Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 22
22 SUNNUDAGUR 27. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÉG BYRJAÐI að læra aðfljúga hjá Flugtaki hf.,sem var með aðstöðu ígamla flugturninum áReykjavíkurflugvelli, 1976
til 1977 og er íslenska flugskírteinið
mitt númer 1.650,“ segir John S.
Magnusson, ræðismaður og flug-
stjóri hjá Northwest Airlines, á góðri
íslensku, en hann hefur búið í Banda-
ríkjunum frá því hann var þriggja
ára eða í tæplega 44 ár.
Bandaríski sjóherinn og NWA
Hann útskrifaðist sem vélaverk-
fræðingur frá Hobokenháskóla í
New Jersey, fór í bandaríska sjóher-
inn og hélt þar áfram flugnámi.
Hann var í sjóhernum 1978 til 1985
og flaug m.a. vél sem hét Viking eða
Víkingur. „Ég var á flugmóðurskip-
inu USS Independence CV-62, sem
er ekki lengur notað, en ég var eink-
um staðsettur á Miðjarðarhafinu og í
Norður-Atlantshafinu og flaug með-
al annars frá skipinu til Bodö í Nor-
egi eitt kvöldið. Síðan var ég flug-
kennari á tveggja hreyfla þotu í eitt
og hálft ár og eftir að hafa verið í sjó-
hernum í sjö ár réð ég mig til North-
west Airlines.“
Það eru örugglega ekki margir Ís-
lendingar sem hafa verið í banda-
ríska sjóhernum og John er jafnvel
sá eini rétt eins og hann er eini ís-
lenski flugstjórinn hjá NWA, en því
starfi hefur hann gegnt síðan í ágúst
1985. Hann byrjaði sem aðstoðar-
flugstjóri á Boeing 727, fór síðan á
Boeing 757, svo á Boeing 747 200, en
er nú flugstjóri á Boeing 757-vélum
eins og Flugleiðir nota. Hann er eini
íslenski flugmaðurinn hjá félaginu,
en Jón Sigurðsson, sonur Sigga flug,
sem var með flugskírteini númer 1 á
Íslandi, starfar í viðhaldsdeild fé-
lagsins. „Undanfarin fjögur og hálft
ár hef ég eingöngu flogið á milli
stærstu borga Bandaríkjanna og
flýg um 14 til 15 daga í mánuði. Ég er
í burtu að heiman allt frá einum degi
upp í fimm daga, en þegar ég var á
Boeing 747 voru þetta sex til tólf
daga ferðir, aðallega frá Minneapolis
og Chicago til Tókýó, Manila, Hong
Kong, Singapúr og Bankok og til
baka til San Francisco eða Los Ang-
eles. Lengsta einstaka flugið án
lendingar hefur verið frá New York
til Tókýó, rúmlega 13 tíma flug.“
Lærði íslensku í æsku
John Magnusson fæddist á Land-
spítalanum í Reykjavík 1956, sonur
Eddu Svövu Stefánsdóttur og Johns
Swanholms Magnussons, vélaverk-
fræðings hjá bandaríska ríkinu, sem
fæddist í Bandaríkjunum, en hann er
kominn á eftirlaun. Foreldrar hans
voru Margrét Guðmundsdóttir frá
Hrísey og Gunnar Magnússon úr
Svarfaðardal. Móðir flugstjórans
fæddist og ólst upp í Vesturbænum í
Reykjavík, bjó í tvíbýlishúsi á Hring-
braut 112, en Björn, föðurbróðir
hennar, átti hinn helming hússins,
nr. 114. Faðir hennar var Stefán
Ólafur Björnsson sem ólst upp á
Laufási í Eyjafirði. „Ég bjó á Hring-
brautinni fyrstu þrjú árin en eftir
það fluttum við til New Jersey og þar
ólst ég upp. Ég fór því aldrei í skóla
til að læra íslensku, en lærði málið
með því að hlusta á aðra tala það.
Sérstaklega heyrði ég mömmu tala
íslensku við vinkonu sína nær dag-
lega og svo var málið talað þegar
frændfólk og amma og afi komu í
heimsókn. Þannig gat ég haldið
kunnáttunni við og ég skil allt en
stundum er erfitt að setja saman
setningar.“
Jana, kona Jóns, er frá Virginiu í
Bandaríkjunum og skilur svolítið í ís-
lensku, en dætur þeirra, Heidi Krist-
ine og Laura Suzanne, halda sig við
enskuna. „Við tölum alltaf ensku
heima en stundum tala ég íslensku
og þá einkum við Íslendinga frá Ís-
landi.“
Samgöngur milli Íslands og
Bandaríkjanna voru langt því frá
eins góðar á sjöunda áratug nýlið-
innar aldar og nú en á unglingsárun-
um fór John gjarnan til Íslands á
sumrin. „Ég fór svona annað hvert
ár frá því ég var átta ára og þar til ég
var fjórtán ára, en eftir það fór ég á
hverju sumri þar til ég var nítján ára
og vann sem sendill í endurskoðun-
ardeild Landsbanka Íslands. Árni
Sveinsson var þá deildarstjóri og Jó-
hann Birgisson aðstoðardeildarstjóri
og það var gaman að vinna með þeim
eins og öðrum sem unnu í deildinni.“
Árásir og stríð
Það hefur almennt ekki verið auð-
velt að komast að sem flugstjóri hjá
stórum flugfélögum, hvað þá hjá einu
stærsta flugfélagi Bandaríkjanna.
„Flestir sem starfa hjá bandarísku
flugfélögunum hafa annaðhvort ver-
ið í bandaríska sjóhernum eða flug-
hernum eða um 60 til 70% allra flug-
manna. Að undanförnu hafa verið
um 6.500 til 6.600 flugmenn hjá
North West en vegna samdráttar í
kjölfar árásarinnar á Bandaríkin 11.
september 2001 og stríðsins í Írak
hefur um 600 þeirra verið sagt upp
störfum, og ekki er talið að þeir fái
vinnuna aftur í bráð. Ég þarf hins
vegar ekki að óttast mikið, því farið
er eftir starfsaldri og ég er í kringum
1.900.“
John segir að vegna ástandsins
hafi margt breyst. Eftirlitið á flug-
stöðvum sé allt annað og meira eftir
11. september og sérstaklega sé fólk
í einkennisbúningum skoðað betur
en áður. Hins vegar komi aukið ör-
yggi öllum til góða. „Öryggi er í há-
vegum haft hjá Northwest og mikl-
um fjármunum er varið í viðhald til
að tryggja sem mest öryggi. Félagið
er eina flugfélagið í Bandaríkjunum
sem er með eigin veðurstofu og eigin
veðurfræðinga auk þess sem upplýs-
inga er aflað hjá Veðurstofu Banda-
ríkjanna vegna hvers flugs, en sama
leið er alltaf farin milli sömu staða.“
Höfuðstöðvar Northwest eru í
Minneapolis og þegar John hóf störf
hjá félaginu flutti hann til borgarinn-
ar í Minnesota. Hægt og sígandi sí-
aðist hann inn í íslenska samfélagið í
borginni en hann er mjög virkur í fé-
lagsstörfunum og sér meðal annars
um útgáfu á fréttablaðinu Póstinum.
Öflugt íslenskt samfélag
„Ég fékk upplýsingar um Sam-
komu, sem Íslendingafélagið Hekla
heldur árlega, og við fórum á hátíð-
ina nokkrum árum eftir að við flutt-
um hingað,“ segir hann. „Það var
mjög gaman, ég tók þátt í stofnun Ís-
lensk-bandaríska félagsins, The Ice-
landic American Association, 1995 og
byrjaði á því að skipuleggja þorra-
blót, en er nú ritari auk þess sem ég
tók aftur við að sjá um útgáfu Pósts-
ins í vetur. Við gefum út fjögur blöð á
ári og sendum blaðið til 250 til 400
manns. Ég sinni þessu félagsstarfi á
milli fluga. Stundum er ekkert að
gera, stundum mjög mikið en venju-
lega eru þetta svona þrír til fjórir
dagar í mánuði. Það breyttist mikið
eftir að Flugleiðir byrjuðu að fljúga
til Minneapolis í apríl 1998, en við
það urðum við í alfaraleið eftir að
hafa verið svolítið utan við allt og
alla. Vegna beina flugsins höfum við
fengið margar heimsóknir frá Ís-
landi, forseta, ráðherra, embættis-
menn, kóra, rithöfunda, listamenn og
svo framvegis og öll samskipti við Ís-
land hafa aukist gífurlega mikið.
Minneapolis hefur líka auðveldað
ferðalög Íslendinga til annarra
áfangastaða í Bandaríkjunum og víð-
ar. Sumir hafa sest hér að og allt
þetta hefur styrkt íslenska samfélag-
ið hérna. Það er alltaf gott að fá nýtt
blóð því með nýju fólki koma nýjar
hugmyndir og sterkari sambönd.
Þeir sem fyrst komu lögðu grunninn
og frá þeim er komin þriðja eða
fjórða kynslóð sem hefur haldið
starfinu gangandi og haldið rækt við
allt sem íslenskt er eins og íslenskan
mat, menningu og listir. Síðan hafa
flust hingað mjög sterkir einstak-
lingar eins og Örn Arnar, læknir og
aðalræðismaður, og kona hans Mar-
grét eða Maddý, eins og hún er köll-
uð, en góður hópur hefur byggt hér
upp öflugt íslenskt samfélag.“
Úr vesturbænum
til Vesturheims
John Swanholm Magnusson
yngri er eini íslenski flug-
stjórinn hjá bandaríska
flugfélaginu Northwest Air-
lines. Hann er líka mjög öfl-
ugur liðsmaður Íslendinga-
félagsins í Minneapolis og
er ræðismaður Íslands í
borginni. Steinþór Guð-
bjartsson heimsótti flug-
stjórann og fékk ýmislegt
forvitnilegt að heyra.
Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
John Magnusson er eini íslenski flugstjórinn hjá bandaríska flugfélaginu Northwest Airlines, sem er með höfuðstöðvar sínar í Minneapolis.
John S. Magnússon er með íslenskt flugskírteini nr. 1650 og hefur flogið víða
um heim, en flýgur nú að mestu milli stærstu borga Bandaríkjanna.
Fjölskyldan með forseta Íslands. Frá vinstri: Jana, Heidi Kristine, John, Laura
Suzanne og Ólafur Ragnar Grímsson.
steg@mbl.is