Morgunblaðið - 28.05.2006, Side 12

Morgunblaðið - 28.05.2006, Side 12
12 SUNNUDAGUR 28. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ Inga Hildur Þórðardóttir skoðar mannlífiðút um bílrúðuna, ýmist á strætisvagnieða leigubíl. Heima hjá sér horfir hún áSnæfellsjökul út um stofugluggann ogÚlfarsfell út um eldhúsgluggann. En hvort sem hún er í vinnunni eða heima á Bakka- stöðum í Grafarvogi er hugurinn upp til fjalla. Yndislegast þykir henni á Snæfellsnesi og í Þórsmörk. – Ég reyni að komast þangað á hverju ári, segir hún. Bróðir minn er með bústað við Arn- arstapa og ég fer þangað með krakkana á að- ventunni, skreyti piparkökur, skrifa jólakort og hef það huggulegt. Börnin sem hjálpa til við að skreyta piparkök- urnar eru Ívar Örn 12 ára og Karen Björk 13 ára og eru þau nýflutt til föður síns og sambýlis- konu hans. – Ég hef búið ein með þau frá því árið 1996, en þá sleit ég samvistum við barnsföður minn. Síð- asta vetur fluttu börnin til pabba síns. Þau lang- aði til að kynnast honum betur, enda hafa þau alltaf haldið mikið upp á hann og fyrir stráknum var hann guð! Þetta var ekki auðveld ákvörðun, en auðvitað verða þau að ráða því hvar þau búa. Og við eigum alltaf aðra hverja helgi saman, jólafrí, páskafrí og sumrin. Og svo kría þau út aukadag hér og þar. Inga Hildur segir að börnin séu alltaf velkom- in til sín aftur. En þangað til nýtur hún lífsins og aukins svigrúms. – Ég fer í fjórar utanlandsferðir á þessu ári! Ég lét gamlan draum verða að veruleika og fór í skíðaferð í febrúar. Í sumar fer ég með börnin til Tyrklands í sólarlandaferð. Svo fer ég með starfsmönnum Strætó í sex daga ferð í ágúst til Svíþjóðar, Eistlands og Helsinki. Og loks í sólar- landaferð með kærastanum í haust þar sem við slökum á tvö saman. Sambandið hefur ekki stað- ið nema í fjóra mánuði, þannig að það er líklega ótímabært að tala mikið um það, segir hún og hlær. Okkur liggur ekkert á og við tökum hvern dag í einu. Það eru engin læti, – við erum ekki sextán ára lengur! Það er því allt á ferð og flugi hjá Ingu Hildi þessa dagana. – Ég hef lengi verið bundin heimilinu sem ein- stæð móðir og ekki ferðast mikið, en nú geri ég allt sem mér dettur í hug. Mér finnst rétt að nota tímann, því börnin geta alveg tekið upp á því að koma aftur í haust. Þá verð ég auðvitað til staðar fyrir þau, þau eiga enn sín herbergi og vinirnir búa í hverfinu. En það verður bara að koma í ljós. – Svona er mynstur nútímasamfélagsins. – Í sjálfu sér er ekkert slæmt að þau taki upp á þessu svona ung. Flestöll börn sem hafa lítið verið hjá öðru foreldrinu vilja kynnast því betur. Og þá er betra að þau geri það ung en að þau séu að standa í því á unglingsárunum, þegar þau þurfa að takast á við svo margt annað. Vonandi verða þau búin að átta sig þegar þar að kemur. Inga Hildur er fædd árið 1963 og uppalin við Langholtsveg í Reykjavík. Hún hefur helst fengist við almenn verslunar-, sölu- og markaðs- störf eða þangað til hún tók meiraprófið og fór að keyra strætó og leigubíl. – Ég hafði lengi hugsað mér að fara í leið- sögumannaskólann og mér fannst rétt að byrja á meiraprófinu. Ég réð mig til Strætó til þess að fá þjálfun á stóru vögnunum og byrjaði líka að keyra leigubíl, enda breyttust aðstæðurnar þeg- ar börnin fluttust til föður síns. Ég var ekki eins bundin heima. – Hvað heillar þig við leiðsögumannsstarfið? – Ferðalög hafa alltaf heillað mig. Þá er mér sama hvort ég er labbandi, gangandi, á vélsleða eða keyrandi. Ég væri þess vegna til í að fara utan í línuskautaferð. Ég hef ferðast um landið á sumrin frá því ég var um tvítugt, oft velt leið- sögunáminu fyrir mér og er að spá í að drífa mig í haust. Foreldrar Ingu Hildar eru Ragnhildur Sig- urðardóttir, sem lést árið 1993, og Þórður Vil- hjálmsson, verkamaður í Reykjavík, sem vann hjá Eimskipafélaginu í 40 ár og í íhlaupavinnu sem iðnaðarmaður allt til dagsins í dag. – Hann er eiturhress, segir Inga Hildur. Við gáfum honum ferð á Arsenal-leik í 85 ára af- mælisgjöf og hann fer í haust. Hann fór á sjúkrahús í fyrsta skipti á ævinni um daginn. Þá var það eitthvað smávægilegt tengt blöðruháls- kirtlinum. Annars hefur hann aldrei kennt sér meins. – Þannig að hann heldur með Arsenal? – Greinilega. Og Manchester United. En ég held hann sé spenntari fyrir Arsenal. Annars fylgist ég ekkert með þessu. Ég veit bara að stundum er ekki hægt að bjóða honum í mat út af fótboltaleikjum. Ég botna ekkert í þessu. En þetta hefur víst alltaf verið svona. Inga Hildur er næstyngst fimm systkina. – Yngri bróðir minn lést í bílslysi á Jótlandi í október í fyrra. Hann hefði orðið fertugur núna í desember. Þetta var um miðja nótt, hálkublettir á veginum, hann ók út af og rakst á tré, sem varð til þess að bíllinn valt og það kviknaði í. Þetta var mikið áfall. Ég hringdi í trúnaðar- lækni Strætó til þess að tilkynna forföll og hann sagðist hafa misst vin sinn á sömu slóðum á svip- aðan hátt, þannig að þetta virðist ekki vera óal- gengt. En sorgin var mikil. Bróðir minn lét eftir sig þrjú börn sem eru á svipuðum aldri og mín. Þau eru einmitt að koma hingað á eftir og ætla að gista í nótt. Eldri systir Ingu Hildar er Þórdís sem er í doktorsnámi og lektor í menntunar- og uppeld- isfræðum við Kennaraháskólann. Ægir bróðir þeirra er verkstjóri í saltfiskverkun á Rifi og býr á Hellissandi. Loks býr Kristín Guðný á Skála- túni og er þroskaheft. – Hún veiktist þegar hún var lítil, fékk heila- himnubólgu og háan hita, og varð þroskaheft upp úr því. Frænka mín, sem er jafngömul mér, fékk einnig sjúkdóminn sem ungbarn. Það varð til happs að mamma kom í heimsókn og kann- aðist við einkennin, þannig að farið var með hana strax til læknis. Ég hef alltaf verið hrædd við þetta og var tíður gestur hjá barnalæknum. „Ungabörn fá hita,“ sögðu þeir undrandi á við- brögðum mínum. En um leið og ég hafði rakið forsöguna sýndu þeir því skilning. – Ertu í miklu sambandi við Kristínu? – Já, hún hringir á öllum afmælum og heimtar köku, segir Inga Hildur með ljúfu brosi. Ég fór með hana í skemmtilega heimsókn til Þórdísar systur í Danmörku um páskana í fyrra. Svo för- um við saman á þorrablót og jólagleði. Eftir að mamma dó skiptumst við systkinin á að fá hana til okkar um jól, því áður hafði hún alltaf verið hjá mömmu. En hún neitaði þessum þvælingi og vildi vera heima hjá systur minni, enda eru þær elstar og aðeins ár á milli þeirra. En hún sættir sig svo sem við að koma til mín og tautar þá: „Var hún Dísa að þvælast til útlanda.“ Inga Hildur er strætisvagnabílstjóri og þar segist hún sjá alla flóru mannlífsins. Og það á ekki síður við þegar hún keyrir leigubíl. – Ég keyrði Lalla Johns í gær. En ég ók líka fólki sem var innilega hamingjusamt og talaði um að gifta sig. En svo getur fólk verið þreytt, jafnvel setið hágrátandi eftir að hafa misst ná- kominn ættingja eða skilið við makann sinn. Ég ávarpa fólk aldrei að fyrra bragði, en í flestum tilfellum vill það spjalla og þá oftast um daginn og veginn eða veðrið. Einu sinni settist James Hetfield úr Metallica í bílinn. – Ég sá stóran og mikinn mann með húðflúr bíða eftir bílnum og var mikið að velta því fyrir mér hvort hann væri hættulegur. Ég þekkti hann ekki og það var ljóst að það gerði enginn á Laugaveginum. Drukkinn farþegi var að greiða bílinn og vandræðast með kortið og ég gaf Het- field bendingu um að bíða. Þá sá ég að hann virt- ist ekki vera drukkinn. Ég hleypti honum því inn, horfði á hann í baksýnisspeglinum og yrti auðvitað ekki á hann. En þegar við ókum framhjá Hallgrímskirkju sagði hann: „Nice“. Og þá fór ég að blaðra við hann um styttuna af Leifi og Perluna og fleira. Það var ekki fyrr en við kvöddumst að hann sagðist vera að spila á tón- leikum daginn eftir og þá kveikti ég á perunni. Sonur minn vissi ekki hvert hann ætlaði þegar hann heyrði af þessu. Og þegar ég ók fólki á tón- leikana sagði ég hver hefði setið í aftursætinu um nóttina. Þá fannst því þetta besti leigubíll sem það hefði á ævi sinni komið í! Ferðalög hafa alltaf heillað VIÐMANNINNMÆLT Pétur Blöndal ræðir við Ingu Hildi Þórðardóttur Morgunblaðið/ÞÖK INGA HILDUR ÞÓRÐARDÓTTIR BÍLSTJÓRI „Ég ók líka fólki sem var innilega hamingjusamt og talaði um að gifta sig.“ ’Ég og mínir félagar höfðumalltaf sterkar grunsemdir um það að símahleranir ættu sér stað.‘Kjartan Ólafsson , fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, brást við niðurstöðum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um að íslensk stjórnvöld hefðu í nokkrum til- vikum látið hlera síma alþingismanna og fleiri, þar á meðal á ritstjórnarskrif- stofum Þjóðviljans, á dögum kalda stríðsins. ’Ég er ekkert góður í skóla.‘Jónas Örn Helgason , sigurvegari í úrslit- um spurningaþáttarins Meistarans. ’Allar hótanir reyndust orðintóm þegar Bandaríkjamenn tóku af skarið.‘Valur Ingimundarson sagnfræðingur set- ur í grein í Skírni fram þá tilgátu að Bandaríkjamenn hafi ekki lengur talið sig skuldbundna Íslendingum eftir að Davíð Oddsson hvarf úr stjórnmálum og því kall- að orrustuþoturnar og herlið sitt heim. Valur bendir á að fyrstu viðbrögð stjórn- valda við þessari ákvörðun hafi ekki verið í neinu samræmi við þann tón, sem Davíð hafi slegið í diplómatískum samskiptum um málið. ’Miðað við skrá, sem ég hef yfirveðurmælingar undanfarin 60 ár, hafa bæði verið slegin hita- og kuldamet í mánuðinum og þetta er svona frekar óvenju- legt.‘Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði að í liðinni viku hefðu komið einhverjir köldustu dagar, sem vitað væri um eftir 20. maí. Á Akureyri snjóaði mikið og þurfti að skafa af bílum. ’Fyrir okkur kennarana varþetta mjög erfið lífsreynsla, með öll þessi börn sem maður á ekki sjálfur.‘Sigríður Viðarsdóttir , kennari við Selja- landsskóla undir Vestur-Eyjafjöllum, eftir að hættulegt brot kom á skemmti- bátinn Víking, sem var á siglingu með ell- efu börn úr skólanum við Heimaey. ’Þess vegna er það svo, séhorft á málið pólitískt, að það er ekki sanngjarnt að hún skuli þiggja ráðuneyti fjölskyldu- mála – hún veit ekkert um fjöl- skyldur.‘ Maurizio Saia , stjórnarandstöðu- þingmaður á Ítalíu, fann að því að Rosy Bindi, sem er lesbía, hefði verið gerð að ráðherra fjölskyldumála. Saia hefur verið gagnrýndur harkalega fyrir ummæli sín. ’Svona slys gerast í hernaðar-átökum, einkum þegar talibanar fela sig á heimilum fólks.‘Asadullah Khalid , héraðsstjóri í Kandah- ar í Afganistan, eftir að fram kom að 17 saklausir borgarar hefðu verið meðal 60 manna, sem voru felldir í loftárásum í upp- hafi liðinnar viku. ’Fyrir þá sem ekki fíla geitung-ana eru horfur góðar.‘Erling Ólafsson , skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sagði að geitungar myndu ekki kætast yfir kuldakastinu í lið- inni viku. ’Ég hef aldrei í skóla komið.‘Guðríður Guðbrandsdóttir frá Spágils- stöðum í Laxárdal fagnaði 100 ára afmæli sínu á þriðjudag. Ummæli vikunnar Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.