Morgunblaðið - 31.10.2004, Qupperneq 49
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31. OKTÓBER 2004 49
MENNING
RÖÐ tónleika og málþing undir yfirskriftinni
Ný endurreisn hefur göngu sína á morgun. Það
eru Caput og Vox academica sem standa að röð-
inni, en tónleikar hennar snúast að nokkru leyti
um gömul gildi í nýrri tónlist, að sögn Kolbeins
Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Caputs. „Okk-
ur langar til að velta fyrir okkur ákveðnum
spurningum á nokkrum tónleikum: Er eitthvað
raunverulega nýtt í nýju tónlistinni? Er hægt að
vera íhaldssamt tónskáld á tímum þegar mesta
framúrstefnan er oftast talin gamaldags? Er
saga vestrænnar tónlistar liðin undir lok? Er
tíminn stopp?“
Til heiðurs Hauki
Alls verða fernir tónleikar haldnir í röðinni og
eitt málþing þar sem fjallað verður um stöðu
tónlistar. Þeir fyrstu verða annað kvöld kl. 20 í
Listasafni Íslands, en þá verða haldnir hátíða-
tónleikar í tilefni þess að Haukur Tómasson
tekur á móti Tónlistarverðlaunum Norður-
landaráðs í Stokkhólmi daginn eftir. Á tónleik-
unum verða fluttir Guðrúnarsöngvar eftir Hauk
Tómasson og þrjú verk eftir danska tónskáldið
Hans Abrahamsen sem sjálfur verður viðstadd-
ur tónleikana. „Abrahamsen vakti ungur mikla
athygli með frumlegum tónsmíðum,“ segir Kol-
beinn. „Síðan hætti hann alveg að semja í ára-
tug, og er nokkuð nýbyrjaður aftur. Eitt af
fyrstu verkum hans eftir að hann hóf aftur að
semja er píanókonsertinn sem við flytjum í
Listasafninu.“
Einleikari í píanókonsertinum er Anne-Marie
Abildskov, kona Abrahamsen og er verkið skrif-
að fyrir hana. Stjórnandi á tónleikunum er hinn
bandaríski Joel Sachs. „Sachs hefur lengi vel
fylgst með Hans Abrahamsen og þekkir mjög
vel til norrænnar tónlistar. Hann er til dæmis
nýbúinn að stjórna flutningi á verki eftir Hauk
Tómasson með New Juilliard Ensemble í New
York og hann stjórnaði píanókonsert Abraham-
sen í september 2001 í New York.“
Tónleikarnir í Listasafninu annað kvöld
höfðu verið ákveðnir áður en í ljós kom að
Haukur hefði hlotið Tónlistarverðlaun Norður-
landaráðs fyrir Fjórða söng Guðrúnar. Þegar
það kom í ljós var ákveðið að heiðra hann með
flutningi Guðrúnarsöngvanna, sem byggðir eru
á Fjórða söng Guðrúnar, enda hæg heimatökin
fyrir Caput, þar sem hópurinn tók upp geisla-
disk með verkinu árið 1998. „Haukur hefur sett
saman þrjár aríur Guðrúnar og tvö stór hljóm-
sveitarmillispil í eitt verk, sem hann kallar Guð-
rúnarsöngva. Þetta er innsti kjarni verksins –
bara Guðrún sem elskar, þjáist og hatar! Tón-
listin nær mjög vel fram þeim töfrum slungna
hryllingi sem birtist í hinum fornu Guðrúnar-
kviðum.“
Einsöngvari á tónleikunum er Ingibjörg Guð-
jónsdóttir og segir Kolbeinn hana henta afar vel
í hlutverk Guðrúnar. „Ingibjörg er bara Guð-
rún. Raddlega passar hún algjörlega í hlutverk-
ið, en síðan skiptir líka máli að konan sem syngi
hana sé ekki of ung. Hún verður að hafa lifað
ýmislegt til að vera sannfærandi sem Guðrún.“
Málþing um stöðu tónlistar
Málþing „um stöðu tónlistarinnar á jörðinni á
vorum dögum“, verður haldið í Borgarleikhús-
inu þann 13. nóvember kl. 15.15. Þar munu val-
inkunnir einstaklingar fjalla um ýmis mál tengd
tónlistarlífi nútímans. „Landslagið í tónlistinni
hefur breyst mjög mikið á síðustu 15-20 árum,“
segir Kolbeinn. „Þegar Caput var að byrja árið
1987 var tónlistarlífið meira í afmörkuðum
skúffum. Núna er eins og einhver hafi dregið
þær allar út og sturtað úr þeim á gólfið! Mál-
þingið er ætlað til að rökræða og rífast og tala
spekingslega um hvað er að gerast í músík í
byrjun 21. aldarinnar, hvað á að gerast og hvað
við viljum alls ekki að gerist.“
Miðvikudaginn 3. nóvember verða tónleikar í
röðinni þar sem verk Jóhanns Jóhannssonar,
Virðulegu forsetar, verður flutt af brassleik-
urum Caput, höfundinum sjálfum og fleiri hljóð-
færaleikurum undir stjórn Guðna Franzsonar.
Þann sama dag kemur samnefnd plata út. Þá
flytur Rómeó og Júlíu-kórinn frá Dramaten-
leikhúsinu í Stokkhólmi endurreisnarmadrigala
á 15.15 tónleikum í Borgarleikhúsinu laug-
ardaginn 6. nóvember.
Síðustu tónleikarnir í röðinni verða síðan 20.
nóvember í Neskirkju. Þá munu Vox Academica
ásamt Caput flytja ný verk eftir Úlfar Inga
Haraldsson, Báru Grímsdóttur og Hilmar Örn
Hilmarsson undir stjórn Hákonar Leifssonar.
Tónlist | Tónleikaröðin Ný endurreisn
Joel
Sachs
Haukur
Tómasson
Kolbeinn
Bjarnason
Ingibjörg
Guðjónsdóttir
Anne-Marie
Abildskov
Hans
Abrahamsen
Horft til
baka í tíma
ÓRATÓRÍAN Elía eftir Mendels-
sohn verður sett upp í Graf-
arvogskirkju í dag kl. 16. Ástæð-
an er sú að Óperukórinn í
Reykjavík og Karlakórinn Þrestir
í Hafnarfirði halda á mánudag til
Bandaríkjanna til að taka þátt í
flutningi á óratóríunni í hinum
virta tónleikasal Carnegie Hall í
New York hinn 7. nóvember
ásamt Garðari Cortes, sem stjórn-
ar uppfærslunni. Af þessu tilefni
munu ferðalangarnir ásamt fé-
lögum í Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands flytja verkið í Grafarvogs-
kirkju og verða einsöngvarar í
verkinu þau Bergþór Pálsson í
hlutverki Elía, Snorri Wium,
Hulda Björk Garðarsdóttir og Al-
ina Dubik.
Að sögn Garðars er hugur í tón-
listarfólkinu sem senn heldur ut-
an. „Undirbúningurinn fyrir
ferðalagið hefur staðið í allt haust
og verið unnið hörðum höndum,“
segir hann. Nær 120 íslenskir kór-
félagar fara í ferðalagið og taka
því þátt í tónleikunum í Graf-
arvogskirkju. Uppselt er á tón-
leikana, og voru 1.084 sæti seld.
„Mér skilst reyndar að það sé líka
að verða uppselt á tónleikana í
New York, þar sem 2.800 sæti eru
í salnum,“ segir Garðar, „enda
eru þetta upphafstónleikar vetr-
arins í Carnegie Hall.“
Hann segist sannfærður um að
tónleikarnir ytra muni takast vel.
„Kórarnir sem taka þátt eru vel
undirbúnir, og síðan hef ég auð-
vitað mitt fólk, sem ég þekki vel.
Það er mikill styrkur fyrir mig að
hafa þau með mér, og ég hlakka
mikið til fararinnar.“
Morgunblaðið/RAX
Tónlist | Elía flutt í Grafarvogskirkju
Upptakturinn að
Carnegie Hall
Garðar Cortes stjórnar fjölmennum flutningi á óratóríunni Elía eftir Felix
Mendelssohn í Grafarvogskirkju í dag. Tónleikarnir hefjast kl. 16.