Morgunblaðið - 12.02.2003, Síða 32

Morgunblaðið - 12.02.2003, Síða 32
MINNINGAR 32 MIÐVIKUDAGUR 12. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ E lskulegi Jón Guð- mundsson! Með glymjandi hanagali heilsa jeg yður, án þess jeg gefi nokk- urn hlut eftir hananum sáluga, sem gólaði fyrir Sankti Pjetur, þegar klukkan var eitt kortjer til fjögur, og Kristur beið eftir honum.“ Þannig ávarpaði Bene- dikt Gröndal vin sinn Jón Guð- mundsson, síðar ritstjóra Þjóð- ólfs, árið 1851, skömmu eftir þjóðfundinn. Ég sakna þess að fá ekki lengur bréf. Hver vildi ekki fá svona kveðju inn um lúguna? Við tilhugsunina um bréf rifjast upp fjaðurpenni, blek og frí- merki. Og stundum glíman við að lesa skrift- ina, sem auð- vitað er mis- jafnlega skýr. Einhvern veginn tókst móður minni samt að stauta sig fram úr bréf- um frá sonum sínum úr sveit- inni. Þau byrjuðu alltaf á: „Elsku mamma, það er gaman í sveitinni.“ Jafnvel þótt stundum væri hundleiðinlegt. Það brást ekki að í bréfinu kom fyrir setn- ingin: „Viltu senda mér …“ Eitt- hvað var líka minnst á söknuð. Og síðan komu nöfnin á öllum beljunum. Eftirvæntingin var mikil þar sem ég var í sveit í Skógarnesi þegar von var á mjólkurbílnum, sem í huga lítils drengs þjónaði fyrst og fremst því hlutverki að dreifa bréfum á bæina. Þessi bréf eru til enn þann dag í dag í litlum kassa og geyma löngu liðna og hjartkæra atburði. Vin- kona móður minnar á svona lít- inn kassa, sem einnig er fullur af bréfum. Hún er svo flug- hrædd að hún fer alltaf með skókassann til góðrar vinkonu sinnar með skipun um að brenna bréfin ef hún skyldi farast. „Mín góða og skemmtilega vinkona! Gegnumsýrður af heil- ögum innblæstri sem blóðmörs- keppur í blásteinslegi, titrandi af hamstola lyftingu, vaggandi af ómþýðum englaröddum, er til mín hljóma gegnum gengishrun og öreigaóp vorrar vesölu jarð- ar, tvíhendi ég pennastöngina þér til dýrðar, þér til eilífrar dýrðar og vegsömunar, and- legrar umturnunar, sáluhjálpar og syndakvittunar, hvar af þú ljómar og forklárast eins og sól- bakaður saltfiskur frammi fyrir lambsins stól,“ skrifaði Þórberg- ur Þórðarson árið 1923 í bréfi til Láru. Þótt Íslendingar séu ekki latir við að senda jólakort hafa per- sónulegar bréfasendingar dreg- ist saman jafnt og þétt á und- anförnum árum og áratugum. Útlit er fyrir áframhaldandi minnkun, enda er það í sam- ræmi við þróunina erlendis. Langt er liðið síðan ég fékk al- vöru gluggalaust sendibréf inn um lúguna. Þegar meira var af bréfasend- ingum byrjuðu þau öll eins – á þökkum fyrir annað bréf. Og þannig myndaðist löng og óslitin bréfaþakkakeðja. Stundum var þó samviskan svört, eins og í bréfi Hildar Johnsen til Sigríðar Sveinsdóttur árið 1868: „Sigríður mín hjartakæra! Á engum hlut sést það betur, hvað tóm áform eru ónýt, en á bréfa- skriftunum mínum. Það er mjög langt síðan eg ætlaði að skrifa þér svo innilega vel fyrir bréfið þitt seinasta …“ Eftir langa tölu um hve Sig- ríður er yndisleg ákveður Hildur að koma sér að efninu: „Nú kem eg til sögunnar, segja rímnaskáldin, þegar búinn er mansöngurinn. Eins segi eg nú, að enduðum þessum for- mála.“ Og hvað skyldi svo erindið vera? „Það er þá fyrst að segja þér, að við lifum (fyrir guðs náð) allir ættingjarnir sem hér eru og hrærumst.“ Minna mátti það ekki vera! Núorðið berst aðeins tölvu- póstur og er hátíð ef hann byrj- ar á „hæ“ eða „blessaður“. Oft- ast nær byrjar hann bara í miðju kafi og svo kemur röð af skammstöfunum, sem aðeins innvígðir skilja. Svo á tölvu- póstur það til að fuðra upp í hrókeringum dagsins, þegar skipt er um tölvu eða vinnu. Stílbrögðin eru líka önnur í tölvupósti en bréfi; tölvupóstur er meira spjall á meðan bréf eru yfirveguð ræða. Það þarf lítið tilefni til að fólk klambri saman tölvupósti, en meira átak til að setjast við bréfaskriftir. Þá er ekki skynsamlegt að setja hvað sem er í tölvupóst. Það er nefnilega aldrei að vita hvar afrit af tölvupósti hlaðast niður. Né hver tekur upp á því að valsa inn í póstkerfið. Þá er öruggara að varðveita bréfin í gamla forminu í litlum kassa. Það má jafnvel fara þá leið að geyma bréfin í bankahólfi, eins og heldri rithöfundur gerir, og ánafna svo Þjóðarbókhlöðunni bréfin. Þannig rataði til mín hugljúf kveðja Jóhanns Sig- urjónssonar til bróður síns frá því í ársbyrjun 1899, en bréfið er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni. Það hefst þannig: „Væri eigi, vinur minn kæri, vængirnir þungir, svifi ég samstundis yfir svellaða hjalla. Heim til þín huga minn dreymir, er hríðarnar kveða lög, er þær léku á þeim dögum, sem löngu eru gengnir. Já, vinur minn góði, þrásinnis flýgur hugur minn heim á leið til þín, og oft á tíðum lifi ég upp aftur liðna tímann, því að ör- sjaldan lifir nokkur einungis fyr- ir augnablik, fleiri eru þeir, sem annaðhvort láta huga sinn dvelja við umliðna ævidaga, eða þeir vagga sér á vonum ókomna tím- ans, og þannig rennur liðni tím- inn, nútíminn og ókomni tíminn saman í eitt.“ Póesía sem þessi hefði hæg- lega getað glatast í tölvupósti. Þó geta samskipti varðveist í tölvupósti, einkum ef fólk prent- ar út jafnóðum það sem það ætl- ar að halda til haga. Og setur í lítinn kassa. Litlir kassar Þegar móðir mín fékk bréf frá sonum sínum úr sveitinni byrjaði það alltaf á: „Elsku mamma, það er gaman í sveitinni.“ Jafnvel þótt stundum væri hundleiðinlegt. VIÐHORF Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is ✝ Hörður Sig-tryggsson fædd- ist í Reykjavík 14. september 1929. Hann lést á Hrafn- istu í Hafnarfirði 5. febrúar síðastliðinn. Hann var sonur Sig- tryggs Árnasonar, f. 6. des 1902, d. 21. ág. 1933, og Áslaug- ar B. Árnadóttur, f. 4. jan 1909. Fóstur- faðir Harðar var Steingrímur Guð- mundsson, f. 22. apríl 1907, d. 25. nóv. 1992. Systir Harðar er Kristín, f. 5. mars 1931, var gift Jóni Sigurðssyni kaupmanni, f. 26. ág. 1922, d. 6. nóv. 2002. Hörður kvæntist Rannveigu Sigurðardóttur, f. 10. júní 1935. Börn þeirra eru: a) Áslaug Björg, f. 24. mars 1958, gift Sverri Björnssyni, f. 13. mars 1958, dætur þeirra eru Hrefna og Sunneva, b) Sigurður Hauk- ur, f. 13. nóv. 1959, kvæntur Selmu Baldvinsdóttur, f. 10. apríl 1958, börn þeirra eru Íris Dögg, Rakel Ýr og Hörður Freyr og c) Daði, f. 23. apríl 1969, sambýliskona Maríanna Brynhildardóttir, f. 25. maí 1968, börn þeirra eru Viktor, Nína og Diljá. Útför Harðar verður gerð frá Garðakirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Nú er hann farinn eftir harða bar- áttu við erfið veikindi. Baráttu sem ekki gat endað nema á einn veg. Hörður fékk Parkinsonsjúkdóminn fyrir 15 árum. Hann tók því af æðru- leysi og aldrei kvartaði hann yfir hlutskipti sínu. Það var ekki náttúra Harðar að kvarta. Hann vann allt sitt líf af dugnaði og ósérhlífni þess sem þarf að bjarga sér á eigin spýtur. En hann var ekki nema fjögurra ára þeg- ar hann missti föður sinn, Sigtrygg Árnason, og ólst því upp hjá móður sinni, Áslaugu Árnadóttur, sem lifir son sinn. Áslaug giftist nokkrum ár- um síðar Steingrími Guðmundssyni. Hörður fór snemma að bjarga sér sjálfur og og vann hina og þessa vinnu framan af ævinni. Hann var einn aðaltöffarinn í bænum þegar hann keyrði kókbíl á sjötta áratugn- um. En áður vann hann hin og þessi störf. Vann í Heklu um tíma, keyrði olíubíl hjá Olíufélaginu en að lokum fann hann farveg sem honum líkaði vel og gerðist leigubílstjóri. En Hörður var enginn venjulegur leigu- bílstjóri sem hangir á staur og bíður næsta túrs. Til þess rann blóðið of hratt í honum. Það var ríkt í náttúru Harðar að vera sjálfs sín herra, ráða ferðum sínum og komast áfram af eigin afli. Hann var sjálfstæður og sterkur persónuleiki. Kaupmanns- náttúruna erfði hann frá föður sínum og alla tíð var hann útsjónarsamur og snjall að bjarga sér. Hann var stöð- ugt á ferðinni í reddingum og snún- ingum fyrir sig og aðra. Það veitti víst ekki af því hann og Rannveig Sigurðardóttir, eftirlifandi eiginkona hans, réðust í að byggja einbýlishús á Flötunum í hinu nýja en ört vaxandi bæjarfélagi Garðahreppi. Með tvö ung börn á tímum hafta og skömmt- unar þurftu þau bæði á útsjónarsemi og dugnaði að halda til að láta dæmið ganga upp. Það eru til margar skemmtilegar frásagnir af því hvernig Hörður og aðrir frumbýlingar í Garðabænum fóru að því að byggja á tímum þegar ekkert fékkst nema í gegnum klíku. Eitt sinn vantaði Hörð og vini hans klósett en þau voru skömmtunarvara á þeim tímum. Þeir brugðu þá á það ráð að hringja í verslunina og panta eðalklósett fyrir ameríska sendiráð- ið. Svo trilluðu þeir í búðina, sóttu klósettin en þurftu að standa í stór- stríði við að fá að staðgreiða þau því sendiráðið var í reikningi, en það tókst og þeir fengu glansandi fín kló- sett í húsin sín. Þessi litla saga er fróðleg fyrir okkur sem nú kaupum í stórmörkuðum hvaðeina sem okkur lystir og sýnir annan heim verslunar og viðskipta sem þó er ekki fjarri okkur í tíma. Þau hjónin voru samhent í að koma sér upp fallegu heimili og þremur mannvænlegum börnum. Oft var fjör á heimilinu þegar börnin voru að ala foreldrana upp, því Hörður var hvorki skaplaus né skoðanalaus mað- ur. Á heimilinu voru menn og málefni rædd af mikilli hreinskilni hversdags og spari. Það var gaman í fjölskyldu- boðunum að heyra þá félaga Hörð og mág hans Jón í Straumnesi kryfja málin. Sýndist mér þá oft að Hörður væri af stráksskap sínum alltaf á móti síðasta ræðumanni. En þannig var Hörður, vildi enga lognmollu og hafði strákslegan og stríðinn húmor. Mér hefur alltaf verið minnisstæð- ur okkar fyrsti fundur. Þannig var að Hörður og Rannsý voru á Útsýnar- kvöldi. Við Áslaug vorum byrjuð að skjóta okkur saman og þetta kvöld hélt Áslaug partí á Lindarflötinni. Ég var staddur inni í herbergi þegar Bjarni á Felli vinur minn kom stökkvandi inn náfölur og óðamála: „Stökktu út um gluggann, stökktu út um gluggann!“ „Ha?“ sagði ég og skildi ekki neitt í neinu. „Jú, pabbi hennar Áslaugar er kominn, hann hélt að ég væri þú, stökktu út um gluggann!“ Mér þótti heldur lítil- mannlegt að fara á flótta úr partíinu og ákvað að mæta örlögum mínum í stofunni, fór fram og kynnti mig fyrir Herði. Ég veit ekki hvort ég var svona miklu gæfulegri en Bjarni vin- ur minn eða hvort Hörður hafði gert sér leik að látunum sem áður höfðu dunið yfir. En hann heilsaði mér af ljúfmennsku, dró mig inn í eldhús, gaf mér bjór (sem var sjaldséður lúx- us á þessum árum) og spjallaði við mig eins og við værum gamlir kunn- ingjar. Þessi ljúfa hlið Harðar sneri að mér allar götur síðan og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka fyrir það. Hörður fór vel með fjármuni eins og títt er um sjálfaflamenn. Og kenndi börnum sínum bæði að fara vel með fé og dugnað til vinnu. Hann og Rannsý studdu dyggilega við bak- ið á börnum sínum þegar þau fóru að koma sér upp heimili og voru alltaf boðin og búin að hjálpa, hvort sem var við barnapössun eða fram- kvæmdir. Hörður fylgdist alla tíð vel með, bæði hvað var að gerast í fjöl- miðlum og ekki síður bæjarlífinu. Vegna starfs síns var hann mikið á ferðinni og hitti mikið af fólki. Oft undraðist ég hve vel hann fylgdist með því hvað var í gangi í viðskiptum og samskiptum fólks í bænum. Hörð- ur sá um áratugaskeið um útkeyrslu á samlokum fyrir Brauðbæ. Því starfi sinntu hann og aðrir fjölskyldumeð- limir af ósérhlífni alla sjö daga vik- unnar. Samstarf Harðar og Bjarna Árnasonar í Brauðbæ var langt og farsælt og reyndist Bjarni honum vel þegar veikindin sögðu til sín. Hörður hafði yndi af ferðalögum. Hann hafði vegna starfa síns fyrir Útsýn tækifæri til að ferðast mikið. Er óhætt að segja að fáar fjölskyldur hafi farið jafn oft og víða og Hörður og fjölskylda gerðu á sínum tíma þegar sólarlandaferðir Íslendinga voru að hefjast. Enda naut Hörður þess að geta boðið fjölskyldu sinni allt það besta. Hörður lagði skömmu eftir seinni heimsstyrjöld upp í mikið ferðalag. Hann keypti stóran amer- ískan Víbon, safnaði saman fólki og hélt til Evrópu, allar götur suður á Sikiley. Það sýnir vel áræði og dugn- að Harðar að skipuleggja og leggja í slíka langferð þegar Evrópa var í rústum eftir seinni heimsstyrjöldina. Mér eru sérstaklega minnisstæðir frá þeim tíma sem ég var að kynnast Herði og fjölskyldu hinir hrikalega flottu kaggar sem kallinn átti. Gljá- fægðir amerískir drekar sem Hörður og synirnir Sigurður og Daði púss- uðu þannig að það mátti alltaf spegla sig í lakkinu. Le Baron, Dodge Dart, Dodge Aspen og fleiri eðalvagnar voru vinnustaðir Harðar í gegnum árin og óhætt að segja að enginn hef- ur gengið betur um sinn vinnustað en Hörður gerði. Enda gerði hann oft góð kaup í bílaviðskiptum. Það er til marks um hversu versl- unaráráttan var Herði í blóð borin að þegar hann var kominn á Hrafnistu og orðinn svo lasinn að hann mátti varla mæla seldi hann verðlítið frí- merkjasafnið sitt einhverjum innan- hússmanninum án þess að fjölskyld- an hefði hugmynd um. Elstu barnabörnin nutu samvista við Hörð, en hann var orðinn of veik- ur til að geta notið samvista við hin yngri. Þótt hann gæti undir það síð- asta sig hvergi hrært lýstist andlit hans upp í brosi og blik kom í auga þegar hann sá þau á Hrafnistu. Hörð- ur dvaldi á Hrafnistu síðustu árin eft- ir að Rannsý, sem af ósérhlífni sá um hann eftir að hann veiktist, gat það ekki lengur. Starfsfólkið á Hrafnistu er frábært og sendir ljósgeisla inn í líf gamalmennanna þar með góðri umönnun og glaðlegri framkomu. Síðustu árin í kyrrstöðu sjúkdóms- ins hafa eflaust verið erfið manni sem var alltaf á ferðinni á meðan hann var í fullu fjöri. En nú er hann farinn og enginn lifandi maður veit hvert hann fór. Við sem eftir erum yljum okkur við góðu minningarnar af samskipt- um við Hörð. Þakka þér fyrir löng og góð kynni Hörður minn – já og dótt- urina. Sverrir Björnsson. Þegar við hugsum til þeirra sem við höfum átt langa samleið með og gerum okkur yfirlit yfir þau kynni sjáum við að fjölbreytni einstakling- anna er meiri en við blasir í daglegri önn. Daglega horfum við á augna- blikið, hinn líðandi dag, hvað snýr út það skiptið. Mágur minn, Hörður Sigtryggsson, var margbrotinn mað- ur. Það sem að mér og mínum sneri var aldrei annað en hjálpsemi og góð- vild. Hann kippti mér úr sagnaheim- inum og inn í nútímann með því að leiða til mín góðan ökukennara og vakti yfir fyrstu bílakaupunum. Sjálf- ur var hann leigubílstjóri og vissi því vel hvað hann var að gera. Þannig þáði ég ráð og dáð frá mér eldri og lífsreyndari manni, enda var ekki um annað að ræða. Það var oft sprettur á honum Herði, kraftur og frumkvæði og þá var gaman að horfa á hann. Þetta mátti sjá þegar þau hjónin komu sér upp myndarheimili á Lindarflöt 18 í Garðabæ, sem þá hét Garðahreppur, fyrir röskum fjörutíu árum. Þá var bankakerfið ekki að ota lánum að þeim sem vildu koma sér upp hús- næði. Hörður og fleiri svöruðu þessu með mikilli vinnu sem skilaði þeim að settu marki. Mér fannst alltaf að hann nyti sín best í mikilli vinnu. Ég gleymi ekki handtökum hans hjá Víf- ilfelli þegar hann var að lesta út- keyrslubílinn kókkössum, en þar hafði hann útvegað mér vinnu í jóla- fríi á skólaárum mínum. En Hörður var ekki allra manna og átti stundum erfitt með geð sitt. En þá gat líka verið stutt í smitandi kæti og kostulegar frásagnir af margvíslegum atvikum. Þá var líf og fjör og engin lognmolla. Og við- kvæmnin. Hún kom svo vel fram þeg- ar hann ræddi um erfið örlög sumra manna. Mörg undanfarin ár átti Hörður við erfiðan hrörnunarsjúkdóm að stríða. Hann bar þá byrði af karl- mennsku og jafnaðargeði sem varð meira en áður. Hver maður þarf að mæta örlögum sínum og við getum ekki sett okkur í spor þeirra sem þurfa að kljást við svo mikla erfið- leika. En hann átti góða konu sem gerði honum kleift að dveljast á heimili sínu í Garðabæ lengur en mögulegt var í raun og veru. Slík um- hyggja ber í sér launin. Síðustu árin dvaldist hann á Hrafnistu í Hafnarfirði og naut þar umönnunar eins og best verður á kosið. Er ástæða til að þakka því góða fólki þeirra stóra hlut. Öllum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð. Haukur Sigurðsson. HÖRÐUR SIGTRYGGSSON

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.