Morgunblaðið - 13.09.2005, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. SEPTEMBER 2005 21
MENNING UMRÆÐAN
EKKI er hægt að áfellast þá fyrir
að gleðjast, forsvarsmenn aðskilj-
anlegrar starfsemi, sem eygja að fá
hlutdeild í söluandvirði Símans. Mála-
tilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu
samhengi er hins vegar
ekki geðfelldur. Minnir
á þegar reynt er að
kaupa menn til fylgis
við óvinsælar ákvarð-
anir. Sala Símans var
nefnilega óvinsæl. Fólk
skynjaði að þar væri
ekki búhyggindum fyrir
að fara. Ítrekað kom
fram í skoðanakönn-
unum, að yfirgnæfandi
meirihluti þjóðarinnar
var andvígur sölunni,
þótt Vinstrihreyfingin
grænt framboð væri
eini stjórnmálaflokkurinn sem berðist
gegn einkavæðingunni á öllum stigum
ferlisins.
Þegar þjóðin er hins vegar nú
spurð hvort hún vilji styrkja geðfatl-
aða, eða bæta vegasamgöngur, efla
hag Árnastofnunar eða Landhelg-
isgæslunnar, þá svara menn því al-
mennt að slíkum ráðstöfunum séu
þeir fylgjandi. Þetta segir sig nánast
sjálft. En á þetta reynir ríkisstjórnin
að spila.
Á undanförnum dögum höfum við
orðið vitni að ótrúlegu sjónarspili.
Ríkisstjórnin kemur færandi hendi
með hvern milljarðinn á fætur öðrum
og stærir sig óspart af afrekum sín-
um. Með sölu Símans hefur hún hins
vegar engin afrek unnið, og enn síður
er það afrek að ráðstafa söluandvirð-
inu. Það er eftirleikurinn sem er erf-
iðari. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú,
að frá þjóðinni hefur verið seld mikil
gullkvörn. Hún er seld einu sinni. Síð-
an er það búið spil. Gullkvörnin held-
ur hins vegar áfram að mala en nú
fyrir nýja eigendur.
Síminn er geysilega stöndugt fyr-
irtæki. Í fyrra greiddi fyrirtækið í
skatta um hálfan milljarð króna.
Skatttekjur ríkisins af Símanum
blikna hins vegar þegar
arðgreiðslurnar eru
annars vegar. Síminn
hefur verið gerður upp
með rúmlega tveggja
milljarða kr. hagnaði
undanfarin ár eftir
skatta. Síminn hefur því
skilað miklu í ríkissjóð.
Hann hefur greitt 30%
arð af liðlega 7 milljarða
kr. hlutafé að nafnvirði,
sem gerði t.d. á síðasta
ári 2.110 millj. kr. og af
því fékk ríkið 99%. Á
þessu ári námu arð-
greiðslurnar rúmum sex milljörðum
eða sex þúsund, þrjúhundruð og þrjá-
tíu milljónum króna, allt peningar
sem runnu í ríkissjóð.
En þetta segir ekki alla söguna.
Það segir kannski enn meiri sögu að
Síminn skilaði frá rekstri í fyrra 7.400
millj. kr. tæpum. Rekstrarhagnaður
samstæðunnar fyrir afskriftir voru
nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé
frá rekstri var 6.800 millj. kr.
Þarna er því geysileg fjár-
munamyndun á ferðinni og hrikalegt
til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli
hafa tekið frá þjóðinni slíka gullkú.
En þetta verður svo gott fyrir neyt-
endur er þá svarað á móti. En er það
svo? Ég held að mjög hollt sé að
minna á, að áður en Síminn var gerð-
ur að hlutafélagi á tíunda áratugnum,
voru símtöl hér á landi ódýrari en
nokkurs staðar á byggðu bóli. Lands-
sími Íslands var í fremstu röð síma-
stofnana í heiminum hvað varðar
tækni, þjónustu og verðlagningu.
Þetta er óvefengjanleg staðreynd.
Eins má ætla að símkostnaður eigi
enn eftir að lækka með betri tækni.
Forsenda þeirrar staðhæfingar að
markaðsvæðingin muni koma neyt-
endum til góða er væntanlega sú, að
til staðar sé – eða verði til, samkeppn-
ismarkaður. Er líklegt að svo verði?
Síminn hefur yfirburði og mikið for-
skot fram yfir alla hugsanlega sam-
keppnisaðila. Auðvitað á tíminn eftir
að leiða í ljós hver framvindan verður.
En eins og sakir standa verður ekki
annað séð en að hér stefni í einokun, í
besta falli fákeppni.
Ég efast um að nokkur maður trúi
því að kaupendur Símans séu í góð-
gerðarstarfsemi; þeir hafi einfaldlega
ekkert haft við 66,7 milljaðra að gera
og hafi viljað setja þá í uppbyggingu í
þágu samfélagsins? Nei, þeir ætla að
græða á Símanum. Auðvitað ætla þeir
að ná hverri einustu krónu til baka frá
notendum þjónustunnar og gott bet-
ur. Við munum borga brúsann, 66,7
milljarða auk arðs að lágmarki 15 til
25% ofan í vasa hinna nýju eigenda.
Þetta eru vangaveltur, sem ekki
eiga upp á pallborðið hjá ríkisstjórn-
inni. Ég vona hins vegar, að kjós-
endur sjái í gegnum málatilbúnað
hennar. Við eigum nefnilega ekki að
láta ríkisstjórnir komast upp með að
kaupa sér vinsældir á fölskum for-
sendum.
Ríkisstjórnin reynir að
kaupa sér vinsældir
Ögmundur Jónasson
fjallar um sölu Símans ’Ég efast um að nokkurmaður trúi því að kaup-
endur Símans séu í góð-
gerðarstarfsemi …‘
Ögmundur Jónasson
Höfundur er þingflokksformaður VG.
DAVÍÐ Oddsson
hefur ákveðið að taka
pokann sinn og koma
sér yfir í Seðlabanka.
Þar með er einu blóm-
inu færra í flóru ís-
lenskra stjórnmála –
og það sem verra er –
eitt af fáum síblómstr-
andi blómum í þeim
garði er að fara í annan
garð. Vonandi heldur
það áfram að blómstra
þar, en því miður er lít-
ið eftir annað en arfi
eftir á akri stjórnmál-
anna. Það má finna einstaka bláfjólu
hér og þar, jafnvel einmana sóley og
fífil í túni, en afgangurinn er biðu-
kollur. Flest það sem frá þeim kem-
ur fýkur inn um anað eyrað og út um
hitt.
Ég hef stutt Sjálfstæðisflokkinn,
þótt ég hafi stundum verið óþægur
háseti. En ég skal viðurkenna það,
að ég hef áhyggjur af framgangi
flokksins eftir að Davíð er farinn frá
borði. Sérstaklega á þetta við um
mitt kjördæmi, sem nú nær allt frá
Siglufirði austur um til Djúpavogs.
Sú var tíðin, að sjálfstæðismenn
áttu fyrsta þingmann í Norðurlands-
kjördæmi eystra, en fylgið hrundi í
síðustu kosningum.
Fyrir vikið lét Davíð Tómas Inga
taka pokann sinn og sigla til Parísar
og nú er Halldór Blöndal að láta af
embætti forseta Alþingis. Sjálfstæð-
ismenn á Norðurlandi eru sem sé ut-
an valdastóla. Eins og berrassaður
her.
Til þessara ófara liggja ýmsar
ástæður, en þyngst vegur letin og
metnaðarleysið fyrir síðustu kosn-
ingar. Stjórnendur kjördæmisráðs
nenntu ekki að standa í því streði, að
efna til prófkórs. Þess í stað var stillt
upp lista. Það eina sem
var haft að leiðarljósi
við þá uppstillingu var
að hafa alla góða; einn
að norðan, annan að
austan og svo fram-
vegis. Það var minna
horft á hvort þetta
væri hæfur mann-
skapur, sem kæmi til
með að ná til kjósenda
og vinna síðan stóra
sigra á Alþingi. Af
þessu súpa sjálfstæð-
ismenn í Norðaust-
urkjördæmi seiðið. Það
er enginn fulltrúi þeirra á þingi, sem
gat gert tilkall til ráðherrastóls þeg-
ar Davíð hrókeraði í ráðherraliðinu
um leið að hann ákvað að hætta.
En það dugir ekki að gráta Björn
bónda. Nú verða sjálfstæðismenn í
Norðausturkjördæmi að bretta upp
ermar, undirbúa prófkjör fyrir
næstu kosningar og leita uppi sterka
einstaklinga til að taka þátt í slagn-
um. Það má ekki ráða úrslitum við
röðun á listann, hvort maðurinn er
að norðan eða austan, eða hvort
hann er karl eða kona. Við þurfum
sterkustu einstaklingana sem völ er
á. Ekki veitir nú af. Hvergi er meira
atvinnuleysi en á Norðurlandi
eystra. Þrátt fyrir meinta hagsæld
og húsbyggingar á Akureyri, þá
vantar kjölfestuna í skipið, eitthvað
öflugt sem eykur atvinnu og hag-
sæld til lengri tíma. Við þurfum að
byrja á jarðgöngum um Vaðlaheiði
og stóriðju á Húsavík. Þá kemur hitt
af sjálfu sér. Tuðið í Steingrími Sig-
fússyni og hans líkum, um „eitthvað
annað“, er eins og jarm út úr kú. Það
skapar ekki hagsæld.
En fyrst af öllu þarf að finna
vaska menn og konur á lista okkar
sjálfstæðismanna í Norðaust-
urkjördæmi. Við höfum oftar en ekki
átt ráðherra í brúnni þegar flokk-
urinn hefur stýrt þjóðarskútunni, en
nú má þakka fyrir ef þeir fá að vera
niðri í lest að ausa. Það gengur ekki.
Sterka einstaklinga
í prófkjör
Sverrir Leósson fjallar um
breytingar í pólitísku landslagi ’En fyrst af öllu þarf aðfinna vaska menn og
konur á lista okkar sjálf-
stæðismanna í Norð-
austurkjördæmi.‘
Sverrir Leósson
Höfundur er útgerðarmaður.
ERLING T.V. Klingenberg og Olga
Bergmann myndlistarmenn taka um
þessar mundir þátt í sýningunni
Site-actions í Model and Niland Gall-
ery í Sligo á Írlandi. Sýningin ber
heitið Site-actions og er fyrsti hluti
alþjóðlegs verkefnis, Sense in place,
sem fer fram á Írlandi, Lettlandi,
Spáni, Wales, Póllandi og á Íslandi í
ár og á næsta ári. Ólíkir listamenn
taka þátt í sýningunni í hverju landi
og munu fleiri íslenskir listamenn
taka þátt í verkefninu á komandi
mánuðum.
Verk Olgu á sýningunni í Sligo
nefnist Field Studies, en Erling sýn-
ir verkið Reserved for Erling T.V.
Klingenberg. Verk Erlings fékk þó
ekki að standa óbreytt lengi eftir að
sýningin var opnuð hinn 18. ágúst
síðastliðinn, heldur ákvað stjórn
safnsins að láta fjarlægja hluta af því
nokkrum dögum síðar þar sem það
þótti ógna almannaöryggi. „Írland í
dag er orðið uppfullt af ýmsum ör-
yggissjónarmiðum, og margir telja
að það sé komið út í öfgar. Að mínu
mati er það mjög óírskt, gæti frekað
trúað þessu upp á Ameríkana,“ segir
Erling í samtali við Morgunblaðið.
Ásamt sýningarstjóranum, Anna
Macloed, lenti hann í nokkrum deil-
um við safnið vegna verks síns.
Bíll kraminn af steini
Verk Erlings fólst í því að láta
fimm tonna stein falla á sendibíl sem
staðsettur var fyrir utan safnið, en
hann hafði verið fylltur af listaverk-
um í boxum eða svokölluðum crates,
málverkum og ljósmyndum, og öllu
verið pakkað í kúluplast. Smám sam-
an vann steinninn á bílnum og verkin
sem hefðu átt að vera sýnd í safninu
voru því föst í sendibílnum. Einn
kassi hafði það þó inn í safnið, en
hann samanstendur af brotnum
flutningakassa med brotnum skúlpt-
úr – ónýtu listaverki sem sagt – og út
úr kassanum stígur reykur sem fyll-
ir hið frátekna sýningarrými þoku-
kenndri stemningu. Annað í rýminu
voru tómir veggir og stöplar með
bréfum með haus frá safninu þar
sem á var skrifað „Reserved for
Erling T.V. Klingenberg“.
Stjórn safnsins taldi víst að bíllinn
og steinninn gætu ógnað almanna-
öryggi og fyrirskipaði að þeir yrðu
umsvifalaust fjarlægðir. Hinn fimm
tonna steinn gæti til að mynda oltið
niður brekku, eða óþjóðalýður
kveikt í brotnum timburkössunum.
„Ég reyndi að benda á að bara ruslið
á bakvið safnið væri líka efniviður í
brennu og girðingin í kring væri líka
stóhættuleg, en ekkert gekk,“ segir
Erling.
Þegar stjórn safnsins ákvað að bíl-
inn og steininn yrði að fjarlægja –
þrátt fyrir útreikninga verkfræð-
ings, sem þó vildi ekki ábyrgjast
neitt, og boð Erlings um að setja ör-
yggisgirðingu þar í kring – brá
Erling á það ráð að setja í staðinn
mynd af bílnum og bréf frá stjórn
safnsins þar við hliðina, auk þess
sem hlutirnir inni í safninu haldast í
óbreyttri mynd. Erling segist ekki
telja að verk hans hafi ógnað al-
mannaöryggi. „Auðvitað veit maður
aldrei, en mér finnst það ólíklegt og
það fannst fleirum. Það er bara svo
margt sem getur gerst hvort sem
er,“ segir hann.
Ekki ósáttur en hissa
Þessi örlög verks Erlings hafa þó
ekki orðið til þess að fáir hafi séð það
og kynnt sér, heldur þvert á móti
vakið mikla athygli í bænum og þar
með aukið aðsókn að sýningunni.
„Það virðist hafa orðið eins konar
monumental, þar sem alls konar fólk
hefur komið og látið mynda sig við
sendibílinn, og sá almenningur sem
ekki sækir safnið að staðaldri hefur
komið út af þessum forvitnilega hlut
sem stendur þar fyrir utan,“ segir
Erling. „Einnig eru írsk og ensk
tímarit að skrifa um verkið og telja
menn að það eigi eftir að skapa mikl-
ar umræður ytra.“
Verkið hefur því tekið á sig
óvænta mynd, að hans eigin mati.
„Það voru líka aðrar tengingar í
þessu máli sem ég vissi ekki um fyrr
en í umræðu við fólk, t.d. að hinum
svokölluðu nomads eða travellers,
sem eru þarna í Sligo og víðar og eru
mjög óvinsælir, er haldið frá mögu-
legum „parking“-stöðum með því að
setja stór grjót þar sem þeir gætu
lagt húsbílum sínum.“ Önnur sér-
kennileg tilviljun varð í málinu; dag-
inn sem Erling lét steininn falla á
sendibílinn keyrði drukkinn öku-
maður á skúlptúr af þjóðskáldi Íra,
W.B. Yeats, og brotnaði hún við það í
þrennt.
Erling segist þegar allt kemur til
alls ekki ósáttur við þá stefnu sem
verk hans á sýningunni Site-actions
tók. „Það væri ekki rétta orðið –
hissa væri nær. Mér finnst þetta
hálfkjánalegt viðhorf engu að síður,
þó ég hafi gert mitt besta til að vinna
með stöðuna og brosa að henni,“
sagði Erling að lokum.
Síðasta sýningin á Site-actions
verður opnuð í Viðey í Reykjavík
vorið 2006. Þar taka þátt 8 listamenn
frá ofangreindum þjóðum en alls eru
um 50 listamenn þátttakendur í
verkefninu í heild. Íslensku lista-
mennirnir eru átta talsins og taka
þátt í sýningum í sex löndum. Auk
Olgu og Erlings eru það Ásmundur
Ásmundsson og Margrét Blöndal
sem sýna í Lodz í Póllandi í október í
haust, en Kristinn E. Hrafnsson
sýnir þá í Cardiff í Wales. Þau Hekla
Dögg Jónsdóttir og Guðjón Ket-
ilsson setja upp verk sín í Zaragossa
á Spáni í maí 2006 og Valgerður
Guðlaugsdóttir sýnir í Riga í Lett-
landi á sama tíma.
Myndlist | Verk eftir Erling T.V.
Klingenberg fjarlægt á Írlandi
Bílinn og steininn, sem eru hluti af verki Erlings T.V. Klingenberg, þurfti
að fjarlægja af sýningunni á Írlandi vegna öryggisráðstafana.
Öryggisráðstafanir
komnar út í öfgar
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is