Morgunblaðið - 26.04.2006, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. APRÍL 2006 29
MINNINGAR
Og enn kvaddur hollvinur, sér-
stakur maður.
Fæddur fjallamaður úr norður-
sveitum Ítalíu; gæddur eðliskostum
vensluðum þeim sem hérlendis hafa
verið eignaðir fjallamönnum, þeim
sem í brjósti bera heilindi, hugans
stórleik, frelsisást og víðsýni. Ís-
land-Ítalía; þaðan kom hingað stór-
söngvarinn víðfrægi; heimspeking-
ur, skáldanda glæddur, hugprýði
gæddur og örlæti; Sigurður Demetz
sem svo tók að nefnast þegar hann
eðlilega gerðist íslenzkur, beina leið
kominn frá ítölsku hjartalandslagi.
Aðrir kunna að rekja feril þessa
látlausa afburðamanns, ljúflings sem
eftir frægðir í óperuhúsum evrópsk-
um vatt sér hingað til okkar og tók
sér bólstað í íslenzkum hjörtum.
Kvæntur íslenzkri konu, ástríkum
böndum, Eyju Þórðardóttur.
Ég vík aðeins að vináttu okkar, að
söknuði að honum flognum af jarð-
vist, móður orðinn um síðir en
óbeygður til vistaskipta. Æ var glatt
í leikum með honum, hver fundur á
strætum, á gatnahornum miðborgar,
í ýmsum sölum og stofum, hvar sem
gafst undum við saman orðglöðum
spuna upp í átt í hnattasundin.
Löngum á máli Dante Verdi og
Vivaldi – tveir saman. Hann var
flugfær í tali og gestrisinn, tendraði
fjör, og litglæringar sýndust svifra í
lofti og innra; hollur og hreinlátur,
og fimur lund að lyfta með sér. Hann
var heiðursfélaginn okkar í Dante-
félaginu og stolt okkar hugsjóna-
samtaka; manna glaðastur á hverri
samkomu sem náði – í söng og öllu
fasi.
Æ reis vinur okkar aftur með
hléum þó þyngdist heilsa, og hærra
sem að þrengdi meir, og oft kominn
fast að hinztu mörkunum – reis af
andlegum krafti og ást á lífi, til að
flögra; þótt seinast væri farskjóti
hans hjólastóll. En sem í tíbrá veif-
aði úr söðli þeim vængjum gagnsæj-
um með glit í fönum, og með brosinu
djúprætta, líkt og í angangufum
reykelsis yrði.
Mannvinur, ræktunarmaður sí-
gjöfull; lærimeistari sem gerði ýtr-
ustu kröfur sjálfur: örlagavaldur;
vinur.
Heilsan blakti á skari – en andinn
þökti og blés í slitrunum í glæður,
svo glóði enn. Og bjarmaði sál hans
mild í hverri upprisu; endurreisn, –
risorgimento.
Addio fratello, maestro.
Hverfur á flugi, skyggni ofar.
Thor Vilhjálmsson.
Fallinn er frá Sigurður Demetz
söngvari, söngkennari, vinur og vel-
unnari sem á langri ævi hefur mark-
að djúp spor í söngmennt íslensku
þjóðarinnar. Þegar hann steig sín
fyrstu spor á íslenska grund 26. júlí
1955 hafði hann þegar náð langt á
söngsviðinu. En stundum er eins og
forlögin stjórni því sem koma skal í
lífi sérhvers manns. Sigurður settist
að á Íslandi og hóf að kenna söng og
miðla af sinni miklu þekkingu og
reynslu. Það eru ófáir söngvarar og
söngnemendur sem hafa notið hæfi-
leika hans og krafta sem kennara og
leiðbeinanda á söngbrautinni en
hann miðlaði ávallt af einlægum
SIGURÐUR
VINCENZO DEMETZ
FRANZSON
✝ Sigurður Vinc-enzo Demetz
Franzson, tenór-
söngvari og söng-
kennari, fæddist í
bænum St. Úlrik í
Suður-Tíról 11.
október 1912. Hann
andaðist á hjúkrun-
arheimilinu Sóltúni
í Reykjavík 7. apríl
síðastliðinn og var
útför hans gerð frá
Kristskirkju í
Reykjavík 21. apríl.
Hann verður jarð-
settur á Stóra-Núpi í Gnúpverja-
hreppi í dag.
áhuga og ljúfmennsku
og lagði sig fram um
að ná því besta fram
úr hverjum og einum.
Demmi eins og
hann var oft nefndur
var mikill náttúruunn-
andi og bar næmt
skynbragð á hið fagra
í umhverfi sínu. Hann
naut þess að ferðast
um landið og upplifa
fegurð þess og deila
því með samferðafólki
sínu. Rætur sínar átti
hann í Dólómítafjöll-
unum í Suður-Týrol þar sem há fjöll
og stórfengleg náttúra umlykja bæ-
inn St. Úlrik þar sem hann fæddist
og sleit barnsskónum.
Það er ómetanlegt fyrir íslenskt
sönglíf að hafa í fimmtíu ár fengið að
njóta krafta hans. Hann þreyttist
ekki á að hvetja og fylgjast með ung-
um söngvurum og styðja áfram til
allra góðra verka, þar var enginn
undan skilinn. Sigurður var gerður
að heiðursfélaga í Félagi íslenskra
söngkennara. Við minnumst hans
með virðingu og þökk.
F.h. Félags íslenskra söngkenn-
ara
Signý Sæmundsdóttir.
Um Sigurð Demetz er mér vandi
að tala, þann mann sem gerði næst-
um úr mér söngvara, svo nálægt mér
finnst mér hann standa. Ég hef
þekkt hann hálfa ævi mína og í hand-
raða á ég tuttugu og eina 90 mínútna
kassettuspólu með samtölum okkar
frá þeim árum sem við settum sam-
an ævisögu hans Á valdi örlaganna,
sannkallaða örlagasögu. Það var
ekkert áhlaupaverk, en skemmtilegt
og ögrandi. Demmi sletti á þýsku og
ítölsku, óð úr einu í annað, man sumt
eins og gerst hefði í gær, annað mið-
ur og þá yfirleitt erfiðu skeið ævi
sinnar, fannst að satt mætti oft kyrrt
liggja en vildi þó að bókin gæfi sanna
mynd af persónu sinni. Oft var líka
slökkt á hljóðupptökunni til að borða
spagettí.
Demmi kvaddi þetta tilverusvið í
hárri elli en ungur í anda. Hann naut
þess að vera til, gerði gott úr öllum
aðstæðum, sá fegurðina í veröldinni,
dvaldi sem minnst við hið liðna og
sagði að vatn sem runnið væri til
sjávar knýði ekki mylluhjólið. Hann
var í flestu gott fordæmi. En enga
litmynd skortir skugga. Demmi var
vinur vina sinna en kröfuharður og
skapheitur á suðræna vísu. Þrátt
fyrir það hafði hann í kringum sig
fleiri og mér liggur við að segja nán-
ari vini en margur sem alið hefur all-
an sinn aldur á þessu landi en ekki,
eins og hann, rekið hingað, annar-
legt sprek, á miðju æviskeiði. Slíkir
voru persónutöfrar hans, fórnfýsi,
hlýja og þakklæti.
Ég er heppinn að hafa fengið að
kynnast slíkum manni.
Söngkennsla var hans köllun og
hana rækti hann með slíkum sóma
að bæði íslenska og ítalska ríkið
sæmdu hann heiðursorðu. Það fór
vel á því. Demmi var alþjóðamaður
frá Suður-Tíról með íslenskt ríkis-
fang. Hann taldi það skyldu sína að
færa nýrri kynslóð þekkinguna sem
hann hafði aflað sér og lært af sér
eldri mönnum. Honum var hugleikið
hvernig tilviljanir leystu hver aðra af
hólmi í óendanlegri röð sem enginn
skilur en getur öllu breytt um fram-
tíðina – eins og óslitinn þráður sem
tengir nútíð við fortíð.
Sigurður Demetz var stoltur yfir
hlutdeild sinni í að efla íslenskt tón-
listarlíf, þótt hann gerði minna úr
sínum þætti en efni stóðu til. Hann
unni landinu sem hann þekkti betur
en flestir innbornir Íslendingar. Hér
hafði hann fest rætur og kaus að
eiga hinstu hvílu í sama landi og eig-
inkona hans, Þórey Þórðardóttir,
sem hvarf af þessum heimi árið
1992. Hann valdi sér legstað á Stóra-
Núpi í Gnúpverjahreppi, þar sem
náttúran kallast á við hinar ægifögru
æskuslóðir hans í Suður-Tíról.
Guð blessi minningu hans.
Þór Jónsson.
Einn sumarmorgun í Laufási við
Eyjafjörð var prestafjölskyldan vak-
in upp við fagran söng sem var held-
ur þróttmeiri en ljúfi fuglasöngurinn
sem við áttum að venjast. Faðir
minn leit út og þar stóð Sigurður
Demetz með skólakór MA og stríðn-
isglampa í augum. Hópur ungmenna
bauð honum góðan daginn og síðan
var haldið áfram að syngja af öllum
lífs og sálar kröftum. Löngu seinna
var komið að mér að syngja fyrir
Demetz á áheyrnarprófi því mig
langaði til þess að komast að sem
nemandi hans. Þetta var á þeim tíma
er hann var hættur í Nýja tónlistar-
skólanum og tók aðeins nemendur í
einkatíma. Ég var auðvitað mjög
taugaóstyrk að syngja fyrir sjálfan
Sigurð Demetz, svo mikið sem ég
hafði heyrt um hann. En um leið og
ég kom inn úr dyrunum heyrði ég
unga rödd taka á móti mér: „Er
þetta Gerður?“ Ég hugsaði: „Þetta
getur ekki verið Sigurður Demetz,
hann er kominn á áttræðisaldur, ég
hlýt að hafa farið húsavillt?“ Ó jú, á
móti mér kom einn sá glaðlegasti og
yndislegasti maður sem ég hef hitt
um ævina. Hann var svo skemmti-
lega spenntur að heyra mig syngja
að stressið hvarf eins og dögg fyrir
sólu. Það var ekki hægt að syngja án
túlkunar fyrir þennan mann og þar
sem ég skellti mér upp á hæstu tón-
ana sá ég litlu kviku augun hans
stækka um helming. Ég söng Vissi
d́Arte, Vissi d’Amore úr óperunni
Tosca eftir Puccini. „Guð af hverju
yfirgefur þú mig,“ syngur Tosca í
lokin, öllu meiri dramatík er varla
hægt að hugsa sér. Demetz horfir á
mig dágóða stund, og ég bíð eftir við-
brögðum. „Það er eins gott að þú ert
góð, ég var búinn að lofa sjálfum
mér að bæta ekki við fleiri nemend-
um.“
Sigurður kenndi mér að túlka og
syngja frá innstu hjartarótum, bera
virðingu fyrir textanum og það sem
er mikilvægast að njóta þess að
syngja. Hann sagði einnig að ef hann
fengi ekki tár í augun þegar ég flytti
fyrir hann aríu þá væri hún ekki
nægilega vel túlkuð. Demetz bar
einnig ómælda virðingu fyrir ís-
lenskum sönglögum og hafði sterka
tilfinningu fyrir túlkun þeirra. Hann
þekkti líka landið betur en margur
Íslendingurinn því hann hafði unnið
sem leiðsögumaður til margra ára.
Hann er ógleymanlegur lærimeist-
ari og í hvert sinn sem ég syng verð-
ur mér hugsað til hans.
Ég hitti Demetz síðast á Landa-
koti, ég var að heimsækja veikan
föður minn. Ég geng inn í anddyrið
og sé teinréttan mann styðja sig við
göngugrind.
Þegar hann sá mig færðist bros
yfir andlitið. Hann tók um andlit
mér. „Má ég sjá þig,“ segir hann,
horfir dágóða stund og bætir við:
„Þú breytist ekkert, bara klipping-
in.“ Rödd hans var enn þýð sem í
ungum manni og hann vildi fá vita
hvernig mér gengi. Þetta var í síð-
asta skiptið sem ég hitti Demetz,
mér datt það ekki í hug, mér fannst
hann aldrei vera á förum, en hann
var að kveðja mig.
Demetz var innilegur trúmaður og
langar mig til að kveðja hann með
lokaerindinu úr Niðurstigsvísum
Jóns biskups Arasonar um Maríu
hina heilögu guðsmóður:
Oss á efsta dómi
öllum hjálpa þú, Drottinn minn.
María, meyjanna blómi,
megum vér komast í flokkinn þinn,
svo öndin nái þeim öllum krapti að halda,
sem glósað finnst um gleðinnar skírð.
Og guðdóms dýrð
sé lofuð um aldir alda!
Gerður Bolladóttir.
Kveðja frá 24 MA-félögum
Sigurður V.M. Demetz flutti með
konu sinni, Þóreyju Þórðardóttur, til
Akureyrar á sjöunda áratugnum.
Fljótt varð hann leiðandi í tónlistar-
lífi bæjarins, m.a. með stofnun
kvennakórsins Gígjunnar og stjórn
Karlakórsins Geysis og Lúðrasveit-
ar Akureyrar. Hann var driffjöður í
því að stofnaður var kór við Mennta-
skólann á Akureyri haustið ’67. Þá
var fátítt að framhaldsskólar héldu
uppi stöðugu kórstarfi og vakti þetta
nokkra athygli.
Demetz, þessum útlendingi sem
okkur fannst hann þá, með skrítnu
íslenskuna sína, fylgdi ferskur blær,
bæði í meðferð tónlistar en ekki síð-
ur í félagslegu tilliti. Hann var bæði
félagi okkar og stjórnandi, í hvoru
tveggja óendanlega skemmtilegur.
Stundum hentist á munum hver var
yngstur í anda, við eða hann. Sá
ferski blær sem einkenndi kórstarfið
opnaði mörgum okkar dyr að söngn-
um til frambúðar. Hinn ungi kór
naut í hvívetna kjarks og hugmynda-
auðgi stjórnanda síns, auk frábærr-
ar kunnáttu hans og reynslu á sviði
sönglistar. Sá er vandfundinn sem
betur var lagið en Demetz að tendra
og viðhalda sönggleði manna og fá
þannig beint samband við salinn. Á
slíkum stundum gefa báðir af sínu –
þá er gaman. Þetta kunni Demetz, af
því að í eðli sínu var hann stjarna og
auk þess heimsmaður sem kunni að
höndla augnablikið.
Starfið í 24 MA-félögum var frá-
brugðið því sem við áttum að venjast
í kórsöng. Þar kvað við nýjan tón
sem við unga fólkið kunnum vel að
meta. Efnisskráin var alltaf nýstár-
leg og gjarnan á léttum nótum. Þar
má nefna lög og lagasyrpur sem Jan
Moravek setti sérstaklega út fyrir
kórinn. Það var Demetz sem gaf tón-
inn og hann kenndi okkur hve mik-
ilvægt er að gefa hjarta sitt í við-
fangsefnið. Hann kveikti með okkur
neista sem gerði okkur að sönnum
unnendum tónlistar og mörg okkar
hafa ekki hætt að syngja. Hvatning
hans og óbifanleg tiltrú voru okkur
mikils virði og styrktu sjálfsmynd
okkar á þessum mótunarárum. Eins
áttum við drjúgan stuðningsmann í
Eyju. Hún var alltaf með þegar eitt-
hvað var um að vera, hlúði að okkur
og hvatti og talaði við okkur eins og
fullorðið fólk. Alltaf stóð heimili
þeirra hjóna okkur opið, hvort sem
var í dýrlegum matar- og kaffi-
veislum við hátíðleg tækifæri eða til
skrafs og ráðagerða um kórstarfið.
Kórinn var líf okkar og yndi og við
lögðum hart að okkur fyrir vel-
gengni hans og framgang. Fyrsta
starfsárið rákum við hann sjálf. Til
að afla tekna hófum við samstarf við
hljómsveit Ingimars Eydal og kom-
um fram á skemmtikvöldum í Sjall-
anum þar sem kórinn hélt söng-
skemmtun og síðan lék hljómsveitin
fyrir dansi. Þetta varð vinsælt og
stundum skemmtum við tvö kvöld
sömu helgi. Í lok fyrsta starfsvetrar
var farið til Reykjavíkur og tekinn
upp sjónvarpsþáttur. Það þótti okk-
ur mikið ævintýri en þeir áttu eftir
að verða fleiri. Ekki má gleyma
vikulöngu söngferðalagi sem kórinn
fór um Færeyjar vorið ’70 og verður
þátttakendum ógleymanlegt. Á þeim
tíma fóru íslenskir kórar ekki oft til
útlanda og þótti ýmsum í stórt ráð-
ist. Þau hjónin, Demetz og Eyja,
voru í senn fararstjórar, félagar og
forsjármenn okkar og allt gekk eins
og í sögu.
Á 8. áratugnum fór kórinn í
nokkrar söngferðir um Norðurland
með hjómsveit sem þá starfaði í MA.
Auk þess tókum við þátt í uppsetn-
ingu á revíu í Sjallanum í samstarfi
við hljómsveit Ingimars Eydal og
Einar frá Hermundarfelli. Sjón-
varpsþáttur var einnig gerður um
kórinn á þessum árum.
Allt sem hér hefur verið talið
mátti á þessum tíma telja til ný-
breytni í menningarlífi á Akureyri
og sumt á landsvísu, og allt að áeggj-
an og undirlagi söngstjórans.
Á tveimur síðustu stórafmælum
Demetz höfum við safnað saman dá-
góðum hópi 24 MA-félaga og tekið
fyrir hann lagið. Það má telja nokkra
fífldirfsku eftir tveggja til þriggja
áratuga aðskilnað og skort á sam-
æfingu; sérstaklega að troða upp
meðal þaulæfðra listamanna. Í huga
okkar snerist þetta hins vegar um að
leyfa hjartanu að ráða för og votta
okkar aldna maestro og félaga virð-
ingu með því að koma saman undir
merkjum hans og gleðinnar og láta
„eins og gerst hafi í gær“. Þannig
bjó hann okkur að heiman og það
verður ekki frá okkur tekið.
Við látum það eftir okkur að sakna
Sigurðar Demetz þótt ekki sé endi-
lega harmsefni að maður á tíræð-
isaldri sem lokið hefur miklu dags-
verki hverfi til upphafs síns. Við
söknum listamannsins og vinarins,
grallarans og leikarans sem hafði
einstakt lag á að láta okkur hlæja
með uppátækjum sínum, óborgan-
lega fyndnum athugasemdum um líf-
ið og tilveruna og þessum einstaka
hæfileika að sjá jafnan jákvæðar og
gamansamar hliðar á öllu sem á
dundi. Minnisvarði hans verða þær
mörgu gleðistundir sem við fengum
að njóta við kné hans. Það eru mikil
forréttindi að hafa upplifað samvist-
ir við slíkan snilling og efst í huga
okkar er þakklæti og virðing. Mun-
um, að útlendingurinn sem okkur
fannst hann vera forðum daga hefur
markað stærra spor í íslenska menn-
ingarsögu en margir aðrir og hjarta
hans sló heitar af ást til íslenskrar
þjóðar og náttúru en margra okkar
sem borin erum hér og barnfædd.
Við vottum fjölskyldu hans og vin-
um dýpstu samúð.
24 MA-félagar.
Eiginkona mín, móðir og amma,
ELÍSABET MARÍA KVARAN,
verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík
föstudaginn 28. apríl kl. 15.00.
Þorvaldur Garðar Kristjánsson,
Elísabet Ingibjörg Þorvaldsdóttir,
Þorvaldur Garðar Kvaran.
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minningar-
grein á útfarardegi verður hún að
berast fyrir hádegi tveimur virk-
um dögum fyrr (á föstudegi ef út-
för er á mánudegi eða þriðjudegi).
Ef útför hefur farið fram eða grein
berst ekki innan hins tiltekna
skilafrests er ekki unnt að lofa
ákveðnum birtingardegi. Þar sem
pláss er takmarkað getur birting
dregist, enda þótt grein berist áð-
ur en skilafrestur rennur út.
Lengd Minningargreinar séu ekki
lengri en 2.000 slög (stafir með bil-
um - mælt í Tools/Word Count). Ekki
er unnt að senda lengri grein. Hægt
er að senda örstutta kveðju, HINSTU
KVEÐJU, 5-15 línur, og votta þeim
sem kvaddur er virðingu sína án þess
að það sé gert með langri grein. Ekki
er unnt að tengja viðhengi við síð-
una.
Formáli Minningargreinum fylgir for-
máli, sem nánustu aðstandendur
senda inn. Þar koma fram upplýsing-
ar um hvar og hvenær sá, sem fjallað
er um, fæddist, hvar og hvenær hann
lést, um foreldra hans, systkini, maka
og börn og loks hvaðan útförin fer
fram og klukkan hvað athöfnin hefst.
Ætlast er til að þetta komi aðeins
fram í formálanum, sem er feitletr-
aður, en ekki í minningargreinunum.
Minningargreinar