Fréttablaðið - 25.09.2008, Blaðsíða 24
25. september 2008 FIMMTUDAGUR
UMRÆÐAN
Kristján Möller skrifar um umferðar-
öryggi
Í sumar hefur umferðin í landinu gengið þokkalega vel og tölur um slys og
óhöpp sýna að þróunin er í rétta átt: þeim
fækkar í heildina. Séu tölur skoðaðar
nánar, til dæmis frá lögreglunni á
höfuðborgarsvæðinu má þó greina að
óhöppum í tengslum við ölvunarakstur og
fíkniefnaneyslu hefur fjölgað og er það
áhyggjuefni.
Umferðaröryggisáætlun er hluti samgöngu-
áætlunar og gildir hún til ársins 2010. Markmið
stjórnvalda með henni er að fækka slysum og
fjölda slasaðra og látinna. Verkefnin beinast að
ökumönnum og hegðan þeirra með til dæmis
auknu hraðaeftirliti, þau snúast um fræðslu, gerð
öruggari vega og umhverfis þeirra svo nokkuð sé
nefnt. Hátt í 500 milljónum króna er varið til
verkefnanna í ár og kringum 450 milljónum á ári
næstu tvö árin.
Auknir fjármunir skila árangri
Fjármunir frá umferðaröryggisáætlun hafa meðal
annars verið notaðir til að útvega lögreglunni
ratsjártæki með myndavélum í lögreglubíla og
lögreglubifhjól og lögregluembætti víða um land
hafa fengið sérstaka fjárveitingu til aukins
eftirlits. Þá hafa verið keyptar hraðamyndavélar
sem settar hafa verið upp á nokkrum stöðum á
þjóðvegum og fleiri eru á leiðinni. Allt þetta
skilar sér í færri slysum og lækkandi ökuhraða.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á
höfuðborgarsvæðinu hefur skráðum umferðar-
slysum fækkað um 37% fyrstu sjö mánuði ársins
miðað við sama tímabil í fyrra. Fækkunin
er 24% milli júní og júlí á þessu ári. Þarna
erum við að tala um tugi slysa. Kærum
vegna umferðarlagabrota hefur að sama
skapi fækkað eða um 26% fyrstu sjö
mánuðina.
Þetta er ánægjuleg þróun og við þurfum
að halda áfram á þessari braut, ekki bara á
höfuðborgarsvæðinu heldur um landið
allt.
Það er líka athyglisvert að skoða tölur
um látna í umferðinni á Íslandi miðað við
ekna kílómetra síðustu áratugina. Á
árunum 1975 til 1980 var fjöldi látinna á hverja
milljón ekinna kílómetra á bilinu 25 til 40. Árin
1980 til 2000 fór þessi tala jafnt og þétt lækkandi
úr kringum 25 í 10. Allra síðustu árin hefur þessi
tala enn lækkað, verið milli 5 og 10. Hún var á
síðasta ári 5 en eftir slysaárið slæma 2006 létust
10 miðað við milljón km akstur.
Banaslys í hlutfalli við ekna kílómetra er
áreiðanlegur mælikvarði til samanburðar við
nágrannalönd og tölur þaðan eru svipaðar
þessum. Ég er sannfærður um að við erum á
réttri leið og má bæði þakka það ábyrgð öku-
manna og aðhaldi lögreglu.
Ábyrgðin er okkar
Eftirlit lögreglunnar með okkur ökumönnum er
nauðsynlegt til að halda ökuhraða í skefjum og
innan löglegra marka. Það hefur sýnt sig að án
aðhalds lögreglu höfum við tilhneigingu til að
sýna af okkur kæruleysi á þessu sviði. Við sjáum
þegar við hugsum málið ofan í kjölinn að slagorð-
ið ,,hraðinn drepur – í alvörunni” er staðreynd.
Með því að draga úr hraðakstri getum við fækkað
slysum. Þar kemur fyrst og fremst til ábyrgð
okkar sjálfra undir stýri.
Ég vil þakka ökumönnum fyrir þá ábyrgu
hegðan og ég leyfi mér að heimfæra upp á þá
þessa fækkun slysa. En betur má ef duga skal og
ég endurtek það sem ég hef áður sett fram að við
sem ökumenn ráðum sjálf mestu um framkomu
okkar í umferðinni. Sýnum ábyrgð og aga og
látum ekki stundargáleysi eða óþarfa asa ná
tökum á okkur.
Höfundur er samgönguráðherra.
UMRÆÐAN
Sóley Tómasdóttir og Her-
mann Valsson skrifa um leik-
skólamál
Heimgreiðslur eru orðnar að veruleika. Í Reykjavík geta
foreldrar valið um að setja börn
sín á leikskóla eða þiggja 35.000
króna greiðslu frá borginni fyrir
að hafa þau heima. Heimgreiðslur,
kynntar sem hluti af aðgerðará-
ætlun undir slagorðinu „Þjónustu-
trygging – jafnræði og jafnrétti“.
Slagorðasérfræðingur auglýsinga-
stofunnar virðist ekki hafa kafað
djúpt ofaní málið.
Kvennagildra
Heimgreiðslur byggja ekki á jafn-
ræði og jafnrétti. Þær hafa nei-
kvæð áhrif á jafnræði og jafnrétti.
Reynsla nágrannalanda okkar
sýnir það og ekkert bendir til þess
að því yrði öðruvísi farið hér.
Rannsóknir kynjafræðinnar
hafa sýnt fram á sterka neikvæða
og víxlverkandi fylgni milli tekna
og fjölskylduábyrgðar. Það þýðir
að þeim mun lægri sem tekjur ein-
staklinga eru, þeim mun líklegra
er að viðkomandi beri meiri ábyrgð
á fjölskyldu og heimili en makinn.
Að sama skapi hefur verið sýnt
fram á að þeim mun meiri ábyrgð
sem einstaklingur ber á fjölskyldu
og heimili, þeim mun lægri tekjur
hefur viðkomandi.
Tengslin milli kynbundins launa-
munar og ójafnrar ábyrgðar kynj-
anna inni á heimilunum eru skýr.
Heimgreiðslur verða aðeins til að
styrkja þessi tengsl. Heimilis-
ábyrgð færist í auknum mæli á
herðar kvenna sem svo aftur leiðir
til aukningar á kynbundnum launa-
mun. Þetta er mat sérfræðinga,
hérlendis og erlendis.
Heimgreiðslurnar ganga þvert á
samþykkta stefnumörkun Reykja-
víkurborgar sem hefur einsett sér
að vera í fararbroddi á sviði kynja-
jafnréttis og mannréttinda. Í
mannréttindastefnu borgarinnar
er kveðið á um að ávallt skuli tekið
mið af þörfum og viðhorfum
beggja kynja og áhrif allra ákvarð-
ana á stöðu kynjanna skuli greind
áður en þær eru teknar. Jafnframt
er þar lögð sérstök áhersla á að
vinna gegn stöðluðum ímyndum
um hlutverkaskiptingu kynjanna
hvað snertir fjölskylduábyrgð.
Stéttagildra
Áhrif heimgreiðslna eru ekki bara
kynbundin, heldur líka stéttbund-
in. Í Noregi hefur verið sýnt fram
á að meirihluti þeirra sem nýta sér
heimgreiðslur eru konur af erlend-
um uppruna, með lágar tekjur og
lágt menntunarstig. Og aftur er
ekkert sem bendir til þess að hlut-
irnir verði öðruvísi hér en í
nágrannalöndunum.
Það er augljóst að sú upphæð
sem hér um ræðir gagnast fyrst og
fremst fólki með lágar tekjur.
Þrjátíu og fimm þúsund krónur
skipta ekki máli fyrir fólk sem á
milljónir, en einstæð móðir í lág-
launastarfi gæti þurft að hugsa sig
um.
Á meðfylgjandi mynd sést að 25
ára gömul einstæð móðir sem
starfar sem skólaliði hefur til ráð-
stöfunar tæplega 113 þúsund krón-
ur á mánuði við núverandi aðstæð-
ur. Ef þessi kona væri á
atvinnuleysisbótum hefði hún
rúmar 151 þúsund krónur til ráð-
stöfunar á mánuði, enda kæmi
þjónustutrygging í stað leikskóla-
gjalds.
Hjá láglaunafólki skiptir hver
þúsundkall máli. Borgaryfirvöld-
um ber að stuðla að þátttöku allra í
samfélaginu, að allt fólk eigi þess
kost að taka þátt í atvinnulífinu og
að öll börn eigi þess kost að stunda
leikskólanám. Samþykkt heim-
greiðslna er mikil afturför í þeirri
vinnu.
Gamaldags og hægrisinnaður
meirihluti
Heimgreiðslur eru hluti af aðgerð-
aráætlun gamaldags hægrisinnaðs
meirihluta í borgarstjórn Reykja-
víkur. Aðgerðaráætlun sem byggir
á stefnu Sjálfstæðisflokksins úr
kosningabaráttunni 1994.
Blessunarlega bar Sjálfstæðis-
flokkurinn skarðan hlut frá borði
vorið 1994. Síðan þá hefur metnað-
arfull uppbygging vandaðra og
sterkra leikskóla átt sér stað. Leið-
in hefur ekki verið greið og alls
ekki alltaf auðveld. Markmiðið
hefur þó alltaf verið skýrt: öruggir
og faglegir leikskólar fyrir öll
börn í borginni.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og
Óskars Bergssonar ætlar nú að
snúa 14 ára uppbyggingarstarfi til
baka. Skila peningunum aftur til
fólksins, gera leikskóla að rekstr-
areiningum og hafna samfélags-
legum úrræðum.
Gamaldags hægristefna á ekki
við í leikskólamálum. Þar gildir
framsýni og kjarkur til að breyta.
Kjarkur til að taka á erfiðum við-
fangsefnum. Kjarkur til að bæta
aðbúnað og starfskjör starfsfólks í
leikskólum. Kjarkur til að endur-
skoða forgangsröðun við útdeil-
ingu fjármuna og forgangsröðun
verkefna. Kjarkur sem ekki er til
staðar hjá núverandi meirihluta.
Sóley er fulltrúi VG í leikskólaráði
og Hermann varafulltrúi.
SÓLEY
TÓMASDÓTTIR
HERMANN
VALSSON
Gamaldags hægristefna
SAMANBURÐUR Á
RÁÐSTÖFUNARTEKJUM
Greidd laun skólaliða 125.558 kr.
Leikskólagjöld 12.581
Ráðstöfunartekjur 112.997
Greiddar atvinnuleysisbætur 116.613
Heimgreiðslur 35.000
Ráðstöfunartekjur 151.613
KRISTJÁN MÖLLER
Höldum áfram að fækka slysum
Banaslys í hlutfalli við ekna kílómetra er
áreiðanlegur mælikvarði til samanburðar við
nágrannalönd og tölur þaðan eru svipaðar
þessum. Ég er sannfærður um að við erum á
réttri leið og má bæði þakka það ábyrgð öku-
manna og aðhaldi lögreglu.