Réttur - 01.01.1953, Síða 7
é
RÉTTUR
7
III.
Nokkru fyrir aldamótin 1900 hófst sú hreyfing, er leggur grund-
völíinn að þriðja menningarskeiði þjóðar vorrar, því, sem verður
hið stórfenglegasta, ef þjóð Eddanna og íslendingasagnanna reynist
sjálfri sér trú. Fram á sjónarsvið sögunnar kemur sterkasti full-
trúi allra þeirra vinnandi stétta, sem frá upphafi íslandsbyggðar
höfðu borið þjóðfélagið uppi með starfi sínu og striti, — verkalýður
nútímans. Hann krefst þess að auðurinn verði þjónn alþýðunnar,
ekki herra, — að menningin verði sameign alls fólksins, ekki fárra
útvaldra. Og í sókn verkalýðsins og baráttu til bættra kjara og
valda, vinnur íslenzk alþýða og beztu menntamenn, er við hlið
hennar standa, þau afrek, sem eru fyrirheit um glæsileik þess
ókomna, sem íslenzk þjóð enn á eftir að skapa með sigri sínum
og sósíalismans.
Að austan og vestan berst boðskapur sósíalismans með „Þyrn-
um“ og „Andvökum". Þorsteinn og Stephan G. kveða kjark og
ást, vit og vilja í það fólk, sem lengst hafði blundað. Otto, Þorvarð-
ur, Pétur hefja merki verklýðssamtakanna. Neisti kviknar af
neista, unz hugur alþýðunnar er í báli. Frá eldskírn hásetaverk-
fallsins 1916 til vetrarverkfallsins mikla í desember 1952 er saga
rísandi verklýðsstéttar letruð logandi stöfum í sögu íslands. Það
lýsir af fórnum þeirra einstaklinga, sem lögðu ótrauðir allt í söl-
urnar til að vekja sína stétt og gera hana sterka. Það birtir yfir
landinu við þá meðvitund um mátt sinn og rétt, sem hin kúgaða
stétt hefur öðlazt. Það eru orðin þáttaskil í íslandssögunni:
„í þrælsins nöldur og öreigans magnlausa mál,
færist máttur og ægikyngi af nýjum toga“.
Sjómennirnir, sem skapa undirstöðuna undir síbatnandi afkomu
þjóðarinnar með sínu miklu afköstum og áhættusama erfiði, —
verkamennirnir, sem reisa byggð íslands frá grunni á hálfri öld,
leggja vegi, byggja brýr, hafnir, vélbáta og verksmiðjur, umskapa
snautt og rúið land í nýtízku þjóðfélag, — bændurnir, sem rækta
á einum mannsaldri margfalt meir en allar kynslóðir áður, — allur
þessi vinnandi fjöldi, konur og menn, vakna til meðvitundar um
að vinna þeirra er sá töfrasproti, sem seyðir allsnægtirnar upp úv
auðlindum íslands á sjó og landi, — ef fjöldinn aðeins fær að
vinna frjáls, ári þess arðrán auðmannastéttar og vitfirrtar krepp-
ur hennar, svipti fólkið arðinum af vinnunni og möguleikunum
til að starfa.