekki á neinu sem henni var trúað fyrir. Kynni okkar Vilborgar urðu ekki mjög löng, en einstaklega góð. Þessi fáu orð eru ekki rituð til að rekja lífsferil hennar, heldur til að minnast skemmtilegra samveru- stunda í glöðum og góðum hópi, smáum eða stórum eftir atvikum. Það var ýmislegt brallað, að lesa saman fornrit, að læra saman tungumál, og meira að segja að læra saman brids. En fyrst og síðast að ferðast saman. Ég minnist fjölmargra ferða á sögu- slóðir, utanlands og innan, sem oft voru skipulagðar af okkur sjálfum. Einnig ótal gönguferða um nágrenni Reykjavíkur á sunnudagsmorgnum á öllum árstímum og í alls konar veðri. Síðast en ekki síst minnist ég göngu- ferða um óbyggðir Íslands, og raunar byggðir líka, með einstökum hópi ferðafélaga. Það var í ferð af því tagi sem kallið kom. Á reginöræfum Ís- lands. Að baki var ljúfur dagur á öræfum, Grágæsadalur, sem minnir á útilegumannadali ævintýranna, og nokkrum kvöldum fyrr var reikað um regnvotar Hvannalindir í kvöldkyrrð. Síðan kom nótt harmsins. Skarðið sem Vilborg skilur eftir er stórt og ófyllt. Mér koma í hug orð Guðmund- ar Böðvarssonar: – Það er marklaust að minnast þess nú, þegar moldin er yfir þig breidd. Ég átti þér ógoldna skuld. Aldrei verður hún greidd. Ég vil votta börnum hennar, barnabörnum og öðrum vandamönn- um dýpstu samúð. Sérlega tekur mig sárt til barnabarnanna, ég held að þau hafi misst einstaka ömmu. Hanna Dóra Pétursdóttir. Við áttum ekki alltaf skap saman við Villa; kannski vorum við svona lík. En við vorum alltaf pólitískir sam- ferðamenn í smáatriðum. Best kom það í ljós er hún var varaformaður Al- þýðubandalagsins 1983 til 1985. Það var blómaskeið í sögu Alþýðubanda- lagsins áður en átakavitleysan fór að tæra flokkinn að innan; en það er önn- ur saga. Þann tíma sem við Villa vor- um formaður og varaformaður flokksins gekk ekki hnífurinn á milli okkar í pólitísku samstarfi; hún var heiðarleg og hrein og bein. Við ferð- uðumst mikið saman um landið á alls konar fundum á flokksins vegum og áttum mörg góð samtöl. Villa varð varaformaður upp úr kvennahreyf- ingunni í Alþýðubandalaginu. Kvennafylkingin hét hún og hafði aldrei verið öflugri kvennahreyfing innan nokkurs flokks. Sú hreyfing var frumkvæði Alþýðubandalagsins eftir Rauðsokkahreyfinguna. Þar var Villa fremst í flokki eins og vafalaust verð- ur minnst á í dag. Það vildi svo vel til að einmitt um það leyti var Villa rit- stjóri jafnréttissíðu Þjóðviljans. Tak- ið eftir: jafnréttissíðu, ekki kvenna- síðu. Það eitt þótti róttækt að kalla síðuna jafnréttissíðu. Síðan varð stefnuskrá „manifest“ nýrrar og rót- tækrar kvennahreyfingar á Íslandi. Sú hreyfing hafði geysileg pólitísk áhrif. Því áhrif hennar náðu langt úr fyrir síðuna rauðu. Þjóðviljinn varð undirlagður af sjónarmiðum kvenna- hreyfingarinnar sem var bæði forvit- in og rauð. Vilborg skrifaði oft leiðara með mér á þessum árum. Kvennabar- áttan er stéttabarátta sögðum við. Það þótti nýrr tónn, róttækur og framsækinn. Við skrifuðum hundrað leiðara um rétt kvenna til að ráða yfir líkama sínum. Magnús Kjartansson var okkar heilbrigðisráðherra og Vil- borg hafði forystu um að endursemja frumvarp sem gerði tillögu um að al- þingi innsiglaði rétt kvenna til að ráða yfir líkama sínum. Það frumvarp varð að lögum. Þannig voru áhrif Rauð- sokkahreyfingrainnar innsigluð og seinna Kvennahreyfingar Alþýðu- bandalagsins. Nú er mikið talað um kynjakvóta í pólitík. Eins og það séu ný sannindi. Við innleiddum þau fræði í Alþýðubandalaginu; aldrei skyldi vera minna en 40% af því kyn- inu sem fámennara var. Þetta var bylting og það skilaði þeim árangri að innan skamms voru stofnanir Alþýðu- bandalagsins jafnsettar körlum og konum. Þarna réð frumkvæði Villu úrslitum. Frá þessum árum í sögu Al- þýðubandalagsins má sjá hugmyndir sem enn í dag þykja svo róttækar að karlaveldin taka andköf þegar á þær er minnst. Starf róttækra kvenna í Rauðsokkahreyfingunni og seinna í Kvennafylkingu Alþýðubandalagsins hafði bein efnisleg áhrif og þau sjást hvarvetna í íslenska þjóðfélaginu í dag. Þau komu svo líka fram í verki í félagsmálapökkum ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Villa var um þær mundir á áttunda áratugnum einnig ritstjóri sunnu- dagsblaðs Þjóðviljans snemma. Það sunnudagsblað var með forsíðum eft- ir úrvalslistamenn Þorbjörgu Hösk- uldsdóttur, Guðrúnu Svövu Svavars- dóttur, Hildi Hákonardóttur, Tryggva Ólafsson, Gylfa Gíslason, Einar Hákonarson. (Það væri gaman að hafa sýningu á þessum Þjóðvilja- blöðum einhvern tímann.) Vilborg Harðardóttir var nefnilega afburða- blaðamaður og hafði fréttaáhuga og vildi sinna öllu allt frá eldgosum til stórfrétta í íþróttum. Ekkert undan- skilið. Hún var fréttastjóri Þjóðvilj- ans um skeið, aðeins eftir mína tíð. Hún var fréttahaukur og vildi hefja til vegs fagmennsku í blaði; Blaða- mannafélagið varð henni mikilvægur vettvangur. Vilborg sat á alþingi fyrir Alþýðu- bandalagið í Reykjavík – nærri heilt þing einu sinni sem varamaður Magnúsar. Þar lenti hún í flóknum og erfiðum málum og skilaði löngum og nákvæmum nefndarálitum eins og um Grundartangaverksmiðjuna. Nefndarálitin skrifuðu þingmenn sjálfir á þessum árum, sem nú mun vera liðin tíð. Þingvinna Vilborgar var nákvæm og pottþétt. Hún var útivistarkona alla ævi. Svo var hún sveitastelpa þótt hún væri ekki alin upp í sveit. Hafði verið vestra í Tálknafirði þar sem ég naut stundum gistivináttu Steinu og heyrði sögurnar af Albert og Valfells- mönnum. Um það meira seinna. Villa fékk að deyja inn í landið. En það var högg að missa hana. Við hitt- umst síðast í Sandholtsbakaríi á Laugaveginum núna um daginn. Hún að kaupa sér brauð fyrir rétt eina gönguferðina. Við föðmuðumst eins og systkini gera eftir langar fjarvistir. Töluðum einmitt um að við þyrftum að fara að hittast, Þjóðviljaliðið. Ómögulegt að hittast bara í jarðarför- um, sagði Villa sjálfri sér lík. Hafði ekki elst um einn dag að sjá, eins og stelpa. Fyrir nokkrum dögum hringdi svo ung kona í Guðrúnu konu mína og spurði um þær konur sem hefðu lagt hvað mest af mörkum kvennabarátt- unnar á Íslandi. Þá nefndi Guðrún Villu eins og hún hafði oft gert áður. Vilborg Harðardóttir var semsé al- gerlega sprelllifandi fyrir okkur; að kaupa brauð í bakaríi, að fara í göngu- ferð, að hugsa um að hóa Þjóðviljalið- inu saman. En á snöggu augabragði var hún svo farin. Það er ómögulegt. En verður víst ekki breytt. Merði, Ilmi og Dögg og öllum vinum hennar og vandamönnum sendum við sam- úðaróskir frá Stokkhólmi. Svo verður það nefnt sem hér á að standa upp úr: Það er kvennaverk- fallið 1975. Það átti hún frekar en allir aðrir; það var þó ekki hún sem hélt ræðurnar né heldur tranaði sér fremst á sviðin. Hún vann með stöll- um sínum skipulagninguna og hug- myndafræðina. Þessi dagur er einn stærsti dagur íslenskrar sögu á síð- ustu öld. Í framhaldi hans unnust margir sigrar; fjöldahreyfingin skap- ar pólitískar niðurstöður og breytir þjóðfélaginu. Seinna samdi Villa, þeg- ar undirritaður var félagsmálaráð- herra, frumvörp til laga um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, frumvörp sem enn eru svo róttæk að þau hafa ekki komist í gegnum al- þingi. Í nafni þessa dags, kvennaverk- fallsins 1975, vil ég kveðja Vilborgu Harðardóttur eftir langa samfylgd; en þó of stutta. Svavar Gestsson. Þegar nýir hugmyndastraumar flæða yfir heimsbyggðina er það hverri þjóð mikilvægt að eiga fólk sem getur gripið þessa strauma og aðlagað þá eigin samfélagi. Þannig var það þegar önnur bylgja femínism- ans flæddi yfir heiminn á sjöunda ára- tugnum að hér á landi voru konur sem kunnu að grípa og bjuggu til Rauðsokkahreyfinguna. Fremst var þar meðal jafningja Vilborg Harðar- dóttir sem auk þess hafði numið aðra strauma utan úr heimi. Hún þekkti Vorið í Prag og skildi uppreisnir stúd- enta sem kenndar hafa verið við 1968. Það er viðurkennd staðreynd að fátt hefur breytt íslensku samfélagi meira en framgangur þeirra málefna sem Rauðsokkahreyfingin barðist fyrir – þótt sum þeirra næðust ekki fram fyrr en að henni liðinni og hafa jafnvel ekki náðst að fullu enn í dag. Rauð- sokkurnar hreyfðu við stöðnuðu þjóð- félagi og létu engan ósnortinn. Vilborg kunni að laga hugmynda- strauma að íslenskum veruleika og breyta þeim í aðgerðir. Hún var ötul baráttukona fyrir frjálsum fóstureyð- ingum, sem hún vissi að brýna nauð- syn bar til að ná fram, og hún skildi nauðsyn þess að kvennabaráttan höfðaði líka til verkakvenna. Hún var í undirbúningshópi Kvennafrídagsins 24. október 1975 og átti þátt í því að aðalræðukona dagsins var forystu- kona verkakvenna. Við sem vorum unglingar á þessum tíma meðtókum straumana af áfergju og fyrir okkur sem bjuggum úti á landi varð Þjóðviljinn, og þá sérstak- lega Sunnudagsblað hans, mikilvæg lesning. Þar var Vilborg Harðardóttir blaðakona og lá ekki á liði sínu að segja frá því sem var að gerast, bæði hér á landi og úti í heimi, t.d. þegar hún fór á kvennaráðstefnur Samein- uðu þjóðanna. Þar var líka sérstök síða skrifuð af Rauðsokkum. Þingseta Vilborgar 1975 vakti líka athygli okk- ar. Myndin sem birtist af henni í þing- sal með síða, ljósa hárið sitt og á gallabuxum (eða var það ekki?) fannst mér vera tákn um nýja tíma. Þegar ég flutti endanlega til Reykjavíkur sumarið 1981, ung og uppreisnargjörn einstæð móðir ný- komin úr fiskinum fyrir vestan, var það mikil gæfa að kynnast Vilborgu Harðardóttur og eignast hana fyrir vinkonu. Það var mikil gerjun í mál- efnum kvenna á þessum tíma. Vigdís orðin forseti en aðeins þrjár konur sátu á Alþingi og karlarnir alls staðar enn við völd. Þetta sumar var að fæð- ast nýtt stjórnmálaafl kvenna sem ég vissi að ætti eftir að skapa ævintýr en ég vissi líka að í flokknum mínum, Al- þýðubandalaginu, væru konur að ráða ráðum sínum og þar var Villa í forystu. Þennan vetur fékk hún mig í lið með sér til að gefa út fréttabréf, Kvennapóstinn, sem sent var öllum konum í flokknum og í framhaldi af því var efnt til kvennanámskeiða og kvennafunda. Þessi barátta leiddi m.a. til þess að enn eitt karlavígið féll þegar Villa var kosin varaformaður Alþýðubandalagsins haustið 1983, fyrst kvenna. Það var sannarlega stórt skref í flokknum á þeim kalda- stríðstímum. Þá var ég reyndar að gefast upp á flokknum en Villa hafði úthaldið og engin var betur til þess fallin en hún að ryðja konum braut- ina. Aldursmunur á okkur Villu var 20 ár en það skipti engu. Hún skildi kjör- orð kvennahreyfingarinnar Sister- hood is powerful og kunni að vera sú systir. Þó var vinátta hennar einstak- lega íslensk og sönn. Ekki spillti held- ur fyrir að hún var svolítið að vestan sjálf. Dvöl hennar í bernsku í Tálkna- firði hjá Steinu hafði haft djúp áhrif á hana og var henni dýrmæt. Kannski varð hún til þess að gera Villu að þeirri yndislegu blöndu af heimskonu og landsbyggðarkonu sem hún var. Að fjallgöngukonunni og unnanda ís- lenskrar náttúru sem var óþreytandi að kanna nýjar slóðir í okkar dásam- lega landi, þótt hún væri alin upp á Laufásveginum og byggi nær allan sinn búskap í bakhúsi við Laugaveg- inn. Árið 1991 er annað merkisár sem tengir minninguna við Vilborgu Harðardóttur. Þá var hún skólastjóri Tómstundaskólans og fékk séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur til að halda nám- skeið í kvennaguðfræði. Ég sótti þetta námskeið í fallega húsinu á Skólavörðustíg 28, ásamt tíu konum og hef ekki hætt að lesa og stunda kvennaguðfræði síðan þá. Upp úr þessu starfi varð Kvennakirkjan til og höfum við stofnendur hennar ein- staka ánægju af því að telja Vilborgu Harðardóttur guðmóður þeirrar hreyfingar sem hefur síðan orðið svo mörgum konum til gleði og styrktar. Það var eðli Vilborgar Harðardótt- ur að festast ekki í neinu, hún hélt áfram og var stöðugt að læra eitthvað nýtt og kynnast fólki, leiða saman hópa. Mér finnst það einstaklega táknrænt að síðustu ár hefur faðir minn verið félagi hennar í kaffihópi í Sundlaugunum, hópi sem lætur sér ekki bara nægja að spjalla saman á hverjum morgni heldur fer líka sam- an í leikhús og út að borða. Þannig var Villa, opin og gefandi manneskja, einstök félagsvera og traustur vinur. Það er óendanlega sárt að missa hana svona alltof snemma en hún tók þeim örlögum sínum að hafa bilað hjarta með reisn og lifði lífinu í fullri gnægð. Fyrst svo var komið var það henni líkt að deyja á fjöllum og ekki er staðurinn sem valinn var af verri endanum. Þegar íslenskur konur minntust 25 ára afmælis Kvennafrídagsins var Villa aðalræðukonan og þar sagði hún m.a. „Okkur dreymdi um að skapa betra samfélag þar sem allir nytu sín, karlar, konur og börn. Við vildum að konur kæmust í áhrifastöður í þjóð- félaginu til að færa með sér breytingu

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.