Morgunblaðið - 13.06.2004, Síða 22
22 SUNNUDAGUR 13. JÚNÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
B
andaríski gítarleik-
arinn og söngvar-
inn Jean Jacques
Cale, sem menn
þekkja helst sem JJ
Cale, er einn af
þeim tónlistar-
mönnum sem tón-
listarmenn og grúskarar helst
þekkja. Hann hefur aldrei náð að
vekja verulega athygli einn síns liðs
en aftur á móti haft mikil áhrif á fjöl-
marga tónlistarmenn sem slegið
hafa í gegn, aukinheldur sem hann
hefur samið lög sem selst hafa í
milljónaupplagi í flutningi annarra.
Meðal skýringa á því hvers vegna
Cale hefur aldrei slegið í gegn sjálf-
ur er að hann hefur aldrei vilja fara
að leikreglum tónlistariðnaðarins,
ekki tekið í mál að breyta tónlist
sinni til að geðjast öðrum.
Að í hálfa öld
JJ Cale er hálfsjötugur, búinn að
vera að í tónlist frá fimmta áratug
síðustu aldar er hann byrjaði tán-
ingur að spila í hljómsveitum, en
hann er fæddur 1938. Hann tók upp
gítarinn barnungur og hefur ekki
sleppt honum síðan, fékk snemma
ástríðu fyrir gítarleik. Síðar kom
ástríða fyrir lagsmíðum, en enga
segist hann hafa ástríðuna fyrir
söng; „ég hef raddsvið upp á tvær
nótur og báðar falskar“, segir hann
og hlær við.
Cale segist hafa verið nánast
alæta á tónlist á þessum tíma, spilað
rokk, kántrí og kántrísveiflu, en
hann var meðal annars um tíma í
hljómsveit með Leon Russell. Cale
er fæddur í Oklahomaborg en ólst
upp í Tulsa. Um tvítugt fluttist hann
til Nashville, Mekka sveitatónlistar-
innar, til að spreyta sig í tónlist þar
og var ráðinn í húshljómsveit Grand
Ole Opry, helstu tónleikahallar
Nashville. Hann entist í þeirri spila-
mennsku í nokkur ár en fluttist svo
til Tulsa aftur. „Ég var orðinn leiður
á Nashville,“ segir hann einfaldlega
þegar spurt er hvers vegna hann
hafi snúið aftur á heimaslóðir. Í
Tulsa tók hann aftur upp samstarf
við Russell, stofnaði hljómsveit með
honum, og 1964 héldu þeir með þá
sveit til Los Angeles að spreyta sig.
Í Los Angeles kynntist Cale Del-
aney og Bonnie Bramlett og spilaði
með þeim um hríð, en þau sambönd
áttu eftir koma sér vel eins og síðar
verður vikið að. Tveimur árum eftir
komuna til Los Angeles stofnaði
Cale eigin hljómsveit, Leathercoat-
ed Minds, og sendi frá sér plötu með
súru rokki. Hún vakti þó ekki ýkja
mikla athygli og enn sneri Cale aftur
til Tulsa 1967 og fór að spila í sömu
klúbbum og forðum, en aðalstarf
hans var hljóðversvinna sem hann
segist hafa lært mikið af. „Það gaf
mér kost á að gera ýmsar tilraunir,
að átta mig á hvað ég vildi gera,
hvernig tónlist ég vildi helst spila,“
segir hann og bættir svo við eftir
smáþögn, „rólega tónlist, tónlist sem
ekki er að trana sér fram.“
Hljóðversmaður, gítarleikari
og lagasmiður
Þótt Cale hafi starfað með ýmsum
hljómsveitum var það bara sem gít-
arleikari, hann tók aldrei þátt í að
semja tónlistina sem spiluð var, hélt
lagasmíðum sínum fyrir sjálfan sig.
Í hljóðverinu gafst Cale kostur á að
gera tilraunir eins og nefnt er og
hann gat líka tekið upp í dauðum
tíma lögin sem hann var að semja.
„Eitt af lögunum sem ég var að leika
mér að taka upp var After Midnight
og tveimur eða þremur mánuðum
síðar komst það einhvern veginn í
hendurnar á Eric Clapton og hann
tók það upp og sló í gegn. Eftir það
varð ég lagasmiður fyrir alvöru,
hætti að vinna í hljóðverum og að
spila fyrir aðra.“
Boðið að syngja eigin lög á plötu
Vinsældir lagsins urðu til þess að
fleiri leituðu eftir lögum frá Cale en
útgáfufyrirtæki fóru líka á stúfana
og honum var boðið að taka upp
plötu þar sem hann myndi syngja
eigin lög. Hann segir að sér hafi ekki
litist nema miðlungi vel á það, en lát-
ið sig hafa það fyrir rest. „Ég átti
samt bágt með mig þegar ég söng
inn á band, skammaðist mín fyrir
það hvað ég er slakur söngvari og
geri það reyndar enn,“ segir Cale en
þegar það er borið til baka af blaða-
manni dregur hann aðeins úr. „Ég
er með litla rödd og ekki er hún fal-
leg, en ég hef passað mig á að semja
lög sem rúmast innan þess litla
raddsviðs. Auðvitað hefði ég átt að
gera það strax í upphafi að finna ein-
hvern góðan söngvara sem sam-
starfsmann, en mér datt það ekki í
hug þá og það er orðið allt of seint í
dag.“
Fyrsta breiðskífan, Naturally,
kom svo út fyrir jólin 1971, meðal
annars með After Midnight í útgáfu
Cale, og einnig lagið Call Me the
Breeze sem suðurríkjarokksveitin
Lynyrd Skynyrd gerði frægt. Af
öðrum lögum af plötum Cale má
nefna Lies sem var á Really og svo
Cocaine sem Clapton gerði frægt.
Það lag er að finna á Troubadour og
á henni er einnig lagið Hey Baby
sem naut nokkurra vinsæla.
Í upphafi tónlistarferils síns spil-
aði Cale í hljómsveitum en þrátt fyr-
ir það má segja að hann hafi alltaf
verið einn á ferð í tónlistarsköpun
sinni. Hann segist og ekki sakna
þess að vinna í hljómsveit, segist
aldrei hafa vanist á samstarf í laga-
smíðum og segist ekki telja það
myndi breyta nokkru um lagasmíðar
sínar, „ég veit hvað ég vil og best að
halda sig við það“. Ekki er það held-
ur að hann sé alltaf einn, alltaf þegar
lagt er upp í tónleikaferð að kynna
nýja plötu kallar hann til bassaleik-
ara og trommuleikara, samstarfs-
menn hans í þrjátíu ár. „Við æfum
aldrei, þurfum ekkert að æfa, þeir
kunna öll þessi lög, líka nýju lögin
þótt þeir hafi kannski aldrei heyrt
þau,“ segir Cale og kumrar í honum.
„Við hittumst og látum þetta ganga
upp, erum eins og djassarar – hvert
lag er grind og síðan getum við gert
það sem okkur sýnist innan hennar.
Það er aldrei markmið að láta lögin
hljóma sem líkast því sem er á plöt-
um, það er ekkert gaman að svoleið-
is spilamennsku, og það er ekki
heldur gaman að láta þau hljóma
eins á hverju kvöldi. Við breytum
þeim mikið eftir því hvernig skapi
við erum í hverju sinni og líka eftir
viðtökum áheyrenda.“
Cale kann því vel að á leika á tón-
leikum en illa að vera á tónleikaferð.
„Þessir tveir tímar eða svo sem mað-
ur stendur á sviðinu eru góðir og ég
vil gjarnan gera meira af svoleiðis,
en tónleikaferð er svo margt annað
en að spila á tónleikum, það er alls
kyns markaðsstarf sem þarf að
vinna, hitta fólk, veita viðtöl og svo
er allt ferðalagið, öll biðin, koma sér
upp á hótel og á tónleikastað, stilla
upp og gera klárt og svo að halda af
stað aftur. Það er allt hundleiðinlegt
en þegar maður stendur á sviðinu
gleymist allt annað.“
Stundum þreyttur á að gera plötur
Alla jafna hefur Cale verið nokkuð
reglusamur í plötuútgáfu, sent frá
sér plötu á hverju ári eða öðru
hverju ári. Tvisvar hafa þó orðið
lengri hlé, sjö ár frá 1983 til 1990, og
svo nú þegar To Tulsa and Back
kemur út eru átta ár frá síðustu
plötu. Hann segir skýringuna á
hléunum ósköp einfalda, stundum
verði hann þreyttur á að gera plötur
og stundum sé hann alls ekki í stuði
til að semja lög. „Lögin koma stund-
um óforvarandis þegar ég er að
glamra á gítarinn eða sit úti á ver-
önd, en stundum sest ég niður bein-
línis til að semja. Stundum koma
þau svo alls ekki, sama hvað ég geri.
Það er hægt að ná fimi í gítarleik
með því að æfa sig og það er hægt að
nota hljóðverstæknina til að gera
allan fjandann, en lagasmíðarnar
eru sköpun og henni er ekki hægt að
stýra.
Sumir hafa reyndar gagnrýnt mig
fyrir að vera alltaf að semja sama
lagið, að þróast ekki, en ég er bara
að gera það sem mér finnst
skemmtilegt og engin ástæða til að
gera annað. Hér áður fyrr tók ég
meira mark á fólki og reyndi gera
tónlistina öðruvísi, að útsetja lögin
meira og hafa þau í öðrum takti, en
þegar ég hlustaði á upptökurnar var
falskur hljómur í þeim, þetta var
ekki ekta tónlist og því hætti ég að
hugsa um slíkt. Fyrir vikið er ekki
mikil eiginleg þróun á plötunum
mínum, þetta er frekar spurning um
hversu vel mér tekst upp í lagasmíð-
unum hverju sinni, það er ekkert
annað sem greinir þær að nema það
að ég eldist og það breytir kannski
einhverju.“
Tónlistarmenn breytast
í skemmtikrafta
JJ Cale hefur ekki bara samið lög
sem selst hafa í milljónaupplagi í
flutningi annarra, heldur hefur hann
einnig haft mikil áhrif á aðra tónlist-
armenn; sjá til að mynda Dire
Straits-foringjann Mark Knopfler
sem sótti drjúgt til Cale eins og
heyra má á fyrstu Dire Straits-skíf-
unum. Cale er enda afbragðsgítar-
leikari, smekkvís og naskur á laglín-
ur, tekur einkar markviss og knöpp
sóló. Ólíkt mörgum öðrum gítarleik-
urum segist hann aftur á móti ekki
eiga sér neinn uppáhaldsgítar eða
neina uppáhaldsgerð. „Ég safnaði
einu sinni gíturum og á þá marga
mjög góða, en alla jafna er mér al-
veg sama hvernig gítar ég spila á.
Oftast vel ég þá fyrir hljóminn sem
ég er að ná og spila jöfnum hönum á
Fender, Gibson, Danelectro eða
kassagítara með hljóðnema við. Mér
finnst reyndar fínt að hafa Danel-
ectro með mér á tónleikaferðum því
það vill gerast að þegar fólk er búið
að fá sér í glas fer það að skvaldra
og þá er gott að geta hækkað í gít-
arnum.“
Tónlist Cale hefur ekki þróast
sem neinu nemur í þau þrjátíu ár
sem hann hefur gefið út plötur.
Hann segist samt hafa fylgst vel
með tónlist annarra alla tíð og haft
gaman af. „Síðustu ár er ég þó far-
inn að hlusta mun minna, því það er
sjaldan nokkur tónlist af viti í út-
varpinu. Vissulega koma öðru hvoru
skemmtileg lög en alla jafna er þetta
óttalegt tros. Tónlistarmarkaðurinn
hefur þróast í eftirhermur meira og
minna, ef einhver einn gerir það gott
spretta upp fimmtíu sem stæla
hann,“ segir Cale og viðrar þá skoð-
un sína að tónlistarútgáfa snúist
ekki um tónlist lengur, „menn eru
ekki að selja tónlist, þeir eru að
skemmta fólki, tónlistarmenn eru
orðnir að skemmtikröftum. Það er
ekki slæmt í sjálfu sér, ekkert að því
að tónlistarmarkaðurinn breytist, en
það er nú þannig í dag að það þarf
ekki tónlistarhæfileika til að slá í
gegn með plötu. Menn þurfa bara að
líta vel út og kunna að hreyfa sig á
þokkafullan hátt, öllu öðru er kippt í
liðinn í hljóðverinu, söngurinn eða
hljóðfæraleikurinn leiðréttur og lag-
færður – vélar smíða tónlist,“ segir
Cale en leggur áherslu á að hann sé
ekki að segja þetta af neinni beiskju,
hann sé sáttur við sitt og víst séu
fjölmargar góðar hljómsveitir til.
Í kjölfar þess að To Tulsa and
Back kemur út heldur JJ Cale upp í
tónleikaferð um Bandaríkin og
væntanlega einnig ferð til Evrópu.
Hann lýsir miklum áhuga sínum á að
leika á Íslandi ef hægt verður í Evr-
ópuferðinni. „Ég hefði gaman af að
koma þangað, ég hef heyrt að það sé
mikið og gott tónlistarlíf á Íslandi og
það væri gaman að kynnast því nán-
ar.“
Alltaf einn á ferð
„Þegar maður stendur á sviðinu gleymist allt annað,“ segir JJ Cale, sem kann því vel að leika á tónleikum en illa að vera á tónleikaferð.
Bandaríski tónlistarmað-
urinn JJ Cale er ekki bara
frábær gítarleikari heldur er
hann og lunkinn lagasmið-
ur. Sumir hafa þó kvartað
yfir því að tónlist hans sé
ekki nógu fjölbreytt, en
hann sagði Árna Matthías-
syni að hann kærði sig koll-
óttan um slíka gagnrýni.
arnim@mbl.is