Morgunblaðið - 02.10.2005, Qupperneq 18
18 SUNNUDAGUR 2. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
sveitinni í styttri eða lengri tíma en
Möggu Stínu vefst tunga um tönn
þegar hún er innt eftir því hvar hún
hafi sótt þessa kappa. „Ég veit það
ekki, ég held að Guð hafi bara sent
þá til mín,“ segir hún brosandi.
„Guðni, Addi og Pétur voru í
Funkstrasse og í Bikarmeisturunum
vorum við bara eins og fjölskylda.
Þarna fékk hópsálin næringu í öllu
tilliti því þessir piltar eru svo lífs-
glaðir og flinkir og hjálpsamir og
góðir og skemmtilegir og fyndnir og
allt og voru mér bara á allan hátt
svo mikils virði.“
Með „sitthvorn hárlitinn“ á hjólinu
Ég hnýt um orðið „lífsglaðir“ og
velti því fyrir mér hversu miklu máli
lífsgleðin skipti Möggu Stínu? „Mér
finnst hún skipta svona næstum því
öllu máli,“ svarar hún að bragði.
„Eiginlega finnst mér ekkert fárán-
legt við lífsgleði. Fyrir mig er hún
mest fullnægjandi af öllu. Það hefur
samt einhvern veginn farið inn og út
úr tísku að vera lífsglaður.“ Hún
segir það gilda um sig. „Lífsgleðin
hefur ekkert alltaf verið í tísku hjá
mér. Líklega er ég svolítil öfga-
manneskja í báðar áttir. Það hafa
verið dýfur í mínu lífi eins og allra
annarra og ég hugsa að ég taki þær
alveg djúpar en ég er þá ekkert að
trufla mjög margt annað fólk með
þeim. Þetta er tvöfalt lag með ljósri
og dökkri hlið en þá reynir maður að
blússa annarri upp og hinni niður.
Þegar þær eru svona öfgafullar í
báðar áttir metur maður þessa ljósu
alveg rosalega mikils og alltaf meira
og meira. Og ég veit ekki hvernig
það endar – ég verð kannski komin
á einhjól þegar ég verð 85?“
Lífsgleðin endurspeglast ekki síst
í klæðaburði Möggu Stínu, sem er af
litríkara taginu. „Ég klæði mig eig-
inlega í föt sem ég sé auðveldlega,
miðað við önnur föt. Ég á svo erfitt
með að greina grátt frá svörtu yfir í
grátt yfir í brúnt yfir í föl-
grænt … en finnst mjög þægilegt að
sjá þetta bleika og hvíta. Líklega er
ég bara svona litadellukona.“ Hún
segir fólk vafalaust hafa skoðanir á
fatavali hennar. „Sumum finnst
þetta örugglega alveg ömurlega
hallærislegt og ég minni örugglega
á Barböru Cartland. Hún var svona
bleik kona. Bleiki liturinn er synd-
róm sem ekki er auðvelt að komast
út úr aftur þegar maður er einu
sinni kominn inn í það. Ég á líka
mömmu sem vakti athygli fyrir lita-
dýrð og fatasmekk þó ég tæki aldrei
beinlínis eftir því. Ég tók meira eftir
því að aðrir tóku eftir því hvernig
hún var klædd. Þegar ég var lítil
man ég eftir því að krakkarnir voru
að spyrja mig: „Átt þú mömmuna
sem er alltaf með sitthvorn hárlitinn
á hjólinu?“.“
Ég verð eins og spurningarmerki
í framan og Magga Stína útskýrir
betur. „Mamma var stundum að lita
á sér hárið, kannski ofsalega rautt
eða dökkt eða bara einhvern veginn.
Svo var hún þar að auki á hjóli, jafn-
vel ólétt. Ég get bara þakkað fyrir
að ég hef aldrei þurft að spekúlera í
því hvort ég sé einhvern veginn
klædd. Ég hef heldur aldrei getað
ímyndað mér að einhver geti haft
skoðun á því hvernig maður ætti að
vera klæddur. Þá er maður kominn
yfir heilög sakramenti ef fólk ræður
því ekki því hvernig það lítur út.“
Á vídeómynd hjá
mörgum tengdamömmum
Á tónlistarferlinum var skammt
stórra högga á milli hjá Möggu
Stínu eftir að sólóplatan var komin
út. Ári seinna gaf sýrupolkahljóm-
sveitin Hringir, eða Hr. Ingi R eins
og hið kórrétta nafn er, út geisla-
plötu með Möggu Stínu í farar-
broddi. Aðalsmerki hljómsveitarinn-
ar er endurflutningur á gömlum
dægurflugum. „Polkahljómsveitin
Hringir var til. Einhvern tímann var
ég stödd dansandi á balli með þeim
og þá spurðu þeir mig af hverju ég
syngi ekki alltaf með þeim. Ég skildi
auðvitað ekkert í því og fór strax að
syngja með þeim. Þetta var allt
mjög eðlilegt. Við gerðum plötu og
erum stöðugt að spila í brúðkaupum
og afmælisveislum. Ég hugsa að við
hættum aldrei.“
Þó að sex ár séu liðin frá því að
hljómsveitin gaf út þessa plötu segir
Magga Stína ekki loku fyrir það
skotið að þær verði fleiri. „Við erum
örugglega alveg á leiðinni að gera
fleiri plötur. Það hefur líka bæst svo
rosalega mikið við prógrammið hjá
okkur – við kunnum svona 200 lög
og sum þeirra finnst okkur vera far-
in að vera dálítið mikið okkar. Við
dokumenterum að vísu aldrei neitt
sem við gerum en það eru örugglega
margar tengdamæður og -feður sem
eiga alls konar ljósmyndir og víd-
eómyndir af okkur. Okkur finnst
eiginlega löngu kominn tími til að
festa aðeins niður á band það sem
við höfum verið að gera og ég verð
bara að nota tækifærið núna og aug-
lýsi sem sagt hér með eftir vídeó-
myndum af hljómsveitinni Hringj-
um úr afmælum og brúðkaupum.“
Erfiðara að skilja fullorðið
fólk en lítið fólk
Verkefni Möggu Stínu í gegnum
tíðina einskorðast ekki við hljóm-
sveitarbrölt og plötuútgáfu. Meðal
annars vakti athygli árið 2000 þegar
hún tróð upp með hópi barnungra
fiðluleikara sem lék tónlist sem hún
sérsamdi fyrir tilefnið. „Það var al-
veg dásamlegt,“ segir hún þegar
þetta er rifjað upp. „Ég held að
þetta hafi verið í samstarfi borg-
arinnar og Tilraunaeldhússins, en sá
hópur hefur verið með alls konar
listastarfsemi. Þetta áttu að vera
uppákomur einu sinni í viku þar sem
tveir ólíkir listamenn áttu að leiða
saman hesta sína og ég var beðin,
eins og allir hinir listamennirnir, um
að finna mér listamann að vinna
með. Ég hafði lengi gengið með þá
hugmynd í maganum að semja lög
og fá börn til að spila þau. Það er
allt annar hljómur sem kemur frá
barni sem spilar á fiðlu en fullorð-
inni manneskju, vegna þroska og
kunnáttu. Ég hef alltaf verið mjög
veik fyrir þessum fallega, „flata“, ví-
bratólausa tóni, sem er allur fluttur
einhvern veginn á viljanum og opinn
upp á gátt. Ég er ekki alveg ennþá
búin að útskrifa þessa hugmynd því
ég myndi gjarnan vilja gera hana í
miklu stærra samhengi með miklu
fleiri börnum.“
Hún hefur líka sungið barnalög
inn á hinar og þessar hljómplötur og
aðspurð segist hún vera mikil
barnakerling. „Kannski vegna þess
að ég er svo seinþroska.“ – Eru þau
þá jafningjar þínir? spyr ég og þyk-
ist vera sniðug en Magga Stína
tekst öll á loft: „Já, það er ekkert út
í hött að segja það. Mér finnst oft
erfiðara að skilja fullorðið fólk en lít-
ið fólk. Það er ekki óalgengt að full-
orðið fólk hafi beyglað einhverja
hluti hjá sér í gegnum tíðina því
maður þarf að vera svo mikill póli-
tíkus til að komast af í samfélagi
fullorðinna. Ég held að ég sé ekki að
bulla ef ég segi það. Sem fullorðin
manneskja stendur maður kannski í
þeirri trú að maður þurfi að loka á
einhverja þætti í sjálfum sér, sem
maður hafði jafnvel opna upp á gátt
sem barn. Þetta eru þættir sem eru
hverjum og einum mikilvægir, en
umhverfið virðist á einhvern furðu-
legan hátt gefa þau skilaboð að
þessir þættir séu ekki hentugir ætli
maður sér að komast vel af sem full-
orðin manneskja. Þá komum við
sem sagt aftur að því hvað ég er ein-
föld sál því mér finnst þessi sam-
skipti fullorðinna oft svo flókin. Auð-
vitað er ekkert hægt að alhæfa um
svona hluti en börn eru yfirleitt
mjög hreinskilin, kalla mann kell-
ingu ef þeim finnst maður vera kell-
ing … já, segja það sem þau meina.“
Sjálf á Magga Stína þrjú börn, Sal-
vöru Gullbrá sem er 13 ára, Vöku
sem er fimm og Kolbein Orfeus sem
er eins og hálfs árs sonur hennar og
sambýlismannsins Eiríks Guð-
mundssonar, bóka- og útvarps-
manns með meiru.
Inn og út á börum
Þau eru ófá járnin sem Magga
Stína hefur í eldinum og þegar ég
spyr hvaðan hún sækir sér orku
stendur ekki á svari: „Sund einu
sinni á dag,“ segir hún, „það er al-
veg fundamental, sérstaklega fyrir
toppstykkið. Ég hef örugglega farið
daglega í sund í tuttugu ár en tók
reyndar svolítið hlé eftir að sonur
minn fæddist og eftir það hefur það
verið svolítið óreglulegt. En annars
alltaf einu sinni á sólarhring. Ég get
alveg hugsað mér að vaka 23 tíma á
sólarhring, vinna sjö vinnur, þvo
þvott og allt, bara ef ég kemst í mitt
sund.“
Því fer ekki fjarri að ofangreind
lýsing eigi við í Möggu Stínu tilfelli,
því fyrir utan spilamennskuna
stundar hún vinnu á a.m.k. þremur
stöðum. Hún hefur verið bókavörð-
ur á Borgarbókasafninu um nokkurt
skeið og sömuleiðis útvarpskona hjá
Talstöðinni og nýlega bættist þátta-
gerð hjá Ríkissjónvarpinu við.
„Þetta var það síðasta sem mér
hefði dottið í hug – að ég væri sjón-
varpskona,“ segir hún með áherslu.
„En svo kemur annað á daginn. Það
hringdi í mig ungur, almennilegur
maður frá Sjónvarpinu og spurði
hvort ég vildi taka þetta að mér og
ég hélt að hann væri að djóka. Að
þetta væri falin myndavél eða eitt-
hvað.“
Manninum var full alvara og af-
raksturinn sjá landsmenn á laugar-
dagskvöldum þegar Magga Stína
tekur á móti hljómsveitum eða tón-
listarmönnum í sjónvarpssal.
Reyndar er þátturinn tekinn upp
fyrirfram, sem Magga Stína segist
vera afar þakklát fyrir. „Annars
hefði ekki verið möguleiki á neinu
öðru en að bera mig inn og út á bör-
um út af stressi, þetta er alveg rosa-
legt fyrir taugarnar,“ segir hún með
áherslu. „Sem betur fer er þetta líka
gaman,“ bætir hún við, „sérstaklega
þessi nærvera við hljómsveitirnar.
Það er eitthvað sem ég þekki vel.“
Hún segir sjónvarpsvinnuna tals-
vert ólíka því sem hún hefur átt að
kynnast úr útvarpinu í gegnum tíð-
ina. „Útvarp er svo miklu opnara og
gefur á dularfullan hátt einhvern
veginn miklu meiri möguleika. Um
leið og þú ert orðinn sjáanlegur tak-
markarðu svo margt annað í leið-
inni.“
Hún segir búið að ákveða að gera
14 þætti til að byrja með. „Svo velt-
ur það á margra manna ákvarðana-
töku hvort hann heldur áfram eða
hvort hann hættir. Mér finnst
reyndar að svona þáttur eigi alltaf
að vera í gangi, sérstaklega hjá Rík-
issjónvarpinu, burtséð frá því hvort
ég er í honum eða ekki. Þarna er
verið að dokumentera ákveðinn af-
kima í menningunni sem er mjög
nauðsynlegt og frábær hugmynd.“
Fyrsti efinn í gegnum Megas
Það er farið að líða á seinni hluta
viðtalsins. Ég get þó ekki annað en
spurt um framtíðaráformin á tón-
listarsviðinu áður en við tæmum úr
kaffibollunum. „Það er kannski
hættulegt að segja nokkuð því mað-
ur veit aldrei hvort hlutirnir muni
gerast áður en þeir gerast,“ segir
Magga Stína. „En ég er allavega
með hugmynd sem ég er byrjuð að
vinna að og ég er búin að hringja í
nógu marga til að trúa því að hún
verði að veruleika. Hún er að gera
plötu með lögum eftir Megas.“ Í ljós
kemur að tenging Möggu Stínu við
Megas á rætur að rekja til barn-
æsku. „Ég er búin að þekkja Megas
síðan ég var fimm,“ segir hún.
„Hann er gamall vinur foreldra
minna og ég á nokkrar andaktugar
minningar um hann inni í stofu með
gítar. Ég hlustaði á tónlistina hans
alla mína barnæsku og þegar ég var
unglingur á menntaskólaárunum og
hann er gott dæmi um áhrifavald,
eins og ég lýsti áðan. Ég tengist
honum því á margan og margslung-
inn hátt. Fyrsti efinn varð í gegnum
lagið hans, Minni Ingólfs. Ég hef
verið ótrúlega ung þegar ég upp-
götvaði að það hefði kannski verið
möguleiki og jafnvel sniðugt ef Ing-
ólfur hefði siglt framhjá. Þetta var á
vissan hátt rosalega stórt breik í
hugarheiminum hjá mér því þá
hætti heimurinn að vera absalútt –
þetta var fyrsta beyglan hjá mér.“
Hún hlær þegar hún rifjar þetta
upp. „Ég get ekki sagt annað en að
ég sé mjög þakklát fyrir þau þörfu
skilaboð sem Megas hefur sent
heiminum.“
Og það er sitt hvað fleira á prjón-
unum hjá Möggu Stínu. „Hausinn á
mér er fullur af alls kyns hugmynd-
um sem mér finnst að ég verði að
koma í framkvæmd. En það eru
bara 24 tímar í sólarhringnum þann-
ig að það gerist bara sem gerist. Að-
alatriðið er að þvinga það ekki
fram.“
Morgunblaðið/Árni Torfason
„Sjónvarpsvinnan er ákaflega þung í vöfum miðað við annað sem ég hef kynnst. Það er svo mikið af fólki og dýrar vélar
og mikið batterí og ákvarðanatökur og fundir og það þurfa mjög margir að vera sáttir um eina ákvörðun áður en hún er
tekin. En fólkið sem vinnur með mér er rosalega fínt og ég treysti því til að gera mjög fallegan þátt.“
’… ég minni örugg-lega á Barböru
Cartland. Hún var
svona bleik kona.‘
Morgunblaðið/Árni Torfason
„Að láta einhvern mála sig er alveg nýtt fyrir mér. Hingað til hef ég hraðsnyrt mig í bílum á leiðinni á tónleika og vonað að
það sé í lagi. Það er líka sérstök kona sem er tilbúin að hjálpa mér í kjólinn. Það finnst mér alveg stórmerkilegt.“
ben@mbl.is