Morgunblaðið - 08.01.2006, Blaðsíða 52

Morgunblaðið - 08.01.2006, Blaðsíða 52
52 SUNNUDAGUR 8. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Þótt fráfall vinar míns Inga Bjarnason- ar ætti sér nokkurn aðdraganda urðu endalokin óvænt og snögg. Þegar ég heimsótti hann á spítalann fyrir jólin datt mér ekki annað í hug en að við hittumst aftur bak jólum, þótt hann skryppi vestur yfir hátíðarnar. Við áttum margt órætt og Ingi margt ógert, lífsvilji hans var óskertur og hann barðist af öllum mætti gegn því heljarafli sem hélt honum í greip sinni. Vestur komst hann en átti ekki afturkvæmt á Landspítalann og verðum við því að gera hlé á viðræð- um okkar um sinn en taka þá upp þráðinn ef og þegar tækifæri gefst. Þegar ég nú sest niður til að skrifa þessi fátæklegu kveðjuorð hrannast minningarnar upp og ég geri mér grein fyrir hversu samtvinnað líf okkar var um það áratugar skeið sem við vorum samferða sem bænd- ur í Ketildalahreppi. Kynni okkar náðu þó lengra aftur. Um páskana í fyrra voru 40 ár frá því að ég kom með föður mínum vestur í Arnar- fjörð til að líta bernskuslóðir hans augum með væntanlegan sumar- dvalarstað í huga. Þá kynntist ég fyrst Bjarna í Hvestu og hans mann- vænlega 15 barna hópi. Þau kynni áttu eftir að verða nánari eftir að fað- ir minn ákvað að hefja búskap í Sel- árdal og ég kom vestur á hverju sumri ýmist til að hjálpa til við hey- skap eða smalamennskur og fjárrag á haustin. Ingi og Inga kona hans hófu líka búskap sinn í Selárdal, þar sem Ingi var ráðsmaður á búi föður míns einn vetur. Mér varð líka fljótlega ljóst eftir að vestur kom hvílík hjálparhella og sveitarstólpi Ingi var. Honum var flest vel gefið til munns og handa, var hagur ágætavel bæði á tré og járn og kom sér fljótlega upp góðu verkstæði með fjölbreyttum verk- færum. Var til hans leitað á nóttu sem degi bilaði eitthvað um hábjarg- ræðistímann og oft sátu hans eigin bústörf á hakanum, meðan hann var að greiða úr vandræðum nágrann- anna. Það var þó einkum á tveimur vett- vöngum sem leiðir okkar lágu sam- an. Nokkru áður en ég kom vestur höfðu bændur í Arnarfirði tekið höndum saman og stofnað Slátur- félag Arnfirðinga með samvinnu- sniði. Keypti félagið fljótlega hús Matvælaiðjunnar og einsetti sér að koma þar upp á nokkrum næstu ár- um fyrirmyndaraðstöðu til slátrunar fyrir félagsmenn. Ingi hafði á hendi verkstjórn við slátrunina á haustin auk þess að hafa yfirumsjón með GUÐBJARTUR INGI BJARNASON ✝ Guðbjartur IngiBjarnason fædd- ist á Bíldudal 26. apríl 1949. Hann andaðist á sjúkra- húsinu á Patreks- firði 25. desember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Bíldudalskirkju 7. janúar. endurbótum á hús- næði, tækjum og að- stöðu, sem unnið var að á hverju ári. En yf- irstjórn landbúnaðar- ins fyrir sunnan hafði ákveðið bændum þarna annað hlut- skipti: Að renna inn í félag um slátrun á Pat- reksfirði, sem við töld- um víst að yrði okkur mjög óhagkvæmt sök- um mikils fjárfest- ingakostnaðar. Reyndumst við þar sannspáir. Höfuðsök okkar var að við rákum húsið með hagnaði, greiddum að fullu svokallað grund- vallarverð og skiluðum tekjuafgangi á hverju ári sem við vörðum til end- urbóta. Hófst nú mikil togstreita sem stóð árum saman milli okkar litla félags og samanlagðrar búnað- arforystunnar í Reykjavík, sem skirrðist ekki við að beita fyrir sig landbúnaðarráðherra og ráðuneyti, Stéttarsambandi bænda, embættum yfirdýralæknis og héraðsdýralæknis og sauðfjársjúkdómavörnum. Eftir fádæma valdníðslu af hendi búnaðar- forystunnar urðu bændur að vísu að beygja sig, en unnu þó þann varn- arsigur að komið var í veg fyrir al- mennan niðurskurð á sauðfé á svæð- inu, svo sem hafði verið hótað. Hvorki er staður né stund til að rekja þá sögu nánar hér, en vissu- lega verðskuldar hún að vera skrifuð áður en þeir hafa allir safnast til feðra sinna sem þar áttu hlut að máli. Hins vegar var það loðdýraræktin, sem leiddi til náinnar samvinnu okk- ar bænda á fimm búum. Mjög gekk ég tregur til þess leiks, en eftir að út í það var farið taldi ég réttast að láta eitt yfir okkur ganga. Ljóst var frá upphafi að framtíð þessarar greinar byggðist á lágum fóðurkostnaði. Hófumst við nú handa um að koma okkur upp fóðurmiðstöð í aflóga slát- urhúsi sem stóð á sjávarbakkanum á Bakka. Undir forystu Inga var sett- ur þar upp frystiklefi og vélbúnaður, sem knýja mátti með dráttarvél, því að ekkert var rafmagnið. Var þetta allt af mikilli hugkvæmni gert og fá- dæma útsjónarsemi. Sjaldnast var hirt um að skila reikningum til okkar meðeigendanna fyrir þá vinnu sem innt var af hendi í þágu félagsskap- arins. Í öllu þessu umstangi kynntist ég Inga vel. Hann var einstakur öðling- ur, fórnfús, gestrisinn, glaðlyndur, örlátur, einkum á tíma sinn, minn- ugur vel og sögumaður góður, auk þess sem allt lék í höndunum á hon- um. Að honum er mikil eftirsjá. Ég kveð vin minn Inga með miklum söknuði og votta aðstandendum hans öllum og eftirkomendum innilega samúð mína. Ólafur Hannibalsson. Kæri frændi, það hefur lögnum verið sagt „þeir deyja ungir sem guðirnir elska“. Ég var svo lánsamur að kynnast þér 1990, áður þekktumst við af af- spurn. Þegar þú varst á ferðinni þá komst þú oft við í Loga og ávarpaðir mig ávallt „ sæll frændi,“ það var hlýleg kveðja. Mig langar til þess að þakka þér samfylgdina. Það kemur fyrst upp í hugann hvað þú varst greiðvikinn, ávallt stutt í glaðværðina og hlátur- inn hjá þér. Þú komst mér fyrir sjónir sem ákveðinn og staðfastur maður enda fæddur og uppalinn við skörp skil landslagsins í Ketildölum þar sem stórfengleg nátturan tekur stóran þátt í að móta persónu þeirra sem þar ala aldur sinn. Þú máttir hvergi neitt aumt sjá og fljótur að veita að- stoð þína. Þú varst mikið náttúrubarn og valdir þér það ævistarf að vera bóndi í Feigsdal og stundaðir aðra vinnu samhliða búskapnum. Auðvitað var oft á brattann að sækja en það sem einkenndi þig var að þú varst stór- huga í uppbyggingu, óhræddur við að taka áhættur og fylgdist vel með öllum nýjungum. Hugur þinn var alltaf fyrir vestan í Feigsdal og þú áttir eftir að fram- kvæma æðimargt. Þegar ég hugsa um glettnina, sem var alltaf stutt í, þá kemur margt upp í hugann, eins og t.d. þegar þú svaraðir Jóni bróður þínum eitt sinn þegar við vorum að vinna við upp- byggingu rafstöðvarinnar í Hvestu. „Ég hef aldrei heyrt það Jón bróðir, að vatn rynni upp í móti“. Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka þér allt sem þú kenndir mér. Megi Guð blessa börnin þín og alla þína venslamenn. Kær kveðja. Barði Sæmundsson, Patreksfirði. Þeir komu með kaffið sitt með sér, Bakkabræður, þegar þeir komu í Selárdalinn að vinna eitthvert sam- vinnuverkefnið þeirra Ketildæla, að slá upp refahúsi eða bara að slá. Það var ekki að treysta á að almennilegt kaffi fengist á bænum, og það var jú nauðsynlegt eldsneyti til að verkið ynnist. Þegar sá dagur rann upp að þeir þáðu uppáhelling hjá heimasæt- unum var ljóst að gagnkvæmt traust hafði tekist, vinátta sem hefur hald- ist æ síðan. Það hallaði þó á að jafnræði væri með okkur, því oftar en ekki vorum við þiggjendur í Feigsdalnum, jafn- an boðið inn í kaffi á heimleið úr kaupstaðarferð, eða í vesturferðum nú síðustu árin. Það var gaman að taka hús á Inga, þar voru málefnin rædd tæpitungulaust og við máttum hafa okkur allar við að svara fyrir okkur þegar hæðnin og stríðnin fóru á flug. Alltaf var eins og við hefðum hist í gær. Hann var traustur streng- urinn sem bundinn var í Ketildölun- um á áttunda og níunda áratug síð- ustu aldar. Ketildalirnir og mannlífið þar hafa mótað okkur systur. Það er sárt að kveðja góðan vin okkar úr þeim hópi. Við þökkum allan viðgjörning, og samhryggjumst börnum Inga, barnabörnum og Hvestufjölskyld- unni allri. Feigsdalur verður ekki samur við sig. Sólveig og Kristín, Selárdal. Ingi í Feigsdal verður alltaf sam- ofinn minningum mínum frá upp- vaxtarárunum í Arnarfirðinum. Við í Selárdal höfðum alltaf mikil sam- skipti við Inga enda var hann þús- undþjalasmiður sveitarinnar og fengum við í Selárdal oft að njóta þess. Ingi var afskaplega barngóður. Ein af hans uppáhaldssögum sem hann sagði mér mjög oft var þegar hann sat með mig fyrir mjög löngu síðan, ég þá varla mikið eldri en fjög- urra ára, á dráttarvél og sló þannig allt Selárdalstúnið. Seint verður talið að húslaus Massey Fergusson 135 sé þægilegur vinnustaður, síst af öllu ef sá sem á henni vinnur ætlar að halda á litlum snáða líka. Einnig man ég eftir því þegar Ingi var á ýtu að vinna við smalavegi út í Verdali og upp á Selárdalsheiði að ég og Hannibal frændi minn fengum að sitja í ýtunni og jafnvel að fikta svo- lítið í stjórntækjunum. Ingi passaði að það færi nú ekki í neina vitleysu, en aldrei sá ég hann reiðast heldur greip hann ákveðinn í taumana þeg- ar fiktið var farið að ganga of langt. Ég held líka að Ingi hafi haft gam- an af því að standa í smá strögli við yfirvöld og stofnanir. Einu sinni átti Ingi bát og vildi skíra hann Feig, enda bjó hann í Feigsdal en hann var ekkert á því að merkingin væri endi- lega feigur. Það fannst yfirvöldum alls ekki við hæfi. Þá datt Inga í hug að kalla bátinn Lottó BA 538 sem fékk heldur ekki neinn hljómgrunn. Ég man ekki alveg hvernig þetta endaði en mig minnir samt að bát- urinn hafi á endanum verið kallaður Ottó. Ingi var með eindæmum atorku- samur og þrautseigur, sumir myndu segja þrjóskur. Einu sinni réðst Ingi í það verk að byggja sér íbúðarhús og fékk mann sem tengdist Arnar- firðinum til að teikna húsið fyrir sig. Eitthvað fannst Inga það dragast að fá teikningarnar svo hann byggði bara húsið án þeirra. Með Inga í Feigsdal er genginn góður maður sem var með eindæm- um vinnusamur, skemmtilegur og hjartahlýr. Minningin um hann gleymist aldrei. Ég sendi aðstandendum Inga mín- ar innilegustu samúðarkveðjur. Sigurður H. Magnússon. Þeir sem þekktu Inga í Feigsdal vita að bónbetri menn er vart að finna. „Heyrðu Ingi, getur þú komið við á morgun og hjálpað mér?“ „Kemur ekki til greina,“ var gjarnan við- kvæðið. Svo var hann mættur fyrr en varði, kankvís og ávallt ráðagóður. Sendum Víði og Maríu í Grænu- hlíð og öðrum aðstandendum sam- úðarkveðjur. Kristín og Hilmar í Hringsdal, Ragna og Pétur á Hóli, Marta og Kristján að Grímsskeri. Hann gekk hér um að góðra drengja sið, gladdi mædda, veitti þreyttum lið. Þeir fundu best sem voru á vegi hans vinarþel hins drenglundaða manns. Þó ævikjörin yrðu máski tvenn, hann átti sættir jafnt við Guð og menn. (Guðrún Jóhannsdóttir.) Ég vil þakka Inga vináttu hans og tryggð og bið góðan Guð að styrkja og styðja börnin hans og barnabörn- in sem voru honum svo kær, einnig mömmu og systkini. Missirinn er mikill. Okkur finnst lífið oft ósangjarnt þegar við missum þá sem eru okkur kærir, finnst við skilin eftir og skiljum ekki tilgang- inn, en Drottinn gaf og Drottinn tók, það verðum við að sætta okkur við. Minningin lifir. Guð veri með ykkur öllum. Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð hjartans þakkir fyrir liðna tíð lifðu sæl á ljóssins friðar strönd, leiðir sjálfur Drottinn þig við hönd. (Guðrún Jóhannsdóttir.) Jónína Gunnarsdóttir. Enn einu sinni er höggvið skarð í hinn stóra hóp systkinanna frá Hvestu í Arnarfirði og í dag er jarð- sunginn frá Bíldudalskirkju Guð- bjartur Ingi Bjarnason. Ekki er langt síðan bræður hans, þeir Finn- bogi og Gestur, urðu að láta undan fyrir sama sjúkdómi sem hlýtur að taka mjög á aldraða móður þeirra. En örlögunum verður ekki breytt. Guðbjartur Ingi barðist hetjulega við sinn sjúkdóm og viss um að hann hefði sigur en því miður varð hann að láta undan í þeirri baráttu og lést á nýársdag. Mig langar í fátæklegum orðum að minnast vinar míns Inga eins og hann var ávallt kallaður. Honum kynntist ég fyrst sem barn er börnin úr Ketildölum fóru að stunda skóla á Bíldudal. Ingi var ári eldri en ég, hann var góður námsmaður og stóð sig vel í sínum bekk þótt oft væri við erfiðar aðstæður að eiga. Á þessum tíma tókst með okkur vinátta sem ekki slitnaði, þótt hvor héldi sína leið. En leiðir okkar lágu saman aftur um 1968 er við unnum saman í aðgerð í frystihúsinu á Bíldudal og vorum þar innan um gamla karla að okkar mati sem þó voru menn á besta aldri. En Ingi var alltaf til í allskonar grín og sprell og gerðum við allt sem við gát- um til að hafa svolítið fjör í þessari vinnu. Mörg sprell og grín stóðum við Ingi saman að þennan vetur. Ingi var mikill fjölskyldumaður og um jól lagði hann allt kapp á að fjölskyldan væri saman og ávallt komu börn hans og barnabörn í Feigsdal um hver jól. Ingi var mjög greiðvikinn maður og vildi öllum gott gera. Alltaf var hann glaðvær. Ef hann var beð- inn að gera einhverjum greiða var það gert orðalaust án þess að vænta einhvers í staðinn. En fallinn er frá góður drengur sem allir sem honum kynntust sakna mjög. Ég hef misst góðan vin og hans skarð verður ekki bætt. Ég vil að lokum votta börnum Inga, móður hans og öðrum ætt- mennum mína samúð og vona að Góður Guð styrki ykkur í sorginni. Sérstakar samúðarkveðjur sendi ég Bjarka vini mínum og vona að Guð leiði hann áfram í sinni sorg. Jakob Kristinsson. Það var 17. júní og sól í hádegi, við félagarnir vorum að koma utan úr Kópavík, en þar höfðum við dvalið í tæpa tvo sólarhringa við veiðar. Hit- inn var um 25 gráður og ekki hreyfð- ist hár á höfði. Þegar við komum inn í Bakkadal blasti við okkur gulllituð ströndin, sjórinn seiðandi og græn- blár og aldan velti sér letilega upp á sandinn. Þrátt fyrir tveggja sólar- hringa vöku gat enginn af okkur staðist þessa freistingu. Við drifum okkur fram í Feigsdal, stukkum í stuttbuxurnar, smurðum nokkrar samlokur og skelltum í kassa ásamt nokkrum hvítvínsflöskum og beint í fjöruna. Eftir að hafa reynt með okk- ur í nokkrum ungmennafélagsgrein- um, eins og spretthlaupi, lang- og há- stökki, glímu og sundi var sest niður, hungrið og þorstinn mettaður, málin rædd á meðan við létum þreytuna líða úr okkur og að lokum steinsofn- uðum við í fjörunni. Þvílíkur dagur. Það eru svona minningar sem ég á svo margar með Inga og svo af veiði- ferðunum okkar félaganna fyrir austan. Fyrst Gásastaðir og austar Rauðaberg og Hoffell. Við kölluðum þetta forréttindi, ekki margir sem skildu okkur. Þegar við kvöddumst síðast, var okkur báðum ljóst að við vorum að kveðjast í síðasta sinn. Við létum samt eins og Ingi væri bara að skreppa vestur til að halda jólin í Feigsdal, með börnunum og barna- börnunum. Eftir hátíðirnar kæmi hann aftur suður og kláraði þessa meðferð rétt eins og hann gerði tæp- um tveim árum áður. Þegar svo fréttin barst að vestan á jóladag að Ingi væri látinn, var sem litur jóla- ljósanna dofnaði og tíminn stóð í stað. Fóstri var látinn. Leiðir okkar Guðbjarts Inga lágu fyrst saman haustið sem hann og Inga hófu búskap í Feigsdal. Ég var þá um sumarið vinnumaður hjá Jóni og Huldu á Fífustöðum, og þvældist nokkuð með bræðrum Inga, Marra, Kitta og Jóni. Inga bráðvantaði nú snúningspilt til að aðstoða og létta undir við verkin. Ég virtist vera til- valinn í hlutverkið. Eftir stutta dvöl fyrir sunnan mætti ég aftur vestur og tilbúinn í slaginn. Ég dvaldi svo hjá hjónakornunum, Inga og Ingu, um veturinn sem og næstu sumur þar á eftir, en með þessu fyrirkomulagi gat Ingi unnið utan heimilis að hluta til og aflað ein- hverra tekna. Við Ingi náðum strax vel saman enda ekki mikill aldursmunur á okk- ur. Fyrir mér var veturinn mikil áskorun, aðeins 15 ára gutti og kval- inn af draughræðslu og oft með óþarfa áhyggjur af búinu. Það gleymdist fljótt þegar Ingi var heima við, hann lagði sig fram við að vera minn félagi og brölluðum við margt skemmtilegt saman sem seint verður sett á prent. Ingi var ekki hár né mikill maður á velli, en hann hafði annað sem gerði hann að stærri manni, það var stórt og hlýtt hjarta. Ólafur Matth. Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, GESTUR INGVI KRISTINSSON, Torfnesi, Hlíf 1, Ísafirði, áður Hlíðarvegi 4, Suðureyri, lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar að kvöldi fimmtudagsins 5. janúar. Sólveig Hulda Kristjánsdóttir, Þuríður Kristín Heiðarsdóttir, Páll Ólafsson, Kristinn Gestsson, Jóhanna Sigurbjörg Vilhjálmsdóttir, Óðinn Gestsson, Pálína Pálsdóttir, Gunnhildur Gestsdóttir, Albert Högnason, Jón Arnar Gestsson, Sveinbjörn Yngvi Gestsson, barnabörn og barnabarnabarn.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.