Morgunblaðið - 26.04.2006, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 26.04.2006, Blaðsíða 12
12 MIÐVIKUDAGUR 26. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Blikur á lofti á fasteignamarkaði á morgun  Fréttaskýring um íbúðalán og horfur á markaðnum EINELTI gegn börnum af erlend- um uppruna er mun meira hér á landi en gegn íslenskum börnum og börn af erlendum uppruna í 10. bekk grunnskóla reykja líka mun meira en hin, skv. nýrri rannsókn Háskólans á Akureyri og Lýð- heilsustofnunar. Af nemendum í 10. bekk segja 18% þeirra sem eru af austur-evrópskum uppruna, að þeim hafi verið strítt vegna trúar- bragða sinna og 17% krakka af afrískum, asískum eða suður- amerískum uppruna. Könnun HA og Lýðheilsustofn- unar er hluti af alþjóðlegri könnun, svonefndri HBSC könnun sem unn- in er að tilstuðlan WHO, Alþjóða- heilbrigðisstofnunarinnar. Það er eitt viðamesta verkefni samtímans á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar ungs fólks. Verkefnið hófst árið 1983 með þátttöku fimm landa og hefur verið endurtekið með fjögurra ára millibili síðan. Nú taka um 40 lönd þátt í könnuninni og hér á landi voru spurningar lagðar fyrir nemendur í öllum 166 almennum skólum á landinu. 83% nemenda svöruðu. Fyrstu niðurstöður íslensku könnunarinnar voru kynntar í gær en tölur utan úr heimi verða ekki birtar fyrr en á næsta ári. Einelti virðist vera algengara á meðal yngri krakkanna en um 26% í 6. bekk sögðust hafa verið lögð í einelti á undanförnum mánuðum. Það fer svo minnkandi í 8. bekk þar sem um 18% nemenda höfðu verið lögð í einelti og er svo minnst í 10. bekk þar sem um 13% nemenda svöruðu því til að þau hefðu verið lögð í einelti á undanförnum mán- uðum. Hátt hlutfall reykinga Alls segjast 32% barna af afrísk- um, asískum eða suður-amerískum uppruna hafa orðið fyrir einelti í vetur, og 27% krakka af austur- evrópskum uppruna en 10% krakka af vestrænum uppruna; það teljast börn frá Vestur-Evrópu, Bandaríkj- unum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Rétt er að geta þess að börn af erlendum uppruna eru talin þau sem eiga að minnsta kosti annað foreldrið erlent. Samkvæmt könnuninni reykja 38% unglinga í 10. bekk sem eru af afrískum, asískum eða suður- amerískum uppruna, 33% sem eru af austur-evrópskum uppruna og 20% af vestrænum uppruna en 10% íslenskra barna. Þá vekur athygli að meira en helmingur stúlkna í 10. bekk, alls 57% þeirra, telur sig þurfa að létt- ast, en þær tölur stangast verulega á við tölur frá heilsugæslunni um heilsufarsupplýsingar. Rannsak- endum finnst það líka sláandi að 40% nemenda í 6. bekk skuli vera ósátt við eigin þyngd, en rúmlega 30% beggja kynja telja sig þurfa að þyngjast og tæplega 10% beggja kynja telja sig þurfa að þyngjast. Samhliða versnandi mataræði minnkar hreyfing nemenda í grunn- skóla eftir því sem þeir eldast. Um 22% stelpna í 6. bekk hreyfa sig daglega utan skólatíma svo þær svitni eða mæðist en aðeins ein af hverjum tíu í 10. bekk. Samsvar- andi hlutfall stráka er um það bil 30% í 6. bekk og 19% í 10. bekk. Fjóra tíma á dag við skjá Mikill meirihluti íslenskra barna og unglinga segir sér líða vel eða frekar vel í skóla. Munur er mark- tækur í 6. bekk – 74% stráka og 81% stelpna – en tölurnar eru sam- bærilegar þegar komið er í 10. bekk. Spurt var hversu mörgum tímum á dag viðkomandi eyddi fyrir fram- an sjónvarp eða tölvu, annað hvort í tölvuleikjum, til að vafra á netinu, senda tölvupóst, á spjallrásum eða til að sinna heimanámi. Alls 16% stráka segjast horfa á sjónvarp í 4 klukkustundir eða meira á dag en 11% stúlkna. Jafn stórt hlutfall stráka spilar tölvuleiki í 4 klukku- stundir á dag eða meira en 16%. Áberandi kynjaskipting er í þess- ari spurningu en einungis um 2% stúlkna spila tölvuleiki í meira en 4 klukkustundir á dag. Um 15% stráka nota tölvuna til annars í meira en 4 klukkustundir og um 11% stúlkna. Samanlagt verja 58% stráka og 43% stelpna 4 tímum eða meira á dag fyrir framan sjónvarps- og tölvuskjá. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson Frá kynningarfundi háskólans og Lýðheilsustöðvar. Frá vinstri: Stefán Hrafn Jónsson frá Lýðheilsustöð, Anna Elísabet Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA og stjórnandi rannsóknarinnar. Einelti gegn börnum af erlendum uppruna mun meira en gegn öðrum Hátt í 20% barna af austur-evrópskum, asískum, afrískum eða suður-amerísk- um uppruna strítt vegna trúarbragða Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is Kárahnjúkavirkjun | Komið hefur í ljós að enginn þjálfaður mannskapur til slökkvistarfa er á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka. Í gær hittust aðilar frá Brunavörnum á Héraði, VIJV framkvæmda- og öryggiseftirliti, Vinnueftirliti ríkisins og sýslu- mannsembættinu á Seyðisfirði á virkjunarsvæðinu til að fara yfir öll öryggismál á virkjunarsvæðinu í heild og m.a. stöðu brunavarna. Í það minnsta tuttugu starfsmenn Impregilo voru árið 2004 þjálfaðir af Brunamálastofnun og Brunavörnum á Héraði til að sinna brunavörnum og hafa þeir hætt störfum síðan, án þess að aðrir væru þjálfaðir í stað- inn. Á þessu var vakin athygli í kjöl- far minniháttar íkviknunar í lampa í blokk nr. 19 í Laugarássþorpinu, búðum Impregilo, um helgina. „Við Kárahnjúka er fullkomnasta brunaviðvörunarkerfi landsins og það er í fullkomnu lagi og til að taka af allan vafa um það hefur kerfið ver- ið prófað ítrekað undanfarna daga,“ segir Ómar Valdimarsson, talsmað- ur Impregilo. Hann segir rétt að fáir séu eftir af þeim starfsmönnum sem upphaflega voru þjálfaðir af Bruna- vörnum á Héraði, til að sinna bruna- vörnum við Kárahnjúka. „Þó er rétt að benda á að Impregilo sendi for- svarsmönnum Brunavarna á Héraði bréf, dagsett 3. apríl, þar sem óskað var eftir því að hið minnsta 6 starfs- menn yrðu þjálfaðir til þess að sinna brunavörnum á svæðinu. Enn sem komið er hefur bréfinu ekki verið svarað.“ Vakin hefur verið athygli á að slökkvibifreið sem vera á til taks á virkjunarsvæðinu hefur staðið á verkstæði hjá Impregilo síðustu daga og segir Ómar vera beðið eftir varahlutum í hana og sé von á þeim innan örfárra daga. „Mikilvægt er að fram komi að öflug brunakerfi eru á öllum íverustöðum starfsmanna sem og á vinnusvæðum og það gerir starfsmönnum og öryggiseftirliti kleift að bregðast skjótt og örugg- lega við, ef hætta steðjar að,“ segir Ómar. Áhersla hefur verið lögð á brunavarnir í borgöngum Baldur Pálsson slökkviliðsstjóri Brunavarna á Héraði segir undan- farið hafa verið lagða megináherslu á að brunavarnir í borgöngum Kára- hnjúkavirkjunar væru með öflugasta móti. „Brunavarnir veita öllum verk- tökum á svæðinu sem þurfa á því að halda ráðgjöf og þjálfun í upphafi,“ segir Baldur. „Við komum upp þekkingunni hjá og þeim ber svo að viðhalda henni. Ég kallaði liðið út sl. haust og hafði þá með mér starfsmenn Brunamála- stofnunar til að rannsaka viðbrögð og vinnubrögð slökkviliðsins á Kára- hnjúkasvæðinu og þá voru þau óað- finnanleg. En það eru svo ör manna- skipti hjá Impregilo að mennirnir sem þjálfaðir voru eru einfaldlega hættir og vegna þess að við höfum einbeitt okkur mjög að öryggismál- um í göngum hefur athyglin hvarflað nokkuð frá Kárahnjúkasvæðinu sjálfu. Við hófum á síðasta hausti mjög ákveðnar aðgerðir í öryggis- málum varðandi eldvarnir og innra eftirlit í göngum, þar sem þau eru orðin allt að 12 km löng og þar má ekkert gerast til að mjög illa geti far- ið. Það var fyrir um hálfum mánuði sem ljóst varð að ekkert starfhæft slökkvilið væri hjá Impregilo við Kárahnjúka.“ Brunavarnir í göngum Kárahnjúkavirkjunar hafa verið þrautskipulagðar en ekkert slökkvilið er í aðalbúðunum Slökkviliðsmennirnir allir hættir störfum Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Í ólestri Eldsvoði sem varð um helgina leiddi í ljós að ekki stendur steinn yfir steini í brunavörnum á virkjanasvæðinu við Kárahnjúka.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.