Morgunblaðið - 08.01.2006, Blaðsíða 48
48 SUNNUDAGUR 8. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Símar 581 3300 - 896 8242
Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla
Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is
ÚTFARARSTOFA
HAFNARFJARÐAR
Flatahrauni 5A, sími 565 5892
Kistur - Krossar
Prestur - Kirkja
Kistulagning
Blóm - Fáni
Val á sálmum
Tónlistarfólk
Sálmaskrá
Tilk. í fjölmiðla
Erfisdrykkja
Gestabók
Legstaður
Flutningur kistu á
milli landa og
landshluta
Landsbyggðar-
þjónusta
ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS
Komum heim til aðstandenda ef óskað er
Sverrir
Einarsson
Bryndís
Valbjarnardóttir
Oddur
Bragason
Guðmundur
Þór Gíslason
✝ Ólöf LindaÓlafsdóttir
fæddist á Fjórðungs-
sjúkrahúsinu á
Norðfirði 27. júlí
1969. Hún andaðist í
Reykjavík á jóladag,
25. desember, síðast-
liðinn. Móðir hennar
er Theodóra Al-
freðsdóttir, húsmóð-
ir á Norðfirði. For-
eldrar Theodóru eru
Theodóra Eyjólfs-
dóttir húsmóðir, ætt-
uð úr Hafnarfirði og Alfreð Georg
Þórðarson, kaupmaður í Reykja-
vík, ættaður undan Eyjafjöllum.
Faðir Ólafar er Ólafur Friðrik
Baldursson, sjómaður á Norðfirði.
Foreldrar Ólafs eru Olga Gjoveraa
og Baldur Jónsson rafvélavirki.
Theodóra og Ólafur slitu samvist-
um þegar Ólöf Linda var þriggja
ára. Fósturfaðir Ólafar er Þórður
Júlíusson, bóndi og framhalds-
skólakennari á Norðfirði. Foreldr-
ar hans eru Jóna Ármann húsmóð-
ir og Júlíus Þórðarson, bóndi á
Skorrastað, ættaður
af Barðaströnd.
Systkini Ólafar sam-
mæðra eru Jóna
Árný, f. 1977, Alfreð
Erling, f. 1978, Sól-
ey, f. 1984, og Sunna
Júlía, f. 1993. Systk-
ini Ólafar samfeðra
eru Hilmar Þór, f.
1966 og Vera, f.
1974.
Sambýlismaður
Ólafar var Jón Ingi
Tómasson.
Ólöf Linda ólst upp í Neskaup-
stað til 6 ára aldurs. Þá flutti hún
með móður sinni að Skorrastað í
Norðfjarðarsveit. Hún gekk í
barnaskólann í Norðfjarðar-
hreppi, lauk grunnskólanámi frá
grunnskóladeild Framhaldsskól-
ans í Neskaupstað og hún stundaði
píanónám við Tónskólann þar í bæ.
Ólöf vann ýmis verkamannastörf
og var við hestatamningar um
skeið.
Ólöf Linda var jarðsungin í
kyrrþey.
Við viljum minnast í nokkrum fá-
tæklegum orðum dóttur okkar, fóst-
urdóttur, systur, mágkonu og
frænku, Ólafar Lindu.
Ólöf var afar áræðin, dugleg, fé-
lagslynd, ófeimin og kát. Hún smitaði
út frá sér glaðværðinni til allra í
kring. Þegar hún brosti þá brosti hún
með öllu andlitinu, kátínan geislaði úr
augunum. Bóknám lá opið fyrir henni
og hún hafði margvíslega hæfileika þó
hún legði mesta rækt við að mála
myndir og teikna. Þegar hún kom í
heimsóknir til vina og ættingja þá
varð henni oft fyrst til að teikna og þá
bara á þann pappír sem á eldhúsborð-
inu lá s.s. dagblöð eða servéttur. Hún
skrifaði ljóð og texta, var mjög lagviss
og hafði góða söngrödd. Ólöf hafði
gaman af að elda góðan mat og var
mikill sælkeri. Hún vildi hafa vistlegt
í kringum sig þó aðstæður höguðu því
oft þannig að henni var það ómögu-
legt. Þó var það svo, að þegar hún
fluttist inn í nýtt húsnæði, sem gerðist
æði oft, þá var það hennar fyrsta verk
að hengja upp myndir og raða upp
persónulegum munum til að reyna að
gera heimilislegt jafnvel þó að hús-
næðið byði sjaldnast upp á mikla
möguleika. Hún hafði gaman af því að
klæða sig upp á og vera fín enda bar
hún það vel, bráðhugguleg stúlkan.
Óla, eins og hún var oft kölluð, átti
alltaf einhverja dýrgripi sem hún
sýndi öðrum og vildi fá viðurkenningu
á. Þetta gat verið allt frá hringum og
hálsfestum niður í sólgleraugu. Þegar
einn dýrgripurinn glataðist þá tók
bara nýr við. Óla var afar áhrifagjörn
og stuðlaði það án efa að því hvernig
líf hennar þróaðist. Hún var samt
fylgin skoðunum sínum, einnig þeim
sem voru sóttar til annarra. Þessi
þráa lund var henni oft fjötur um fót.
Hún var dómhörð um menn og mál-
efni og lét það vægðarlaust í ljós ef því
var að skipta.
Þegar á ofanverðum unglingsaldri
missti Ólöf fótanna á hálum strætum
lífsins. Óveðursský og bjartir sól-
skinsdagar en fátt þar á milli ein-
kenndu líf hennar upp frá því. Bjart-
sýnin og glaðværðin sem henni var
svo ríkulega í blóð borin skinu alltaf í
gegnum dimmuna. Eftir að út í neyslu
fíkniefnanna kom átti samfélagið og
öll kerfi þess ekki upp á pallborðið hjá
henni. Hennar raunveruleiki var oft
allt annar en fólksins í kringum hana.
Hún var mjög eirðarlaus – alltaf á
leiðinni að gera eitthvað sem þó var
alveg óljóst hvað nákvæmlega var.
Þarna voru e.t.v. eðliskostir hennar,
áræði og dugnaður að brjótast fram
undir áhrifum fíkniefnalífernis. Hún
trúði því statt og stöðugt að þeim Jóni
Inga tækist saman að sigrast á öllum
erfiðleikum og hefja nýtt og betra líf.
Nú á haustdögum bundu þau miklar
vonir við það að fá úthlutað íbúð sem
því miður varð ekkert af.
Óla átti marga góða vini – en náði
ekki að rækta þá alla sem skyldi nú
seinni árin. Þá þekkti hún fjöldann
allan af fólki, líka þá sem eru áberandi
í þjóðfélaginu s.s. listamenn. Var það
m.a. vegna þess hve ófeimin hún var
og gaf sig á tal við fólk af litlu tilefni.
Helsta áhugamál Ólu þegar hún
var barn og unglingur var hesta-
mennska. Hún eignaðist sinn fyrsta
hest 8 ára gömul. Það var hesturinn
Þytur, rauðstjörnóttur foli, tveimur
árum yngri en hún. Hann var ekki
orðinn sá barnahestur á þeim tíma
sem hann seinna varð. Óla ákvað að
hún skyldi nú sitja folann og dreif sig
á bak honum við íbúðarhúsið á
Skorrastað. Þytur hljóp upp að hest-
húsi þar sem knapinn féll af baki. Það
var hvorki skælt né beðið um hjálp
heldur klifrað í hnakkinn á ný. Þá
hljóp klárinn upp að fjósi og henti
stelpunni af. Enn á ný kom hún sér á
bak og þá var stefnan tekin niður hól-
inn heim að bæ á ný og þar flaug hún
enn af baki. En Óla vann að lokum
fullnaðarsigur og Þytur varð reið-
hesturinn hennar langt fram á ung-
lingsár.
Margar fleiri minningar koma fram
í hugann tengdar hestamennsku Ólu.
Flestar bera þær vitni áræði hennar
og þrautseigju. Þannig var það einu
sinni er hún vann við tamningar hjá
Sigfinni í Stórulág, hinum lands-
þekkta hestamanni af gamla skólan-
um, að baldinn foli kom höggi á höf-
uðið á henni svo hún rotaðist. Sigfinni
sagðist svo frá: „Þá varð ég hræddur,
skal ég segja þér. Þetta leit ekki vel
út. En um leið og stelpan raknaði úr
rotinu þá náði hún í klárinn og hélt
áfram tamningunni!“ Einhverju sinni
á kappreiðum heima í Norðfirði vildi
Óla hleypa sprettinn berbakt. Það var
ekki leyft. Menn urðu að hafa ein-
hverja hnakknefnu. Þá fékk hún sér
teymingargjörð og hnýtti ístöðin þar
á. Þá fékk hún að hleypa sprettinn.
Þrátt fyrir að Ólöf hafi brotið
margar brýr að baki sér þá var hún
elskuð af fjölskyldu sinni. Hún
hringdi mikið heim, kom í heimsóknir
og sýndi það í ýmsu að hún vildi ekki
slíta þann þráð sem bindur fjölskyld-
ur saman. Ólöf var þannig alltaf hluti
af fjölskyldunni þótt fjarlægðir í ýms-
um skilningi hindruðu eðlileg sam-
skipti.
Megi Ólöf Linda finna hjá Guði sín-
um það sem hún leitaði að í lífinu.
Fjölskyldan á Skorrastað.
Þegar við systur hugsum til Ólu
sjáum við hana fyrir okkur með
glettni í augum, hláturinn á innsoginu
og allan búkinn á hreyfingu. Við vor-
um æskuvinkonur, bjuggum á sitt
hvorum sveitabænum, gengum í lít-
inn sveitaskóla og lékum okkur frjáls-
ar í sólinni. Á þeim tíma gat maður
ekki ímyndað sér að leiðir okkar
myndu liggja í svo ólíkar áttir og að
við myndum skrifa þessi minningar-
orð svona snemma. Þó að við hittum
Ólu sjaldan eftir að við komumst á
unglingsaldur eigum við um hana
kærar minningar. Þegar kemur að
kveðjustund er sárt að hugsa til allra
hæfileikanna sem fengu aldrei að
blómstra og njóta sín til fulls og alls
sem Óla hefði getað orðið og gert
hefði hún ekki orðið eiturlyfjum að
bráð.
Margar minninganna um Ólu
tengjast útreiðartúrum. Við sjáum
hana fyrir okkur þeysandi upp heim-
reiðina með vindinn í hárinu á hest-
inum Þyt. Okkur þótti hún ansi hug-
rökk og djörf því stundum hoppaði
hún á bak í haganum og reið Þyt án
hnakks og beislis. Hún stjórnaði samt
ferðinni hvernig sem hún fór að því.
Hún kunni líka ýmis ráð eins og
hvernig ætti að bregðast við þegar
hestur reisti makkann það hátt að við
næðum ekki að beisla hann. Þá
smeygði Óla beislinu upp á annað eyr-
að á honum, setti mélin upp í hann
með báðum höndum og teygði sig svo
upp til að klára verkið.
Það var aldrei lognmolla í kringum
Ólu og ekki munum við eftir henni
öðruvísi en kátri og hlæjandi sínum
dillandi hlátri. Það breyttist ekki
þrátt fyrir erfitt hlutskipti og í þau
skipti sem við hittum hana á seinni ár-
um var hún jafnan miðpunkturinn og
sagði krassandi sögur af undirheim-
um Reykjavíkurborgar þar sem hún
gerði lúmskt grín að öllu saman. Það
er okkur líka minnisstætt hversu list-
hneigð og hæfileikarík hún var. Á
meðan við rembdumst við að læra á
píanó eftir nótum spilaði Óla eftir eyr-
anu eins og ekkert væri. Hún var líka
flink að teikna og vildi helst alltaf
teikna á meðan hún hlustaði á kenn-
arann, við litla hrifningu hans. Óla
hélt áfram að þróa þennan hæfileika
og gerði mörg listaverk á seinni árum.
Þar fór hún sínar eigin leiðir og próf-
aði sig áfram en það var alla tíð ein-
kennandi fyrir hana hvað hún var
hugmyndarík og sjálfstæð.
Elsku Thea, Doddi, Óli, systkini,
Jóna og Júlli, við vottum ykkur okkar
dýpstu samúð á þessari erfiðu stundu.
Marta og Margrét í Skálateigi.
ÓLÖF LINDA
ÓLAFSDÓTTIR
✝ Pétur ÞórarinnÞorleifsson
fæddist á Dalvík 5.
júní 1916. Hann lést
á Dalbæ, dvalar-
heimili aldraðra á
Dalvík, 26. desem-
ber síðastliðinn.
Þórarinn var sjötti í
röðinni af átta
systkinum sem öll
eru nú látin. Þau
voru í aldursröð:
Sigurrós, Guðrún,
Jósefína, Jóhann,
Þorsteinn, Pétur
Þórarinn, Snjólaug og Björg. For-
eldrar þeirra voru Kristbjörg Jós-
efsdóttir og Þorleifur Jóhanns-
son. 12 ára gamall flyst Þórarinn
að Hofi í Svarfaðardal og er þar
meira og minna til 26 ára aldurs.
Þar kynnist hann sambýliskonu
sinni til 40 ára, Ingibjörgu Sól-
veigu Jónsdóttur frá Gullbringu í
Svarfaðardal, f. 2.11. 1900, d.
4.10. 1982. Fyrir átti hún soninn
Gest Magnússon, f. 11.4. 1918, d.
2.2. 2000, kvæntur Rut Ingimars-
dóttur, synir þeirra Sigurður Már
og Viktor Már. Saman eignuðust
Ingibjörg og Þórarinn dótturina
Þorbjörgu Sigríði,
f. 26.5. 1942, gift
Jóni Auðuni Guð-
jónssyni, fyrrver-
andi bónda á Marð-
arnúpi í Vatnsdal f.
17.12. 1921. Fyrir
átti Þorbjörg son-
inn Þórarin Ingi-
mar, f. 26.2. 1959,
faðir Sigvaldi Sig-
valdason. Kona Þór-
arins er Sigríður
Erla Sigurðardótt-
ir, synir þeirra eru
Bjarki Már, Pálmi
Már og Andri Már. Börn Þor-
bjargar og Auðuns eru: 1) Guð-
jón, f. 28.11. 1962, sambýliskona
Sandra Nielsen, dóttir hennar
Margrét Embla. Synir Guðjóns og
Lindu H. Arnardóttur eru Daníel,
Viktor og Alexander. 2) Ingibjörg
Rósa, f. 16.4. 1964, maki Ragnar
Pálmason. Börn þeirra eru Jón
Pálmar, Auðunn Ingi, Kári og Ás-
dís Björg. 3) Ásdís Elín, f. 4.7.
1965, maki Sveinn Valgeirsson,
synir þeirra eru Ragnar og Sig-
urgeir.
Útför Þórarins fór fram frá
Dalvíkurkirkju 3. janúar.
Lokið er vöku langri
liðinn er þessi dagur.
Morgunsins röðulroði
rennur upp nýr og fagur.
Miskunnarandinn mikli
metur þitt veganesti.
Breiðir út ferskan faðminn
fagnandi nýjum gesti.
(Hákon Aðalsteinsson.)
Við systkinin frá Marðarnúpi er-
um þess fullviss að slíka heimkomu
hafi hann afi okkar á Dalvík fengið
annan dag jóla er hann kvaddi þessa
jarðvist á 90. aldursári. Veganesti
hans var slíkt: heiðarleiki, vinnu-
semi, þrautseigja, alltaf að standa
við orð sín, skulda engum neitt,
koma vel fram við menn og málleys-
ingja. Þannig var hann afi.
Hann var 6. í röðinni af 8 systk-
inum, sem öll eru nú látin. Hann ólst
upp í þurrabúð hjá foreldrum sínum
á Dalvík til 12 ára aldurs. Eftir það
fór hann að Hofi í Svarfaðardal og
dvaldi þar og vann að búinu til 26 ára
aldurs. Á Hofi kynntist hann henni
ömmu, Ingibjörgu Sólveigu, sam-
býliskonu sinni til 40 ára. Fyrir átti
amma Gest (lést árið 2000) en saman
eignuðust þau hana mömmu, Þor-
björgu Sigríði. Þau bjuggu allan sinn
búskap á Dalvík. Amma lést árið
1982. Eftir það bjó afi einn í Laxa-
mýri en flutti á Dalbæ, dvalarheimili
aldraðra árið 1992. Þar undi hann
hag sínum vel.
Afi var lengst af sjómaður, átti
sína eigin trillu og veiddi á handfæri.
Hann var farsæll og fiskinn. Afi fór
allra sinna ferða hjólandi um Dalvík-
ina og hann var enn að hjóla eftir að
hann fluttist á Dalbæ. Afi var mjög
handlaginn maður, það var í raun
sama á hverju hann snerti, honum
fórust öll verk vel úr hendi, hvort
sem var innandyra eða utan, til að
mynda fékkst hann við að sauma og
prjóna ef svo bar undir. Ef aðrir
höfðu gefist upp við að greiða úr
flæktum netum eða böndum og afi
komst í það, var ekki að sökum að
spyrja að hendur hans greiddu úr
því. Þar kom meðfædd og áunnin
þrautseigja hans sér vel sem og
nýtni en hún var sterkur þáttur í fari
hans. Afi talaði fallega norðlensku og
ýmis orðatiltæki og orðaröðun hjá
honum var okkur systkinunum fram-
andi. Hann unni Svarfaðardalnum
og hafði unun af ef honum bauðst að
fara hringinn í dalnum sem var alloft
því hann átti trausta vini. Við vorum
alltaf aufúsugestir á heimili ömmu
og afa og svo hjá afa eftir að hann
varð einn. Það ríkti líka alltaf eft-
irvænting á Marðarnúpi þegar von
var á þeim vestur í Vatnsdal. Fisk-
sendingarnar frá afa voru ófáar á
uppvaxtarárunum og átti hann sinn
þátt í því að kenna okkur að meta þá
fæðutegund.
Afi hafði þannig nærveru að börn
löðuðust að honum. Fyrr en varði
hafði lítill lófi læðst inn í vinnulúnar
hendur hans og hann naut þess að
umgangast ungviði. Hann kunni
ógrynni af vísum og tók hann börnin
gjarnan á hné sér hossaði þeim og
söng fyrir þau. Langafabörnin hans
nutu þessa í hvívetna. Þau eru nú 12
að tölu.
Afa leið vel á Dalbæ. Hann var fé-
lagi í Veðurklúbbnum og tók þátt í
öðru því sem fram fór. Hann var
innilega þakklátur starfsfólkinu þar
fyrir gæðin sem það sýndi honum og
það erum við líka og þökkum af heil-
um hug fyrir umönnun hans og mæl-
um þá fyrir munn fjölskyldunnar
allrar.
Kveðjuorðin sækjum við í smiðju
skáldsins frá Fagraskógi við Eyja-
fjörð.
Þú hafðir öllum hreinni reikningsskil.
Í heimi þínum gekk þér allt í vil.
Þú hirtir lítt um höfðingsnafn og auð,
því hógværð þinni nægði daglegt brauð.
(Davíð Stefánsson.)
Guð blessi minningu afa á Dalvík.
Þórarinn, Guðjón, Inga og Ásdís.
PÉTUR ÞÓRARINN
ÞORLEIFSSON
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðju-
degi). Ef útför hefur farið fram
eða grein berst ekki innan hins til-
tekna skilafrests er ekki unnt að
lofa ákveðnum birtingardegi. Þar
sem pláss er takmarkað getur
birting dregist, enda þótt grein
berist áður en skilafrestur rennur
út.
Lengd Minningargreinar séu ekki
lengri en 2.000 slög (stafir með
bilum - mælt í Tools/Word Count).
Ekki er unnt að senda lengri grein.
Hægt er að senda örstutta kveðju,
HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur, og
votta þeim sem kvaddur er virð-
ingu sína án þess að það sé gert
með langri grein. Ekki er unnt að
tengja viðhengi við síðuna.
Formáli Minningargreinum fylgir
formáli, sem nánustu aðstand-
endur senda inn. Þar koma fram
upplýsingar um hvar og hvenær
sá, sem fjallað er um, fæddist,
hvar og hvenær hann lést, um for-
eldra hans, systkini, maka og börn
og loks hvaðan útförin fer fram og
klukkan hvað athöfnin hefst.
Minningar-
greinar