Morgunblaðið - 07.12.2002, Síða 60
UMRÆÐAN
60 LAUGARDAGUR 7. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ALLT frá stofnun Richard Wagn-
er-félagsins árið 1995 hefur verið
lögð sérstök áhersla á að beita sér
fyrir rannsóknum og kynningu á
áhrifum íslenskra fornbókmennta á
verk Richards Wagner. Fyrir til-
stilli félagsins og margra stuðnings-
aðila hóf dr. Árni Björnsson að
vinna að rannsóknum á þessu sviði.
Bók hans um þetta efni, „Wagner og
Völsungar“, kom út hjá Máli og
menningu árið 2000.
Niðurstöður Árna voru afar
merkilegar og eiga ekki síður erindi
á alþjóðavettvangi en hér heima, en
Árni fann það út að um 80% af að-
fengnum efnishugmyndum Wagn-
ers í Niflungahringnum koma frá ís-
lenskum fornbókmenntum eingöngu
(Eddukvæði, Snorra-Edda, Völs-
ungasaga o.fl.), um 5% frá þýska
Niflungaljóðinu og öðrum þýskum
heimildum en þau 15% sem þá eru
eftir séu til staðar bæði í íslensku og
þýsku bókmenntunum.
Þótt bók Árna hafi enn ekki kom-
ið út á erlendum tungumálum hafa
niðurstöður hennar vakið mikla at-
hygli hjá aðstandendum Wagnerhá-
tíðarinnar í Bayreuth og Wagner-
unnendum víða um heim. Árna var í
kjölfarið boðið að skrifa grein um
niðurstöður sínar í vandaða leikskrá
Bayreuthhátíðarinnar og birtist hún
í skránni nú í sumar. Greinin heitir á
þýsku „Island und der Ring des
Nibelungen“. Í sama hefti var einnig
ensk og frönsk þýðing greinarinnar,
allt saman fagurlega skreytt mynd-
um af íslenskum handritum og sögu-
stöðum og spannaði þetta efni u.þ.b.
40 síður í liðlega 200 síðna efnis-
skránni. Nærri má geta að um 10
þúsund leikskrár seljist á hátíðinni
og er því líklegt að grein Árna muni
vekja mikla athygli á íslenskum
fornritum og tengslum þeirra við
Niflungahring Wagners. Á næst-
unni er í bígerð að bók Árna, Wagn-
er og Völsungar, komi út í enskri og
þýskri þýðingu og hefur breska for-
lagið „Viking Society“ látið í ljós
áhuga á að gefa hana út á enskri
tungu
Um Bayreuthhátíðina
og Wolfgang Wagner
Wagnerhátíðin í Bayreuth hefur
löngum verið Mekka fyrir aðdáend-
ur Richards Wagners um allan
heim. Hátíðin hefst í lok júlí ár hvert
og næstu fimm vikurnar streyma
pílagrímar úr öllum heimshornum á
hátíðina. Óperuhúsið – Festspiel-
haus – tekur tæplega 2.000 manns í
sæti og á hverju kvöldi er sýnd ein-
hver ópera Wagners. Oftast er á há-
tíðinni boðið upp á allan Niflunga-
hringinn, sem er fjórar óperur, og
þrjár aðrar Wagneróperur. Sjötta
hvert ár er hátíðin Hringlaus og eru
þá sýndar 5–6 af öðrum óperum
Wagners, allt frá Hollendingnum
fljúgandi til Parsifals.
Alls eru um 56 þúsund miðar seld-
ir á hátíðina á hverju sumri og
sækja hátíðina um 20 þúsund
manns. Samt er eftirspurn eftir mið-
um langt umfram framboð; nú þurfa
áhugasamir unnendur Wagners að
bíða í tíu ár eftir því að fá miða á há-
tíðina. Richard Wagner-félagið á Ís-
landi hefur átt því láni að fagna að
hafa sérstaklega góðan aðgang að
miðum á hátíðina og hefur hópur Ís-
lendinga farið á sýningar árlega frá
stofnun félagsins 1995. Auk þess
hefur félagið átt þess kost að senda
árlega ungan söngvara eða tónlist-
armann sem sérstakan styrkþega á
hátíðina í því skyni að kynnast verk-
um Wagners í sínu kjörumhverfi.
Ástæða þess hve Íslendingar hafa
mætt mikilli vinsemd og sérstakri
fyrirgreiðslu í Bayreuth má rekja til
velvildar Wolfgangs Wagner,
stjórnanda hátíðarinnar, sem metur
mikils þátt íslenskra fornrita í smíði
afa síns Richards á Niflungahringn-
um. Árið 1994 aðstoðaði hann Ís-
lendinga við hina eftirminnilegu
uppfærslu „litla Niflungahringsins“
á Listahátíð í Reykjavík. Wolfgang
greiddi einnig götu dr. Árna Björns-
sonar til að stunda rannsóknir sínar
í Bayreuth árið 1999.
Það var söguleg stund í Bayreuth
í sumar þegar hátíðinni lauk með
lokasýningu á Meistarasöngvurun-
um í Nürnberg í uppfærslu Wolf-
gangs Wagners því þetta var síðasta
uppfærsla Wolfgangs sjálfs í
Bayreuth. Gestir á sýningunni
gerðu sér vel grein fyrir sögulegri
þýðingu kvöldsins og fögnuðu Wolf-
gang látlaust í 45 mínútur í sýning-
arlok. Wolfgang Wagner hefur verið
lífið og sálin í Bayreuth í rúma hálfa
öld og gegnt tvíþættu hlutverki; sem
stjórnandi hátíðarinnar annars veg-
ar og sem leikstjóri og sviðshönn-
uður hins vegar. Hann endurreisti
hátíðina í Bayreuth ásamt bróður
sínum Wieland árið 1951 og settu
þeir bræður sjálfir til skiptis á svið
nær allar uppfærslur hátíðarinnar
fram til dauða Wielands 1966. Eftir
það hélt Wolfgang áfram að leiða
hátíðina einn og þótt hann hafi þá
farið að bjóða gestaleikstjórum til
Bayreuth hélt hann ótrauður áfram
að setja sjálfur upp óperur afa síns.
Hátíðin næsta sumar verður því sú
fyrsta frá upphafi þar sem ekki má
sjá uppfærslu eftir einhvern úr fjöl-
skyldu Richards Wagners.
Wolfgang Wagner varð 83 ára í
sumar. Hann leiðir Bayreuthhátíð-
ina af sama krafti og fyrr og óvægn-
ar gagnrýnisraddir, sem fyrir stuttu
hljómuðu svo hátt í öllum fjölmiðl-
um, hafa nú alveg þagnað. Wolfgang
gefur ekki upp hvenær hann hyggist
láta af störfum sem stjórnandi há-
tíðarinnar; þvert á móti sýnir hann
að sjaldan hefur verið meiri kraftur
í stjórn hans og einmitt nú. Í sumar
var frumsýnd ný uppfærsla á Tann-
häuser, næsta sumar kemur nýr
Hollendingur, en stóra bomban féll
þó þegar tilkynnt var að danski
kvikmyndaleikstjórinn Lars von
Trier hefði verið valinn til að setja
upp næsta Niflungahring árið 2006.
Fyrir okkur Íslendinga verður sú
uppfærsla ekki síður áhugaverð fyr-
ir það að Karl Júlíusson mun hanna
leikmynd og búninga og verður það í
fyrsta skipti sem Íslendingur gegnir
svo veigamiklu hlutverki á hátíðinni
í Bayreuth.
Ísland og Nifl-
ungahringurinn
Eftir Árna Tómas
Ragnarsson
Höfundur er læknir.
„Wagner-
hátíðin í
Bayreuth
hefur löng-
um verið
Mekka fyrir aðdáendur
Richards Wagners um
allan heim.“
EKKI er nokkrum vafa undirorp-
ið að stafræn tækni í sjónvarpsþjón-
ustu mun valda þáttaskilum í þróun
sjónvarps hér á landi á næstu árum.
Helstu kostir stafræns sjónvarps,
umfram núverandi hliðrænt kerfi,
eru betri mynd- og hljóðgæði, bætt
nýting ljósvakans, öruggara kerfi,
lægri kostnaður við dreifingu, auð-
veldari samruni við önnur fjarskipti,
fleiri kostir fyrir upplýsingasam-
félagið og aukinn möguleiki á gagn-
virkni. Stafrænu sjónvarpi fylgir
hins vegar ákveðinn kostnaður, s.s.
vegna endurnýjunar dreifi- og að-
gangskerfa, umbóta á móttökubún-
aði neytenda og endurskipulagning-
ar tíðnisviðsins.
Í greinargerð sem Póst- og fjar-
skiptastofnun (PFS) vann fyrir sam-
gönguráðuneytið um undirbúning
og innleiðingu stafræns sjónvarps á
Íslandi, er m.a. fjallað um ýmsa
þætti er varða stafrænt sjónvarp
hérlendis og aðkomu stjórnvalda að
ákvörðunum um stafrænt sjónvarp.
Í þeim tilgangi að mynda breiða
samstöðu um þá útfærslu á dreifi-
kerfi fyrir stafrænt sjónvarp, sem
hagkvæmasta megi telja fyrir sam-
félagið og neytendur, naut PFS ráð-
gjafar vinnuhóps sjónvarps- og
fjarskiptafyrirtækja við gerð
skýrslunnar. Ég tel afar brýnt og
raunar grundvallaratriði að við upp-
byggingu stafræns sjónvarps á Ís-
landi verði lögð áhersla á að dreifing
verði tryggð til landsmanna, óháð
búsetu. Einnig, að við uppbyggingu
stafræna dreifikerfisins verði leitast
við að ná jafn mikilli útbreiðslu fyrir
dreifingu og RÚV gerir í dag og að
við útfærslu aðgangskerfis (mynd-
lykla) verði stuðlað að hagkvæmri
og einfaldri uppbyggingu, þannig að
notendur þurfi aðeins einn mynd-
lykil – enda er ljóst að verulegur
kostnaður mun liggja í endabúnaði
notenda.
Forstjóri Norðurljósa
og stafrænt sjónvarp
Í Morgunblaðinu sl. þriðjudag er
ítarleg og vönduð umfjöllun um staf-
rænt sjónvarp á Íslandi. Í blaðinu er
gerð glögg grein fyrir þeim mis-
munandi dreifileiðum sem mögu-
legar eru til að dreifa stafrænu sjón-
varpi og rætt við forsvarsmenn
þriggja helstu sjónvarpsstöðva
landsins, Norðurljósa/Stöðvar 2,
RÚV og Skjás 1.
Ég get ekki látið hjá líða að gera
athugasemdir við þau ummæli for-
stjóra Norðurljósa í umfjöllun
Morgunblaðsins, þar sem hann furð-
ar sig á því að dreifing Landssíma
Íslands á móttökurum á vegum
Breiðvarpsins sé ekki stöðvuð þegar
ekki liggur fyrir hvort það sé hag-
kvæmt eða ekki. Við þessu er það að
segja að það starf sem unnið hefur
verið vegna innleiðingar stafræns
sjónvarps af hálfu samgönguráðu-
neytisins tengist Landssímanum
ekki á nokkurn hátt. Ráðuneytið
hefur hvorki úrræði né áhuga á að
hlutast til um vinnulag hjá Lands-
símanum við rekstur einstakra ein-
inga. Ef í ljós kemur að aðgerðir
Landssímans reynist óhagkvæmar
munu stjórnendur fyrirtækisins
bera ábyrgð á því. Hafa ber þó í
huga að Síminn hefur hins vegar
veitt þjónustu á þessu sviði sem
stendur yfir 30.000 heimilum til
boða.
Þá heldur forstjórinn því fram að
samgönguráðherra ásamt öðrum
ráðherrum hafi ekki sett sig inn í
það hvað stafrænt sjónvarp er.
Þessi skeytasending forstjórans er
mjög undarleg og sýnir ótrúlegan
hroka. Varla er ástæða til að svara
þessu, en þó er nauðsynlegt að rekja
þá vinnu sem ég hef þegar staðið
fyrir, ef það mætti verða forstjór-
anum til fróðleiks, um leið og minnt
er á að forstjóri Norðurljósa, sem
var þá stjórnarformaður að mig
minnir, átti í viðræðum um stafrænt
sjónvarp við undirritaðan vegna
áforma fyrirtækisins um tilrauna-
sendingar. Ég fól PFS að vinna
skýrslu um stafrænt sjónvarp. PFS
setti á fót vinnuhóp við gerð skýrsl-
unar, þar sem öllum hagsmunaaðil-
um var gefinn kostur á að koma sín-
um sjónarmiðum á framfæri eins og
eðlilegt var. Eftir að hafa farið
vandlega yfir skýrsluna, skipaði ég
starfshóp sem á að gera tillögu um
rekstrarform dreifikerfis, útboð,
greiðslufyrirkomulag og kostnaðar-
áætlun. Ég hef því fylgst grannt
með og unnið markvisst að innleið-
ingu stafræns sjónvarps á Íslandi.
Forstjóri Norðurljósa gagnrýnir
jafnframt þann stutta tíma sem
starfshópnum er ætlaður, þar sem
ekki sé hægt að taka ákvörðun um
dreifileið fyrr en kostnaður liggi
fyrir. Í minnisblaði sem fylgdi skip-
unarbréfi starfshópsins kemur fram
að hópnum sé ætlað að gera kostn-
aðaráætlun. Tímamörkin, sem ég
setti fram, eru vissulega metnaðar-
full en ekki þarf að efast um það að
ákvörðun um innleiðingu verður
ekki tekin nema að kostnaðaráætlun
liggi fyrir og undirbúningi lokið og
samkomulagi náð um þær leiðir sem
valdar verða.
Loks vil ég undirstrika þá von
mína að stjórnendur sjónvarpsfyr-
irtækjanna sýni þessu mikilvæga
máli áfram áhuga svo það nái fram
að ganga neytendum til hagsbóta.
Stafrænt
sjónvarp
Eftir Sturlu
Böðvarsson
„Tímamörk-
in eru vissu-
lega metn-
aðarfull.“
Höfundur er samgönguráðherra.
LANGT er síðan jafnrétti
kynjanna var bundið í lög og töldu
margir að með því vantaði einungis
herslumuninn til að kynin stæðu
jafnfætis. Eitthvað hefur þó dregist
á langinn að markmiðið verði að
veruleika og sýna nýjustu launa-
kannanir að enn er langt í land.
Sterk tilhneiging er til að flokka
launamuninn í ýmist útskýranlegan
eða óútskýranlegan mun og gefa
hvorum um sig mismunandi vægi.
Launamunurinn telst útskýrður
þegar karlmenn fá hærri laun vegna
þess að þeir vinni lengri vinnudag,
hafi lengri starfsaldur, séu betur
menntaðir en konur í sama starfi og
svo framvegis. Hinn óútskýrði
launamunur er afgangsstærð sem
ekki er hægt að skýra með neinu
öðru en kyni. Það er bæði spennandi
og nauðsynlegt verkefni að eyða
hinum útskýranlega launamun m.a.
með aukinni atvinnuþátttöku
kvenna og aukinni blöndun kynja í
stéttum sem hingað til hafa verið
eyrnamerktar öðru kyninu. En erf-
iðara er að festa hendur á óútskýrða
launamuninum og bæta úr. Hvernig
stendur á því að þrátt fyrir alla laga-
bálka eru karlar með hærri laun en
konur? Launamunur sem ekki verð-
ur skýrður með neinu öðru en kyni?
Við búum við stjórnkerfi sem er
hannað af körlum utan um karla.
Því er ekkert undarlegt þó að karlar
eigi auðveldara uppdráttar innan
þessa kerfis. Með aukinni þátttöku
kvenna í stjórn landsins og fyrir-
tækja hafa orðið einhverjar breyt-
ingar en þær verða mjög hægt.
Ástæðu hægfara breytinga má finna
í því að eina leið kvenna til áhrifa er
í gegnum karlaheiminn sem síðan
mun þróast innan frá og einhvern
tímann rúma bæði kynin á jafnrétt-
isgrundvelli. Flestir yfirmenn stofn-
ana og fyrirtækja eru karlmenn og
vald þeirra fer vaxandi.
Í kjarasamningum við opinbera
starfsmenn 1997 var fetuð ný slóð
dreifstýrðra launaákvarðana, þ.e.
ákvarðanir um aukagreiðslur ofan á
kjarasamninga eru ákveðnar innan
hverrar stofnunar fyrir sig. Þetta
var gert í þeim tilgangi að hægt yrði
að umbuna starfsmönnum í launum
samkvæmt óskilgreindum ákvörð-
unum forstöðumanna stofnana.
Verkalýðshreyfingin skrifaði hik-
andi undir samningana en taldi að
dreifstýrðar launaákvarðanir væru
leið til að stækka launapottinn.
Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að
aukið vald yfirmanna yfir launum
leiðir til aukins launabils kynjanna.
Þrátt fyrir þetta var samningunum
þrýst í gegn. Afleiðingarnar sjáum
við nú meðal annars í óútskýrðum
launamun kynjanna. Skýrustu dæmi
þessa koma fram í launakönnun sem
Félagsvísindastofnun gerði fyrir
Reykjavíkurborg og var birt í sum-
ar. Ekki er hægt að túlka niðurstöð-
urnar á annan veg en að kjaraatriði
sem ákveðin eru á vinnustöðum, svo
sem yfirvinna og akstursgreiðslur,
komi körlum betur en konum. Þarna
er „óútskýrt“ misrétti sem virðist
fylgja dreifstýringu launaákvarð-
ana. Ef jafnréttishugsunin væri
okkur öllum töm myndi þetta ekki
gerast og jafnréttið rataði í launa-
umslagið eins og það ratar í lög og
reglugerðir. Sú er hins vegar ekki
raunin. Því verður að bregðast við
þessu á einhvern hátt. Fyrsta skref-
ið er að rannsaka málið svo við ger-
um okkur betur grein fyrir því
hverjar hinar raunverulegu orsakir
eru.
Þegar dreifstýrða launakerfið fór
inn í kjarasamninga fyrir fimm ár-
um voru margar kvennastéttir hik-
andi vegna hugsanlegs misréttis.
Með nokkrum samningum fylgdi yf-
irlýsing þess efnis að áhrif nýja
launakerfisins yrðu könnuð með til-
liti til launamunar kynjanna. Þetta
hefur hins vegar aldrei verið gert.
Þegar ég tók sæti á Alþingi í nóv-
ember spurði ég fjármálaráðherra
hvers vegna áhrifin af launakerfinu
hefðu ekki verið könnuð þrátt fyrir
yfirlýsinguna. Ráðherrann svaraði
því til að flokkun starfa innan ráðu-
neytisins kæmi í veg fyrir að þessi
yfirlýsing kæmist til framkvæmda.
Það er slæmt mál að tæknileg atriði
skuli vera jafnrétti kynjanna fjötur
um fót og vonast ég til þess að úr
verði bætt hið snarasta. Einnig er
mjög alvarlegt þegar róttækar
breytingar á launakerfi hins opin-
bera valda því að það hægir á ferlinu
til jafnréttis.
Konur eru langeygar eftir því að
standa jafnfætis körlum og launa-
jöfnuður er alger forsenda þess að
kvenfrelsi náist á vinnumarkaði og á
heimilum. Ef við ætlum okkur raun-
verulega að vinna á óútskýrðum
launamun kynjanna verðum við að
hanna gegnsætt launakerfi svo að
krónufjöldinn í launaumslaginu fari
ekki eftir kyni. Þá verðum við skrefi
nær raunverulegu jafnrétti.
Eftir Drífu
Snædal
„Það er
mjög alvar-
legt þegar
róttækar
breytingar á
launakerfi hins opin-
bera valda því að það
hægir á ferlinu til jafn-
réttis.“
Höfundur er nemi og varaþingkona
Vinstrihreyfingarinnar – græns
framboðs.
Jafnrétti í launaumslagið