Morgunblaðið - 17.06.2004, Side 4
FRÉTTIR
4 FIMMTUDAGUR 17. JÚNÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
NÝR samningur Leikfélags Reykjavíkur
(LR) og Reykjavíkurborgar var undirritaður
í gær en hann mun gilda til ársloka 2012. Að
sögn Ingu Jónu Þórðardóttur, formanns LR,
felur nýi samningurinn í sér tvo meginþætti.
Annars vegar verður framlag Reykjavíkur-
borgar til reksturs Borgarleikhússins aukið
og nemur árlega rúmum 240 milljónum króna
á árunum 2005–2012. Til viðbótar er bók-
færður árlega 150 milljóna húsaleigustyrkur
til LR. Hins vegar eru dregnar skýrar línur
um samstarf borgarinnar og LR sem felur
m.a. í sér að Reykjavíkurborg tekur að sér
stærri hlut af daglegu viðhaldi leikhússins,
m.a. með því að greiða laun umsjónarmanns
hússins.
Jafnframt hefur verið komið á fót hús-
stjórn en hlutverk hennar er að hafa eftirlit
með rekstri húseignarinnar, sjá til þess að
nýting hússins verði sem best og greiða leið
samstarfs LR og annars menningarlífs í
borginni.
Inga Jóna segir að undirbúningur samn-
ingsins hafi staðið í marga mánuði og því sé
mikil ánægja með að hann sé loks í höfn.
Hún bendir jafnframt á að samningurinn
undirstriki að það samstarfsform sem
Reykjavíkurborg og LR hafa haft er farsælt
og gott. Eftir sem áður verður rekstur leik-
félagsins á ábyrgð stjórnar þess.
Morgunblaðið/Jim Smart
Það fór vel á með Ingu Jónu Þórðardóttur, formanni Leikfélags Reykjavíkur, og Þórólfi Árnasyni borgarstjóra þegar þau undirrituðu samninginn.
Rúmar 240 milljónir árlega í rekstur
Borgarleikhússins til ársins 2012
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í
gær lyfjafyrirtækin GlaxoSmithKline ehf.
og Líf hf. til að bera óskipta bótaábyrgð á
tjóni tæplega fimmtugrar konu vegna af-
leiðinga af inntöku lyfja. Óumdeilt er að
hún fékk svokölluð Steven-Johnson heil-
kenni í kjölfar inntöku lyfsins Lamictal
sem hafði alvarlegar afleiðingar á heilsu
hennar, að því er fram kemur í dómi hér-
aðsdóms.
Konan krafðist 31,9 milljóna króna í bæt-
ur fyrir tjón sitt með vöxtum frá október
árið 2000. GlaxoSmithKline og Líf kröfðust
hins vegar sýknu af öllum kröfum kon-
unnar og hún yrði dæmd til að greiða þeim
málskostnað.
Að ósk deilenda var tekin sú ákvörðun að
skipta sakarefninu þannig að í þeim þætti
málsins sem til lykta var leiddur í gær yrði
aðeins til úrlausnar hvort fyrirtækin væru
skaðabótaskyld gagnvart konunni. Verður
leyst úr skaðabótakröfunni síðar.
Fyrirtækin voru dæmd til að greiða
hvort um sig 500 þúsund krónur í máls-
kostnað sem rennur í ríkissjóð. Gjafsókn-
arkostnaður konunnar, 1,5 milljónir króna,
greiðist úr ríkissjóði.
Málið dæmdi Greta Baldursdóttir hér-
aðsdómari. Lögmaður konunnar var Stefán
Geir Þórisson hrl. Lögmaður Glaxo-
SmithKline ehf. var Margrét Einarsdóttir
hdl. og lögmaður Lífs Aðalsteinn Jónasson
hrl.
Bera bóta-
ábyrgð á
heilsutjóni
ÚTSKRIFTARÁRGANGUR
Menntaskólans í Reykjavík frá
1944 kom saman síðastliðið
þriðjudagskvöld til að fagna 60
ára útskriftarafmæli sínu. Hóp-
urinn útskrifaðist 17. júní 1944 og
hafa stúdentarnir allar götur síð-
an þá verið kallaðir lýðveldisstúd-
entarnir.
„Vilja sumir kalla okkur síð-
ustu konunglegu stúdentana“
Haraldur Sveinsson, stjórn-
arformaður Árvakurs og einn af-
mælisstúdentanna, segir að því
hafi stundum verið haldið fram að
lýðveldisstúdentar sé ekki rétt-
nefni hópsins þar sem útskriftin
fór fram klukkan níu um morg-
uninn en landið varð ekki að lýð-
veldi fyrr en síðdegis. „Þess
vegna vilja sumir kalla okkur síð-
ustu konunglegu stúdentana. Við
höfum nú samt kallað okkur lýð-
veldisstúdentana,“ segir Har-
aldur.
Hittast að minnsta
kosti á fimm ára fresti
Þegar ljósmyndara Morg-
unblaðsins bar að garði var hóp-
urinn á heimili Ernu Finnsdóttur
ekkju Geirs Hallgrímssonar, fyrr-
verandi forsætisráðherra, en þau
hjónin voru samstúdentar. Frá
Ernu hélt hópurinn yfir á Hótel
Nordica þar sem þau snæddu
saman kvöldverð. Haraldur segir
hópinn nokkuð samheldinn og
hittast a.m.k. á fimm ára fresti. Í
hópnum voru upprunalega 68
stúdentar og eru 45 þeirra enn á
lífi og mættu langflestir þeirra á
þriðjudagskvöldið.
Menntaskólaár lýðveldisstúd-
entanna voru ekki tíðindalaus.
Þegar þau komu í skólann að
morgni 10. maí 1940 meinuðu
breskir hermenn þeim inngöngu.
Kennslan var fyrst um sinn færð
yfir í Alþingishúsið og svo á efstu
hæð Háskóla Íslands.
Fögnuðu lýðveldis-
stofnuninni á Þingvöllum
Nemendur fengu að snúa aftur
í skólann um haustið 1942 og fór
útskriftin fram á sal skólans á
lýðveldisdaginn. Haraldur segir
að eftir að athöfninni lauk hafi
hópurinn farið með rútu á Þing-
völl og fagnað lýðveldisstofn-
uninni með öðrum landsmönnum.
Lýðveldisstúdentar fagna
60 ára stúdentsafmæli
Morgunblaðið/Eggert
Glatt var á hjalla þegar lýðveldisstúdentarnir komu saman til að fagna 60 ára stúdentsafmæli sínu á þriðjudagskvöldið en af 68 stúdentum eru 45 á lífi.
ÓLAFUR Ragnar Grímsson fengi
89,4% atkvæða, væri kosið nú til emb-
ættis forseta Íslands, samkvæmt
nýrri könnun IMG Gallup og er þá
miðað við svör þeirra þátttakenda í
könnuninni, sem afstöðu tóku til
frambjóðendanna.
Baldur Ágústsson mælist með 9,8%
fylgi þeirra sem afstöðu taka og Ást-
þór Magnússon 0,8%.
Í símakönnun IMG Gallup, sem
fram fór dagana 2. til 15. júní voru
spurningar lagðar fyrir 1.230 manna
úrtak af landinu öllu og var svarhlut-
fall 65%. Sjötíu og eitt prósent þeirra
sem svöruðu sögðust styðja Ólaf
Ragnar, 7,9% sögðust styðja Baldur
og 0,6% sögðust styðja Ástþór, en
20% sögðust ekki myndu styðja neinn
frambjóðendanna.
Um 86% aðspurðra sögðu mjög eða
frekar líklegt að þeir myndu kjósa, en
11% sögðu það ólíklegt að þeir myndu
kjósa. 3% sögðu hvorki né.
Ólafur
Ragnar
mælist með
89,4% fylgi
Gallup-könnun