Morgunblaðið - 11.01.2005, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 11.01.2005, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 11. JANÚAR 2005 31 MINNINGAR og festu en margur annar enda þaul- reyndur félagsmálamaður. Hann var m.a. í stjórn Félags háskólamennt- aðra kennara um áratuga skeið og formaður þess um tíma. Ingólfur naut þess alltaf að kenna en hann þótti strangur kennari sem gerði miklar kröfur. Það er þó annað sem nemendum hans stendur ofar í huga þegar þeir ræða um sögu- kennslu hans, það var þegar tignar- legt yfirbragð hans breyttist í íþróttamannslegt og hann þaut um stofuna í gervi vöðvastæltra Forn- Grikkja kastandi spjótum og kringl- um á Ólympíuleikum. Á 20 ára skólameistaraferli Ing- ólfs í MK er eitt sem einkenndi stjórnun skólans umfram annað er það var að stöðug þróun átti sér stað í skólanum. Brautum fjölgaði, skipu- lagsbreytingar áttu sér stað, ný kennslukerfi voru tekin upp, ferða- málanám hóf göngu sína og náms- ráðgjöf fékk fastan sess svo nokkuð sé nefnt. Þessi mikla þróun hefði aldrei orðið að veruleika ef Ingólfur hefði ekki ætíð haft hagsmuni skól- ans í fyrirrúmi og ráðið að skólanum úrvalskennara sem unnu með honum að þessum verkefnum. Við lok starfsferils síns skrifaði Ingólfur sögu Menntaskólans í Kópavogi fyrstu 20 árin sem gefin var út í tveimur bindum árið 1995 og 1997. Ingólfur vann að þessu verkefni af sama eldmóð og áhuga og ætíð enda er þetta ómetanleg heimild um sögu og starf skólans. Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd Menntaskólans í Kópavogi þakka Ingólfi A. Þorkelssyni fyrir það mikla brautryðjandastarf sem hann vann á starfsferli sínum við skólann. Við sem störfuðum með Ingólfi eig- um honum mikið að þakka, hann miðlaði okkur af dýrmætri reynslu sinni sem við búum að um ókomna tíð. Menntaskólinn í Kópavogi væri með öðrum brag ef Ingólfur hefði ekki ætíð haft vakandi auga með öll- um þáttum starfsins skólanum til heilla. Eftir lifa minningar og þakk- læti fyrir að hafa notið samvistanna við hann. Fyrir hönd allra í Mennta- skólanum í Kópavogi sendi ég konu hans Rannveigu Jónsdóttur og fjöl- skyldu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja þau í sorg þeirra. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK. Kveðja frá Skólameistarafélagi Íslands Í dag kveðjum við félaga okkar Ingólf A. Þorkelsson, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans í Kópavogi. Ingólfur lést eftir langa og hetjulega baráttu við erfiða sjúk- dóma. Hann var skipaður skólameistari MK við stofnun skólans 1973 og vann brautryðjendastarf við mótun öflugs framhaldsskóla í Kópavogi. Á þess- um tíma áttuðu menn sig á því að menntun til stúdentsprófs var ekki bundin við fáa útvalda í árgangi og menn sáu einnig að ýmsar fleiri menntaleiðir mátti bjóða ungu fólki eftir skyldunám. Framhaldsskólum tók að fjölga verulega. Ingólfur var ævinlega virkur fé- lagi í skólamálaumræðu í Skóla- meistarafélagi Íslands og lá ekki á skoðunum sínum. Hann gat verið fastur fyrir og virtist á köflum nokk- uð íhaldssamur. Við, sem þekktum hann best, sáum þó að hann mat mik- ils þá þætti skólastarfsins sem ein- kenndust af aga, vönduðum vinnu- brögðum og góðum hefðum. Í nýjum skóla er jafnan mikil þörf fyrir að skapa hefðir. Í þeim efnum var Ing- ólfur kröftugur og vann gott starf. Á námskeiðum, ferðalögum og í félagslífi skólameistara var Ingólfur hrókur alls fagnaðar. Hann söng og sagði góðar sögur og var hinn skemmtilegasti í góðra vina hópi. Þau hjónin, Rannveig og Ingólfur, voru oft með okkur í ferðalögum og voru ævinlega góðir félagar. Í nafni Skólameistarafélags Ís- lands sendi ég Rannveigu og nánum ættingjum og vinum Ingólfs innileg- ar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning um góðan fé- laga. Þorsteinn Þorsteinsson. Ingólfur A. Þorkelsson, fyrrver- andi skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, lést 3. janúar. Tímans elf- ur hrífur án afláts brott með sér einn af öðrum af samferðafólki okkar á ævibrautinni. Með söknuði hljótum við að skiljast við ástvini, félaga og vini og horfa á bak þeim út yfir móð- una miklu og torræðu. Ingólfur fæddist 23. janúar 1925. Hann ólst upp á Seyðisfirði. 15. febrúar 1980 var haldið Sólarkaffi Seyðfirðinga í Reykjavík. Það voru æskufélagarnir Ingólfur A. Þorkelsson, Guðmundur Jónsson og Bryndís Jónsdóttir sem stóðu að þessari samkomu sem tókst mjög vel í alla staði. Síðan þá hafa verið haldnar slíkar samkomur á hverju ári um það leyti sem sól fer aftur að sjást á Seyðisfirði. Seyðfirð- ingafélagið í Reykjavík var stofnað 15. nóvember 1981. Ingólfur var kjörinn formaður félagsins og gegndi hann því embætti þar til 1996. Þessi fyrstu ár félagsins undir stjórn Ingólfs voru afskaplega skemmtileg og má segja að hann hafi drifið hlutina áfram með ótrúlegri bjartsýni undir kjörorðinu „Vilji er allt sem þarf“. Í byrjun árs 1987 var keypt hús á Seyðisfirði, til útleigu fyrir félagsmenn sem vildu heim- sækja átthagana. 7. maí 1987 fóru nokkrir félagar austur. Erindið var leikhúsferð og að skoða húsið sem búið var að kaupa. Ferðin austur tók 16 tíma. En skapið var gott, margt var spjallað og mikið sungið. Síðan var farið á hverju vori austur til að vinna í húsinu. Þetta voru ógleyman- legar ferðir. Ingólfur fræddi okkur um landið og sögu þess á leiðinni. Þegar kom á Jökuldal fór hann á kostum í frásögnum sínum. Hópinn sem fór á hverju vori austur kallaði Ingólfur austurfara. Félagið hefði aldrei orðið það sem það er í dag án Ingólfs. Þegar við vorum á leið austur á Seyðisfjörð til að taka þátt í 100 ára afmæli bæj- arins þá var stoppað í Lóni við minn- ismerki Úlfljóts lögsögumanns. Þar sagði hann okkur frá sögu Úlfljóts og er þetta okkur alveg ógleymanleg stund. Á afmælishátíðinni flutti hann snjalla ræðu fyrir hönd Seyðfirð- ingafélagsins og hóf hann mál sitt á þessum orðum: „Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.“ Ingólfur bar sterkar taugar til Seyðfirðinga- félagsins, hann var máttur þess og stólpi. Það voru forréttindi að fá að kynnast Ingólfi og ganga með hon- um þennan spöl á lífsleiðinni. Ing- ólfur var afskaplega fróður og sagði vel frá og fengum við að njóta þess ríkulega á þessum ferðum okkar og í stjórnarstarfi Seyðfirðingafélagsins. Á 20 ára afmæli félagsins voru Ing- ólfi þökkuð störf hans í þágu þess með því að gera hann að heiðurs- félaga. Ingólfur var drengur góður, skemmtilegur og reyndist okkur sannur vinur. Fyrir hönd Seyðfirð- ingafélagsins í Reykjavík viljum við votta honum virðingu okkar, þakka honum samfylgdina og allar ánægju- stundirnar sem við áttum með hon- um. Einnig vottum við eftirlifandi eiginkonu Ingólfs, Rannveigu Jóns- dóttur, börnum þeirra og aðstand- endum öllum okkar dýpstu samúð og biðjum guð að veita þeim styrk í sorginni. Edda, Finnbogi, Stefanía, Þór, Ásvaldur og Erna. Ingólfur A. Þorkelsson var einn þess framsýna fólks sem stofnaði Félag dönskukennara og var hann kosinn fyrsti formaður þess. Það var mikils virði að fá svo reyndan mann í félagsmálum til þess að leggja þann grunn sem félagið hefur byggt á síðastliðin 36 ár. Félag dönskukennara kveður nú einn af frumkvöðlunum með þakk- læti og sendir fjölskyldu hans inni- legar samúðarkveðjur. Stjórn Félags dönskukennara. Komin er kveðjustund. Góður vin- ur og bekkjarbróðir, Ingólfur Arnar Þorkelsson er látinn. Hann lauk kennaraprófi með okkur 1948 og alla tíð hefur samstaða og tryggð ein- kennt hópinn. Oft var hist, ekki síst síðustu árin, og þau hjónin, Ingólfur og Rannveig, létu sig aldrei vanta. Ingólfur var ágætur námsmaður, samviskusamur og nákvæmur í vinnubrögðum. Að loknu kennara- prófi hélt hann áfram námi og lauk háskólaprófi. Hann hafði ákveðnar skoðanir og hafði gaman af rökræð- um, enda var tekist á um hin ýmsu málefni í bekknum og á málfundum þar sem hann naut sín vel. Í bekkn- um voru margir ágætir söngmenn og mikið sungið. Þar var Ingólfur fremstur meðal jafningja með sína gullfallegu tenórrödd. Hann var mikið snyrtimenni, allt skyldi vera hreint og í röð og reglu. Þegar honum fannst einn bekkjar- bróðirinn hirða lítt um útlit sitt, ekki síst skóna, kenndi hann honum að bursta þá og leit síðan eftir, að það væri gert! Mörgum öðrum svip- myndum bregður fyrir: Ingólfur ým- ist að spauga með eða bölsótast yfir stærðfræðihæfni sinni, Ingólfur að lesa upp hjá Haraldi Björnssyni með miklum tilþrifum o.fl. o.fl. Ingólfur hefur mörg undanfarin ár átt við erfið veikindi að stríða og hef- ur Rannveig staðið eins og klettur við hlið hans. Við söknum okkar góða vinar og sendum Rannveigu, börn- um þeirra og öðrum aðstandendum einlægar samúðarkveðjur. Fyrir hönd bekkjarsystkinanna Þuríður Kristjánsdóttir. Þegar Ingólfur skólameistari setti MK í fyrsta sinn, hinn 22. september 1973, minntist hann á upphaf skóla- halds í Kópavogi sem hófst 1945. Þrátt fyrir skort á þeim tíma byggðu bæjarbúar myndarlegt steinhús um skólann sinn, Kópavogsskóla, af atorku og bjartsýni frumbýlinganna. Menntun var augljóslega efst á for- gangslistanum. Það var öllum ljóst sem hlýddu á fyrstu setningarræðu hins nýja skólameistara að þar fór maður hug- sjóna og fullur krafts og bjartsýni. Verðugur kyndilberi skólahugsjóna frumbýlinganna. Viðfangsefnið var snúið. Hann skyldi byggja upp menntaskóla í sambýli við rótgróinn barnaskóla, afla kennara og taka á móti hópi nemenda sem voru inn- blásnir af uppreisnaranda 68-kyn- slóðarinnar. Og undirbúningstíminn var aðeins tæpir þrír mánuðir. Orðið meistari hefur margræða merkingu. Meistari er kennari, snjall maður, efstur í sínum flokki, yfirmaður. Enginn getur í raun verið meistari nema á afar takmörkuðu sviði. Hinn raunverulegi meistari er sá sem skilur þetta og laðar til sam- starfs hæfileikafólk hvað á sínu sviði og skapar þá liðsheild sem er nauð- synleg til að leysa hvert viðfangefni. Þessa list kunni Ingólfur og því farn- aðist honum vel í starfi skólameist- ara. Stjórnunarstíll Ingólfs byggðist á samræðum fremur en tilskipunum. Við forsvarmenn nemenda fyrstu starfsár skólans vorum virkir þátt- takendur í samræðunum. Þetta voru samræður þar sem málin voru krufin til mergjar og meistarinn leyfði sér að skipta um skoðun ef rök hnigu í þá átt. Samræðan gat reyndar verið svo tímafrek að hún olli áhyggjum vegna fjarverustunda úr tímum vegna funda með skólameistara. Að mati Ingólfs var hver sinnar eigin gæfu smiður. En hann taldi jafnframt að liður í þeirri gæfusmíð væri að hver og einn reyndi að stuðla að sameiginlegum velfarnaði. Ekki hafði hann oftrú á tæknilegum lausn- um en þeim mun meiri trú á mann- gildinu, sem hann vildi að skólinn legði rækt við. Við kveðjum skólameistarann okkar með virðingu og hlýhug og vottum fjölskyldu hans innilega sam- úð. Ásgeir Friðgeirsson, Hafsteinn Karlsson, Kjartan Árnason, Tryggvi Felixson og Tryggvi Þórðarson. Ingólfur Arnar Þorkelsson verður öllum minnisstæður sem honum kynntust. Hár og grannur og fríður sýnum og með þennan fjörlega svip. Það sem mér datt í hug þegar ég sá Ingólf fyrst var að þarna færi áhuga- maður sem gott væri að eiga að liðs- manni og mundi muna um hann í hverri fylkingu þar sem hann tæki sér stöðu. Leiðir okkar lágu saman á þrem sviðum hér áður og er mér einkar ljúft að minnast þess alls. Ég minnist hans frá háskólaárum mín- um þegar hann sat tíma í uppeldis- og kennslufræðum hjá Matthíasi Jónassyni prófessor. Ég hygg að Ingólfur hafi þá verið að ljúka námi sínu í þeim fræðum, en honum nægði ekki gamla kennaraprófið frá Kenn- araskólanum og hafði tekið stúd- entspróf utanskóla frá MR 1954. Hann var á öndverðum meiði við Matthías um atriði, en Matthías sagðist ekki vilja deila við kandidata en Ingólfur hafði þá lokið BA-prófi sínu. En allt var þetta málefnalegt. Ég minnist þess að Ingólfur, Er- lendur Jónsson og Hörður Berg- mann hvöttu okkur sem eilítið yngri vorum til að taka þátt í starfi félags kennara með háskólamenntun sem kenndu í gagnfræðaskólum, en þeir áttu mjög í vök að verjast að fá við- urkennda menntun sína við samn- ingaborðið þar sem félagið þeirra litla hafði engan samningsrétt og þeir urðu að lúta vilja Landssam- bands framhaldsskólakennara. Upp úr þessu varð til Félag háskóla- menntaðra kennara og þar varð Ing- ólfur sannkallaður brimbrjótur í fylkingarbrjósti. Félagið háði harða varnarbaráttu með það meginstef að launa ætti kennara eftir menntun en ekki eftir því á hvaða skólastigi þeir störfuðu. Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar var Ingólfur formaður félagsins og ég sat með honum í stjórn og voru stjórnarfundir haldnir hvern laugardag eftir hádegi annan veturinn. Þetta reyndist skóli í fé- lagsstarfi. Ingólfur mótaði stefnuna með því leggja skýrar línur og hinn áhugasami formaður greip hugi manna svo að allir lögðu sig fram og voru tilbúnir að taka að sér hvert það verk sem þurfti að vinna. Menn skiptust á skoðunum, rökræddu og komust að niðurstöðu. Áður hafði ég kennt með Ingólfi í Vogaskóla og þá kenndi hann líka í Kvennaskólanum. Þar sem ég var að ljúka námi í uppeldis- og kennslu- fræðum benti Matthías Jónasson mér á að sækja kennsluæfingar í sögu til Ingólfs sem eins og hann sagði „beitir mjög fjölbreytilegri kennslutækni“. Það voru orð að sönnu. Ingólfur skipti hverri kennslustund í nokkra þætti og hafði furðumikla nákvæmni á því hve lengi hver þáttur skyldi vera. Nemandinn átti fyrst að gera grein fyrir náms- efninu sem tekið var fyrir í hverjum tíma á sjálfstæðan hátt, átti að segja frá skýrt og skipulega án þess að nokkuð væri togað upp úr honum. Þar næst virkjaði Ingólfur nemend- ur í umræðum um ákveðið efni, reynt var að kryfja til mergjar og fannst mér furðumikið koma út úr því og þarna gæti hafa kviknað varanlegur áhugi á sögu. Þar næst sagði kennari frá einhverju eftirminnilegu atriði tengdu námsefni sem ekki var í kennslubók. Að síðustu tók kennari saman aðalatriði kennslustundar með spurningum til nemenda. Þarna reyndi verulega á kennarann og að feta í þessi fótspor reyndist erfitt, en ég bjó að þessari æfingareynslu alla tíð í kennslu. Þá lágu leiðir okkar Ingólfs saman í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna kringum 1970. Greina mátti að Ingólfur ætlaði sér ekki að verða stjórnmálamaður, en honum ofbauð eins og mörgum staðnað flokkakerfi og hvernig vinstri menn deildust á nokkra flokka meðan hægri menn voru sameinaðir í einum. Það var að vísu enginn barnaleikur á þeim árum að ætla sér að sameina vinstri menn í einum flokki, enda töldum við flest að það væri áratuga verkefni. Þarna var skemmtilegt að vinna með Ing- ólfi, hann var sami glaði áhugasami félaginn og á öðrum vettvangi þar sem leiðir okkar lágu saman. Upp úr þessu varð Ingólfur skóla- meistari hins nýstofnaða mennta- skóla í Kópavogi og áreiðanlega var hann þá kominn á vettvang sem svaraði til metnaðar hans og kapp- semi. Að ryðja nýja braut á því sviði sem hann hafði valið sér. Skólinn hefur blómstrað og hlýtur það að hafa glatt minn gamla samstarfs- mann hversu vel hefur tekist til þar. Gott er að minnast manns eins og Ingólfs Arnars Þorkelssonar. Hann var einn af sáðmönnum samfélags- ins, ræktunarmaður sem hirti ekki um peninga fyrir störf sín heldur hvað greri undan hollri hendi. Elju- maður og glaður félagi í leik og starfi. Ég votta eiginkonu og börnum þeirra Ingólfs mína innilegustu sam- úð. Haukur Sigurðsson.  Fleiri minningargreinar um Ingólf Arnar Þorkelsson bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Jón Kristinn Snæhólm, Sigurjón Ingi Hilaríusson. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, PÉTUR HALLGRÍMSSON Hrafnistu, sem lést á Landspítalanum Fossvogi föstu- daginn 7. janúar, verður jarðsunginn frá Árbæj- arkirkju fimmtudaginn 13. janúar kl. 15.00. Hallgrímur Pétursson, Áslaug Haraldsdóttir, Jörgen Pétursson, Jóhanna Pétursdóttir, Rafn Guðmundsson, Sólborg Pétursdóttir, Sturla Jóhannsson, Kristín Pétursdóttir, Þóroddur Gunnarsson, Soffía Pétursdóttir, Arne Jónsson, Pétur Guðni Pétursson, Anna Soffía Halldórsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir og amma, INGA JÓNASÍNA PÁLMADÓTTIR, Vestursíðu 2A, Akureyri, lést á Landspítala við Hringbraut laugardaginn 8. janúar. Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 14. janúar kl. 13.30. Guðmundur L. Blöndal, Ingólfur Freyr Guðmundsson, Herdís Ívarsdóttir, Sunna Guðmundsdóttir, Hrefna Fönn Guðmundsdóttir, Hlín Guðmundsdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.