Morgunblaðið - 21.12.2002, Side 56
UMRÆÐAN
56 LAUGARDAGUR 21. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
• Enskur Jólabúðingur
verð frá kr. 250
• Enskar ávaxta jólakökur
verð frá kr. 995
• Ljúffengt enskt marmelaði,
ávaxtasultur og margt fleira.
Klapparstíg 44,
sími 562 3614
Vasapelar
og gjafavörur
í úrvali -
áletrun
Skólavörðustíg 8 - 101 Reykjavík
Sími 551 8600 - Fax 551 9680
HINN 10. þ.m. lýsti framsóknar-
og stjórnarformaður Landsvirkjun-
ar, Jóhannes G. Sigurgeirsson,
þeirri skoðun sinni í viðtali að
framganga íslenskra umhverfis-
verndarsinna gengi gegn lýðræði í
landinu og gaf einnig í skyn að er-
lendir aðilar og fjármagn stæði á
bak við baráttu þeirra gegn stefnu
fyrirtækisins.
Þrátt fyrir að friðun náttúrunnar
sé mikið tilfinningamál fyrir flesta
áhugamenn um umhverfisvernd
hafa þeir þó oftast beitt rökum til
að styðja mál sitt. Vísindamenn og
aðrir hafa bent á ýmsa óvissuþætti,
t.d. efnahagslega og jarðfræðilega
sem ekki hefur verið tekið mikið
tillit til og þá staðreynd að óspillt
náttúra er líka mikils virði, bæði
tilfinningalega og efnahagslega.
Fulltrúum orkurisans finnast þess-
ar aðfinnslur ekki svara verðar og
kjósa frekar að reyna að sverta
heiður andmælenda sinna.
Stjórnvöld og Landsvirkjun hafa
beitt miklum hræðsluáróðri til að
fá fólk á sitt band. Mönnum er sí-
fellt talin trú um að framkvæmd-
irnar auki lífsgæði í landinu og
jafnvel hótað því að hér fari allt
norður og niður ef ekkert verði úr
þeim.
Á sama tíma hefur verið reynt að
fegra ásýnd fyrirtækisins með
ýmsum leiðum. Til þess að prédika
boðskap þennan hefur verið sóað
ómældu opinberu fé og verða allar
fullyrðinar um meintan fjáraustur
umhverfisverndarsinna býsna létt-
vægar í þeim samanburði.
Sífellt er stagast á því að um-
hverfisverndarsinnar séu fámenn
klíka fólks sem hafi ekkert annað
fyrir stafni en að vera á móti
framþróun og uppbyggingu í land-
inu. Hið rétta er að virkjunarand-
stæðingar er stór hópur fólks úr
ýmsum stéttum af öllum aldri og
báðum kynjum víðs vegar af land-
inu (líka af Austfjörðum).
Ástæðan fyrir því að þeir virðast
fámennir er einfaldlega sú að þeir
hafa öðrum störfum að sinna dags
daglega og geta því ekki stöðugt
verið virkir í baráttunni fyrir mál-
stað sínum. Enginn borgar þeim
fyrir þær ófáu stundir sem fara í
það. Sá rógur að þeir fjármagni
baráttu sína með erlendu fjármagni
kemur úr hörðustu átt frá manni
sem þiggur væntanlega á annan
tug milljóna árlega fyrir það að
gjamma eins og hræddur hundur
sem óttast það að einhver annar
taki beinið hans.
Hér er augljóslega á ferðinni mál
sem skiptir fólk meiru en flest önn-
ur mál. Þegar því er haldið fram að
lífsgæði séu fólgin í virkjun
óspilltrar náttúru er ljóst að aukin
lífsgæði fyrir suma þýða minnkun á
lífsgæðum fyrir aðra. Það eru jú
ástæður fyrir því að fólk vill ennþá
hokra hér á þessu kalda og harð-
býla landi. Með því að spilla land-
kostum og selja þá fyrir slikk er
verið að minnka líkur á því að vel
menntað og skynsamt fólk hafist
hér við til langframa. Mörg önnur
lönd bjóða upp á meiri fjölbreyti-
leika í menningu og atvinnu, auk
þess sem að loftslag er víða mun
þægilegra en hér.
Málefni markaðshyggjunnar eru
hér því miður í hávegum höfð, bæði
í fjölmiðlum og hjá stjórnvöldum.
Aðalhugmyndafræðingur Sjálf-
stæðisflokksins ritaði nýlega bók
sem hann nefndi: „Hvernig getur
Ísland orðið ríkasta land í heimi?“
Hvers konar ríkidæmi skyldi hon-
um vera hugleikið?
Hin raunverulegu lífskjör eru
mæld í þáttum eins og því að búa í
hreinu og óspilltu umhverfi, geta
notið kærleiksríkra samvista við
annað fólk, lifa heilbrigðu lífi á frið-
artímum og eiga þak yfir höfuðið.
Hversu mikils virði er það að geta
drukkið ómengað vatn úr ám og
vötnum? Hvaða verðskrá er í gildi
fyrir hreint loft? Hvað kostar að
heyra fuglana syngja? Er hægt að
setja verðmiða á líf einnar mann-
eskju? Hver er aðgangseyririnn
inn í óbyggðir?
Þessu geta hugsanlega markaðs-
hyggjumenn svarað. Þeir sem pré-
dika græðgi og telja fólki trú um
að öll lífskjör séu mælanleg í pen-
ingum og veraldlegum auði hafa
tapað áttum og eru komnir alvar-
lega út af sporinu. Nágrannalönd
okkar í Evrópu eru að læra af stór-
kostlegum mistökum sínum og af-
leiðingum þeirra, svo sem Spán-
verjar í Galicíu. Þurfum við
endilega að gera sömu mistökin til
að læra af þeim?
Í raun og veru er hér á ferðinni
aðför stjórnvalda að stórum hópi
fólks sem hefur önnur gildi í lífinu
og þá grundvallarósk að viðhalda
hér eins óspilltri náttúru og frekast
er unnt. Í nafni lýðræðis er troðið á
skoðunum fólks og þeim sjálfsagða
rétti að virða þær til að víðtæk sátt
náist um stór ágreiningsefni. Hvers
konar lýðræði er það eiginlega?
Umhverfisráðuneytið svonefnda
felldi úr gildi úrskurð skipulags-
stofnunar um Kárahnjúkavirkjun
og ráðherrann vék sér svo undan
ábyrgð þegar kom að Þjórsárver-
um. Er ekki hlutverk þessa ráðu-
neytis að standa vörð um umhverfi
okkar?
Iðnaðarráðuneytið kýs að líta
framhjá ráðum margra mætra sér-
fræðinga og treystir frekar á loforð
Alcoa. Hverjum eru þessi ráðuneyti
eiginlega að þjóna?
Landsvirkjun er tímanna tákn.
Bergrisi sem atast eins og naut í
flagi. Ef virkjunarframkvæmdum
við Kárahnjúka og Þjórsárver
verður aflýst tapast mikið fé. Hefði
ekki verið nær að fara varlegar í
sakirnar og ná sátt um þetta mál
áður en göslast var af stað?
Andstæðingar framkvæmdarinn-
ar munu áfram standa vörð um sitt
land. Þeirra er rétturinn að tjá sig
og þeir láta ekki ofdekraða bit-
lingamenn stinga upp í sig.
Um lífsgæði
og lýðræði
Eftir Sigurð
Sigurðsson
Höfundur er framkvæmdastjóri.
„Lands-
virkjun er
tímanna
tákn. Berg-
risi sem
atast eins og naut í
flagi.“
SÍÐASTA mál á dagskrá Alþingis
fyrir þinglok var heimild til þess að
breyta Norðurorku í hlutafélag,
minni háttar mál að sögn iðnaðar-
ráðherra og í ofanálag samkvæmt
beiðni heimamanna á Akureyri.
Undir þetta tóku þingmenn Sjálf-
stæðisflokks, Framsóknarflokks og
Samfylkingar. Þingmenn VG vildu
hins vegar efna til umræðu um mál-
ið. Enginn stjórnarsinni treysti sér
til að taka þátt í þeirri umræðu af
málefnalegri alvöru. En hvað sögðu
þingmenn VG?
Í fyrsta lagi var bent á að skipulag
raforkumála bæri að skoða heild-
stætt og með hagsmuni þjóðarinnar
allrar í huga, að áður en ráðist væri í
skipulagsbreytingar af þessu tagi
þyrfti að liggja fyrir fastmótuð
framtíðarsýn í orkumálum lands-
manna. Fyrir þinginu liggja órædd
drög að nýju raforkulagafrumvarpi
og einnig er órædd framtíðarsýn í
vatnsveitumálum. Enginn stuðn-
ingsmanna ríkisstjórnarinnar vék
orði að þessum frumvörpum, enda
nýframkomin.
Í öðru lagi þarf að ræða hvort
heppilegt sé að stoðkerfi samfélags-
ins á borð við orkuveitur, að ekki sé
minnst á vatnsveitur, séu settar á
markað. Í því samhengi þarf að
kanna reynslu annarra þjóða – og
reyndar okkar eigin líka. Þannig er
rétt að spyrja hvort það veki engar
óþægilegar minningar fréttirnar af
braskinu með fjármuni Landssím-
ans þegar menn nú berja augum í
frumvarpi um Norðurorku opna
heimild til að ráðast í hvers kyns
„viðskipta- og fjármálastarfsemi
samkvæmt ákvörðun stjórnar
hverju sinni“. Stjórnendur hluta-
félagsins Landssímans töpuðu
hundruðum milljóna króna á hluta-
bréfabraski; köstuðu út um
gluggann almannafé eins og ekkert
væri sjálfsagðara. Var það ekki
Hreinn Loftsson, formaður einka-
væðingarefndar, sem fórnaði hönd-
um af þessu tilefni og sagði að það
hefði aldrei verið meiningin að gera
Landssímann að braskbúllu?
Hvað þessum þætti viðvíkur –
þ.e.a.s. rekstrarforminu – má segja
að stjórnarliðar hafi sýnt vott af lífs-
marki í umræðunum og telst það
sannast sagna til frétta. Björn
Bjarnason staðhæfði að hlutafélags-
formið hentaði þessum rekstri vel og
það væri á ábyrgð stjórnvalda að
skapa starfseminni eins ákjósanlegt
lagaumhverfi og kostur er. Þetta
innlegg stjórnarsinna hefði verið
fagnaðarefni ef vilji hefði verið til að
rökstyðja staðhæfinguna eftir að
hún hafði verið véfengd með veiga-
miklum rökum.
Í fyrsta lagi var bent á að unnt
væri að veita orkufyrirtækjum allt
það svigrúm sem þau þurfa á að
halda innan byggðasamlagsformsins
eða sameignarfélagsformsins. Í öðru
lagi hafi það sýnt sig að hlutafélags-
formið sé afar slæmt rekstrarform
frá sjónarhóli samfélagsins; eigend-
ur hlutafélaga séu ekki áreiðanlegir
bakhjarlar og að verðlagsþróun í
einkavæddum hlutafélögum komi
neytendum í koll þegar til lengri
tíma sé litið. Í þessu sambandi er
rétt að leggja áherslu á að hugsa
þarf til langs tíma og með það í huga
að raunverulegur hlutabréfamark-
aður verði notaður en til þess er leik-
urinn með hlutafélagavæðingu al-
menningsfyrirtækja að sjálfsögðu
gerður. Nánari rök fyrir þessu eru
eftirfarandi:
Eðli málsins samkvæmt sækja
hlutafjáreigendur fyrst og fremst í
fjárfestingar sem gefa mestan arð.
Það hefur í för með sér að þeir eru
ótryggir bakhjarlar. Nýleg dæmi
um þetta er franski eða öllu heldur
fjölþjóðlegi risinn Vivendi Univers-
al. Hlutabréf í því fyrirtæki sem er
eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækj-
um heimsins hafa á einu ári fallið um
80%. Ástæðuna má ekki hvað síst
rekja til mjög glannalegra fjárfest-
inga sem fyrirtækið réðst í undir
stjórn forstjóra þess til sex ára,
Jean-Marie Messier, en undir hans
leiðsögn varð Vivendi að öðru
stærsta fjölmiðlunarfyrirtæki
heims! Franskar fjármálastofnanir
þurftu að grípa til sérstakra aðgerða
til að draga úr söluæði sem greip um
sig í tengslum við skuldakreppu Viv-
endi.
Eitt stærsta orkufyrirtæki Bret-
lands, British Energy, sem framleið-
ir og selur 25% rafmagns í Bret-
landi, hefur að undanförnu ítrekað
sent út viðvörun um að án frekari
aðstoðar frá opinberum aðilum
stefni í gjaldþrot fyrirtækisins.
Hlutabréf í fyrirtækinu kolféllu í
september sl. Þetta gerðist þrátt
fyrir neyðaraðstoð bresku ríkis-
stjórnarinnar að upphæð 410 millj-
ónir breskra punda sem veitt var til
endurskipulagningar á fjármálum
fyrirtækisins. Markaðsvirði hluta-
fjárins er komið niður í 173,8 millj-
ónir punda, samanborið við rúmar
2.000 milljónir punda fyrir ári. Þann-
ig hefur verðgildi hlutabréfa fallið
um 91% á einu ári og aldrei verið
lægra í sögu fyrirtækisins. Fulltrúi
stofnunar sem á hlutabréf í British
Energy lét hafa eftir sér að ríkis-
stjórnin hafi með fjárstyrk sínum
bjargað fyrirtækinu tímabundið frá
gjaldþroti. Eftir sé hins vegar að
finna svar við þeirri grundvallar-
spurningu hvað verða megi fyrir-
tækinu til bjargar til framtíðar litið,
en það tapi nú á framleiðslu raf-
magns. Með öðrum orðum, þegar
mest þarf á að halda hlaupa hluta-
fjáreigendur á brott.
Varðandi orkuverð er t.a.m. fróð-
legt að líta á umfjöllun í norska Dag-
blaðinu frá 22. september, en þar
var sýnt fram á að markaðsvæðing
hafi sprengt upp raforkuverð í Nor-
egi. Vitnað er í talsmann norska
Neytendaráðsins, Per Anders Stal-
heim. Hann segir að norsk raforku-
fyrirtæki raki saman milljörðum.
Hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum
sé ævintýralegur. Árið 2000 hafi
hagnaður norskra rafveitna verið
um 11,6 milljarðar n.kr. og rafveit-
urnar hafi greitt 3,7 milljarða n.kr. í
arð til eigenda sinna. Þetta er orðinn
markaður þar sem menn „háfa inn
peninga,“ segir Stalheim.
Það hlýtur að verða þeim sem
hagnast hafa mest í íslensku efna-
hagslífi á undanförnum árum um-
hugsunarefni hvar auðveldast verði í
framtíðinni að háfa inn gróðann.
Skyldu kvótakóngar hugsa á þennan
veg?
Horfa kvótakóngar
til orkugeirans?
Eftir Ögmund
Jónasson
„Það hlýtur
að verða
þeim sem
hagnast
hafa mest í
íslensku efnahagslífi á
undanförnum árum um-
hugsunarefni hvar auð-
veldast verði í framtíð-
inni að háfa inn
gróðann.“
Höfundur er alþingismaður.