Morgunblaðið - 20.11.2005, Side 60
60 SUNNUDAGUR 20. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
BOSSA nova-diskur Óskars Guðna-
sonar freistaði ómótstæðilega til
drýldinnar sjálfstilvitnunar úr ný-
legri konsertumfjöllun þar sem þeir
Óskar og Ómar Guðjónssynir voru
einnig meðal flytjenda: „Einföld en
snjöll melódía er trúlega meðal blaut-
ustu sápustykkja sem skapandi hug-
ur fær höndlað.“ Að vísu ekki af því
að mér fannst notalega ljúfsár lögin
hans endilega stórsnjöll. En sum
hefðu getað ratað langleiðina þangað
– einkum með ofurlítið meiri úr-
vinnslu. Það gerðist nefnilega hvað
eftir annað við nánari hlustun að
maður beið aðeins herzlumunarins í
lagagerðinnni – örlítillar snilldar-
hrukku í lag-, hljóma- eða hrynferli
hér, „hárrétts“ miðkafla þar, eða seið-
andi samröddunar – sem aldrei kom.
Sum lögin virtust beinlínis æpa á
söng, og hefðu örugglega gert sig enn
betur í t.a.m. sætferskri meðferð
Ragnheiðar Gröndal við hæfilega
hugfengan söngtexta. Hefði það ugg-
laust aukið á æskilega fjölbreytni, því
þrátt fyrir afbragðsleik þeirra
bræðra á dúnmjúkan tenórsax og
dillandi djassgítar eru tvö sóló-
hljóðfæri með fæsta móti í ellefu með-
alhægum lögum. Eiginlega má undr-
um sæta að hvergi skyldi skipt yfir á
aðrar saxófónstærðir, jafnvel á flautu
– eða frá raf- yfir á kassagítar – í þó
ekki væri nema 2–3 tilvikum. Og þótt
sumir kunni að malda í móinn að
djass sé fyrst og fremst spuni, þá hef-
ur það jafnan gilt um beztu lögin, að
fyrst þurfa þau að gera sig á eigin
spýtur áður en djassöldungar taka
þau upp á sína arma og bragðbæta
fyrir sígræna ævi á ódáinsökrum elli-
smella.
Upplagðir kandídatar þess arna
voru vaggandi bossan On a plane to
Brasil [sic], útvíkkaði upp-tempó-
blúsinn Blazing midnight sun (þótt
vantaði miðkafla) og hin ögn enda-
sleppa White river bossa. Fleiri kom-
ust svo sem nærri sama marki, þó að
síðustu lögin verkuðu einna þynnst í
samanburði – einkum We look star
together [sic] sem var nánast bara
nakin hljómaröð. Og vitanlega sakaði
ekki heldur hlýleg handfjötlun efst-
greindra valinmenna auk fyrrtalinna
bræðra, þar sem Jóhann Ásmunds-
son dúðaði lögin syngjandi rafbassa-
voðum og Flísartrymbillinn Helgi
Helgason stikaði út laufléttan latn-
eskan hryngrunn í fyrirmyndargóðu
samvægi við heildina.
Sem sagt hinn áheyrilegasti diskur
– og Óskari Guðnasyni hvatning til
frekari (og vonandi aðeins útfærðari)
dáða.
Bossaköstin
blíðu
Ríkarður Ö. Pálsson
TÓNLIST
Hljómdiskur
Bossa Nova – Hot Spring. 11 lög eftir
Óskar Guðnason. Hljómsveitin Bakland
(Óskar Guðjónsson sax, Ómar Guð-
jónsson gítar, Jóhann Ásmundsson bassi,
Helgi Sv. Helgason trommur/slagverk).
Rhodes-píanó: Þórir Úlfarsson. Hljóðritað
í Stúdíói Magnúsar Kjartanssonar.
Lengd: 41:39. Útgáfa og dreifing: Óskar
Guðnason. ÓG 007, 2005.
Óskar Guðnason –
Bossa Nova – Hot Spring
DAGANA 17. til 20. nóvember hafa
staðið yfir hönnunardagar í
Reykjavík. Að því tilefni blása þrír
hönnuðir til sýningar á Hótel Borg
í dag klukkan 15.
Fatahönnuðirnir Ásta Guð-
mundsóttir og Ragna Fróða og
skartgripahönnuðurinn Guðbjörg
Kr. Ingvarsdóttir sýna þar fatnað
og skart úr eigin smiðju. Þær hafa
fengið til liðs við sig úrval af fag-
fólki á öllum sviðum til að gera
sýninguna sem glæsilegasta. Stílisti
sýningarinnar er Margrét Ein-
arsdóttir, hárgreiðsla er í höndum
starfsfólks Rauðhettu og úlfsins,
um förðun sér Fríða María Harð-
ardóttir og framkvæmdastjórn sýn-
ingarinnar er í höndum Dísu And-
ermann.
Auk tískusýningarinnar verður
boðið upp á lifandi klassíska tónlist
af íslenskum kven-blásarakvintett
og sérhannaðri blandaðri tónlist frá
listamanninum Barða. Kynnir verð-
ur leikkonan Brynhildur Guðjóns-
dóttir.
Tíska | Hönnunardagar í Reykjavík
Þrír hönnuðir
sýna á Borginni
Morgunblaðið/Golli
Ragna Fróða er ein þriggja
hönnuða sem sýna á Hótel Borg
í dag en fatnaðurinn hér að ofan
er úr smiðju hennar.
Morgunblaðið/Sverrir
Ásta Guðmundsdóttir tekur þátt í hönnunardögunum.